Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Tjáningarfrelsið og trúin

    Rúv greinir í dag frá breytingum á norskri refsilöggjöf sem voru samþykktar í gær:

    Norðmenn geta frá og með deginum í dag lastað hverja þá guði og gyðjur sem þeim sýnist án þess að eiga yfir höfði sér ákærur eða refsingar af hálfu hins opinbera. Í gær samþykkti norska stórþingið endanlega breytingar á refsilöggjöfinni sem fólu í sér að grein 142 var felld úr lögunum.

    Í gær birtist líka pistill eftir Sigurjón Árna Eyjólfsson sem fjallar um trúna og tjáningarfrelsið. Þar segir:

    Ég þarf því ekki að minna á að Jesús frá Nasaret var tekin að lífi fyrir guðlast. Það eitt ætti að nægja til að minna á að innri rök kristins trúarsamfélags styðja ytri kröfur nútímasamfélags um að ekki eigi að vera hömlur á tjáningarfrelsi um málefni og um trúmál eiga ekki að gilda aðrar reglur en um önnur samfélagsleg málefni. Það mætti orða þetta svo að skotleyfið er á skoðanir og hugmyndir en ekki á einstaklinga.

    Það er gott að hafa þetta í huga þegar rætt er um málefnið, fólkið og umræðuna.

  • Mótmæli í þremur liðum

    Bjarni Karlsson, prestur:

    Jón Gnarr er í mínum huga hellings mikill frelsari sem í argasta gríni og fúlustu alvöru hefur opnað augu margra fyrir því að það er í lagi að vera alls konar og að við græðum öll á fjölbreytileikanum. Þess vegna langar mig að mótmæla aðalatriðinu í grein hans „Guð er ekki til“ sem birtist hér á þessum vettvangi sl. laugardag.

    Mótmælendaprestur mótmælir fullyrðingum um trú og vísindi, heilbrigði og tjáningarfrelsi í stuttum pistli.

  • Skipulögð glæpastarfsemi, ekki trúarbrögð

    Ritstjórn Kjarnans:

    Mennirnir sem skutu blaðamenn Charlie Hebdo voru ekki sendiboðar trúarbragða eða hugmyndafræði, heldur stigu þeir með afgerandi hætti yfir línu réttarríkisins og gerðust sekir um hrikalegan siðlausan verknað samkvæmt okkar gildum og lögum. Þeir voru fjöldamorðingjar, studdir áfram af fólki sem heldur úti skipulagðri glæpastarfsemi. Ekki síst af þessum sökum, þá ættu þingmenn að tala varlega og færa umræðuna hér á landi, sem á rætur að rekja til hrikalegra glæpa úr í heimi, ekki beint inn á borð trúarbragðanna. Þar á hún ekki heima.

    Sammála. Þetta ættum við öll að hafa hugfast, ekki bara þingmennirnir sem ritstjórnin beinir orðum sínum til.

  • Tjáningarfrelsið og trúarkenningarnar

    Kirkjuþing og biskup Íslands lýstu í dag yfir stuðningi við frumvarp þingflokks Pírata um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana. Í greinargerð með málinu segir meðal annars:

    Í 125. gr. almennra hegningarlaga, er nú m.a lögð fangelsisrefsing við því að draga opinberlega dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags, sem er hér á landi. Biskup tekur undir þá skoðun [þingflokks] Pírata að lagaheimildir sem setja tjáningarfrelsinu skorður með þessum hætti standist ekki nútíma viðhorf til mannréttinda.

    Sammála.

  • Grimmdin, sorgin og ástandið

    Ólafur Páll Jónsson:

    Ef við viljum virkilega koma í veg fyrir fleiri voðaverk eins og þau sem framin voru í París á miðvikudag, svo ekki sé minnst á slátrunina í Nígeríu, þá verðum við að vinda ofan af stríðsmenningu samtímans og bregðast við fátækt og úrræðaleysi, bæði utan Vesturlanda og innan þeirra. Við verðum að gera okkur ljóst að lýðræði verður ekki komið á með stríði. Stríð elur ekki af sér lýðræði, það elur af sér meira stríð, meiri kúgun.

    Stríð elur af sér stríð, það er mergurinn málsins. Gott innlegg frá skýrum heimspekingi.

  • Tvö ákvæði

    Sigríður Guðmarsdóttir:

    Rétturinn til trúfrelsis er óendanlega mikilvægur réttur til tjáningar og lífssýnar. Ég vil geta farið í kirkju og tjáð mig opinberlega um trú mína og lífssýn án þess að sæta fjársektum, fangelsisvist eða ógnunum. En ég virði líka rétt annarra til að finnast lífsskoðanir mínar fáránlegar og að tjá þá skoðun með myndasögu og texta án þess að sæta fjársekt, fangelsisvist eða ógnunum.

    Já.