Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Forgangsraðað af ástúð

    Dagar

    Við höldum upp á marga daga á hverju ári og höfum gert um aldir: afmælisdagana okkar og hátíðir af ýmsum toga. Fram að tíma siðbótarinnar á 16. öld voru dýrlingadagar líka mikilvægir hér á landi. Dýrlingarnir viku með siðbótinni og kirkjuárið varð minna áberandi þegar tuttugasta öldin hafði gengið í garð.

    Þjóðin átti samt sína daga og hélt í hátíðir. Við sjáum merki um þetta þegar Almanaki Háskóla Íslands er flett. Þar er hægt að fletta upp dagsetningum á næstum árum – fjögur ár fram í tímann og nokkrir dagar eru alltaf tilgreindir:

    • Bóndadagur
    • Páskadagur
    • Sumardagurinn fyrsti
    • Uppstigningardagur
    • Hvítasunnudagur
    • Fyrsti vetrardagur

    Þrír af þessum dögum eru kirkjulegir: Páskadagur, uppstigningardagur, hvítasunnudagur. Hér höfum við meira að segja tvær af stóru hátíðunum þremur. Sú þriðja er ekki talin upp af því að hún er alltaf á sama tíma. Annars væri hún á þessum lista. Þarna vantar líka svo þjóðardaga: þjóðhátíðardaginn 17. júní og fullveldisdaginn 1. desember.

    Það eru reyndar fleiri dagar sem haldið er á lofti í samtímanum. Ekki í Almanaki Háskóla Íslands en í öðrum almanökum. Þeir eru heimsdagar – dagar sem Sameinuðu þjóðirnar eða aðrar stofnanir sem starfa á heimsvísu hafa útnefnt til að setja ákveðin mál á dagskrá. Þessir dagar eru eiginlega veraldlegar útgáfur af dýrlingadögum kaþólsku kirkjunnar.

    Hvers vegna? Vegna þess að hver dýrlingur átti sitt verksvið. Og á degi dýrlingsins var hægt að minnast þess sem dýrlingurinn stóð fyrir og leggja áherslu á það sem hann gerði.

    Hverjir eru þá þessir heimsdagar?

    • 4. febrúar er Alþjóða krabbameinsdagurinn
    • 8. mars er Kvennadagurinn
    • 20. mars er Hamingjudagurinn
    • 2. apríl er Einhverfudagurinn
    • 22. apríl er umhverfisdagur, helgaður Móður jörð
    • 1. júní er dagur Foreldra
    • 20. júní er dagur flóttafólks
    • 12. ágúst er Dagur ungmenna
    • 8. september er Dagur læsis
    • 5. október – á morgun – er dagur kennara
    • 1. desember er AIDS dagurinn

    Dagarnir eru miklu fleiri en þessir – það er að minnsta kosti einn einn svona dagur á viku.

    Heimsmarkmiðin

    Vikan sem leið var líka helguð ákveðnu efni. Sameinuðu þjóðirnar buðu skólakrökkum um allan heim upp á fræðslu um sjálfbæra þróun. World’s largest lesson var yfirskriftin. Stærsta kennslustund í heimi. Og kannski var fjallað um mikilvægasta efnið líka!

    Tilefnið eru nýsamþykkt Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í þeim felst áætlun um sjálfbæra þróun sem miðar að því að útrýma fátækt í heiminum, stuðla að efnahagslegri velmegun, félagslegri þróun og vernd umhverfisins um allan heim. Alls eru heimsmarkmiðin sautján markmið í fimm meginflokkum og þau fjallað um fólkið fólk, plánetuna, velmegun, réttlæti og félagsskap ríkjanna á jörðinni.

    Hvers konar markmið eru þetta?

    • Útrýma fátækt
    • Vinna gegn loftslagsbreytingum
    • Draga úr ójöfnuði
    • Stuðla að friði
    • Sinna um hvert annað með þróunaraðstoð

    Þetta má orða með öðrum hætti: Við þurfum að minnka mengun, auka jafnræðið í heiminum og ekki bara fækka þeim sem búa við skort og hungur heldur útrýma slíku.

    Jesús horfði með ástúð

    Jesús sagði við unga manninn sem kom spyrjandi til hans:

    „Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“

    Já, já, ég kann þetta og passa upp á það eins og mér var kennt hefur ungi maðurinn kannski sagt. Og hvað þýðir það? Ætli það þýði ekki að gæta þess að koma ekki illa fram við aðra, níðast ekki á þeim.

    En það er bara ekki nóg segir Jesús sem horfir fallega á unga manninn – „með ástúð“ segir í guðspjallinu og bætir svo við:

    „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“

    Hvað á hann eiginlega við?
    Mig langar að segja tvennt um það.

    • Það fyrra er þetta: Jesús segir að við vinnum okkur ekki inn fyrir himnaríkisvistinni með því að gera góðverk. Markmiðið er semsagt ekki að verða besta manneskja í heiminum svo Guði líki betur við þig og segi af þeim sökum: Þú ert minn því þú ert svo góður.
    • Hið síðara er: Jesús gefur boðorðunum ákveðna fyllingu þegar hann segir að það sé nauðsynlegt að ganga lengra þegar honum er fylgt. Marteinn Lúther lagði þetta svona út í Fræðunum minni: Þú átt ekki aðeins að halda þig frá því að stela frá náunganum, þú átt að hjálpa honum að gæta eigna sinna. Og svo framvegis. Boðorðið snýst ekki aðeins um að hafa taumhald á sér heldur að gera gott fyrir náungann.

    Markmiðið er semsagt að verða besta útgáfan af þér af því að Guði líkar vel við þig og segir: Þú ert minn, þú ert mín, gerðu því gott.

    Þetta má orða með öðrum hætti: Treystu Guði, elskaðu náungann.

    Það er kjarninn.

    Okkar markmið

    Ég held að Heimsmarkmiðin snúist líka um þessa umhyggju fyrir öðrum – um náungakærleikann. Hvert land sem á aðild að Sameinuðu þjóðunum á að skuldbinda sig til að vinna að þessum markmiðum. Gera áætlun og bretta upp ermar og hefst handa. Hvort árangur næst kemur svo í ljós – eftir fimmtán ár.

