Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Við byggjum brýr

    Við vorum mörg sem sátum við skjáinn í gærkvöldi þegar söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna stóð yfir. Opinber yfirskrift Júróvisjón í ár, sem lauk í gær með sigri Måns frá Svíþjóð, er “Building bridges” eða við byggjum brýr. Í keppninni var unnið með þetta þema á margvíslegan hátt, í grafík og tónlist en ekki síst í  uppfrifjunum á því að í ár eru 70 ár síðan heimsstyrjöldinni miklu lauk en þau tímamót skipta vitanlega miklu máli í Evrópu og í mörgum þeim löndum sem taka þátt í söngvakeppninni. (more…)

  • Burður og bæn í beinni

    Torfbær verður steinhús

    Pabbi ólst upp í torfbæ. Hann bjó norður í landi á litlum bæ ásamt foreldrum sínum og bræðrum. Á næsta bæ bjó föðurbróðir hans. Þau sinntu bústörfum – tóku örugglega á móti miklum fjölda lamba.

    Það var ekki rafmagn í torfbænum, slíkur lúxus þekktist fyrr en seinna, kannski um það leyti sem þau fluttu í reisulegt steinhús sem reist var á staðnum. Þá breyttist margt.

    Svo varð pabbi unglingur og ungur maður og ofaná vinnuna í sveitinni bættist líka vinna í sláturhúsinu í þorpinu sem var nálægt og sjálfsagt var sitthvað fleira sem gripið var í. Svo kynntist hann mömmu sem var ævintýragjörn borgarstelpa sem vann sumarlangt í hótelinu í kaupstaðnum. Þau fluttu síðan í borgina. Þannig var sú saga.

    Þetta er ekkert merkileg saga þótt hún sé mér kær. Þetta er saga þúsunda, jafnvel tugþúsunda sem hafa á síðustu áratugum hafið lífið úti á landi og flutt búferlum til til höfuðborgarsvæðisins.

    Ísland er að breytast.
    Sveitasamfélagið dregst saman.
    Borgin stækkar.

    Við höfum flutt úr torfbæjum í timburhús og steinhús.
    Flutt úr sveit í bæ í borg.
    Og timburkirkjan þar sem allir þekktu alla er orðin að steinkirkju þar sem sumir þekkja suma.

    Sveitaferðin og burður í beinni

    Sveitaferðir eru ómissandi hluti af vori leikskólabarna. Þið sem eruð í yngri kantinum hér munið örugglega eftir nokkrum slíkum og foreldrarnir líka. Íslensku þjóðinni var boðið í sveitaferð í vikunni, nánar tiltekið var okkur boðið að fylgjast með sauðburði að Syðri-Hofdölum í Skagafirði í heilan sólarhring. Þessi sveitaferð átti meira að segja sitt eigið hashtagg:

    #beintfráburði

    Rúv bauð til ferðarinnar sem stóð frá hádegi á uppstigningardegi fram að hádegi daginn eftir. Fyrirmyndin er norsk og útsendingin var vel heppnuð.

    Athygli þjóðarinnar var fönguð og við fengum innsýn í það sem sumir þekkja en ekki margir. Landinn var mættur inn í stofu til að kenna okkur um lífið og dýrin.

    Stóru spurningarnar

    Sem manneskjur stöndum við frammi fyrir sístæðum spurningum:
    – Hver erum við?
    – Hvaðan komum við?
    – Hvað er að vera manneskja?
    – Hvað er að vera Íslendingur?

    Og svo eru það auðvitað spurningarnar um tilgang og merkingu:
    – Til hvers erum við?
    – Hvað er gott og hvað er illt?
    – Hvernig er maður góð manneskja?

    Ein leið til að leita svara svona spurningum er með því að horfa til hefða og umhverfis. Horfa til þess hvar við höfum verið. Ég held #beintfráburði hafi einmitt verið slík tilraun. Tilraun til að minna okkur á að Ísland var einu sinni sveitasamfélag og er það að hluta til ennþá. Áminning um að við eigum að vera stolt af því.

    Við sjáum víða vísanir til þessa, til dæmis þegar íslenskar vörur eru kynntar:

    „Lambakjöt. Á diskinn minn.“
    „Íslenskt grænmeti. Þú veist hvaðan það kemur.“

    #beintfráburði kallast á við sjónvarpsþáttinn Landann sem hefur notið mikilla vinsælda. Eitt af markmiðum hans er að leiða okkur á staði sem virðast fjarlægir en eru það ekki í raun.

    Þetta er áhugaverð, gagnleg og mikilvæg dagskrá og hún snerti svolítið við prestinum af því að fjárhúsið er kristnu fólki mikilvægt.

