Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Góðar móttökur

    „Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

    En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

    Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.“ (Lk 15.11-24)

    • • •

    Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Það er svo áhugavert að kynnast nýjum hliðum á fólki. Við upplifum stundum nýjar hliðar á fólki sem við þekkjum mjög vel. Og á okkur sjálfum. Og þá sjáum við fólk í alveg nýju ljósi. Þetta gerist t.d. þegar maður verður foreldri sjálfur, þá fer maður að meta foreldra sína á allt annan hátt en áður og kynnist þeim kannski alveg upp á nýtt.

    Lífið snýst svolítið um það að upplifa hluti sem maður þekkir upp á nýtt. Því aðstæður breytast og við breytumst. Í guðspjallinu um soninn sem fór að heiman fáum við að fylgjast með fólki í aðstæðum sem breytast og hvernig það hefur áhrif á líf þeirra sem þar koma við sögu. Sagan byrjar á því að yngri sonurinn á heimilinu vill brjóta upp tilveruna eins og hún hefur verið hingað til. Hann vill út í heim til að meika það. Hvorki hann né faðir hans sem lætur þetta eftir honum, vissu hvernig honum ætti eftir að ganga í þessum nýju aðstæðum.

    Svo kemur á daginn að hann höndlar frelsið og sjálfstæðið ekkert mjög vel. Aðstæður hans breytast aftur og hann fer að líta á sig sem óverðugan og ómögulega manneskju. Þegar hann gengur í sig og snýr heim til að hitta föður sinn að nýju, býst hann ekki við öðru en að viðmótið heima fyrir verði í samræmi við það hvernig honum gekk að fóta sig í fjarlæga landinu. En svo er ekki. Ást föðurins til barnsins síns knýr hann til að fagna hinum týnda syni sem nú er fundinn og kominn heim. Kærleikurinn breytir erfiðum aðstæðum þar sem fólk er að kljást við sekt og byrðar, í fögnuð og gleði. Þessu hafði sonurinn týndi ekki búist við. Og þetta hefði hann ekki fengið að reyna nema vegna þess að hann fór og kom aftur.

    • • •

    Þessi dæmisaga Jesú skírskotar til reynslu okkar bæði af því að vera manneskjur í tengslum við aðrar manneskjur og til trúarlífs hvers og eins okkar. Hún sýnir kærleika í samskiptum sem er það eina sem getur bætt brotin tengsl og læknað sárin sem við völdum hvert öðru. Og hún sýnir okkur kærleika Guðs til barna sinna. Hún varpar ljósi á það hvernig Guð bregst við þegar nýjar aðstæður koma upp og kennir okkar að vænta nýrra hliða á Guði. Stundum erum við aðeins reiðubúin til að leita þess Guðs sem við þegar þekkjum en viljum síður leita þess Guðs sem við þekkjum ekki.

    Kannski göngum við um með kvíða yfir því að vera óverðug og ómögulegar manneskjur, og vitum ekki að Guð bíður okkar með kærleika sem breiðir yfir allt, trúir öllu og vonar allt.

    Sagan um týnda soninn sem snýr aftur heim brýnir fyrir okkur að leita leiða í samskiptum og samfélagi okkar sem hafa kærleikann að leiðarljósi. Það þurfum við alltaf að vera minnt á. Einmitt núna stöndum við sem elskum kirkjuna okkar og störfum við að útbreiða boðskapinn um Jesú Krist frammi fyrir því hvernig við getum sæst við þau sem boðskapurinn er ætlaður. Hvernig getum við boðið þau velkomin sem hafa farið að heiman og eru hrædd við að snúa við – af því að þau halda að það sé leiðinlegt og þvingandi í kirkjunni? Hvernig getum við látið þeim líða vel þegar þau koma til kirkju, þannig að þau finni sig og upplifi að það sé talað til þeirra?

    Því Guð sem þau þekkja ekki, bíður þeirra þar með kærleika sinn sem þau vænta ekki.

    Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

  • Sögur úr lífi nokkurra kvenna

    Og María sagði:

    Önd mín miklar Drottin,
    og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
    Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
    héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
    Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört,
    og heilagt er nafn hans.
    Miskunn hans við þá, er óttast hann,
    varir frá kyni til kyns.
    Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
    og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
    Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
    og upp hafið smælingja,
    hungraða hefur hann fyllt gæðum,
    en látið ríka tómhenta frá sér fara.
    Hann hefur minnst miskunnar sinnar
    og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
    eins og hann talaði til feðra vorra,við Abraham og niðja hans ævinlega.

    En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín. Lúk 1.46-56

    Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

    Munið þið eftir forsíðu á Morgunblaðinu í þessari viku, þar sem var mynd af konu með lítið barn? Barnið var nýfætt og það og móðir þess voru í flóttamannabúðum, þangað sem þau voru nýkomin. Barnið fæddist ekki þar, það fæddist í Bagdað, þar sem fjölskyldan átti heima. Þegar það fæddist dundu yfir loftárásir og sprengjuregn og því var ekkert ráð annað fyrir konuna og nýfædda barnið að hrekjast af heimilinu sínu og fara á flótta.

    Það hefur oft verið bent á það að á meðan konur og börn koma með engum hætti að þeim ákvörðunum sem leiða til stríðsátaka, þá séu það einmitt konur og börn sem verða harðast úti þar sem stríð geisa. Líf þeirra er fullkomlega sett úr skorðum, þeirra daglegu bjargir eru bannaðar og þau hafa engar leiðir til að verja hendur sínar. Þannig hefur þetta alltaf verið og þannig er það í stríðinu sem nú geisar í Írak, eins og myndin af nýfædda barninu og móður þess minnir okkur á. Og það er ekkert sem er eins sláandi tákn um það raskt og ófrið sem fylgir stríðsátökum og nýfætt barn á hrakningi. Þessi magnaða stund þegar barn kemur í heiminn, umvafið elsku og umhyggju foreldra sinna, og dregur að sér í fyrsta sinn anda lífsins sem Guð hefur gefið því. Í huga okkar eru fyrstu dagar í lífi barns nánast heilagir, við tiplum á tánum í kringum barnið nýfædda og móður þess – ljósin eru dempuð og allir hvísla til að raska ekki þeirri ró og kyrrð sem ríkir þar sem nýfædd börn eru. Þetta er eins ólíkt þeim veruleika sem blasir við mæðrum og nýfæddum börnum í stíði, eins og vera má.

    Annað hefur verið bent á og það er hvað röddum kvenna hefur verið lítill gaumur gefinn og reynslu þeirra lítil athygli sýnd í gegnum tíðina. Þetta gildir reyndar bæði um stríðs- og friðartíma. Mannkynssagan hefur verið einmitt það – saga mannsins, karlsins í heiminum. Við þurfum ekkert að vera voða gagnrýnin til að sjá að það hlýtur að vera eitthvað bogið við hlutfall karla og kvenna í sögubókunum. Á meðan ótal karlkyns skáld, stjórnmálaleiðtogar, trúmenn og vísindafrömuðir eru leiddir fram, er allt annar og minni gaumur gefinn að lífi og reynslu kvenna. Hvernig stendur á því? Er ekki einmitt ástæðan fyrir því sú að konur létu ekki til sína taka á ofangreindum sviðum og því ekkert sérstakt að segja frá? Sumir segja það. En er ekki hin raunverulega ástæða fyrir því hvað reynslu kvenna hefur lítið verið sinnt sú, að þær hafa sinnt verkum og stöðum sem aðrir hafa álitið ekki eins mikils virði og það sem karlarnir fengust við.

    Að eignast börn, ala þau upp, sinna heimili, elda mat, laga klæði, hjúkra veikum og hlynna að öldruðum. Þetta eru þau verk sem konum hafa fallið í skaut, á þessum vettvangi hefur saga þeirra átt sér stað, þar hafa gleði þeirra og sorgir ríkt, sigrar unnist og orustur tapast. Fréttaritararnir voru bara uppteknir annarsstaðar, við að skrifa hjá sér það sem karlarnir sögðu og gerðu.

