Árni og Kristín

Ósíuð aðventa 1: Hvar er skrautið?

Við þekkjum öll klisjuna um að í fjarlægðinni áttum við okkur betur á því hvernig lífið heima við birtist. Við upplifum það svolítið hérna í Genf þar sem við höfum búið frá því í sumar. Núna, þegar aðventan gengur í garð, erum við nefnilega alveg gáttuð yfir því hvað er lítið um það sem einkennir aðventuna heima á Íslandi – nefnilega ljós í hverjum glugga og skraut á skraut ofan.

Kannski er þetta sem ætti ekki að koma neinum á óvart sem þekkir til sögu Genfar, hér var náttúrulega höfuðvígi kalvínismans (sem er kenndur við franska siðbótarfrömuðinn Kalvín sem hér starfaði um langa hríð og mótaði mjög stjórn og skipulag borgarinnar) þar sem menn voru nú ekki að missa sig í prjáli og hégóma. Þótt Genf sé með sekúleraðri borgum heims í dag, þá lifir menningar-kalvínisminn og borgin hefur almennt það orð á sér að vera hófstillt í skrauti og gleðskap.

Þessi munur liggur kannski í því hvernig við finnum þörf á að bregðast við dimmasta tíma ársins á norðurslóðum annars vegar og hins vegar í mið- Evrópu – þar sem naumast er hægt að tala um skammdegi eða vetrarveður á þessum árstíma. Hér eru trén ennþá laufguð og blómin lifa góðu lífi á svölum og í reitum. Þau sem hafa kynnst aðventunni á Norðurlöndum vita að hún er meiriháttar mál og fólk almennt gerir sér far um að marka hana á einhvern hátt í rými hins persónulega og samfélagsins, alveg burtséð frá trúarlegum tengingum og rótum.

Hvað sem því líður þá ætlum við ekki að láta okkar eftir liggja í litlu blokkaríbúðinni okkar. Við erum búin að hengja upp stóru ljósstjörnuna sem hefur farið upp öll okkar sameiginlegu jól og sendum með ljósi hennar bestu óskir um frið og sátt á þessari aðventu.

#ósíuðaðventa

You may also enjoy…