Þegar við vorum ung var Encyclopaedia Britannica þekktasta alfræðibókin. Fyrsta útgáfa hennar kom út í Edinborg á síðari hluta 18. aldar. Hún spannaði þrjú bindi. Nýjasta útgáfan kom út árið 2010 og er þrjátíu og tvö bindi.
Í bókinni Everything is Miscellaneous ber heimspekingurinn David Weinberger Britannicu saman við Wikipediu sem hefur nú tekið við sem þekktasta “alfræðibókin.” Rannsóknir hafa sýnt að í þeim er að finna álíka margar villur – þær eru með öðrum orðum álíka áreiðanlegar.
Þó er einn grundvallarmunur á: Greinar í Britannicu eru vottaðar af höfundum sem leggja nafn sitt við þær. Flestir höfundar eru virtir sem sérfræðingar á sínu sviði. Skilaboðin eru: Treystu okkur. Greinar í Wikipediu eru ekki vottaðar með sama hætti og skilaboðin eru önnur: Notaðu okkur og ef þú finnur eitthvað sem mætti betur fara þá máttu gjarnan bæta úr.
Á þessu er grundvallarmunur. Wikipediu-sjálfboðaliðarnir hafa líka lagt mikið af mörkum til baráttunnar gegn falsfréttum og rangfærslum.
Á tíunda gleðidegi viljum við þakka fyrir Wikipediu og sjálfboðaliðana.