    En kannski getum við líka tekið þetta til okkar. Skoðað hvað við getum gert í eigin ranni. Sett okkur heimamarkmið hér á okkar svæði – á Kjalarnesinu og í Kjósinni. Því þetta er ekki bara málefni ráðherranna og Alþingis. Þetta er málefnið okkar. Þetta snýst um lífið okkar og samfélagið okkar.

    Eitt sem við gætum til dæmis gert væri að taka upp umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar og fylgja Ljósaskrefinu sem er handbók handa söfnuðum eins og okkur sem vilja skilja eftir sig falleg spor og sýna umhverfinu virðingu.

    Dagur forgangsröðunarinnar

    Kæri söfnuður.
    Ég hóf þessa prédikun á að ræða um dagatal og heimsdaga. Dagurinn í dag heitir í kirkjunni Átjándi sunnudagur eftir Þrenningarhátíð – en það segir okkur lítið um inntak hans. Ef við vildum draga það saman þá mætti kalla hann Dag forgangsröðunarinnar því um það fjalla lestrarnir og einkum guðspjallið: Hvað á ég að gera spurði ungi maðurinn? Sinntu fólki og ekki bara sjálfum þér svaraði Jesú. Og þannig svarar hann okkur líka þegar við spyrjum hvað við eigum að gera.

    Um hvað snýst það?

    Forgangsröðun.
    Fyrir náungann – sem eru þau öll sem þurfa á okkur að halda.
    Fyrir samfélagið okkar.
    Það er að vera kristin manneskja.
    Því Guð vill trúna þína og náunginn þarf hendurnar þínar og hjartað.

  • Bara eins og þú ert

    Ég ætla að tala um þrennt við ykkur í dag: Jesús, frík og okkur.

    Frík

    Við byrjum á fríkinu.

    Þessa dagana er ég að lesa bók sem heitir „Hugsaðu eins og frík“. Hún er eftir hagfræðing og blaðamann sem hafa skrifað saman um það sem þeir kalla Freakonomics – Fríkuð hagfræði. Höfundarnir  hafa vakið athygli fyrir frumlega nálgun við ýmis verkefni og vandamál samfélagsins. Þetta er þriðja bókin sem þeir skrifa saman og hún fjallar um frík-aðferðina sem þeir hafa beitt í hinum bókunum tveimur. Markmiðið er að kenna lesandanum að hugsa á fríkaðan hátt.

    Þeir leggja línurnar fyrir þetta í öðrum kaflanum sem hefur yfirskriftina: „Orðin sem erfiðast er að segja á ensku.“

    Hver skyldu þau vera?

    Kannski eitthvað um ástina:

    • Ég elska þig.
    • Ég sakna þín.
    • Þú skiptir mig máli.

    Nei, það er ekki svo. Ástarjátningar flækjast ekki fyrir fólki. Erfiðu orðin – eða eiginlega erfiða setningin – er:

    „Ég veit það ekki.“

    Meginboðskapur kaflans er þessi: Þorðu að hafa rangt fyrir þér. Þorðu að viðurkenna það þegar þú veist eitthvað ekki.

    Mér finnst þetta áhugavert bæði fyrir samfélagið og kirkjuna.

    1. Þetta kallast á við þá hugsun í kristinni trú að við getum vaxið og þroskast en séum ekki fullkomin. Og að við höfum þörf fyrir annað fólk.
    2. Þetta kallast á við það hvernig við getum með samfélagið okkar. Við höfum ekki öll svörin á reiðum höndum sjálf. En við höfum góðan vilja, viljum gera vel, getum unnið saman og nýtt visku fjöldans.

    Skírnin

    Ég skírði barn í gær, fallega stúlku sem á framtíðina fyrir sér. Þegar börn eru borin til skírnar – eins og við vorum flest á unga aldri – er óhjákvæmilegt að hugsa um hvað kristið uppeldi felur í sér. Skírnin er jú eins konar yfirlýsing um það að við ætlum að ala barnið þannig upp.

    Og út á hvað gengur það? Ein leið til að nálgast það er sú að tala um mikilvægi þess að kenna börnunum bænir og lesa Biblíusögur og fara í kirkju. Og það er góðra gjalda vert. En kannski má líka horfa á þetta með öðrum hætti og segja að kristið uppeldi felist í því að foreldrar skírnarbarnsins komi tvennu til skila: annars vegar að barnið sé elskað, hins vegar að það eigi von.

    Ef okkur tekst að koma þessu áleiðis á þeim átján árum sem við höfum þannig að börnin okkar finni það á skinninu og í huganum og í hjartanu að þau eru elskuð og viti það alltaf að þau geta ekki lokast inni í erfiðum aðstæðum þá eiga þau bæði ást og von þá hefur uppeldið tekist vel.

    Svo þurfum við sem fullorðin erum líka að læra af börnunum. Á það minnti Jesús okkur þegar hann sagði að við þyrftum sjálf að verða eins og börn til að nálgast guðsríkið. Og hvað eiga börnin sem við fullorðna fólkið höfum stundum misst?

    Þau eiga til dæmis þetta traust sem Jesús kallar eftir hjá systrunum um við Mörtu og Maríu: trúir þú mér? Treystir þú mér? Og þau eiga líka traustið sem við lesum um í sálminum úr Gamla testamentinu þegar skáldið ákallar Guð í angistinni miðri.

    Stefnuyfirlýsing

    Gott og vel – rifjum upp:

    • Það er mikilvægt að geta sagt: Ég veit það ekki.
    • Kirkja og samfélag eru staðir þar sem við þroskumst saman.
    • Kristið uppeldi gengur meðal annars út á að miðla ást og von.

    Þetta má orða með öðrum hætti – á formi eins konar stefnuyfirlýsingar handa kirkju, til dæmis kirkjunnar okkar:

    Kirkjan er staður fyrir manneskjur.
    Þar sem þær koma eins og þær eru.
    Þurfa ekki að setja upp andlit eða setja sig í stellingar.
    Fá að vera eins og þær eru.
    Og eru metnar þannig.
    Skilaboðin sem hver og einn fær eru:

    Þú
    ert
    í lagi.

    Þú ert flott  – flottur – eins og þú ert – svo ég noti orðalag dótturinnar á fermingaraldri.

    Það þýðir ekki að þú sért fullkomin eða að ég sé fullkominn. Það þýðir að þú og ég – við – erum elskuð eins og við erum og svo hvött til að gera vel og kölluð til að vera hendur, hjörtu og hugar Guðs til góðra verka í heiminum. Það er boðskapur Jesú.

