Hver einasti dagur ber með sér skyldur og verkefni sem þarf að vinna til að uppfylla kröfur sem við sjálf og aðrir gera til okkar. Orkan fer í að viðhalda sér og viðhalda þessum kröfum og tíminn í að borða, drekka, kaupa, borga, tékka á facebook, svara tölvupóstum. Í þessu daglega áreiti er auðvelt að týnast og missa sjónar af því hvað okkur langar að vera og til hvers lífið er.
Aðventan er tækifæri til að núllstilla og taka til (ekki bara í eldhússkápum og geymslum, til að búa til meira pláss fyrir það sem er keypt fyrir jólin heldur líka) í daglegum venjum og rútínum. Aðventan er tækifæri til að uppgötva NÚIÐ og hvernig það getur verið þessi litla sprunga sem hleyptir ljósinu í gegnum veggina sem við byggjum kringum okkur.
Aðventan getur hvatt okkur til að taka tíma til að staldra við og íhuga hvað í lífinu okkar og umhverfi styrkir og nærir, og hvað tætir og þreytir. Getur verið að þéttpökkuð dagskrá í vinnu, félagslífi, líkamsrækt og tómstundum, sé það sem stjórni lífi okkar en ekki það sem okkur finnst skipta mestu máli þegar allt kemur til alls? Leynist innra með okkur þrá og ósk um að verða eitthvað annað og meira en það sem dagskráin okkar skilgreinir og forgangsraðar?
Aðventan er líka tækifæri fyrir okkur sem eigum börn að tala um hvernig við forgangsröðum og notum tímann okkar. Getur verið að í dögunum okkar sem við eigum saman, leynist tækifæri til að leggja til hliðar síma, spjöld og tölvur, og njóta þess að vera bara saman?
Myndin að ofan sýnir gamalt jólaskraut sem við sáum á jólamarkaði í Berlín.