Einu sinni þegar við vorum að undirbúa messu hér í kirkjunni, sátum við nokkur og vorum að spjalla um Biblíuna og hvað hún væri eiginlega. Það er ekkert einfalt að svara því, og margskonar lýsingar geta náð utan um fyrirbærið. Stutt og algengt svar er að Biblían sé orð Guðs. Það svar skapar svo miklu fleiri spurningar um hvernig það gangi upp að samansett rit eftir ótal höfunda, skrifuð í ótal bókmenntastílum, í margs konar tilgangi, á ótrúlega löngum tíma, sé á einhvern hátt heilagt eða sérstakt.
Fjölbreytt rit
Þegar ég segi að Biblían sé fjölbreytt rit skrifuð í ólíkum tilgangi, á löngum tíma, þá á ég við að í henni eru til dæmis hreinræktaðir lagatextar ætlaðir inn í sérstakt samfélag; það eru langar frásögur um ævi og störf konunga og stjórnvalda á tilteknum tíma, það eru ævintýralegar upprunasögur, sem eiga að skýra tilkomu þjóða eða ástands sem allir þekkja, það eru helgisögur, það eru þjóðsögur, það eru ljóð og ljóðabálkar, það eru spekirit, sendibréf, uppeldisráð, o.s.frv.
Við vitum nokkurn veginn hverjir skrifuðu sum þessara rita og við vitum ýmislegt um það við hvaða aðstæðurþau urðu til. Við vitum að sumir fengu lánuð minni úr eigin menningu eða úr sögum annarra þjóða, sem síðan urðu þeirra eigin sögur. Við vitum líka margt um hvað var að gerast í lífi þjóðarinnar sem skapaði þessi rit og hvað hún gekk í gegnum á þessum langa tíma.
Sú staðreynd að Biblían er trúarrit kristinna manna, þarf að skoðast í þessu ljósi um fjölbreyttan og margskonar uppruna þess sem stendur í Biblíunni. Við þurfum líka að meta hana út frá því sem við vitum um fólkið sem skrifaði það sem stendur í henni. Við vitum nefnilega heilmikið um það. Og hér kemur það áhugaverða: eftir því sem við vitum meira um fólkið á bak við sögurnar í Biblíunni, því meira virði verða þær.
Ég held að þar sé mjög einföld sálfræði að baki: manni fer að þykja vænt um þau sem maður kynnist. Þegar þú færð að skyggnast á bak við aðstæður fólks, færist þú nær því, skynjar hvernig reynslan mótar og stýrir og það rennur upp fyrir þér að þið eigið kannski eitthvað sameiginlegt. Það sem er sammannlegt færir okkur nær öðru fólki, í gegnum tíma og gegnum rúm. Það kemur í ljós að fólk sem okkur fannst vera órafjarri okkar eigin reynslu og eigin lífi, stendur okkur nær en okkur grunar.
Fólk á flótta
Þetta er reyndar eitthvað sem við höfum uppgötvað með nýjum þunga og nýjum hætti á Íslandi upp á síðkastið, þegar við höfum komist í snertingu við líf og aðstæður fólks sem hefur þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðsátaka og ofsókna. Það eru engar nýjar aðstæður og flóttafólk hefur alltaf verið til, vegna þess að þess að það hefur aldrei verið skortur á átökum, stríði, hagsmunaárekstrum og landvinningum.
En það er þegar við komumst í snertingu við það sem sameinar okkur fólki á flótta, sem við förum að horfast í augu við að þar eru á ferð manneskjur sem eru eins og þú og ég, hafa samskonar tilfinningar, hafa drauma og vonir, hafa elskað, saknað og misst, eins og ég og þú. Börn á flótta eru eins og okkar börn. Þau vilja leika, prófa, knúsa, læra og ná tökum á nýjum og spennandi hlutum. Þegar við föttum þetta, lítum við ekki sömu augum á fólkið sem núna streymir frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum svæðum, í leit að betra lífi.
Hælisleitendur frá Íran
Flóttafólk er mál dagsins í Evrópu og líka á Íslandi. Í dag eru með okkur hér í kirkjunni tveir menn sem við höfum fengið að kynnast og þykir mjög vænt um. Þeir eru á flótta frá heimalandi sínu Íran og hafa sótt um hæli hér á landi. Enn sem komið er hafa þeir ekki fengið raunverulega áheyrn hér. En þeir hafa fengið úrskurð um að þeir megi ekki vera hér og verði fluttir tilbaka þaðan sem þeir komu. Af því að þeir eru vinir okkar, snertir þetta okkur djúpt hér í Laugarneskirkju og aðstæður vina okkar hafa opnað augu okkar fyrir veruleika flóttafólks allt í kringum okkur.