    Á þessu eru þó ánægjulegar undantekningar og þær eru mjög dýrmætar. Textar sunnudagsins í dag, þegar við minnumst þess þegar Maríu voru borin boðin um að hún myndi eignast son og hann skyldi heita Jesú, eru magnaðir minnisvarðar um sterkar konur sem í trausti til Guðs síns tókust á við aðstæður sínar og það hlutverk sem þeim var ætlað.

    Lofsöngur Maríu, sem í hefðinni heitir Magnificat, eftir latneska upphafinu, er fyrir margra hluta sakir afar merkilegur. Maríu er lagður hann í munn, eftir að hafa hlýtt á boð engilsins Gabríels um að hún hafi verið valin til að bera son Guðs í heiminn. Í lofsöngnum kemur fram skýr guðfræði sem gengur út á að Guð tekur sér stöðu með hinum veiku og smáðu í heiminum en ekki með hinum ríku og valdamiklu.

    „Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
    og upp hafið smælingja,
    hungraða hefur hann fyllt gæðum,
    en látið ríka tómhenta frá sér fara.“

    Og Guð hefur í Maríu, ungri, fátækri, valdalausri konu, séð verkfæri fyrir vilja sinn og ætlað henni hlutverk sem tekur öllum öðrum fram, að vera móðir Guðs í heiminum.

    Hin konan sem talar í lexíu dagsins er ekki eins þekkt og María. En saga hennar er líka merkileg og ljóðið sem hún mælir fram er jafnframt vitnisburður um trú og traust hennar til Guðs, og um Guð sem “reisir hinn lítilmótlega úr duftinu, lyftir hinum snauða upp úr skarninu”. Þarna koma sömu þemun fram og í lofsöng Maríu, að Guð lítur ekki á ytri umbúnað ríkidæmis og valds heldur á hjartalag og trúmennsku. Guð gerir ekki upp á milli ríkra og fátækra, karla og kvenna, eða þeirra sem við teljum vera voða merkileg og þeirra sem okkur finnst vera afskaplega ófín.

    Sagan hennar Hönnu er einmitt svona saga sem hefði ekki ratað inn í Mannkynssögubækurnar – af því að hún væri ekkert merkileg. En hún er merkileg fyrir þær sakir að hún greinir frá mannlegu lífi með öllum flækjunum og draumunum sem við upplifum á vegferð okkar.

    Draumur Hönnu var að eignast barn. En hún átti ekkert barn. Það olli henni miklum sársauka. Barnleysið gerði í sífellu vart við sig, í daglegu lífi og á hátíðum var Hanna stöðugt minnt á að hún var ekki eins og hinir, því hún átti ekkert barn. Hún átti góðan mann sem hugsaði vel um hana. Hann reyndi margt til að hugga hana í barnleysinu en tókst ekki alltaf vel upp, eins og hendir suma þegar þeir ætla að vera nærgætnir en tekst það ekki alveg. “Hanna, hví grætur þú og hví neytir þú ekki matar og hví liggur svo illa á þér? Er ég þér ekki betri en tíu synir?” sagði karlinn þegar hann vildi hressa hana við.

    En kraftaverkið gerðist og Guð bænheyrði Hönnu og gaf henni barn, sem hún nefndi Samúel sem þýðir á hebresku “Guð hefur bænheyrt”.

    Þriðju konunni kynnumst við í textum dagsins í dag, þótt ekki fari mikið fyrir henni. Það er Elísabet, frændkona Maríu, sem María dvaldist hjá í þrjá mánuði á meðan meðgöngunni stóð. Elísabet hafði líka glímt við barnleysið, eins og Hanna. Og hún var orðin ansi vondauf um að nokkur breyting yrði á því, þar sem hún var að komast af þeim aldri sem konur geta eignast börn. En Elísabet fékk líka að njóta náðar Guðs og fékk draum sinn uppfylltan. Hún gekk með barn undir belti tímann sem María var hjá henni, og það barn hlaut nafnið Jóhannes og átti eftir að gegna hlutverki í lífi Jesú, sonar Maríu.

