Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ljós koma

    Jólin 2009

    Íslensku jólin snúast um komu ljóssins – í trúarlegum og náttúrulegum skilningi. Minningarbrot frá eldri kynslóðum sem iðulega eru dregin fram í kringum jólahátíðina í formi ljóða og frásagna gera þessu góð skil. Slíkar Slíkar minningar draga jólin iðulega fram sem hinn mikla ljósgerving – hvort sem er með stjörnum á miðsvetarhimni snæþakts lands eða í formi hógværs kertaljóss í barnshendi.

    kertaljós í bláum fjarska,
    bak við ár,
    æskuminning um fegurð.
    (Jón úr Vör)

    Íslensku jólin hafa líka alltaf komið þótt þröngt sé í búi. Fátæktin er oft bakgrunnur jólakomunnar og gleðin yfir komu ljóssins er tjáð á nægjusaman hátt:

    Man það fyrst, er sviptur allri sút
    sat ég barn með rauðan vasaklút.
    (Matthías Jochumsson)

    Íslendingar sem eru jafnvel ekki háaldraðir eiga minningar um hvernig jólin birtust í afar hógværum efnislegum táknum eins og rauðum eplum sem öllu jafna fengust ekki í verslunum hér á landi nema um jól. Ljós í myrkri og uppbrot á fátæklegum hversdegi í formi klæða eða epla eru því jólastefin sem berast til okkar frá íslenskri fjarlægri og nálægri fortíð.

    Þessi stef eiga rætur sínar í jólaguðspjallinu þar sem frummyndir um ljós, skjól, næringu og líf eru tjáðar í fæðingarfrásögninni í Betlehem. Ljósið á jólanótt brýst fram úr myrkrinu sem umlykur náttúru og mannlíf og staðfestir þörf manneskjunnar: að þiggja og veita ást og líkamlega umhyggju.

    Koma ljóssins með hækkandi sól og fæðingu frelsarans hittir okkur í hjartastað. Þess vegna eru jólin hátíð tilfinninga og bernsku, sama hvað á hvaða aldri við erum. Uppbrot á hversdeginum felst ekki í yfirdrifinni neyslu heldur fremur að hlúa að því sem stendur hjartanu næst: kærleikanum til barnsins í okkur sjálfum og náunga okkar.

    Jólin eru til að þiggja og gefa kærleika.

  • Það eru að koma jól

    Horfa, hlusta og lesa. Mikilvægt að láta bandið rúlla til enda.

    Gleðileg jól!

    P.S. Það má líka læka og deila ;-)

  • Vonin á jafn vel við

    Vonin um betri heim er alveg jafn sterk í janúar og í desember – og alla daga segir Hjálmar. Hann er tuttugasti og annar vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar.

  • Vonin elskar lífið

    Eva María minnir okkur á að kærleikurinn vonar allt. Að vona allt þýðir að trúa á að lífið haldi áfram – og að elska lífið.

    Eva er tuttugasti og fyrsti vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar.

  • Sá sem bakkar inn í framtíðina er ekki frjáls

    Ertu upptekinn af fortíðinni eða þorir þú að opna fyrir von, opna fyrir ljósi, opna fyrir lífi? Sigurður Árni Þórðarson er tuttugasti vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar.

  • Kók, lestir, tjáning og frelsi

    181220101168

    Undir kvöld var fjölskyldan á ferð í miðbænum og varð því vitni að því þegar kóklestin svokallaða hlykkjaðist niður Skólavörðustíg og Bankastræti. Þetta eru nokkrir vörubílar, kyrfilega merktir kóki og jólum, ljósum prýddir með amerískan jólasvein í framsætinu.

    Jólalest kókbílanna hefur undanfarin jól glatt borgarbúa. Hún viðheldur hugrenningatengslum milli jólatímans og kókakóla þeirra fjölmörgu sem ólust upp við hina ofur-rómantísku og fjölmenningarlegu jólaauglýsingu kók. I’d like to teach the world to sing.

    Nema hvað, á undan hæggengri kóklestinni í miðbænum í dag, höfðu nokkrir aðgerðarsinnar stillt sér upp með borða sem á stóð skýrum stöfum Kók er kúkur kapítalsins.

    Þessi stuðandi skilaboð blöstu við áhorfendum kóklestarinnar og sköpuðu sérstaka stemningu. Ungt fólk að þramma fyrir framan kóklestina með hugsunarvekjandi skilaboð um hið eiginlega erindi kóklestarinnar.

    Hér mætti í löngu máli ræða um kók sem jóladrykk, um kapitalisma sem stjórnmál eða um glamúrlegt jólahald neysluhyggjunnar.  En við viljum staldra við skilaboðin sem stungu okkur:

    Það er svona sem tjáningarfrelsið virkar. Sama hvað okkur finnst um kók sem drykk eða siðferðislegu lestina sem fylgja kók- og neysluvæddum jólum eða misvitur stjórnmálakerfi, þá má kóklestin aka um borgina – og hver sem er má mótmæla því.

    Í dag urðum við vitni að friðsamlegri andspyrnu þar sem sjónarmið um neyslu og stjórnmál, dygðir og lesti, komust til skila í ljósum prýddu skjóli hinna fagurrauðu kókbíla.

    Hér mættust lestir og frelsi.

  • Auðvitað getum við breytt heiminum

    Changemakers – Breytendur – eru kirkjulegir aðgerðarsinnar. Þetta er ungt fólk sem vill breyta heiminum til góðs. Þorsteinn Valdimarsson sem leiðir starf samtakanna á Íslandi segir að þótt enginn geti gert allt, geti allir gert eitthvað.

    Þorsteinn er átjándi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar.

  • Beðið eftir björgun

    Haukur Ingi er björgunarkall og trúmaður. Þess vegna er hann sautjándi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar. Hann virðir fyrir sér mikilvægi vonarinnar út frá sjónarhóli björgunarmannsins og þess sem bíður eftir björgun.  Hvað kennir það okkur?

  • Í vonarlandsins skóg

    Kristín Steinsdóttir rithöfundur er sextándi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar. Hún syngur lítið ljóð um vonina sem móðir hennar kenndi börnum sínum austur á Seyðisfirði.

  • Áhorfandi að undrum lífsins

    Svavar Knútur söngvaskáld er fimmtándi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar. Hann talar um möguleika morgundagsins  og eftirvæntinguna eftir því skrýtna og óvænta.