Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ósíuð aðventa 22: Ljúfsár jól

    Stundum færðu fréttir sem eru góðar og dásamlegar og þú vilt að deila með þeim sem skipta þig mestu máli. Þú gerir það en kannski vantar einhvern. Það getur verið góður vinur, systkini, maki, foreldri, afi og amma – einhver sem skipti sköpum í lífinu þínu og er ekki lengur til staðar. Þá getur verið sárt að vera til í miðri gleðinni.

    Jólin eru tíminn þegar tilfinningar sem þessar geta komið yfir okkur af miklum krafti. Þau eru góður tími sem skiptir okkur máli. Þau eru tími fjölskyldunnar og við viljum eiga þau með fólkinu sem er okkur dýrmætt. Þegar einhver þeirra hefur kvatt þá getur þyrmt yfir okkur.

    Það er eðlilegt og verður líka hluti af jólunum. Þá er gott að staldra við, rifja upp og leyfa sér að hvíla í aðstæðunum.

    Guð gefi þér góð jól – með þeim sem þú elskar og með minningunum um þau sem þú hefur þurft að kveðja.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 21: Himneskt og jarðneskt

    Saga jólanna teflir saman því himneska og jarðneska. Í fegurð sinni og sannleika afhjúpar hún hvað heimurinn okkar getur verið á skjön við það fagra og sanna.

    Saga jólanna afhjúpar líka hvað oft er farið illa með fólk og hvað hin fátæku og valdalausu eru í sífellu kúguð og þeim haldið niðri. Hún afhjúpar hvað hervaldið er yfirþyrmandi í samhengi mannsævinnar.

    Ætli það sé ekki líka satt það ekki satt enn í dag?

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 20: Sagt til syndanna

    Jólasagan er aldrei sögð án þess að minna okkur á að barnið sem fæðist í Betlehem er sá sem gekk inn í aðstæður hinna fátæku og sjúku, þeirra sem samtíminn lítur á sem smælingja. Þau sem hafa orðið undir í gildismati umhverfisins. Þar er Jesús. Þess vegna syngur María móðir í lofsöngnum sem kenndur er við hana

    „…drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja.“

    Þetta er örugglega ástæðan fyrir því að á fjórða sunnudegi í aðventu íhugum við söguna um Jóhannes skírara – spámanninn og frænda Jesú sem stóð við ána Jórdan og þrumaði yfir lýðnum, sagði þeim bókstaflega til syndanna og brýndi fyrir þeim tengsl trúar og breytni.

    Ef þú átt tvo kyrtla gefðu þá annan þeim sem engan á! Ekki rukka of mikið ef þér er trúað fyrir því að innheimta gjöld, ekki trampa á náunga þínum og halda því fram að þú sért góð manneskja af því þú trúir á Guð!

    Eftir fjóra daga göngum við inn í jólin, helgi þeirra, frið og birtu. Við gerum það eftir að hafa hlustað á Jóhannes segja okkur til syndanna og íhugað að barnið í jötunni sem við fögnum með öllum ljósunum og öllum gjöfunum og allri gleðinni, mætir okkur fyrst og fremst í náunga okkar, þegar hann þarf á okkur að halda.

  • Ósíuð aðventa 19: Jólasaga fólks á flótta

    „Í Biblíunni lesum við hvernig við eigum að biðja, í dagblöðunum lesum við um að sem við ættum að biðja fyrir,“ sagði guðfræðingurinn Karl Barth á sínum tíma. Marcel Kuß og Ralf Peter Reimann tóku hann á orðinu þegar þeir settu upp vefinn Christmasstory.world. Þar er jólasögunni úr Biblíunni og stuttum myndbrotum sem sýna fólk á flótta teflt saman í stuttum myndböndum. Þannig verður sagan af Maríu, Jósef og Jesú áþreifanleg sem samtímasaga. Í dag langar okkur að deila með ykkur enska myndbandinu.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 18: Helgileikurinn

    Í gær fengu foreldrar barna í grunnskólanum okkar að njóta uppsetningar þeirra á árlegum helgileik. Þar gat að líta syngjandi englakór, vitringa, hirða, Jósef, Maríu og Jesúbarnið ásamt nokkrum englum og sögukonu. Þetta var tilkomumikið, fallegt og hátíðlegt.

    Helgileikurinn hefur verið settur upp í skólanum í áratugi. Handritið breytist ekki, sagan er sú sama og lögin sem eru sungin, en nýtt listafólk bætist í hópinn á hverju ári. Skólinn er vettvangur þeirra til að rækta hæfileika sína og leyfa öðrum að njóta þeirra.

    Hefðir skipta máli. Helgileikurinn í skólanum gott dæmi um hefð sem hefur lifað gegnum árin, skapað samkennd og tilfinningu fyrir því að við séum hluti af einhverju stærra.

    Það er líka boðskapur aðventunnar.

    #ósíuðaðventa

     

  • Ósíuð aðventa 17: Jólaskraut í glugga

    Það er gaman að ganga um miðbæinn í Reykjavík á aðventunni, einkum árla dags eða þegar skyggja tekur. Þá er hægt að njóta skapandi skreytinga fólksins sem starfar í verslunum í bænum. Fallegar skreytingar veita innblástur og geta glatt hugann, rétt eins og uppáhalds jólalög og sálmar gera. Við þurfum bara að opna augun og njóta.