    Þetta er svosem ekkert flóknara.

    Það sem einkennir samfélag sem lifir eftir þessu er að við kunnum að meta fólk. Viljum þroskast saman. Viljum hafa góð áhrif á umhverfið okkar. Viljum svara köllun Jesú um að vera salt jarðar og ljós heimsins.

    Á máli bókarinnar sem ég nefndi áðan kallast þetta kannski fríkað. Á okkar máli heitir það að vera kirkja.

    Virkjunarstarfið

    Ég held að þessi aðferð virki bæði þegar við hugsum um það hvernig við lifum saman sem kirkja og samfélag. Til dæmis hér á Kjalarnesinu.

    Við viljum byggja samfélagið upp. Til að það takist þurfum við að virkja marga, vinna saman, hlusta. Prófa okkur áfram. Þegar eitthvað virkar þá gerum við það áfram en þegar eitthvað virkar ekki þá reynum við eitthvað annað. Markmiðið er skýrt: Gott samfélag þar sem fólk er metið og fær að þroskast með öðrum.

    Ég held að það sé ágætis nálgun.

    Ég hlakka til að iðka hana í kirkjunni okkar og samfélaginu öllu.

    Með ykkur.

  • Ekki næs – Dyflinnarkerfið virðir ekki manneskjur

    eftir Kristínu Þórunni Tómasdóttur og Toshiki Toma.

    Hver myndi stíga um borð í bát með galla á botninum? Enginn. Eða léti annað fólk fara á sjóinn í honum? Hver myndi telja slíkt í lagi? Varla nokkur maður. Eða hvað?

    Því miður virðist þetta samt vera iðkað þegar kemur að málefnum hælisleitenda á Íslandi.

    Á föstudaginn sl. fengu tveir íranskir umsækjendur um alþjóðlega vernd, úrskurð um frávísun á grundvelli Dyflinnareglugerðar, en þeir eru búnir að vera hérlendis um eitt ár. Báðir sóttu fyrst um alþjóðlega vernd í Noregi. Annar eyddi þar átta árum, hinn sjö árum áður en þeir komu til Íslands. Í Noregi fengu þeir sömu niðurstöðu og átti að senda þá tilbaka til Írans.

    Norsk völdin senda flóttamenn til baka hvert sem er, og það er undrunarefni hvers vegna engin þjóð í Evrópu mótmælir þessu bersýnilega broti á alþjóðlegum flóttamannasamningum.

    Mennirnir tveir eru báðir kristnir og ef þeir verða sendir til Noregs og þaðan til Írans, er líf þeirra sannarlega í hættu. Annar þeirra greindi frá viðbrögðum norskra yfirvalda við þessum aðstæðum. Ráðið sem hann fékk var: ,,Ef þú talar ekki um trú þína, þá verður þú í fínu lagi“.

    Eins og margir hafa bent á, virðir Dyflinnarkerfið ekki mannslíf og er í raun ónýtt. Ástæðan er það ójafnvægi sem skapast vegna pólitískrar stefnu hvers ríkis sem á aðild að kerfinu og mismunandi fjölda flóttafólks í hverju landi.

    Það skýtur skökku við að einmitt núna þegar íslenskt þjóðfélag ræðir af einlægni um málefni flóttafólks í Evrópu og meirihluti þjóðarinnar ásamt löggjafanum tjáir vilja sinn að taka á móti auknum fjölda flóttafólks, skuli íslensk yfirvöld hafna umsækjendum um alþjóðlega vernd án þess að hirða um að skoða aðstæður þeirra.

    Hér er ekkert samræmi. Hér veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir. Við getum ekki kastað fólki burt um leið og við segjum vilja taka á móti fleirum. Allir fæðast með rétt til virðingar og sérhvert mannslíf er óendanlega dýrmætt.

    Við biðjum í einlægni yfirvöld í málefnum útlendinga að horfa á málin út frá þessum raunveruleika. Dyflinnarkerfið er gallaður bátur sem ekki er hægt að senda fólk með á haf út. Slíkt felur ekki í sér virðingu fyrir mannslífum og slíkt er alls ekki næs.

    Sem prestar og kristið fólk skorum við því á íslensk stjórnvöld á að hætta að beita Dyflinnarreglugerðinni, og efla þannig mannvirðingu og sanngirni í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd.

    Birtist fyrst á Vísi.is 19. september.

  • Vatnsflöskur og lófatak

    Það eru sannarlega andstæður sem mæta okkur í íhugunarefni dagsins eins og þau birtast í biblíutextunum. Textinn í Davíðsálmunum lyftir okkur í hæstu hæðir og staðsetur okkur í himneskri fegurð og fullkomnu ástandi.

    Lofa þú Drottin, sála mín,
    og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;
    lofa þú Drottin, sála mín,
    og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

    Allt önnur mynd mætir okkur í guðspjallinu, þar göngum við með Jesú inn í borgina og leiðin liggur fram hjá stað þar sem ótal manneskjur í neyð bíða eftir tækifæri til að verða heilar.

    Það er eitthvað ofboðslega yfirþyrmandi og niðurdrepandi við þessar aðstæður, þar sem fólkinu hefur verið hrúgað saman í hjálparleysi sínu. Sumir hafa verið þarna svo árum saman, eins og maðurinn sem Jesú talar við – hann hafði verið þarna í 38 ár. Kannski var hann búinn að gefa upp alla von, á meðan fólk í kringum hann hafði jafnvel hlotið bata og komist úr þessum aðstæðum, hafði hann engan til að hjálpa sér og var þess vegna fastur á sama stað.

    Þessi gamla saga í guðspjallinu á sér því miður hliðstæður í samtímanum. Í hugann koma myndir af fólki í flóttamannabúðum sem hefur verið hrúgað saman og býður þar hjálparlaust, jafnvel árum saman. Þótt flóttamannavandinn í heiminum hafi náð athygli okkar sem búum í Evrópu síðustu daga og vikur, þá er saga þeirra sem hrekjast frá heimilum sínum vegna stríðsátaka, hernáms, náttúruhamfara og efnahags, síður en svo ný.

