Árni og Kristín

Dásamleg eru dæmin þín – fyrsti passíusálmur

Passíusálmarnir innihalda ekki síst íhugun hins trúaða yfir guðlegum leyndardómum. Í dulúðarhefðinni kristnu sjáum við hvernig sálin leitar og þráir einingu við guðdóminn. Þetta er mjög sterkt þema hjá Hallgrími. Hann hefur upp sín innri augu og mænir á Jesú. Þar finnur ekki síst fyrirmynd og kennara sem gengur á undan með fordæmi fyrir hina kristnu sál.

Fyrirmynd og samstaða Jesú með Hallgrími – og þeim sem gerir bænir Passíusálmanna að sínum – felst ekki síst í þjáningunni sem Jesús gengur í gegnum hinn örlagaríka sólarhring sem hefst í grasagarðinum og endar á Golgata. Þjáningin gegnir risahlutverki í trúarlífi Hallgríms – við getum vel skilið það ef við höfum í huga það sem hann gekk í gegnum sjálfur, barnsmissi og erfiðan sjúkdóm.

Í heimi Passíusálmanna er Jesús fyrirmynd þeirra sem þjást vegna þess að hann gengur í gegnum atburðarrásina með réttu hugarfari. Hlýðinn og undirgefinn vilja Guðs. Í hugmyndafræði sem útskýrir hið illa og erfiða með því að það sé vilji Guðs, er mikilvægt fordæmi fólgið í framgöngu og hugarfari Jesú sem tekur á móti örlögunum með æðruleysi og hlýðni.

Horfi ég nú í huga mér,
herra minn Jesú, eftir þér.
Dásamleg eru dæmin þín.
Dreg ég þau gjarnan heim til mín. (1. Passíusálmur vers 17)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may also enjoy…