Þegar við vorum lítil og lásum norrænu goðafræðina okkar fór mikið fyrir þrumuguðinum Þór. Sögurnar af honum eru krassandi. Eitt var þó snúið að skilja: þrumurnar sem Þór er kenndur við.
Í Genf er þessu öfugt farið. Þar þekkja fáir þrumuguðinn og sögurnar norrænu, en þrumur og eldingar þekkja allir. Þrumuveðrið er fastur hluti af sumarupplifuninni á meginlandinu. Drunur í fjarska, sjónarspil á himni og hellidemban sem vætir jörð og fólk.
Á tuttugasta og fjórða gleðidegi þökkum við fyrir náttúruna sem minnir á sig og sögurnar sem mannfólkið hefur sagt hvort öðru til að skýra og skilja.