    Fólkið sem er núna að streyma frá Sýrlandi yfir til Evrópu og hefur svo rækilega náð að vekja athygli okkar á óbærilegum aðstæðum, er nefnilega ekki dæmigerðir flóttamenn eða stærsti hópurinn sem hefur lagt á flótta. Fólki er iðulega komið fyrir í flóttamannabúðum sem eru reistar nálægt löndunum sem það kemur frá og býður þar, þangað til aðstæður skapast fyrir það til að snúa aftur eða önnur lausn er fundin. Það felur venjulega í sér að í gegnum Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna er samið við yfirvöld annarra ríkja um að svo og svo margir flóttamenn fái að flytja til viðkomandi lands. Eins og gefur að skilja tekur þetta ferli langan tíma og það gengur hræðilega hægt að finna lausnir sem henta öllum og geta gefið fólki tækifæri á mannsæmandi og öruggu lífi.

    Í umræðunni á Íslandi hefur fólk vitaskuld staldrað við möguleika og tækifæri flóttafólks til að aðlagast og verða virkir þátttakendur í samfélaginu, með réttindi og skyldur eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Það er auðvitað engin ástæða til annars en að ganga út frá því að slíkt muni ganga vel í allra flestum tilvikum, eins og áhrifamiklar sögur þeirra sem hafa áður komið hingað sem flóttamenn, frá Balkanskaga eða Víetnam, og eru núna frábærir nágrannar, vinir og samstarfsmenn, sýna.

    Það er líka mikilvægt að hafa í huga þau atriði sem þurfa að vera til staðar til að þau sem hingað koma sem flóttamenn hafi raunverulega möguleika til að aðlagast svo þeim líði sem best og allir vinni! Hérna vil ég að við skoðum aftur söguna um Jesú og fólkið í súlnagöngunum, því hún segir heilmikið um hluti eins og hjálp og sjálfshjálp og hjálp til sjálfshjálpar.

    Jafnvel í yfirþyrmandi og niðurdrepandi aðstæðum er von og vonin er fólgin í því að grípa inn í aðstæður, stöðva það sem rífur niður og setja nýja hluti í gang. Jafnvel þegar við höldum að við eigum það ekki í okkur að standa upp og ganga úr aðstæðum sem kreppa okkur og brjóta niður, er það hægt, ef okkur er mætt með kærleika sem er styðjandi en ekki meðvirkur.

    Það er reyndar dásamlegt hvað Jesús er alveg laus við að vera meðvirkur þegar hann talar við sjúka manninn í súlnagöngunum – þennan sem hafði verið sjúkur í 38 ár og var búinn að gefa upp alla von, af því að það var alltaf einhver annar sem komst fram fyrir hann í röðinni. Jesús spyr hann spurningu þar sem svarið ætti í raun að vera augljóst – en hefur kannski ekki verið það. Viltu verða heill? spyr Jesús, þennan mann sem hefur legið í 38 ár bjargar- og hjálparlaus. Maðurinn svarar eiginlega til að afsaka sig eða skella skýringunni á aðra:

    „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“

    Svarið sem Jesús gefur honum er hreint og beint og það breytir öllu í lífi mannsins:

    Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.

    Það sem við fáum að hugsa um út frá þessari sögu, er hverjar eru þær aðstæður sem við höfum kannski hangið í, í fullri trú á að aðstæðurnar séu einhverjum öðrum að kenna eða að við höfum í raun ekki tækifæri til að laga það sem er að. Það sem við fáum að hugsa um í þessari sögu er, hvað er það sem við þurfum að hugsa, segja og gera, til að geta risið upp og orðið gerendur í eigin lífi og gert hluti sem verða okkur sjálfum til góðs og öðrum til blessunar. Getur verið að Jesús sé að tala við okkur þegar hann spyr: Viltu verða heill – eða viltu verða heil? Stattu þá upp og haltu áfram.

    Andstæðurnar í textum dagsins birtast líka í sögum flóttafólksins sem nú streymir í gegnum Evrópu. Í djúp-vonlausum aðstæðum glittir samt í eitthvað nýtt, þegar fólk stendur upp og gengur til móts við nýja möguleika og nýtt líf. Og stundum gerist hið ótrúlega – sem er auðvitað skilgreiningin á því hvað kraftaverk er – að fólk tekur höndum saman í kærleika, örlæti og gestrisni og reisir við þau sem hafa verið barin niður og sundurkramin. Súlnagöng dagsins er kannski að finna á brautarstöðvum Evrópu, þar sem kraftaverkin gerast.

    Myndir frá aðalbrautarstöðinni í München í Bæjaralandi síðasta sólarhringinn þar sem íbúar taka á móti Sýrlensku flóttafólki sem kemur með lest frá Ungverjalandi eftir ótrúlegar hrakningar, með lófataki, söng, gjöfum, vatni og mat, taka okkur eins og textar dagsins í þessa löngu ferð frá himni til jarðar, frá því sem virðist óyfirstíganlegt og erfitt til nýrrar vonar og velgjörða Drottins, sem birtist í opnum faðmi og hlýjum hjörtum sem segja velkomin.

    Viltu verða heill? spyr Jesús sjúka manninn. Alveg eins og maðurinn í sögunni, fáum við þessa spurningu og við getum svarað henni, já ég vil verða heil. Ég vil leggja mitt af mörkum til að ég sjálf og aðrir á þessari jörðu geti gengið uppréttir með þeirri virðingu og kærleika sem allir menn eiga rétt á. Ég vil taka á móti þér, sem kemur til mín í neyð, og segja velkomin, mæta þér í sameiginlegri mennsku sem upphefur menningu, trú, kyn, reynslu og stétt! Velkomin.

    Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

    Guðspjall

    Guðspjallið er í Jóhannesarguðspjalli 5. kafla 1-15

    Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
    Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“
    Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
    En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“
    Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“
    Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“
    En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.
    Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“
    Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.

    Myndin sem fylgir færslunni er í eigu Sean Gallup/Getty Images.

  • Bænir fyrir fólki á flótta

    Lífsins Guð.

    Engin orð ná utan um það sem gerist í flóttamannabylgju samtímans og við verðum vitni að. Við sjáum hvernig manneskjur sem eru systur, bræður, feður, mæður, nýfæddar, aldraðar, elskaðar eða einmana, flýja heimili sín, sem einu sinni voru örugg en eru það ekki lengur. Við sjáum hvernig þau leggja í lífshættulega ferð í leit að öruggri höfn.

