Í morgun hlustuðum við á veðurfræðinginn Martin Hensch í útvarpinu. Hann er frá Þýskalandi, hefur búið hér á landi frá 2009 og starfað á Veðurstofunni frá 2012. Stundum les Martin veðurfregnir í útvarpinu, hann gerir það á góðri íslensku en talar með hreim.
Sumir hafa gagnrýnt hann fyrir það. Við erum ósammála og erum þvert á móti þakklát fyrir að heyra röddina hans Martin á morgnana. Það minnir okkur á að við erum hluti af stærra samfélagi og að á Íslandi er alls konar fólk. Það gerir okkur líka þakklát því á öld fjölmenningarinnar er ekki sjálfgefið að allir sem setjast hér að læri íslensku.
Við hugsum líka til hirðanna og vitringanna sem sem sóttu fjölskylduna í Betlehem heim og töluðu líklega með hreim eða allt annað tungumál en Jósef og María. En þeir voru velkomnir og við vonum að veðurfræðingurinn Martin finni sig líka velkominn .
Svo tökum við undir með honum. Þeir skilja sem vilja.
#ósíuðaðventa