Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ósíuð aðventa 16: Bernskusögurnar snúa aftur

    Laust eftir miðnætti verður nýja Stjörnustríðskvikmyndin frumsýnd hér á landi. Forsala hefur gengið vel og fjöldi fólks á öllum aldri mun sjá myndina á morgun. Sagan af Loga geimgengli og fjölskyldu hans er stórsaga, goðsögn sem hreyfir við mörgum.

    Þetta er saga af baráttu góðs og ills sem er þó ekki svarthvít heldur full af litbrigðum. Áhorfandinn getur samsamað sig við persónur og íhugað hvernig væri að vera í sporum hetjanna, standa frammi fyrir freistingum og erfiðum ákvörðunum.

    Þannig má segja að Stjörnustríðssögurnar séu líkar sögunum af Jesú. Þær eru líka stórsögur sem fjalla um stóru spurningarnar í lífinu. Við óskum öllum sem ganga í barndóm í nótt góðrar skemmtunar og viljum líka deila með ykkur útfærslu munkanna í Unvirtuous Abbey á Stjörnustríðs-aðventukertunum fjórum.

  • Bæn fermingarbarnanna í Laugarneskirkju

    Viltu vera með samfélaginu okkar yfir jólin. Viltu styðja okkur í því að gera Ísland að kærleiksríku heimili fyrir alla sem þar eiga heima.  Amen.

    Á aðventukvöldinu í Laugarneskirkju voru fermingarbörnin í einu af aðalhlutverkunum. Þau gengu inn í kirkjuna með kertaljós, klædd í hvíta kyrtla, sungu. Nokkur þeirra stigu líka fram og báðu fyrir hönd safnaðarins. Þetta er ein af bænunum þeirra og við gerum hana að okkar bæn í dag.

  • Aðventuáskorun

    Jóhanna æskulýðsfulltrúi í Langholtskirkju hitti krakka úr Langholtskirkju á dögunum. Hún skoraði á þau og það er ástæða til að taka undir þessa áskorun:

    Þannig að nú ætla ég að koma með smá aðventu-áskor­un. Hvað segið þið um að við sam­ein­ust öll um að gera eitt góðverk heima fyr­ir áður en við för­um að sofa í kvöld? Það þarf ekki að vera risa­stórt eða taka lang­an tíma, það get­ur verið til dæm­is að fara úr með ruslið, ganga frá eft­ir kvöld­mat­inn eða gefa gamla fólk­inu óvænt gott faðmlag og koss á kinn.

  • Skólinn, kirkjan og aðventan – nokkrar vísanir

    Á þessari aðventu hefur verið mikið rætt um vettvangsferðir skólanna í landinu í kirkjurnar. Okkur langar að safna saman vísunum á efni sem hefur verið skrifað á einn stað, til að auðvelda yfirsýn og hjálpa okkur að skilja rökin sem eru notuð. Það mun því bætast við færsluna eftir því sem á líður.

    Pistlar

    Fréttir

    Ps. Í vísun felst engin afstaða til efnis pistlanna, þetta er bara tilraun til að ná utan um umræðuna. Lesandinn athugi það.

  • Hjólin og jólin

    Hurðakransinn 2014
    Hurðarkransinn í ár er öðruvísi og endurspeglar hjóla-lífsstíl fjölskyldunnar.

    Hurðarkransinn í ár er öðruvísi og endurspeglar breyttan lífsstíl fjölskyldunnar. Innblásturinn er sóttur til vina á Facebook sem deildu skemmtilegri mynd. Kristín föndraði og við njótum öll.

  • Jólastjarnan boðar sátt

    Jólastjörnur á Lúsíumarkaðinum í Berlín
    Jólastjörnur á Lúsíumarkaðinum í Berlín

    Eitt af uppáhaldsjólalögunum okkar er Jólastjarnan eftir Braga Valdimar Skúlason. Þar sækir hann í smiðju jólafrummyndanna um hlýju og öryggi, ljós í myrkri, börn og fjölskyldur. Jólastjörnunni sem boðar sátt og breiðir út hlýju, er sungið lof en líka er spurt hver huggi þann sem skærast skín. Við rákumst á þessar fallegu jólastjörnur á Lúsíumarkaði í Kulturbrauerei í Berlín á dögunum. Þær skína skært eins og jólaljósin fallegu á aðventunni á Íslandi.

  • Þegar skammdegið er mest

    Þegar skammdegið er mest
    kveiki ég aðventuljós og minnist

    jólanna sem nálgast …

    Jesú sem fæddist í Betlehem …

    boðskapar englanna um frið á jörð …

    stjörnunnar sem lýsir okkur til Jesú

    Megi ljós aðventunnar minna mig á ljós himnanna.

    Á öðrum sunnudegi í aðventu langar okkur að deila með þér þessari bæn úr Bænabók barnanna. Guð gefi þér góðan dag.

  • Aðventukransinn og þau sem vantar

    Fyrsta aðventukertið minnir á ástvinina sem eru ekki lengur með okkur. Við nemum staðar, nefnum nafnið þeirra, rifjum upp röddina þeirra, andlitið þeirra og allar minningarnar sem tengjast þeim og jólatímanum. Við tendrum ljós, felum þau Guði og þökkum fyrir það sem lífið þeirra gaf okkur.

    Aðventan og minningarnar, pistill á vef Laugarneskirkju.

  • Bráðum

    Aðventan kom með látum þetta árið, með óveðri og aflýstum aðventukvöldum. Lætin eru skemmtileg andstæða við innreið Jesú í Jerúsalem sem einkenndist öðru fremur af látleysi. Aðventan er tími eftirvæntinganna, nú hefst undirbúningurinn fyrir alvöru, nú hefst biðin og allt miðar að stundinni helgu þann tuttugusta og fjórða.

    Okkur finnst sálmurinn hans Arnar Arnarsonar sem er tónlistarstjóri Fríkirkjunnar í Hafnarfirði ná vel að fanga kjarna þess tíma sem aðventan er. Þess vegna viljum við deila honum á blogginu í dag.

    Þótt dauf sé dagsins skíma
    og dimma okkur hjá,
    við bíðum bjartra tíma
    því bráðum kemur sá
    sem ljós af ljósi gefur,
    nú lífið sigrað hefur!
    Við lofum hann Guðs son
    sem gefur trú og von.

    Við fögnum því við fáum
    að halda heilög jól.
    Hann kom frá himni háum
    og hann er lífsins sól.
    Herskarar engla´ og manna
    nú syngja „Hósíanna!“.
    Við lofum soninn þann
    sem boðar kærleikann.

    Okkur langar, á fyrsta mánudegi aðventunnar, að bera fyrir lesendur bloggsins spurningu. Hún er þessi: Hvaða vonir berð þú í brjósti á aðventunni? Þið megið svara hér á vefnum eða senda okkur línu á arni (hjá) p2.is.

    Takk fyrir að lesa.

  • Jafn gott og jólalögin

    Það er gaman að ganga um miðbæinn í Reykjavík árla dags eða þegar liðið er á daginn á aðventunni. Þá birtist ljóslifandi hugmyndaauðgi fólksins sem starfar í verslunum og hefur skreytt hús og glugga.

    Jólatré úr ljósi
    Ljósjólatré í verslun í miðbænum.

    Fallegar skreytingar lyfta hug í hæðir rétt eins og uppáhalds jólalög og sálmar gera. Ég fann þetta jólatré sem er gert úr gamaldags ljósaperum á Skólavörðustígnum. Þetta er bæði snjöll og falleg útfærsla.