    Við skiljum ekki aðstæður þeirra sem flýja til að bjarga lífi sínu en við sjáum örvæntingu, ótta og sorg í augum þeirra. Við sjáum líka hugrekki og styrk sem veitir von í vonlausum aðstæðum.

    Gef að við tökum höndum saman til að vekja meiri von og koma systkinum okkar til bjargar. Gef að við sjáum hvað við erum aflögufær sem þjóð og einstaklingar og að við getum hjálpað. Gef að þau sem nú eru á flótta finni öruggan stað þar sem þeim er mætt með kærleika og opnum faðmi. Tak á móti þeim sem láta lífið inn í þitt eilífa ljós, þar sem enginn ótti og enginn ófriður ríkir. Hugga þau sem syrgja og lækna brotin hjörtu.

    Fyrir Jesú Krist Drottinn okkar, sem sagði: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra og systra, það hafið þér ekki heldur gert mér. Amen.

    *

    Himneski faðir, frá þér er öll gæska, ást og örlæti.
    Við þökkum þér fyrir öll þau hjörtu sem standa opin þeim sem eru á flótta.
    Við biðjum þig að hjálpa okkur að opna líka fangið okkar til að bjóða þau velkomin og að bjóða fram hendur okkar til stuðnings og góðra verka.
    Gef von þeim sem eru vonlaus, græðslu inn í brotin líf
    og huggun í hræddar sálir.
    Fyrir Jesú Krist, Drottinn okkar, sem hóf líf sitt sem heimilislaust barn
    og flúði undan ofsóknum valdhafa. Amen.

    Bænir fyrir fólki á flótta og þeim sem taka á móti flóttafólki. Notist, breytist og bætist að vild. 

  • Að hýsa hælislausa

    Boðskapur Jesaja gamla spámanns er eins og talaður inn í aðstæður dagsins.

    Sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn…

    Þannig hljóðar hið heilaga orð og sæl eru þau sem heyra Guðs orð og varðveita það.

    Í skírninni hér áðan þegar litla stúlkan var vatni ausin og gefið fallega nafnið sitt, gerðist líka svolítið annað. Hún var tekin inn í fjölskyldu Guðs. Venjulega þegar við hugsum um fjölskyldu hugsum við um þau sem eru skyld, eða tengd, búa undir sama þaki. En við tilheyrum líka fjölskyldu allra þeirra sem lifa, því öll erum við börn Guðs.

    Síðustu daga höfum við verið óþyrmilega minnt á að sumir í þessari fjölskyldu búa við ömurlegar og lífshættulegar aðstæður. Það eru flóttamennirnir, karlarnir, konurnar og börnin sem streyma frá stríðshrjáðum löndum, skilja allt við sig og leggja allt í sölurnar til að komast á öruggari stað.

    Við höfum þessa síðustu daga fengið örlitla innsýn inn í aðstæður flóttafólksins sem streymir til Evrópu og hvernig lífi þeirra er ógnað við hættulegar aðstæður. Það er enginn ósnortinn af því að heyra um og sjá myndir af litlum börnum sem hafa drukknað á leiðinni yfir Miðjarðarhafið af því að þau voru á báti sem var allt of lítill og allt of óöruggur og með allt of mörgum.

    Einn vinur minn á facebook sem býr í Austurríki skrifaði á síðuna sína:

    Austurríkismenn eru í sjokki yfir fréttunum um flóttamennina, 71 talsins þar af 4 börn, sem fundust látnir í yfirgefnum flutningabíl skammt utan við Vínarborg í fyrradag. Allt í einu færðist dauðinn í Miðjarðarhafinu yfir á miðevrópska hraðbraut….Einn austurrískur stjórnmálamaður birti í morgun myndir á facebooksíðunni sinni af líkum barna sem drukknuðu í gær á leið frá Líbíu – myndir sem eru víða á internetinu – og sagði nauðsynlegt að horfa á þær. Viðbrögðin létu ekki á sér standa í kommentakerfinu. Margir tóku undir en enn fleiri gagnrýndu hann fyrir að birta myndir af líkum; sögðu það smekklaust. Hann svaraði um hæl og sagði smekklaust að láta sem ekkert sé. Ég er sammála honum. Það minnsta sem við getum gert er að sýna að við vitum að allt þetta flóttafólk dó á leiðinni til betra lífs. Ef við horfum í hina áttina, þá fyrst er útilokað að við finnum lausnir. Ef við látum sem ekkert sé, hvað er þá líka orðið um manneskjuna/mennskuna í okkur sjálfum?

    Svo mörg voru þau orð. Og í dag erum við með orðum Biblíunnar minnt á að þau sem við deilum þessari jörð með, koma okkur við. Það er skylda okkar að koma til hjálpar þeim í fjölskyldunni okkar, öðrum börnum Guðs, þegar þau þarfnast okkar.

    Öll orð Jesú í guðspjallinu hvetja okkur til þess:

    Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.

    Og hann hvetur okkur til að ganga langt – það er ekki nóg að elska þau sem elska okkur! Við eigum að elska þau sem við þekkjum ekki – líka þau sem við lítum á sem óvini okkar.

    Kannski er aðalatriðið hér að við eigum ekki að skipta fólki upp í hópa eins og vini, óvini, fjölskyldu og ókunnuga, útlendinga og Íslendinga, þegar kemur að því að bera ábyrgð og tryggja velferð. Við erum öll á sama báti, við erum ein fjölskylda.

    Og í orðum Jesú í guðspjalli dagsins býr svo mikill sannleikur, því hann bendir okkur á að þessari skyldu að elska náungann eins og sjálf okkur, er hvorki létt né einfalt að fylgja eftir. Það er heilmikið mál! Það væri heilmikið mál að taka við 5000 flóttamönnum á Íslandi, eins og hefur komið fram í umræðunni. Auðvitað! En það þýðir ekki að við eigum ekki að gera það.

    Við skulum bera gæfu til þess að axla ábyrgð okkar sem þjóð meðal þjóða, fylgja eftir þeirri góðu sátt sem þverpólitísk þingnefnd leggur til um stefnu í útlendingamálum, og setja mannúð og réttaröryggi í forgrunn, handa öllum sem hingað koma.