    Sögurnar þeirra Maríu, Hönnu og Elísabetar, sýna okkur að í augum Guðs er líf og reynsla kvenna dýrmæt og þess virði að segja frá. Sögurnar þeirra miðla ekki bara draumum þeirra og þrám, vandræðum og átökum, heldur líka djúpum og næmum skilningi á gildum lífsins og erindi Guðs í heiminum. Þær vitna um skarpa sýn á eðli mannlífsins og átökin sem eiga sér stað í mannlegum samskiptum og sambúð. Í gegnum þessar konur og tjáningu trúar þeirra, getum við betur en ella upplifað og skilið ástina sem Guð ber til barnanna sinna í heiminum og sérstakleg þeirra sem hafa verið niðurlægð og borið skarðan hlut frá borði.

    Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

    Flutt í Víðistaðakirkju á boðunardegi Maríu. Ritningarlestrar 1.Sam 2.1-10; Róm 8.38-39; Lúk 1.46-56.

  • Stefnumótun með Markúsi

    Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum. Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti. Þeir skyldu hafa skó á fótum, en ekki tvo kyrtla. Og hann sagði við þá: Hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju. En hvar sem ekki er tekið við yður né á yður hlýtt, þaðan skuluð þér fara og hrista dustið af fótum yðar þeim til vitnisburðar. Þeir lögðu af stað og prédikuðu, að menn skyldu gjöra iðrun, ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá. Mark. 6:7-13

    Í þessum knappa texta kemur ansi margt fram um kirkjuna og erindi hennar í heiminum. Þetta er stefnumótunartexti. Jesús leggur lærisveinum sínum línurnar og segir þeim hvað þeir eiga að gera og hvað þeir eiga að segja. Og hvað þeir þurfi til ferðarinnar. Þeir þurfa skó á fætur og staf. Hvað ætli þeir eigi að gera við stafinn? Styðja sig á göngunni? Halla sér að honum þegar þeir finna fyrir þreytu og mótlæti? Verja sig gagnvart aðsteðjandi ógnum?

    Og þeir eiga að fara tveir og tveir. Aldrei einir. Því ein megnum við svo lítið. Ein getum við ekki myndað það samfélag sem við erum sköpuð til, ein getum við ekki reifað og rætt hugmyndir okkar, áhyggjur og drauma. Þess vegna sendir Jesús lærisveinana tvo og tvo til að prédika að menn skyldu gjöra iðrun. Það er erindi kirkjunnar. Að segja fólki að snúa við af þeim vegi sem leiðir okkur frá lífinu og kærleika Guðs. Að segja fólki að snúa sér til Guðs og varpa af sér fjötrum sem hindra okkur í að elska. Og að styðja það á þeirri leið.

    En það er ekki alls staðar tekið við orði Guðs. Sum eyru eru lokuð og sum hjörtu eru samanherpt. Sumstaðar hefur vald byggt á peningum og vopnum leitt menn svo langt frá Guði að þeir sjá ekki lengur að það er rangt að meiða og drepa, niðurlægja og þvinga. Við gætum haldið að við ættum því sérstaklega að beina kröftum okkar þangað sem þannig er háttað. En Jesús segir lærisveinum sínum að þar sem sé ekki tekið við þeim eða á þá hlýtt, þaðan skuli þeir fara og hrista dustið af fótum sér þeim til vitnisburðar.

    Hvað þýðir þetta í stefnumótunarumræðu kirkjunnar? Við vitum hvert við eigum að fara, við vitum hver sendir okkur, hvað við eigum að taka með okkur og með hverjum við eigum að fara. Okkur er því ekkert að vanbúnaði til að fara héðan í dag og vera kirkja. Kirkja sem er send af Honum til að leiða fólk til samfélags við hvert annað í Honum. Guð gefi okkur til þess náð sína. Amen.