Hver var viðskiptamaður ársins 2014? En maður ársins? Hver var kaka ársins í fyrra? En ísréttur ársins? Manstu það?
Ég man það ekki. Það er líklega sanngjarnt að upplýsa það strax. En þegar ég las um alla menn ársins – sem reyndar eru iðulega kallaðir menn ársins en ekki fólk ársins þótt þetta geti líka verið konur – þegar ég las umdjarfasta viðskiptajöfurinn og snjöllustu markaðsmennina og íþróttafólkið sem afrekaði mest og allt hitt – þá rifjaðist upp fyrir mér að við veljum fólk á hverju ári sem hefur staðið upp úr. Fólk ársins.
Kirkjusaga var eitt viðfangsefnið í guðfræðináminu þegar ég sat á skólabekk. Ég tók námskeið í hefðbundinni kirkjusögu sem fjallar um fólk sem gæti hafa verið fólk ársins á fyrri öldum. Þau sem sköruðu fram úr og höfðu áhrif og margir þekkja. Hin féllu í gleymskunnar dá. Ég tók líka eitt námskeið sem fjallaði um venjulegt fólk. Saga þeirra, fólksins sem er bara eins og ég og þú, getur nefnilega sagt okkur mjög mikið um daglegt líf og samfélagið eins og það er. Sem er eins og við vitum öll ekki aðeins eins og það kemur fyrir á hvíta tjaldinu eða í sjónvarpsþáttunum – Halló Ófærð – og er ekki bara stórsteikur, humar og hvítvín heldur soðin ýsa eða pylsa og Dóminós pizza og Egils appelsín eða Pepsí Max.
Umbætur við áramót
Við lítum til baka við áramót og fjölmiðlar beina kastljósinu að fólki ársins. Sjálf horfum við á okkar eigið líf. Skilaboðin sem við fáum oft – til dæmis frá lífsstílsfjölmiðlunum – snúast um umbætur: Hvernig á að taka kroppinn í gegn, léttast, massast, skerpast. Hvernig á að taka hugann í gegn. Hvernig á að taka samböndin í gegn. Hvernig á að … Og oft er þetta sett fram á formi lista með hollráðum eða vítum til varnaðar. Á einum miðlinum mátti til dæmis lesa í dag:
- 3 vísbendingar sem gefa til kynna að sambandið muni endast
- 5 atriði í forgang á nýju ári
- 6 bætiefni fyrir konur á breytingarskeiðinu
Kannski erum við alveg eins í kirkjunni. Erum alltaf aftur og aftur að segja ykkur hvernig á að hætta að syndga og lifa betra lífi. Sem gæti allt eins heitið Móralismi 101 á guðfræðimáli.
Ég er ekki viss um að þetta séu gagnleg skilaboð. Ég er ekki viss um að þau hefðu verið Jesú að skapi. Ég minnist þess ekki að hafa lesið eina einustu dæmisögu eða frásögn af honum sem fjallar um það að þyngjast eða léttast, gera húðina stinnari, sofa betur …
En kannski lumaði hann á þremur eða fimm vísbendingum eða svo um það hvað á að setja í forgang og hvernig er hægt að láta sambandið endast. En þið vitið hvað ég á við.
Gagnleg skilaboð?
Hvað er þá gagnleg skilaboð á áramótum þegar við speglum okkur? Hvað kennir Jesús? Hann kennir til dæmis að ef áramótin eru spegill þá eiga þau að vera spegill til uppbyggingar en ekki niðurrifs. Ég held líka að hann biðji okkur að vera friðarfólk.
Svo er annað, sem skín í gegnum lexíu og pistil gamlársdags. Í lexíunni segir:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni.
Og í pistlinum segir:
„Ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“
Hér er talað um tengsl manneskjunnar og Guðs. Orðið náð er notað til að lýsa þessum tengslum. „Náð Drottins er ekki þrotin.“ Vitið þið hvað það þýðir að lýsa sambandi með þessum orðum?
Það þýðir að samband Guðs við manneskjuna hvílir ekki á því hversu merkileg manneskjan er – hvílir ekki á því að karlinn eða konan sé maður eða kona ársins – hvílir ekki á því sem við gerum heldur á því hver við erum. Og hver erum við? Við erum þau sem Guð elskar.
Tíst um nýársheiti
Ég las tíst í dag, sem kallaðist á við efni þessarar prédikunar. Nadia Bolz-Weber, lútherskur prestur frá Denver í Bandaríkjunum sem heimsótti Ísland í haust skrifar:
There is no resolution that, if kept, will make me more worthy of love. *reminds self* #newyears
— Nadia Bolz-Weber (@Sarcasticluther) December 31, 2015
Það er ekkert áramótaheit sem ég get heitið og haldið sem gerir mig verðugri að vera elskuð.
Ég er sammála.
Þetta má líka orða svona:
Við þurfum ekki að vera fólk ársins til að vera þess verðug að vera elskuð af Guði eða öðru fólki.
Við þurfum ekki að vera með stinnustu húðina eða lægstu fituprósentuna til að vera elsku verð.
Við þurfum bara að vera eins og við erum.
Taka á móti ást.
Og elska sjálf.
Áramótin eru því kannski fyrst og fremst ástar- og elskuhátíð og áskorun þeirra er þar með að við stuðlum að því – í dag og alla dagana sem eru framundan að gera samfélagið okkar náðarríkara þannig að allir finni sig velkomna og elskaða.
Flutt í Brautarholtskirkju á gamlársdegi, 31. desember 2015.