    Við þurfum ekki að vera hrædd um að missa eitthvað sem við höfum eða eitthvað sem er mikilvægt, ef við opnum Örkina okkar fyrir þeim sem þurfa á skjóli og hjálp að halda. Þar er aftur gamli skeggjaði hipsterinn hann Jesaja, með puttann á púlsinum og beinir okkur á rétta braut:

    Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
    hættir hæðnisbendingum og rógi,
    réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
    og seður þann sem bágt á,
    þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
    og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
    Drottinn mun stöðugt leiða þig,
    seðja þig í skrælnuðu landi
    og styrkja bein þín.
    Þú munt líkjast vökvuðum garði,
    uppsprettu sem aldrei þrýtur.

    Dýrð sé Guði sem lítur á okkur öll sem sín börn, er bróðir okkar allra, og endurnýjar von og hugrekki í hjörtum okkar.

    Flutt í Laugarneskirkju, 30. ágúst 2015.

  • Síðskeggjaður hipster vill fasta á ranglæti

    Þetta er merkilegur dagur.
    Einn af dögunum þegar við ættum eiginlega ekki að prédika.
    Bara láta textana tala.
    Mig langar samt að segja þrjú orð:

    • Þú.
    • Þjóðin.
    • Þau.

    Svo skal ég útskýra.

    Unga fólkið í kirkjunni á slagorð: Við erum hendur Guðs til góðra verka.
    Og fingur.
    Og munnar.
    Og fætur.

    Hvað þýðir þetta?

    Hvað sagði Jesaja?

    Sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn
    og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
    og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.

    Svo kemur framhaldið:

    Nema auðvitað að hann sé útlendingur.
    Eða flóttamaður.
    Eða hælisleitandi.
    Eða úr annarri borg.
    Eða öðru hverfi.

    Þá skaltu bara sýna honum dyrnar.
    Skella í lás.

    Var það ekki annars?

    Nei.

    Jesaja skrifaði:

    Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
    hættir hæðnisbendingum og rógi,
    réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
    og seður þann sem bágt á,
    þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
    og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.

    Og hann var alveg með þetta, síðskeggjaði hipstera-spámaðurinn í Mið-Austurlöndum.

    Fólkið í strætó

    Ég átti stutt samtal á netinu við einn kunningja í vikunni. Hann tekur strætó á morgnana og hefur gaman af að fylgjast með fólki og þennan morguninn sá hann nokkuð sem kom á óvart.
    Fólkið í strætó var ekki með andlitin ofaní snjallsímunum sínum eins og þau eru alla jafna.

    Hvers vegna?
    Hvað hafði gerst?

    Ikea-bæklingurinn var kominn.

    Fólkið í strætó tók bæklinginn með sér og blaðaði í honum. Skoðaði myndir, stærðir, verð. Kannski til að fá hugmyndir eða innblástur, kannski til að láta sig dreyma.
    Um hvað?
    Betra líf með nýjum sófa?
    Nýtt skipulag í eldhúsinu?
    Mýkra rúm og litríkari rúmföt?
    Ég veit það ekki.

    En ég held að Ikea-bæklingurinn standi kannski fyrir það sama og matreiðslubækurnar og blöð eins og Hús og híbýli: Hugmyndina um eitthvað gott, betra líf sem við getum átt hlutdeild og kannski öðlast. Myndir og texti miðla því og kannski festir hugur og löngun sig við einhvern hlut sem gæti orðið okkar og þá verður allt.
    Miklu.
    Betra.

    Og það er bara allt í lagi að langa.
    Það er gott að láta sig dreyma.
    Og svo söfnum við og látum draumana jafnvel rætast.

    Draumarnir þeirra

    Fólkið í flóttamannabúðunum í Calais lætur sig líka dreyma.
    Fólkið í Sýrlandi lætur sig dreyma.
    Fólkið sem fer á litlum flekum yfir Miðjarðarhafið lætur sig dreyma.
    Um að lifa af.
    Um betra líf.
    Um eitthvað annað.
    Þau eiga sér von og það er hún sem rekur þau áfram.
    Það er jú enginn sem gerir það að gamni sínu að flýja land til að búa í flóttamannabúðum.

    En hvað kemur það okkur við?

    Ja, við erum hendur Guðs, til góðra verka.

    Hvött og eiginlega kölluð til að gefa hinum hungruðu af brauði okkar, hýsa bágstadda, hælislausa menn og ef við sjáum klæðlausan mann, að við klæðum hann – eins og spámaðurinn skrifaði.

    Það sama sagði Jesús þegar hann hvatti lærisveina sína.

    En Útlendingastofnun?

    Hvað er presturinn nú að spá?
    Vill hann bara opna landið?
    Veit hann betur en Útlendingastofnun?

    Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég sé sérfræðingur í málefnum flóttafólks.
    En ég veit til hvers við erum send.
    Hvaða viðhorf Jesús hafði og hvaða viðhorfi hann kallaði eftir hjá fylgjendum sínum.
    Til þeirra sem eru öðruvísi.
    Til þeirra sem búa við skort.
    Til þeirra sem þurfa.

    Þetta má orða með öðrum hætti.
    Farið ekki í manngreinarálit.
    Sinnið fólki jafnt.
    Gefið öllum tækifæri.
    Ekki bara Íslendingum á Íslandi heldur öllu fólki sem þið getið haft áhrif á til góðs.

    Það er ákall dags kærleiksþjónstunnar – og líka hinna 364-5 daganna á árinu.

    Mig langaði að deila því með ykkur.

  • Smellbeitan, útlendingarnir og Jesús

    „Rúss­ar hand­tekn­ir eftir „verslunarferð“ í Fjörðinn“
    „Litháarnir handteknir enn á ný“

    Þetta eru tvær fyrirsagnir frétta frá 2006 og 2008 sem ég fann á vefnum mbl.is. Framsetning af þessu tagi í umfjöllun um glæpi hefur verið gagnrýnd vegna þess að hún þykir ala á andúð á útlendingum. Þá er spurt hvaða máli það skipti hvers lenskur hinn meinti brotamaður er? Og hvers vegna það sé þá ekki nefnt hverju sinni sem Íslendingur er handtekinn að hann sé einmitt Íslendingur? Þetta rifjaðist upp fyrir mér í vikunni vegna þess að ég las frétt á Pressunni sem ég mátti svosem vita að væri ekki íslensk en það var samt aldrei tekið fram. Fyrirsögnin var svona:

    „Lögreglan stöðvaði konu fyrir hraðaakstur: Hún kom með besta svarið“

    Fréttin hófst svo á orðunum: „Athugið – eftirfarandi atburðir gætu ekki hafa gerst“ sem ég veit hvað eiga að merkja. Kannski að svona nokkuð geti ekki gerst, kannski að fréttin sé mögulega uppspuni.

