Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ferðalagið

    Í dag sendi Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, sem í daglegu tali er kölluð UNHCR, frá sér stuttmyndina The Journey. Hún sýnir á rúmri mínútu ferðalag flóttafólks, frá heimilinu sínu, í flóttamannabúðir, á Ólympíuleikana. Tilgangurinn er að vekja athygli á Team Refugees sem er lið Flóttamannahjálparinnar á komandi Ólympíuleikum.

    The Journey er stuttmynd um ferðalag fólks á flótta.

    Þetta er grípandi mynd.

    Ein þeirra sem nú undirbýr sig er Rose Lokonyen frá Suður Súdan. Hún er hlaupakona sem þurfti að yfirgefa heimalandið. Hennar heimili er nú í Kakuma flóttamannabúðunum í Kenya og þar starfaði hún meðal annars fyrir Lútherska heimssambandið.

  • Gleðidagur 24: Sumarþrumur

    Þegar við vorum lítil og lásum norrænu goðafræðina okkar fór mikið fyrir þrumuguðinum Þór. Sögurnar af honum eru krassandi. Eitt var þó snúið að skilja: þrumurnar sem Þór er kenndur við.

    Í Genf er þessu öfugt farið. Þar þekkja fáir þrumuguðinn og sögurnar norrænu, en þrumur og eldingar þekkja allir. Þrumuveðrið er fastur hluti af sumarupplifuninni á meginlandinu. Drunur í fjarska, sjónarspil á himni og hellidemban sem vætir jörð og fólk.

    Á tuttugasta og fjórða gleðidegi þökkum við fyrir náttúruna sem minnir á sig og sögurnar sem mannfólkið hefur sagt hvort öðru til að skýra og skilja.

  • Gleðidagur 23: Fjórði maí

    Fjórði maí er kær aðdáendum Stjörnustríðs. Í dag viljum við þakka fyrir stórsögurnar á hvíta tjaldinu. Þær hafa verið ungum og öldnum innblástur um baráttu góðs og ills, hetjur og andhetjur. Þær eru endalaus uppspretta fyrir samtöl og vangaveltur.

  • Gleðidagur 22: Heimavistarmatur

    Í heimavistinni er ástæða til að borða hollan mat. En stundum langar okkur í eitthvað annað. Eitthvað óhollt sem lyftir hug í hæðir og skapar vellíðan. Til dæmis samloku með hnetusmjöri og sultu. Hér er uppskrift.

    Hvað finnst þér gott að borða í heimavist?

  • Gleðidagur 21: Grænt

    Morgunstund gefur gull í mund segir máltækið. Hún gefur líka tækifæri til að upplifa morgunfegurðina þegar sólin rís.

    Þessar myndir voru teknar í morgun á göngutúr um nágrennið.

  • Gleðidagur 20: Peppaða prinsessan Poppy

    Bíómyndin um Tröllin er í miklu uppáhaldi hjá okkur. Peppaða prinsessan Poppy er skemmtileg kemst langt með jákvæðu viðhorfi til lífsins. Það sýnir meðfylgjandi myndbrot vel. Á tuttugasta gleðidegi þökkum við fyrir jákvæða fólkið í lífinu.

  • Gleðidagur 19: Frá sannleika til umhyggju

    Í heimavistinni eigum við meiri samskipti á netinu en áður. Á nítjánda gleðidegi langar okkur að deila með ykkur þremur spurningum sem allir ættu að spyrja sig áður en skrifað er á netið:

    1. Er þetta satt?
    2. Er þetta nauðsynlegt?
    3. Sýnir þetta umhyggju?

    Eins og Páll skrifaði: “Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp.” (1Kor 10:23)

  • Gleðidagur 18: Sjálfbærnimarkmiðin

    Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna geta verið rammi fyrir endurreisn og umbætur í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins.

    Það segja Nano Addo Dankwa Akufo-Addo, forseti Ghana, og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Þau sitja saman í forsæti einnar af nefndum SÞ um sjálfbærnimarkmiðin og skrifa í pistli sem birtist í dag:

    “Við höfum lært – sem íbúar heimsbyggðarinnar – hversu mikils virði það er að við gætum hvers annars, vinnum saman að því að enginn sé skilinn eftir, og forgangsröðum í þágu þeirra sem minnst mega sín.”

    Stundum er sagt að góður mælikvarði á samfélag sé hvernig það kemur fram við þau sem minnsta eiga undir sér. Það má heimfæra þann mælikvarða á heimsbyggðina.

    Á átjánda gleðidegi þökkum við fyrir sjálfbærnimarkmiðin og þau öll sem vinna að markmiðin eins og ekkert hungur, fullt jafnrétti og útrýming fátæktar verði að veruleika.

  • Gleðidagur 17: Sögustund með Michelle

    Á mánudögum les Michelle Obama barnabækur á rás PBS Kids á YouTube. Hún er í uppáhaldi og eins og lestur með börnum. Á sautjánda gleðidegi þökkum við fyrir Michelle og barnabækurnar.

    https://youtu.be/WyhgubvRYF4

  • Gleðidagur 16: Rigningin góða

    Það rigndi í dag, í fyrsta sinn í langan tíma. Skraufþurr jörðin tók vel við. Í 147. sálmi er fjallað um regnið sem gjöf frá Guði:

    Syngið Drottni þakkargjörð,

    leikið fyrir Guði vorum á gígju.

    Hann hylur himininn skýjum,

    sér jörðinni fyrir regni,

    lætur gras spretta á fjöllunum,

    gefur skepnunum fóður þeirra,

    hrafnsungunum þegar þeir krunka.

    Sálmur 147

    Á sextánda gleðidegi þökkum við fyrir náttúruna og regnið sem kemur með blessun að ofan.