Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Mótmæli í þremur liðum

    Bjarni Karlsson, prestur:

    Jón Gnarr er í mínum huga hellings mikill frelsari sem í argasta gríni og fúlustu alvöru hefur opnað augu margra fyrir því að það er í lagi að vera alls konar og að við græðum öll á fjölbreytileikanum. Þess vegna langar mig að mótmæla aðalatriðinu í grein hans „Guð er ekki til“ sem birtist hér á þessum vettvangi sl. laugardag.

    Mótmælendaprestur mótmælir fullyrðingum um trú og vísindi, heilbrigði og tjáningarfrelsi í stuttum pistli.

  • Trú er hluti af sjálfsmynd fólks

    Við vorum gestir Frosta og Mána í Harmageddon í morgun og spjölluðum við þá félaga um það hvernig trúin er hluti af sjálfsmynd fólks. Tilefnið var greinin okkar í Fréttablaðinu í gær.

  • Trú, typpi og píkur

    Er trúin eins og typpi? Jón Gnarr skrifar um hliðstæðuna milli trúar og typpis í Fréttablaðspistli um helgina. Hann segir hvort tveggja ágætt til persónulegra nota „…en ekki tala mikið um það við ókunnuga eða troða því upp á fólk“. Líkingin er áhugaverð, en ekki endilega af þeirri ástæðu sem Jón telur. Til að hafa gagn af henni þarf að útvíkka hana svo hún nái yfir bæði typpi og píkur. Annars njóta hvorki trúin né typpin sannmælis.

    Rétt eins og allir karlar eru með typpi og allar konur með píku er trú og lífsskoðun órjúfanlegur hluti af hverri manneskju. Ekki í þeirri merkingu að hún trúi á Guð sem er handan þessa heims heldur hefur hún lífsskoðun sem tengir hana við meðvitundina um stöðu sína í tilverunni. Öll samfélög hvíla raunar á gildum sem tengjast slíkum lífsskoðunum.

    Kynfræðin kenna að kyn hefur raunveruleg áhrif á menninguna sem við sköpum og að tjáning kynverundar er heilbrigðismál og mikilvæg hverri manneskju. Það sama gildir um trú og lífsskoðanir. Af því að að trú og lífsskoðun er samofin einstaklingnum og sjálfsmynd hans er ekki gott að hann þurfi að bæla hana. Slík bæling tjáningarfrelsis er hliðstæð þeirri bælingu kynverundar sem við sjáum í löndum þar sem konum er gert að hylja líkama sinn – ekki aðeins píkur og brjóst – heldur líkamann allan. Það er hvorki heilbrigt né vænlegt að hunsa trú og lífsskoðanir og gera ekki ráð fyrir þeim í hinu opinbera rými, t.d. með því að taka hið trúarlega markvisst út fyrir rammann í skóla- og frístundastarfi.

    Þegar allt kemur til alls snýst þetta því ekki um það hvort „Guð sé til“ heldur hvort við viðurkennum trú og lífsskoðun sem heilbrigðan og eðlilegan þátt í lífi einstaklings og samfélags.

    Fréttablaðið, 17. febrúar 2014.

  • Gleðidagur 44: Hvetja frekar en að skamma

    Það er kúnst að hvetja aðra til að breyta hegðun sinni til betri vegar án þess að detta í það að skamma með fingur á lofti. Myndböndin #ruslíReykjavík þar sem borgarstjórinn okkar veltir vöngum yfir ruslinu í borginni eru gott dæmi um jákvæða hvatningu.

    Hann er í hlutverki sögumanns sem er hugsi yfir draslinu á götunum. Í lok fyrsta myndbandsins má heyra hann hugsa með sér:

    Ég veit ekki hvaða aðili er að henda drasli á götur Reykjavíkur en mig langar að komast að því og mig langar að fara til viðkomandi og segja við manneskjuna:

    Ert þú að henda drasli?
    Já.
    Værirðu til í að hætta því?

    Hér er höfðað til samvisku og myndugleika borgaranna og við hvött til að líta í eigin barm. Þannig getum við einmitt komið á breytingum sem eru til góðs.

    Á fertugasta og fjórða gleðidegi viljum við þakka Jóni borgarstjóra fyrir árin hans fjögur í embætti borgarstjóra. Hann hefur verið ábyrgur, frumlegur og skapandi leiðtogi sem hvetur til góðra verka.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.