Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 12: Skrifstofan á svölunum

    Vorið er komið í Genf og sumarið á Íslandi. Á sólardögum er því hægt að flytja heimaskrifstofuna út á svalir, njóta blíðunnar og ferska loftsins.

    Á tólfta gleðidegi þökkum við fyrir fuglana sem syngja gleðisöng á morgnana og fyrir hlýja eftirmiðdaga sem leyfa útvinnu skrifstofufólks.

    Ps. Nokkur hollráð um heimavinnu.

  • Gleðidagur 11: Götur fyrir gangandi og hjólandi í Mílanó

    Á dögunum var sagt frá metnaðarfullri áætlun um aukningu hjólreiða og minnkun mengunar í Mílanó. Hámarkshraði verður lækkaður í borginni og 35 kílómetrum af borgargötum verður breytt í hjólagötur með minna plássi fyrir einkabílinn og meira plássi fyrir fólk á göngu eða hjóli.

    Þetta eru góðar fréttir á gleðidögum. Borgargötur mega hafa fólk í fókus frekar en bíla.

  • Gleðidagur 10: Ef þú finnur eitthvað sem betur mætti fara

    Þegar við vorum ung var Encyclopaedia Britannica þekktasta alfræðibókin. Fyrsta útgáfa hennar kom út í Edinborg á síðari hluta 18. aldar. Hún spannaði þrjú bindi. Nýjasta útgáfan kom út árið 2010 og er þrjátíu og tvö bindi.

    Í bókinni Everything is Miscellaneous ber heimspekingurinn David Weinberger Britannicu saman við Wikipediu sem hefur nú tekið við sem þekktasta “alfræðibókin.” Rannsóknir hafa sýnt að í þeim er að finna álíka margar villur – þær eru með öðrum orðum álíka áreiðanlegar.

    Þó er einn grundvallarmunur á: Greinar í Britannicu eru vottaðar af höfundum sem leggja nafn sitt við þær. Flestir höfundar eru virtir sem sérfræðingar á sínu sviði. Skilaboðin eru: Treystu okkur. Greinar í Wikipediu eru ekki vottaðar með sama hætti og skilaboðin eru önnur: Notaðu okkur og ef þú finnur eitthvað sem mætti betur fara þá máttu gjarnan bæta úr.

    Á þessu er grundvallarmunur. Wikipediu-sjálfboðaliðarnir hafa líka lagt mikið af mörkum til baráttunnar gegn falsfréttum og rangfærslum.

    Á tíunda gleðidegi viljum við þakka fyrir Wikipediu og sjálfboðaliðana.

  • Gleðidagur 9: Brýnin

    Eins og fólk um veröld víða fylgdumst við með listafólki og læknum og leiðtogum sem komu fram í One World: Together um helgina.

    Að öðrum ólöstuðum þá stóðu gömlu brýnin í Rolling Stones upp úr. Frábært lag. Vel flutt.

  • Gleðidagur 8: Spartanskt

    Haustið 2019 tókum við þátt í Spörtuhlaupi með vinum okkar. Það var allra besta fjölskylduskemmtun með hæfilegum skammti af líkamlegri áreynslu.

    Þegar boð barst um að taka þátt í Spörtuhlaupi heima nú um helgina stukkum við til. Með hundruðum – eða kannski þúsundum – um allan heim gerðum við æfingarnar okkar á hlaupabraut við hverfisskólann: armbeygjur, handstöður, skriðæfingar og sitthvað fleira voru góð tilbreyting í kvíalífinu.

  • Gleðidagur 7: Skjásýn

    Skjásýn — Visions du Réel — er árleg kvikmyndahátíð sem er haldin í bænum Nyon við Genfarvatn. Þar eru heimildarmyndir í fókus og alltaf eitthvað áhugavert á dagskrá.

    Nú er samkomubann og öll bíóhús lokuð. Í stað þess að aflýsa hátíðinni brugðu aðstandendur á það ráð að sýna myndirnar á vefnum. Án endurgjalds.

    Kvikmyndahátíðir eru alla jafna frábær vettvangur til að sækja sér innblástur. Að geta notið þessarar heima eru góðar fréttir á sjöunda gleðidegi.

  • Gleðidagur 5: Kartöflur, fiskur, laukur

    Á fimmta gleðidegi viljum við deila með ykkur þessari stuttu heimildarmynd um hvernig á að búa til plokkfisk. Ástæðan er einföld: plokkfiskur er góður og hollur. Njótið.

  • Gleðidagur 4: Vigdís

    Vigdís forseti er níræð í dag. Þegar við vorum að alast upp var hún kjörin forseti Íslands og varð þar með fyrst kvenna í heiminum til að gegna embætti þjóðkjörins þjóðarleiðtoga. Hún lagði rækt við íslenska tungu og var jafnframt ötull talsmaður þess að læra erlend tungumál. Fyrir það og allt hennar starf viljum við þakka.

    Þess vegna segjum við á ólíkum tungumálum:

    Takk,
    merci,
    grazie,
    gracias,
    thank you,
    danke,
    salamat,
    tak,
    terima kasih Vigdís.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 3: Sæluboð á tíma farsóttarinnar

    Sæluboðin í Matteusarguðspjalli eru meðal þekktustu texta Biblíunnar. Þau hafa oft verið heimfærð upp á samtímann. Á dögunum skrifaði Jayne Manfredi út sæluboð á tíma farsóttarinnar. Á meðal þeirra eru:

    Sæl eru þau sem halda sig heima, því þau hafa verndað aðra.

    Sæl eru þau sem reka hverfisbúðir, því þar má fá það sem skortir í öðrum búðum.

    Sæl eru þau sem bera út póst og pakka, því þau færa nauðsynjar.

    Sæl eru þau sem starfa á sjúkrahúsum, sem aka sjúkrabílum, læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, starfsfólkið sem þrífur, því þau standa vörð um okkur og Himnaríki er sannarlega þeirra.

    Dave Walker sem heldur úti vefnum CartoonChurch teiknaði þessa myndskreytingu á sæluboðunum.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 2: Það sem er fallegt

    Kurzgesagt myndböndin eru í uppáhaldi hjá okkur og krökkunum okkar. Stuttar og hnitmiðaðar útskýringar á öllu milli himins og jarðar (bókstaflega því myndböndin fjalla bæði um jörðina og himingeiminn).

    Eitt myndbandið fjallar um fegurðina og hvers vegna það sem er fallegt höfðar til okkar og gerir okkur glöð: Fegurð og merking eða kannski gagnsemi upplýsinga haldast í hendur.

    Horfið á myndbandið og njótið svo fegurðarinnar í ykkar eigin hversdegi. Inni eða úti eftir því sem aðstæður leyfa.

    Kurzgesagt um fegurðina

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.