Reza verður með okkur í kaffinu á eftir og ég vona að þið notið tækifærið til að spjalla við þá, gefa þeim high-five eða eitthvað. Eftir viku verður það kannski of seint því búið verður að flytja þá úr landi.
Rit flóttafólksins
Tökum aftur upp þráðinn um Biblíuna, þetta margbrotna, fjölbreytilega og flókna rit sem við kristnir menn köllum trúarritið okkar. Það er eitt sem kemur í ljós þegar við förum að skoða hana: mörg rit hennar hafa mótast af aðstæðum fólks á flótta. Ótrúlega mikið sem hefur borist til okkar í gegnum aldirnar í orðum og hugmyndum Biblíunnar á rætur sínar að rekja til veruleika flóttafólksins.
Finnst ykkur það ekki magnað?
Þetta sést í beinum sögum af einstaklingum, hópum og þjóðum sem hrekjast til og frá, úr landinu sínu, inni í það aftur og innan þess. Sagan sem við heyrðum í dag um samskipti Rutar og Bóasar, er af þessum meiði. Við munum líka eftir sögunni um þegar Jósef tók Jesúbarnið og Maríu móður þess og flúði til Egyptalands, til að verða ekki fyrir ofsóknum Heródesar konungs.
Sagan af Jósef er annað dæmi um hvernig fólk á flótta og flutningum mætir okkur í Biblíunni. Hann var seldur í annað land – þar sem hann náði svo að koma undir sig fótunum og komst reyndar til mikilla metorða þar sem hann starfaði fyrir sjálfan Faraó, réði drauma og sinnti ráðgjafastörfum. Jósef er frábært dæmi um útlendinginn sem “aðlagast” og fær að njóta þess.
Dæmi um hið gagnstæða, um útlendinginn sem aðlagast alls ekki og hefur engan áhuga á því, er sagan af Daníeli sem endaði í ljónagryfjunni. Hans saga er á þann veg að þjóð hans er hertekin og flutt gegn vilja sínum í annað land, þar sem annar konungur ríkir og þar sem önnur trúarbrögð eru stunduð. Þar sem Daníel ætlar ekki að láta beygja sig undir siði móttökulandsins, lætur hann hart mæta hörðu og endar, eins og við vitum, í ljónagryfjunni, þar sem konungurinn ætlar að kenna honum almennilega lexíu.
Úr jarðvegi flóttafólks
Það eru ekki bara sögur um einstaklinga á flótta sem gera Biblíuna að sannkölluðu flóttamannariti heldur óx mikið af grunnhugmyndum í Biblíunni úr jarðvegi þjóðflutninga og flóttafólks. Það er t.d. þegar Ísraelsþjóðin er í útlegð við Babýlonsfljót, en Babýlónía hin forna var þar sem Írak er í dag, að hún komst í kynni við sköpunarhelgisögurnar sem síðan fundu leið sína inn í ritin sem við köllum Mósebækur. Þar komust þau í snertingu við helgisögur eins og Nóaflóðið, sem síðan varð ein þekktasta saga Gamla testamentisins, sem tjáir auðvitað í grunninn, óskina eftir því að ranglæti verði upprætt og friður og sátt ríki.
Ef flóttafólk eru jaðarhópur samfélagsins á okkar tímum, þá getum við líka sagt að Biblían sé rit um jaðarhópa hvers tíma. Taktu eftir því hvað oft hópar eins og útlendingar, fatlaðir, sjúkir, skækjur, óhreinir, eru nefnd til sögunnar, ekki síst til að varpa ljósi á hvers eðlis samfélagið er. Taktu eftir því hvað Jesús tekur oft dæmi af fólki á kantinum til að útskýra samband Guðs við heiminn. Taktu eftir því að sjálfur Guðs sonur er barn á flótta undan ofsóknum yfirvalda og þarf að leita skjóls í öðru landi.
Taktu eftir þessum sögum, lærðu að þekkja og elska meðbróður þinn og systur sem er í erfiðum aðstæðum, opnaðu hjarta þitt og líf fyrir því sem Guð vill segja þér, í gegnum orðið sitt og fólkið sem hann sendir til að verða á vegi þínum.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svao sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.