Þrettándi desember er messudagur heilagrar Lúsíu. Hún birtist okkur fyrst og fremst í fallegum siðum sem rekja má til Svíþjóðar og breiðast kannski út um heiminn með verslunum IKEA. Í dag eru Lúsíuhátíðir haldnar víða í Svíþjóð og reyndar einnig hér á landi.
Í kirkjuhefðinni er Lúsía verndardýrlingur blindra, veikra barna, bænda, vændiskvenna sem hafa snúið við blaðinu, glergerðarmanna, bílstjóra, hjúkrunarkvenna, klæðskera, vefara, ritara og fleiri.
Lúsía er táknmynd fyrir reynslu margra kvenna sem hafa þurft að þola ákvarðanir annarra fyrir sína hönd. Hún bjó við heimilisofbeldi og mansal eins og kynsystur hennar um allan heim enn í dag. Ofbeldi gegn konum er svartur blettur á menningu okkar. Þess vegna er við hæfi að staldra við einmitt á dimmasta tíma ársins og horfast í augu við þær konur sem hafa lifað og dáið við kerfisbundna beitingu ofbeldis í skjóli fjölskyldutengsla eða hefða.
Aðventan vísar til komu ljóssins í heiminn. Hún hefur þeim mun meiri áhrif eftir því sem myrkrið er meira. Hjúpuð myrkri blindu og valdbeitingar heldur Lúsía uppi ljósi vonarinnar sem nær til hinna kúguðu og gleymdu – einnig þessa jólaföstu.
#ósíuðaðventa