    Það er sérstaklega gaman að sjá jólaskraut sem er unnið úr gömlu og notuðu efni, eða efni sem hægt er að nýta aftur í öðrum tilgangi. Meira að segja gamlar hjólagjörðir og alls kyns hró fá á sig jólablæ með grænum greinum og ljósaseríum.

    Það er áskorun á þessari aðventu að styðja frekar við sjálfbærni og endurnýtingu heldur en aukinn innflutning á fjöldaframleiddu dóti sem er flogið yfir hálfan hnöttinn og endar strax í ruslinu. Hvað finnst þér?

    #ósíuðaðventa

     

  • Ósíuð aðventa 16: Bernskusögurnar snúa aftur

    Laust eftir miðnætti verður nýja Stjörnustríðskvikmyndin frumsýnd hér á landi. Forsala hefur gengið vel og fjöldi fólks á öllum aldri mun sjá myndina á morgun. Sagan af Loga geimgengli og fjölskyldu hans er stórsaga, goðsögn sem hreyfir við mörgum.

    Þetta er saga af baráttu góðs og ills sem er þó ekki svarthvít heldur full af litbrigðum. Áhorfandinn getur samsamað sig við persónur og íhugað hvernig væri að vera í sporum hetjanna, standa frammi fyrir freistingum og erfiðum ákvörðunum.

    Þannig má segja að Stjörnustríðssögurnar séu líkar sögunum af Jesú. Þær eru líka stórsögur sem fjalla um stóru spurningarnar í lífinu. Við óskum öllum sem ganga í barndóm í nótt góðrar skemmtunar og viljum líka deila með ykkur útfærslu munkanna í Unvirtuous Abbey á Stjörnustríðs-aðventukertunum fjórum.

  • Ósíuð aðventa 15: Þeir skilja sem vilja

    Í morgun hlustuðum við á veðurfræðinginn Martin Hensch í útvarpinu. Hann er frá Þýskalandi, hefur búið hér á landi frá 2009 og starfað á Veðurstofunni frá 2012. Stundum les Martin veðurfregnir í útvarpinu, hann gerir það á góðri íslensku en talar með hreim.

    Sumir hafa gagnrýnt hann fyrir það. Við erum ósammála og erum þvert á móti þakklát fyrir að heyra röddina hans Martin á morgnana. Það minnir okkur á að við erum hluti af stærra samfélagi og að á Íslandi er alls konar fólk. Það gerir okkur líka þakklát því á öld fjölmenningarinnar er ekki sjálfgefið að allir sem setjast hér að læri íslensku.

    Við hugsum líka til hirðanna og vitringanna sem sem sóttu fjölskylduna í Betlehem heim og töluðu líklega með hreim eða allt annað tungumál en Jósef og María. En þeir voru velkomnir og við vonum að veðurfræðingurinn Martin finni sig líka velkominn .

    Svo tökum við undir með honum. Þeir skilja sem vilja.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 14: Von í myndum

    Aðventan er tími vonarinnar. Á vef tímaritsins The Atlantic var á dögunum deilt þrjátíu vonarmyndum sem sýna fólk í jákvæðum og uppbyggilegum aðstæðum og minna okkur á það góða í heiminum. Það er gott að skoða þær til að lyfta sér upp.

    Eitt af því sem vekur okkur von eru sumar- og vetrargöturnar í Reykjavík. Þeim er lokað hluta dagsins og þá eru gangandi og hjólandi vegfarendur settir í forgang. Það minnir okkur á að fólk skiptir meira máli en bílar og að umhverfið verður að fá forgang. Ekki bara á sumrin heldur líka á aðventunni.

    #ósíuðaðventa

     

     

  • Ósíuð aðventa 13: Ljós í myrkri

    Þrettándi desember er messudagur heilagrar Lúsíu. Hún birtist okkur fyrst og fremst í fallegum siðum sem rekja má til Svíþjóðar og breiðast kannski út um heiminn með verslunum IKEA. Í dag eru Lúsíuhátíðir haldnar víða í Svíþjóð og reyndar einnig hér á landi.

    Í kirkjuhefðinni er Lúsía verndardýrlingur blindra, veikra barna, bænda, vændiskvenna sem hafa snúið við blaðinu, glergerðarmanna, bílstjóra, hjúkrunarkvenna, klæðskera, vefara, ritara og fleiri.

    Lúsía er táknmynd fyrir reynslu margra kvenna sem hafa þurft að þola ákvarðanir annarra fyrir sína hönd. Hún bjó við heimilisofbeldi og mansal eins og kynsystur hennar um allan heim enn í dag. Ofbeldi gegn konum er svartur blettur á menningu okkar. Þess vegna er við hæfi að staldra við einmitt á dimmasta tíma ársins og horfast í augu við þær konur sem hafa lifað og dáið við kerfisbundna beitingu ofbeldis í skjóli fjölskyldutengsla eða hefða.

    Aðventan vísar til komu ljóssins í heiminn. Hún hefur þeim mun meiri áhrif eftir því sem myrkrið er meira. Hjúpuð myrkri blindu og valdbeitingar heldur Lúsía uppi ljósi vonarinnar sem nær til hinna kúguðu og gleymdu – einnig þessa jólaföstu.

    #ósíuðaðventa