Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ósíuð aðventa 16: Bernskusögurnar snúa aftur

    Laust eftir miðnætti verður nýja Stjörnustríðskvikmyndin frumsýnd hér á landi. Forsala hefur gengið vel og fjöldi fólks á öllum aldri mun sjá myndina á morgun. Sagan af Loga geimgengli og fjölskyldu hans er stórsaga, goðsögn sem hreyfir við mörgum.

    Þetta er saga af baráttu góðs og ills sem er þó ekki svarthvít heldur full af litbrigðum. Áhorfandinn getur samsamað sig við persónur og íhugað hvernig væri að vera í sporum hetjanna, standa frammi fyrir freistingum og erfiðum ákvörðunum.

    Þannig má segja að Stjörnustríðssögurnar séu líkar sögunum af Jesú. Þær eru líka stórsögur sem fjalla um stóru spurningarnar í lífinu. Við óskum öllum sem ganga í barndóm í nótt góðrar skemmtunar og viljum líka deila með ykkur útfærslu munkanna í Unvirtuous Abbey á Stjörnustríðs-aðventukertunum fjórum.

  • Þar sem gleði og depurð búa saman

    Þessa dagana er teiknimyndin Inside Out sýnd í kvikmyndahúsum hér á landi. Hún fjallar um það sem gerist innra með okkur mannfólkinu – tilfinningalífið. Í brennidepli er samspil tveggja tilfinninga: gleði og depurðar.

    Boðskapur myndarinnar er að til að lífið sé í jafnvægi þurfi þessar tvær tilfinningar að vera í jafnvægi. Þar sem gleðin ein ræður verður manneskjan meðvirk, þegar depurðin hefur yfirhöndina verðum hún þunglynd. Þar sem gleði og depurð haldast í hendur verður til jafnvægi sem getur leitt til hamingju.

    Þetta er lexía um lífið og jafnframt góður boðskapur inn í heimilislífið. Heimilið og fjölskyldan sem þar býr eiga nefnilega að vera staðurinn þar sem við getum upplifað allan tilfinningaskalann og verið örugg. Um leið á heimilið að vera staður þar sem við þurfum ekki að bera sársaukann og depurðina í lífinu ein og staður þar sem við getum deilt og upplifað hina dýpstu gleði með öðrum.

  • Skósveinarnir, Grú og Jesús

    Í dag verður frumsýnd kvikmynd hér á landi sem er eins konar forsaga myndanna tveggja um Aulann Grú. Hún heitir Skósveinarnir eftir söguhetjunum litlu sem hafa heillað áhorfendur um allan heim. Þeir eru gulir og sætir og næstum hnöttóttir, sumir með eitt auga, aðrir með tvö og þeir bralla og babla hver í kapp við annan.

    Þegar við kynnumst þeim í fyrstu kvikmyndinni eru skósveinarnir þjónar Grú og þeir aðstoða hann fyrst við glæpi og spellvirki og síðar við gæskuverk af ýmsum toga. Í kvikmynd dagsins fáum við að kynnast forsögunni. Við sjáum hvernig þeir hafa verið hluti af sögu lífs á jörðu frá upphafi og hafa alla tíð þjónað sterkasta leiðtoganum. Jafnan þeim sem er verstur allra. Kannski er það líka háttur heimsins að upphefja þann sem valdið hefur.

    *

    Morgunlestur þessa miðvikudags (Róm 13.8-10) fjallar einnig um samband fylgjenda og leiðtoga. Við lesum:

    „Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.“

    Jesús kallar okkur til fylgis við sig. En ekki þó til að vera gagnrýnislausir skósveinar heldur til að beita huga og hjarta í þágu hins góða. Til uppbyggingar. Til að elska náungann. Það er hið sanna og eina lögmál sem okkur ber öllum að fylgja. Guð gefi okkur styrk sinn til þess og Guð gefi okkur einnig gleði skósveinanna hans Grú í þeirri þjónustu.

  • Aulinn, björninn, Jesús og þú

    Hvað eiga Grú í Aulinn ég, Paddington í samnefndri kvikmynd, Jesús í Markúsarguðspjalli og við sem erum kristin sameiginlegt? Eitt svar er að finna í prédikun dagsins í Bústaðakirkju:

    Manstu eftir aulanum? Hann vildi vera bestur og mestur í allri veröldinni? Af því hann var þrjótur þá vildi hann vera sá mesti meðal þrjóta. Mesti vondi-kallinn. Hann ákvað því að stela tunglinu. Til að ná markmiðinu þurfti hann á börnum að halda svo hann tók að sér þrjár munaðarlausar stelpur. En þetta gekk ekki alveg upp því þegar þær komu inn í lífið hans tóku þau yfir og hann breyttist. Það kom í ljós að inn við beinið var þrjóturinn bara allt í lagi.

    Lesið og hlustið á Trú.is.

  • Gleðidagur 24: Í upphafi

    Íslandsvinurinn Russel Crowe leikur Nóa í samnefndri kvikmynd sem Darren Aronofsky leikstýrði og tók upp að hluta til á Íslandi. Eitt magnaðasta atriðið í myndinni er frásögn í máli og myndum af sköpun heimsins. Hún byggir á sköpunarsögunni (og sögunni af fallinu) í fyrstu köflum fyrstu Mósebókar og það er hægt að sjá hana á YouTube.

    Á tuttugasta og fjórða gleðidegi fögnum við sköpuninni sem springur út þessa dagana og þökkum fyrir frásagnameistara eins og Aronofsky sem færa þekktar sögur í nýjan búning.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Kubbað á hvíta tjaldinu

    Nema þér verðið eins og börnin sagði Jesús eitt sinn og hvatti til þess að við tækjum börnin okkur til fyrirmyndar. Í hverri skírnarathöfn lesum við svo um afstöðu hans til barnanna: Hann átaldi lærisveina sína fyrir að hleypa börnunum ekki að sér, tók þau sér í faðm og blessaði þau. Jesús vissi nefnilega hvað býr í börnunum: óendanlegir möguleikar, vonin í sinni tærustu mynd.

    *

    Ég fór í bíó með yngstu dótturinni í dag. Við sáum barnamyndina um Legókallana. Þetta er að sumu leyti dæmigerð saga um baráttu góðs og ills. Hópur góðra legókalla þarf að kljást við illan harðstjóra sem gín yfir öllu. Hann vill steypa alla í sama mót – vill að þeir fylgi leiðbeiningum og ber niður allt sjálfstæði og frumkvæði. Hann er kassa-legó-meistarinn. Hið endanlega markmið hans er svo að líma allan heiminn saman – svo enginn skemmi það sem hann hefur skapað. (more…)

  • Íslensk heimsslit

    Christmess er íslensk heimsslitastuttmynd sem gerist á jólum. Hún er gerð af Frosta Jóni Runólfssyni og er sýnd í Sjónvarpi Mbl. Hrós til Mbl og Kvikmyndaskólans fyrir þetta góða framtak.