• Bæn um frið á erfiðum tímum

    Guð réttlætis, friðar og sátta.

    Á tímamótum nýrra átaka í Mið-Austurlöndum, komum við fram fyrir þig, með brostin hjörtu vegna þjáningar, dauða og ranglætis sem hafa dunið yfir íbúa Landsins helga. 

    Öll erum við ein fjölskylda en upplifum samt daglega hvað samskipti okkar eru brotin. 

    Miskunnsami Guð, við biðjum að þú umbreytir hjörtum og huga, setjir virðingu fyrir öðrum í stað fjandskapar, og að ótti víki fyrir náungakærleika.

    Við biðjum fyrir friði í Landinu helga og Mið-Austurlöndum og að stríð og ofbeldi taki enda. 

    Endurnýja von okkar, ó Guð.

    Við biðjum um lausn gísla í haldi, við biðjum um vernd yfir saklausum, um að mannréttindi séu virt, að hjálparliðar njóti verndar.

    Gef leiðtogum visku og hugrekki til að velja frið framyfir stríð.

    Megi réttlæti umvefja íbúa Palestínu. 

    Opna framtíðarleiðir fyrir börn Ísraels og Palestínu að lifa saman í öryggi og friði. 

    Miksunnsami Guð, gef okkur frið inn í stríðandi aðstæður, til svæða sem upplifa átök og stríð:

    Í Úkraínu, Súdan, Myanmar og svo mörgum öðrum löndum.

    Gef okkur umbreytandi frið sem fær að ríkja, gef að þjóðir og samfélög sættist og fái lifað saman lífi í fulli gnægð, eins og þú hefur fyrirbúið þeim öllum.

    Amen. 

    Þessi bæn kemur frá Lútherska heimssambandinu, Kristín þýddi hana á íslensku.

  • Ferðalagið

    Í dag sendi Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, sem í daglegu tali er kölluð UNHCR, frá sér stuttmyndina The Journey. Hún sýnir á rúmri mínútu ferðalag flóttafólks, frá heimilinu sínu, í flóttamannabúðir, á Ólympíuleikana. Tilgangurinn er að vekja athygli á Team Refugees sem er lið Flóttamannahjálparinnar á komandi Ólympíuleikum.

    The Journey er stuttmynd um ferðalag fólks á flótta.

    Þetta er grípandi mynd.

    Ein þeirra sem nú undirbýr sig er Rose Lokonyen frá Suður Súdan. Hún er hlaupakona sem þurfti að yfirgefa heimalandið. Hennar heimili er nú í Kakuma flóttamannabúðunum í Kenya og þar starfaði hún meðal annars fyrir Lútherska heimssambandið.

  • Gleðidagur 24: Sumarþrumur

    Þegar við vorum lítil og lásum norrænu goðafræðina okkar fór mikið fyrir þrumuguðinum Þór. Sögurnar af honum eru krassandi. Eitt var þó snúið að skilja: þrumurnar sem Þór er kenndur við.

    Í Genf er þessu öfugt farið. Þar þekkja fáir þrumuguðinn og sögurnar norrænu, en þrumur og eldingar þekkja allir. Þrumuveðrið er fastur hluti af sumarupplifuninni á meginlandinu. Drunur í fjarska, sjónarspil á himni og hellidemban sem vætir jörð og fólk.

    Á tuttugasta og fjórða gleðidegi þökkum við fyrir náttúruna sem minnir á sig og sögurnar sem mannfólkið hefur sagt hvort öðru til að skýra og skilja.

  • Gleðidagur 23: Fjórði maí

    Fjórði maí er kær aðdáendum Stjörnustríðs. Í dag viljum við þakka fyrir stórsögurnar á hvíta tjaldinu. Þær hafa verið ungum og öldnum innblástur um baráttu góðs og ills, hetjur og andhetjur. Þær eru endalaus uppspretta fyrir samtöl og vangaveltur.

  • Gleðidagur 22: Heimavistarmatur

    Í heimavistinni er ástæða til að borða hollan mat. En stundum langar okkur í eitthvað annað. Eitthvað óhollt sem lyftir hug í hæðir og skapar vellíðan. Til dæmis samloku með hnetusmjöri og sultu. Hér er uppskrift.

    Hvað finnst þér gott að borða í heimavist?

  • Gleðidagur 21: Grænt

    Morgunstund gefur gull í mund segir máltækið. Hún gefur líka tækifæri til að upplifa morgunfegurðina þegar sólin rís.

    Þessar myndir voru teknar í morgun á göngutúr um nágrennið.

  • Gleðidagur 20: Peppaða prinsessan Poppy

    Bíómyndin um Tröllin er í miklu uppáhaldi hjá okkur. Peppaða prinsessan Poppy er skemmtileg kemst langt með jákvæðu viðhorfi til lífsins. Það sýnir meðfylgjandi myndbrot vel. Á tuttugasta gleðidegi þökkum við fyrir jákvæða fólkið í lífinu.

  • Gleðidagur 19: Frá sannleika til umhyggju

    Í heimavistinni eigum við meiri samskipti á netinu en áður. Á nítjánda gleðidegi langar okkur að deila með ykkur þremur spurningum sem allir ættu að spyrja sig áður en skrifað er á netið:

    1. Er þetta satt?
    2. Er þetta nauðsynlegt?
    3. Sýnir þetta umhyggju?

    Eins og Páll skrifaði: “Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp.” (1Kor 10:23)

  • Gleðidagur 18: Sjálfbærnimarkmiðin

    Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna geta verið rammi fyrir endurreisn og umbætur í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins.

    Það segja Nano Addo Dankwa Akufo-Addo, forseti Ghana, og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Þau sitja saman í forsæti einnar af nefndum SÞ um sjálfbærnimarkmiðin og skrifa í pistli sem birtist í dag:

    “Við höfum lært – sem íbúar heimsbyggðarinnar – hversu mikils virði það er að við gætum hvers annars, vinnum saman að því að enginn sé skilinn eftir, og forgangsröðum í þágu þeirra sem minnst mega sín.”

    Stundum er sagt að góður mælikvarði á samfélag sé hvernig það kemur fram við þau sem minnsta eiga undir sér. Það má heimfæra þann mælikvarða á heimsbyggðina.

    Á átjánda gleðidegi þökkum við fyrir sjálfbærnimarkmiðin og þau öll sem vinna að markmiðin eins og ekkert hungur, fullt jafnrétti og útrýming fátæktar verði að veruleika.

  • Gleðidagur 17: Sögustund með Michelle

    Á mánudögum les Michelle Obama barnabækur á rás PBS Kids á YouTube. Hún er í uppáhaldi og eins og lestur með börnum. Á sautjánda gleðidegi þökkum við fyrir Michelle og barnabækurnar.

    https://youtu.be/WyhgubvRYF4