Árni og Kristín

Ósíuð aðventa 2: Plógjárn úr sverðum

Fyrir framan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York er stór og mikil stytta af nöktum vöðvastæltum karlmanni. Hann mundar sleggju, lætur höggin dynja á sverði úr járni og er greinilega að móta það í eitthvað annað.

Þetta er styttan Breytum sverðum í plóga eftir sovéska myndhöggvarann Yevgeny Viktorovich Vuchetich (1908-1974). Vísunin er beint í texta úr Biblíunni, í bók Jesaja spámanns (2.4) þar sem segir:

Og hann mun dæma meðal lýðanna
og skera úr málum margra þjóða.
Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum
og sniðla úr spjótum sínum.
Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð
og ekki skulu þær temja sér hernað framar.

Þessi texti er alltaf lesinn á aðventunni og stendur fyrir hugsjónina um róttækan frið þar sem vopnum og stríðsrekstri er snúið til þess sem gagnast farsælum samfélögum, ræktun landsins og matarframleiðslu. Jesaja textinn undirbýr okkur fyrir jólin, hátíð ljóss og friðar, með því að setja í orð vonina um heim þar sem vopnin eru kvödd, og hugvit og orka þjóðanna fari í að sjá fólkinu sínu farborða í staðinn fyrir að berjast um lönd og auðlindir með hörmulegum afleiðingum.

Það sem er áhugavert við sovésku styttuna er að þarna notar listamaður sem kemur úr yfirlýstu guðlausu umhverfi minni úr ritningu kristinna og gyðinga, til að tjá sammannlega þrá og ósk eftir því góða og göfuga. Styttan er því sterk minning um áhrif Biblíunnar í menningu og listum. Hér vísar hún kannski beint í aðgerðir sem miða að vopnaeyðingu og útrýmingu ógnarvopna 20. aldarinnar, kjarnorkuvopnanna.http://arniogkristin.is/wp-admin/post.php?post=5738&action=edit#category-add

Megi stælti, berrassaði maðurinn með sleggjuna blása okkur í brjóst vilja og hugrekki til að vinna að friði og framþróun í heiminum okkar allra á þessari aðventu.

#ósíuðaðventa

You may also enjoy…