    „Fréttir“ af þessum toga eru þekktar í vefheimum. Fyrirsagnirnar eru kallaðar „clickbait“ – smellbeita – því þær eru settar saman til að skapa forvitni og kalla fram smelli. Svo eru birtar auglýsingar með fréttinni og þannig fást tekjur á vefinn. Sannleiksgildi efnisins skiptir litlu máli eða jafnvel engu. Þess vegna er láta fylgja ábendingu til lesandans efst í fréttinni um að „þetta gæti ekki hafa gerst.“ Ég velti því fyrir mér við lesturinn hvort ekki mætti hafa þá meginreglu að láta þess getið í fyrirsögnum svona frétta hvers lenskir einstaklingarnir sem þær fjalla um eru, til dæmis:

    „Útlensk lögreglan stöðvaði erlenda konu fyrir hraðaakstur í útlöndum: Hún kom með besta svarið – á ensku“

    Ég held nefnilega að ólíkt innlendum glæpafréttum þá megi gjarnan fylgja gaman- og flökkusögum frá útlöndum upplýsingar um upprunaland. Bæði til að auðvelda okkur að sía fréttirnar á vefnum og til að leyfa erlendum sögum að vera einmitt það en láta ekki eins og þær séu íslenskar.

    Smellbeita og lofsöngvar

    Í vikunni bárust fréttir frá Englandi. Fyrir nokkrum dögum var  tekinn upp sjónvarpsþáttur sem heitir Songs of Praise. Hann er sendur út á sunnudagseftirmiðdögum og þessi tiltekni þáttur verður sendur út seinna í dag. Songs of Praise er þáttur með trúarlegri tónlist og þar er líka fjallað um málefni samtímans í ljósi kristinnar sýnar á manneskjuna og trúna. Þáttur dagsins var tekinn upp í flóttamannabúðum í Calais. Þar búa þúsundir flóttamanna – hælisleitenda – frá löndum eins og Sýrlandi, Lýbíu og Erítreu.

    Eitt götublaðið beitti sér í málinu og setti smellbeitufyrirsögn yfir frétt:

    Hymnigrants
    EXCLUSIVE: BBC blasted for filming Songs of Praise at Calais camp

    Í fréttinni kom fram að ríkisútvarpið breska ætti ekki að beita sér á sviði sem væri svona pólitískt. Það væri óviðeigandi að taka upp sjónvarpsþátt um trúarleg efni meðal hælisleitenda og flóttafólks.

    Nick Baines sem er biskup í Leeds var einn af þeim sem svöruðu fyrir hönd kirkjunnar. Hann sagði tvær góðar ástæður fyrir taka þáttinn upp í flóttamannabúðunum. Sú fyrri er að kristin trú fjallar um Guð og manneskjuna í raunverulegum aðstæðum. Sú síðari er að kristið helgihald snýst líka um alvöru fólk, stundum á það sér einmitt stað þar sem aðstæður eru erfiðar.

    Þarna er fólk.
    Náungar okkar.
    Í alvöru og erfiðum aðstæðum.
    Sem hafa fundið og finna styrk í trúnni.
    Þess vegna hafa þau reist sér tjaldkirkju sem rís hærra en tjaldborgin.
    Og þegar hún brann reistu þau hana aftur.
    Ekki af auð sínum heldur af fátækt sinni.
    Og það eru forréttindi að fá að biðja með þeim.

    Jesús og útlendingarnir

    Jesús segir í 25. kafla Matteusarguðspjalls:

    „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. “

    Og:

    „Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“

    Og hvað er þetta allt sem hann talar um?

    Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

    Til þess erum við kölluð. Smellbeita Jesú – það sem grípur – er því ósköp einföld yfirlýsing: Vertu almennileg manneskja, ekki bara við þau sem standa þér næst heldur við þau sem gera það ekki. Til dæmis útlendinga. Flóttafólk. Hælisleitendur.

    Því þau eru Guðs.
    Eins og þú.

    Flutt í lesmessu í Háteigskirkju, 16. ágúst 2015.

  • Er það pólitískur rétttrúnaður að mæta fólki af virðingu?

    Í vikunni las ég um ungan mann sem skrifaði lítið forrit og tengdi það við vafrann í tölvunni sinni. Forritið gerir aðeins eitt: Þegar textinn „political correctness“ kemur fyrir á vefsíðu breytir það honum í „treating people with respect“. „Pólitískur rétttrúnaður“ verður „að mæta fólki með virðingu.“

    https://twitter.com/byronclarknz/status/628702214391902208

    Um pólitískan rétttrúnað sagði á Wikipediu laugardagsmorguninn 8. ágúst í texta sem er reyndar ekki allskostar hlutlaus:

    „Gjarnan er talað um pólitískan rétttrúnað í tengslum við tungutak um minnihlutahópa og átt við ofurvarfærni gagnvart niðrandi orðfæri, svo sem um kynþætti, konur, meðlimi trúarhópa, fatlaða, samkynhneigða og svo framvegis. Þó á hugtakið ekki aðeins við um tungutak heldur einnig gjörðir, pólitísk stefnumál, hugmyndafræði og hegðun, alla afvegaleidda viðleitni til að lágmarka móðganir og mismunun gagnvart hópum sem eiga undir högg að sækja.“

    Það er ótrúlegt hvað þessi litla breyting hefur mikil áhrif. Með því að taka hlaðið tungutak úr umferð og setja í staðinn lýsingu á því sem reynt er að ná fram: að mæta fólki af virðingu er nefnilega hægt að afhjúpa ofbeldið í samfélaginu og þannig berjast gegn því. Orð hafa nefnilega áhrif.

