Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 15: Göngutúrar

    Við elskum að ganga. Það gerir líka göngugarpurinn Craig Mod. Hann skrifaði ritgerð um nýlega göngu í Japan. Þetta er ekki stutt lesning en mjög áhugaverð og þess virði að lesa.

    Á fimmtanda gleðidegi þökkum við fyrir daga á göngu.

  • Gleðidagur 14: Heimavistin og bilið

    Við erum nú á sjöttu eða kannski sjöundu viku heimavistarinnar. Reglan og hvatningin er sú að halda tveggja metra bili milli fólks – nema auðvitað fjölskyldumeðlima.

    Jaboc, Jonas og Ivan Cash settu saman stuttmynd sem sýnir hvernig fólk í þrjátíu löndum iðkar þetta. Njótið þess á fjórtánda gleðidegi.

  • Gleðidagur 13: Syngjandi biskup

    Susan Johnson er höfuðbiskup lúthersku kirkjunnar í Kanada. Á tíma heimavinnu og einangrunar hefur hún deilt sálmi á dag með kirkjunni sinni. Syngjandi. Í dag þökkum við fyrir sálma og biskupa sem syngja.

  • Gleðidagur 12: Skrifstofan á svölunum

    Vorið er komið í Genf og sumarið á Íslandi. Á sólardögum er því hægt að flytja heimaskrifstofuna út á svalir, njóta blíðunnar og ferska loftsins.

    Á tólfta gleðidegi þökkum við fyrir fuglana sem syngja gleðisöng á morgnana og fyrir hlýja eftirmiðdaga sem leyfa útvinnu skrifstofufólks.

    Ps. Nokkur hollráð um heimavinnu.

  • Gleðidagur 11: Götur fyrir gangandi og hjólandi í Mílanó

    Á dögunum var sagt frá metnaðarfullri áætlun um aukningu hjólreiða og minnkun mengunar í Mílanó. Hámarkshraði verður lækkaður í borginni og 35 kílómetrum af borgargötum verður breytt í hjólagötur með minna plássi fyrir einkabílinn og meira plássi fyrir fólk á göngu eða hjóli.

    Þetta eru góðar fréttir á gleðidögum. Borgargötur mega hafa fólk í fókus frekar en bíla.

  • Gleðidagur 10: Ef þú finnur eitthvað sem betur mætti fara

    Þegar við vorum ung var Encyclopaedia Britannica þekktasta alfræðibókin. Fyrsta útgáfa hennar kom út í Edinborg á síðari hluta 18. aldar. Hún spannaði þrjú bindi. Nýjasta útgáfan kom út árið 2010 og er þrjátíu og tvö bindi.

    Í bókinni Everything is Miscellaneous ber heimspekingurinn David Weinberger Britannicu saman við Wikipediu sem hefur nú tekið við sem þekktasta “alfræðibókin.” Rannsóknir hafa sýnt að í þeim er að finna álíka margar villur – þær eru með öðrum orðum álíka áreiðanlegar.

    Þó er einn grundvallarmunur á: Greinar í Britannicu eru vottaðar af höfundum sem leggja nafn sitt við þær. Flestir höfundar eru virtir sem sérfræðingar á sínu sviði. Skilaboðin eru: Treystu okkur. Greinar í Wikipediu eru ekki vottaðar með sama hætti og skilaboðin eru önnur: Notaðu okkur og ef þú finnur eitthvað sem mætti betur fara þá máttu gjarnan bæta úr.

    Á þessu er grundvallarmunur. Wikipediu-sjálfboðaliðarnir hafa líka lagt mikið af mörkum til baráttunnar gegn falsfréttum og rangfærslum.

    Á tíunda gleðidegi viljum við þakka fyrir Wikipediu og sjálfboðaliðana.

  • Gleðidagur 9: Brýnin

    Eins og fólk um veröld víða fylgdumst við með listafólki og læknum og leiðtogum sem komu fram í One World: Together um helgina.

    Að öðrum ólöstuðum þá stóðu gömlu brýnin í Rolling Stones upp úr. Frábært lag. Vel flutt.

  • Gleðidagur 8: Spartanskt

    Haustið 2019 tókum við þátt í Spörtuhlaupi með vinum okkar. Það var allra besta fjölskylduskemmtun með hæfilegum skammti af líkamlegri áreynslu.

    Þegar boð barst um að taka þátt í Spörtuhlaupi heima nú um helgina stukkum við til. Með hundruðum – eða kannski þúsundum – um allan heim gerðum við æfingarnar okkar á hlaupabraut við hverfisskólann: armbeygjur, handstöður, skriðæfingar og sitthvað fleira voru góð tilbreyting í kvíalífinu.

  • Gleðidagur 7: Skjásýn

    Skjásýn — Visions du Réel — er árleg kvikmyndahátíð sem er haldin í bænum Nyon við Genfarvatn. Þar eru heimildarmyndir í fókus og alltaf eitthvað áhugavert á dagskrá.

    Nú er samkomubann og öll bíóhús lokuð. Í stað þess að aflýsa hátíðinni brugðu aðstandendur á það ráð að sýna myndirnar á vefnum. Án endurgjalds.

    Kvikmyndahátíðir eru alla jafna frábær vettvangur til að sækja sér innblástur. Að geta notið þessarar heima eru góðar fréttir á sjöunda gleðidegi.

  • Gleðidagur 6: Bækurnar í lífinu

    Á sjötta gleðidegi langar okkur að þakka fyrir bækurnar í lífinu og deila einni nýrri. Hún heitir The Way Under Our Feet og fjallar um gleðina sem helst felst í því að ganga. Hvort tveggja er uppáhalds iðja.

    Hvað ert þú að lesa núna? Hvar þykir þér skemmtilegt að ganga?