    Beint frá …

    Hvað fleira í samfélaginu þarf að taka svona til meðferðar? Í kynningu sinni á dagskránni nefndi Rúv fjórar sambærilegar útsendingar sem norska ríkissjónvarpið hefur staðið fyrir:

    Fyrir þremur árum sigldi skemmtiferðaskip með strönd Noregs. Þar fékkst innsýn í landið. Svona lítur landið okkar út – frá öðru sjónarhorni voru skilaboðin.
    Fyrir tveimur árum var helgarútsending um eldivið og arineld. Þar gafst tækifæri til að íhuga hitann í húsunum. Svona hitum við húsin.
    Sama ár var sýnt frá norsku prjónakvöldi. Svona verður peysan þín til.
    Og í fyrra var öll norska sálmabókin sungin í beinni útsendingu. Svona er sungið um Guð.
    Mig langar að staldra við þetta seinasta. Enda er ég prestur og við í kirkju. Ég held nefnilega að við gerðum gagn í því að beina sjónum landans að hinum trúarlega þræði í lífsmynstri okkar Íslendinga. Hann þykir ekki alltaf hipp-og-kúl en hann er þarna. Og hann er mikilvægur og hefur verið um aldir.

    Bænir og Biblía

    Um allt land – í sveitinni og í borginni – eru til dæmis börn sem læra bænir af mæðrum og feðrum. Læra vers eins og Vertu Guð faðir, faðir minn og Nú er ég klæddur og Vertu nú yfir og allt um kring og öll hin versin sem eru okkur kær og fylgja frá upphafi lífsins til enda þess.

    Um allt land eru börn sem læra Biblíusögurnar. Læra um Adam og Evu í aldingarðinum, Nóa og dýrin í örkinni, Davíð og Golíat, Jesú sem gerði kraftaverk.

    Þetta er þáttur heimilisins. Sum börn taka líka þátt í kirkjustarfinu og flest þeirra fermast og sum halda áfram í unglingastarfi kirkjunnar. Hvers vegna? Vegna þess að trúin skiptir máli og vegna þess að þetta er vandað og gott félagsstarf fyrir ungt fólk – sem er að auki ókeypis.

    Uppeldið í trúnni er málefni heimilisins í samstarfi við kirkjuna.
    Fræðslan um trúna fer þar fram og hún fer líka fram í kirkjunni.
    En það eru fleiri aðilar sem koma að þessu.
    Til dæmis skólinn.

    Í skólanum, í skólanum

    Og það skiptir máli að vel takist til á þeim vettvangi. Að fræðslan sé vönduð og það sé nóg af henni.

    Þess vegna er vont að krakkar fái ekki lengur Nýja testamentið og Sálmana að gjöf í skólum í Reykjavík. Ástæðan er sú að það sendir röng skilaboð, sendir þau skilaboð að ritin í Nt eigi ekki heima í skólunum. Samt eru þau hluti af grundvelli menningar okkar og þekking á þeim nauðsynleg til að skilja bækur og bíómyndir, tónverk, leikrit og tungumál. Við þurfum að bæta úr þessu.

    Við þekkjum jú til bókakynninga í grunnskólum – til dæmis fyrir jólin. Þar fer ekki fram ritskoðun eða ritrýning á innihaldi hennar. Höfundum er einfaldlega treyst. Við þurfum líka að treysta þeim sem þekkja Biblíuna.

    „Þetta er eðlilegt“

    Norðmenn sungu alla sálmabókina sína síðasta vetur. Það var sent í beinni í Ríkissjónvarpinu þeirra og á vefnum.

    Útsending af þessu tagi „normalíserar“.
    Hún segir ekki aðeins: þetta gerist
    Hún segir: þetta er eðlilegt.
    Svona fæðast lömbin.

    Og:
    Þegar lömbin fæðast er þeim sýnd umhyggja.
    Þau mæta ekki bara, tilbúin og plastpökkuð í frystikisturnar í Bónus.

    Það hefur gildi fyrir samfélagið að „normalísera“.
    VIð eigum að gera meira af því.

    Til dæmis með:

    60 klukkustundum af sálmasöng.
    60 klukkustundum af morgun- hádegis- kvöldbæn.
    60 klukkustundum af kirkjulífi.
    60 klukkustundum af leik barna í borginni.
    Við skulum byrja fljótt. Ekki seinna en í haust.

    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð se heilögum anda sem er þessi ást.

  • Stríð 0 – friður 1

    Kristín í prédikun að morgni páskadags:

    Þetta er það fallega og öfugsnúna við upprisuna, sem snýr ríkjandi gildismati á hvolf. Við lifum nefnilega í menningu sem er með þráhyggju á háu stigi fyrir hinu sterka, því að ná árangri, skara fram úr, vera best og mest. En Jesús tekur ekki þátt í því, heldur býður fram leið friðarins.