    Eva Hauksdóttir, sem er skarpur pistlahöfundur, skrifar á einum stað:

    „Málflutning skal gagnrýna með rökum. Merkimiðar eru ekki rök; þeir sem telja andmælendur sína á valdi pólitískrar rétthugsunar ættu þessvegna að útskýra hvað nákvæmlega er gagnrýnivert við skoðanir þeirra.“

    Hér hittir hún naglann á höfuðið. Merkimiðar geta vissulega verið gagnlegir til að flokka og skilja, en þegar þeir eru notaðir til að meiða – eins og stundum og jafnvel oft er raunin með merkimiðann „pólitískan rétttrúnað“ þá eru þeir skaðlegir. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að við megum ekki ræða um skoðanir og afstöðu. Það þýðir hins vegar að við eigum að eiga í samtali án þess að hafa þann ásetning að meiða aðra.

    Virðing fyrir manneskjunni er nefnilega ekki til umræðu, um hana verður ekki samið. Hún er grundvallaratriði og forsenda.

    Jesús er reiður

    Jesús er reiður í guðspjalli dagsins. Hann ávítar. Hann er ekki alltaf glaður – frekar en við.

    „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.“

    Þetta er öðrum þræði lýsing á vonbrigðum þess sem hefur ekki náð markmiði sínu. Jesús kom og prédikaði og fólkið hlustaði, hann gerði kraftaverk og fólkið horfði. En þau breyttu ekki hátterni sínu. Kannski af því að þau skildu ekki. Kannski af því að breytingar taka tíma og hann var ekki nógu lengi á staðnum. Við vitum það ekki.

    En hverju vildi hann breyta?

    Mörgu.

    Eitt af því var hvernig við lítum á og nálgumst annað fólk.

    Hvernig?

    • Hann umgekkst þau sem samfélagið úthýsti,
    • hann vildi að samfélagsreglurnar væru í þágu manneskjunnar – svo hann læknaði á hvíldardegi,
    • hann bar virðingu fyrir hverri manneskju sem hluta af sköpun Guðs.
      hann elskaði. Alla.
    • hann bað fyrir öðrum – líka þeim sem ofsóttu hann.

    Hann. Bar. Virðingu.

    Virðingin

    Það eru ekki allar breytingar jafn einfaldar og sú að setja upp forrit sem skiptir út merkimiða fyrir innihald. Breytir pólitískum rétttrúnaði í virðingu fyrir manneskjunni. Það er í sjálfu sér einfalt og tekur skamma stund – en getur auðvitað haft áhrif. Því orð hafa áhrif.

    Hitt tekur lengri tíma: að hætta að setja fólk niður og mæta þeim af virðingu. Og það gildir nota bene ekki bara um vini okkar eða nágranna heldur líka þau sem við skiljum sem öðruvísi eða sjáum jafnvel sem andstæðinga.

    Það er hin kristna afstaða.
    Að því vinnum við.
    Ekki síst um helgar eins og þessa þegar við stöndum með þeim sem hafa verið ofsótt um aldir.

    Og þegar það tekst segjum við ekki „vei og skamm“ heldur „vei og jibbí jei“.
    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

  • Barnatrú og mannþjónusta

    Í Fræðunum minni fjallar Marteinn Lúther um grundvallaratriði kristinnar trúar og leggur meðal annars út af Faðirvorinu, postullegu trúarjátningunni og boðorðunum tíu. Þetta hefur stundum verið kallað kjarninn í íslenskri barnatrú. Lúther byrjar Fræðin á umfjöllun um Boðorðin. Þar vekur athygli að í meðförum hans verður boðorðið þú skalt ekki að jákvæðri þú skalt-yrðingu:

    • Þú skalt hjálpa náunga þínum að varðveita eigur sínar.
    • Þú skalt hjálpa náunga þínum að hlúa að hjónabandi sínu.
    • Þú skalt hjálpa náunga þínum að lifa vel.

    Verslunarmannahelgin er að þessu sinni á milli tveggja mannréttindahelga hér á Íslandi: fyrir viku síðan var haldin Drusluganga í Reykjavík. Athyglin beindist að mannhelgi, mörkunum milli fólks og virðingu fyrir konum. Eftir viku verða mannréttindi hinsegin fólks í brennidepli í Gleðigöngu á Hinsegin dögum.

    Mannréttindi og -skyldur

    Mannréttindi er orð sem heyrist víða og mannréttindabarátta er fyrirferðarmikil í samfélaginu okkar. En við ræðum sjaldnar um hina hliðina á því: Skyldurnar sem fylgja réttindum.

    Hvað gerist ef við nálgumst mannréttindi eins og Lúther nálgaðist boðorðin? Þá horfum við ekki lengur á lágmarks réttindi annarra heldur hámarks skyldur okkar. Tökum dæmi:

    • Fólk á ekki bara rétt til að tjá sig (tjáningarfrelsið). Það er skylda okkar að tryggja að þau geti það.
    • Börn eiga ekki bara rétt á góðu atlæti, uppeldi, öryggi (réttindi barna). Það er skylda okkar að tryggja að svo sé.

    Mannréttindin standa vörð um ákveðinn grundvöll. Þau slá ramma kringum manneskjuna. Skyldurnar lúta aftur á móti að því hvernig við hugsum til og aðhöfumst í þágu annarra, náungans, lífsins og sköpunar Guðs.

    Kannski er það þetta sem Páll á við þegar hann talar um að berjast góðu baráttunni í pistli dagsins. Og nota bene ekki aðeins að við berjumst fyrir mannréttindum – sem er gott og blessað út af fyrir sig – heldur að við göngum lengra.

    Barnatrúin og mannþjónustan

    Kjarni kristinnar trúar – líka barnatrúarinnar – er að nálgast náungann og þjóna honum í kærleika. Þegar það er gert þá hætta skyldurnar kannski að vera skyldur og verða að innblásinn löngun til að sinna þeim sem þarf að sinna, af einlægum vilja til vinna verkin.

    Sem kristnar manneskjur erum við kölluð til láta okkur ekki aðeins varða grundvallar- eða lágmarks- mannréttindi heldur til að grípa hvert tækifæri til að sinna um og hlúa að lífinu þannig að sérhver einstaklingur megi og geti lifað lífi sínu í fullri gnægð.

    Við getum kallað það mannþjónustu sem birtist í manngæsku. Það er að vera kristin manneskja.

    Það er okkar barna- og fullorðinstrú.

    Flutt í guðsþjónustu í Hóladómkirkju, sunnudaginn 2. ágúst 2015.