Árni og Kristín

Kók, lestir, tjáning og frelsi

181220101168

Undir kvöld var fjölskyldan á ferð í miðbænum og varð því vitni að því þegar kóklestin svokallaða hlykkjaðist niður Skólavörðustíg og Bankastræti. Þetta eru nokkrir vörubílar, kyrfilega merktir kóki og jólum, ljósum prýddir með amerískan jólasvein í framsætinu.

Jólalest kókbílanna hefur undanfarin jól glatt borgarbúa. Hún viðheldur hugrenningatengslum milli jólatímans og kókakóla þeirra fjölmörgu sem ólust upp við hina ofur-rómantísku og fjölmenningarlegu jólaauglýsingu kók. I’d like to teach the world to sing.

Nema hvað, á undan hæggengri kóklestinni í miðbænum í dag, höfðu nokkrir aðgerðarsinnar stillt sér upp með borða sem á stóð skýrum stöfum Kók er kúkur kapítalsins.

Þessi stuðandi skilaboð blöstu við áhorfendum kóklestarinnar og sköpuðu sérstaka stemningu. Ungt fólk að þramma fyrir framan kóklestina með hugsunarvekjandi skilaboð um hið eiginlega erindi kóklestarinnar.

Hér mætti í löngu máli ræða um kók sem jóladrykk, um kapitalisma sem stjórnmál eða um glamúrlegt jólahald neysluhyggjunnar.  En við viljum staldra við skilaboðin sem stungu okkur:

Það er svona sem tjáningarfrelsið virkar. Sama hvað okkur finnst um kók sem drykk eða siðferðislegu lestina sem fylgja kók- og neysluvæddum jólum eða misvitur stjórnmálakerfi, þá má kóklestin aka um borgina – og hver sem er má mótmæla því.

Í dag urðum við vitni að friðsamlegri andspyrnu þar sem sjónarmið um neyslu og stjórnmál, dygðir og lesti, komust til skila í ljósum prýddu skjóli hinna fagurrauðu kókbíla.

Hér mættust lestir og frelsi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may also enjoy…