  • Mótun til mannúðar

    Gunnar Kristjánsson, sóknarprestur á Reynivöllum:

    Það skiptir máli að við mótumst til mannúðar í bernsku okkar og æsku,

    • að við mótumst til að vera þátttakendur í baráttu þeirra, sem eiga á brattann að sækja,
    • að við mótumst til að standa með þeim sem verða fyrir einelti í stað þess að leggja aðra í einelti,
    • að við mótumst til þess að láta okkur þykja vænt um fólk í stað þess að líta á aðra sem óvini okkar,
    • að við lærum að vera frjáls í stað þess að ánetjast því sem vont er og gæti fjötrað okkur þeim fjötrum sem við losnum kannski aldrei úr.

    Mótun til mannúðar, það er gott leiðarhnoð í uppeldinu.

  • Þú, ég og fjarskylda frænkan í Biblíunni

    Kristín:

    Biblían er ekki texti sem við lesum frá upphafi til enda, hún er ekki einsleit í stíl og uppbyggingu, hún er samansett af textum úr ólíkum áttum frá ólíkum tíma. Aðferðafræði kristins fólks er að nálgast texta Biblíunnar í gegnum aðra texta hennar, þannig að Biblían verður gleraugun sem við lesum Biblíuna með.

    Þú og ég og fjarskylda frænkan í Biblíunni, prédikun í Laugarneskirkju.

  • Tannleysi og talentur

    Árni:

    „Kóngurinn í sælgætislandi var tannlaus. Hann hafði etið of mikið nammi og nú kom það í bakið á honum. Hann þurfti nefnilega tennur til að njóta alvöru matar. Við þurfum líka að hafa „tennur“ til að njóta Biblíunnar. Því textana þarf að tyggja og melta og helst borða hægt.“

    Tannleysi og talentur, prédikun í Bústaðakirkju, á fyrsta sunnudegi í níuviknaföstu.

  • Aulinn, björninn, Jesús og þú

    Hvað eiga Grú í Aulinn ég, Paddington í samnefndri kvikmynd, Jesús í Markúsarguðspjalli og við sem erum kristin sameiginlegt? Eitt svar er að finna í prédikun dagsins í Bústaðakirkju:

    Manstu eftir aulanum? Hann vildi vera bestur og mestur í allri veröldinni? Af því hann var þrjótur þá vildi hann vera sá mesti meðal þrjóta. Mesti vondi-kallinn. Hann ákvað því að stela tunglinu. Til að ná markmiðinu þurfti hann á börnum að halda svo hann tók að sér þrjár munaðarlausar stelpur. En þetta gekk ekki alveg upp því þegar þær komu inn í lífið hans tóku þau yfir og hann breyttist. Það kom í ljós að inn við beinið var þrjóturinn bara allt í lagi.

    Lesið og hlustið á Trú.is.

  • Jólin fyrir byrjendur (og lengra komna)

    Árni:

    Við getum sagt þetta:

    Jesús er sjálfa – hann er selfie Guðs.
    Af því að Jesús – sem er Guð – birtir líka Guð.
    Það er vegna Jesú sem við þekkjum Guð og getum séð Guð.

    Hann er samt ekki snapp.
    Sendur og birtist í stutta stund og hverfur svo
    Hann er ekki instagrammmynd í lágskerpu.
    Hann er ekki status á fésinu – þótt hann sé kallaður Orðið í Jóhannesarguðspjalli

    Jólin fyrir byrjendur (og lengra komna), prédikun í hátíðarmessu á jóladegi í Laugarneskirkju, 25/12/2014.

  • Þorlákur, jólin og hið heilaga

    Kristín:

    Ég held að við séum svolítið að sveiflast til baka frá því – af því að það þarf að vera jafnvægi á öllu. Við finnum að það getur verið gott að hvíla í því sem við getum gert með kroppnum okkar, höndum, fótum, augum og heyrum. Við finnum að Guð getur mótað okkur og haft áhrif á okkur í gegnum áþreifanlega hluti, hið heilaga mætir okkur í öðru fólki, í byggingum, í myndlist og tónlist. Allt sem lyftir andanum kennir okkur um hið heilaga og gerir okkur að þátttakanda í því.

    Prédikun í Laugarneskirkju á fjórða sunnudegi í aðventu, 21. desember 2014.

  • Átta þúsund blöðrur og bænir

    Árni:

    Hvað segir það um þjóð að hún setji minnisvarða um sársaukann í sinni eigin sögu á besta stað í höfuðborginni? Hvernig var hægt að endurreisa Berlínarmúrinn og brjóta hann svo niður á þremur dögum?

    Prédikunin mín í Seltjarnarneskirkju í gær fjallaði um þetta.