Árni og Kristín

Reiðistjórnun 101 – sjöundi Passíusálmur

Eru ekki viðbrögð Símonar Péturs þegar hann bregður sverði til varnar meistara sínum, eðlileg og afar skiljanleg? Reyndar ræðst hann á garðinn þar sem hann er lægstur með þeim árangri einum að þjónn æðsta prestsins, sem Jóhannesarguðspjall kallar Malkus, missir annað eyrað. Og Jesús kunni ekki að meta þetta ofbeldisverk og segir honum að slíðra sverðið.

Hallgrími verður þetta að yrkisefni um að það sé aldrei manneskjunnar að kveða upp dóm yfir öðrum, heldur sé það Guðs eins að dæma og beita sverði. Burt séð frá því hvaða réttlætingar við tínum til, þá er hefndin aldrei okkar.

Jesús gengur lengra en að afneita ofbeldinu, því hann notaði tækifærið og græddi sár Malkusar. Þar er hann hin fullkomna fyrirmynd manngæskunnar sem lætur ekki reiði og hefndarþorsta stjórna gerðum heldur vinnur friðarins verk sama hvað aðstæður eru erfiðar. Þetta undirstrikar Hallgrímur svo vel þegar hann tekur til sín þörfina á því að “læknast” svo orð Guðs nái til hans.

Heift mína og hefndar næmi
hefur þú, Jesú, bætt;
mér gafst manngæsku dæmi,
þá Malkum fékkstu grætt.
Eg þarf og einninn við
eyrað mitt læknað yrði,
svo orð þitt heyri og virði.
Þýðlega þess ég bið.
(Sálmur 7, vers 17.)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may also enjoy…