Árni og Kristín

Bara eins og þú ert

Ég ætla að tala um þrennt við ykkur í dag: Jesús, frík og okkur.

Frík

Við byrjum á fríkinu.

Þessa dagana er ég að lesa bók sem heitir „Hugsaðu eins og frík“. Hún er eftir hagfræðing og blaðamann sem hafa skrifað saman um það sem þeir kalla Freakonomics – Fríkuð hagfræði. Höfundarnir  hafa vakið athygli fyrir frumlega nálgun við ýmis verkefni og vandamál samfélagsins. Þetta er þriðja bókin sem þeir skrifa saman og hún fjallar um frík-aðferðina sem þeir hafa beitt í hinum bókunum tveimur. Markmiðið er að kenna lesandanum að hugsa á fríkaðan hátt.

Þeir leggja línurnar fyrir þetta í öðrum kaflanum sem hefur yfirskriftina: „Orðin sem erfiðast er að segja á ensku.“

Hver skyldu þau vera?

Kannski eitthvað um ástina:

  • Ég elska þig.
  • Ég sakna þín.
  • Þú skiptir mig máli.

Nei, það er ekki svo. Ástarjátningar flækjast ekki fyrir fólki. Erfiðu orðin – eða eiginlega erfiða setningin – er:

„Ég veit það ekki.“

Meginboðskapur kaflans er þessi: Þorðu að hafa rangt fyrir þér. Þorðu að viðurkenna það þegar þú veist eitthvað ekki.

Mér finnst þetta áhugavert bæði fyrir samfélagið og kirkjuna.

  1. Þetta kallast á við þá hugsun í kristinni trú að við getum vaxið og þroskast en séum ekki fullkomin. Og að við höfum þörf fyrir annað fólk.
  2. Þetta kallast á við það hvernig við getum með samfélagið okkar. Við höfum ekki öll svörin á reiðum höndum sjálf. En við höfum góðan vilja, viljum gera vel, getum unnið saman og nýtt visku fjöldans.

Skírnin

Ég skírði barn í gær, fallega stúlku sem á framtíðina fyrir sér. Þegar börn eru borin til skírnar – eins og við vorum flest á unga aldri – er óhjákvæmilegt að hugsa um hvað kristið uppeldi felur í sér. Skírnin er jú eins konar yfirlýsing um það að við ætlum að ala barnið þannig upp.

Og út á hvað gengur það? Ein leið til að nálgast það er sú að tala um mikilvægi þess að kenna börnunum bænir og lesa Biblíusögur og fara í kirkju. Og það er góðra gjalda vert. En kannski má líka horfa á þetta með öðrum hætti og segja að kristið uppeldi felist í því að foreldrar skírnarbarnsins komi tvennu til skila: annars vegar að barnið sé elskað, hins vegar að það eigi von.

Ef okkur tekst að koma þessu áleiðis á þeim átján árum sem við höfum þannig að börnin okkar finni það á skinninu og í huganum og í hjartanu að þau eru elskuð og viti það alltaf að þau geta ekki lokast inni í erfiðum aðstæðum þá eiga þau bæði ást og von þá hefur uppeldið tekist vel.

Svo þurfum við sem fullorðin erum líka að læra af börnunum. Á það minnti Jesús okkur þegar hann sagði að við þyrftum sjálf að verða eins og börn til að nálgast guðsríkið. Og hvað eiga börnin sem við fullorðna fólkið höfum stundum misst?

Þau eiga til dæmis þetta traust sem Jesús kallar eftir hjá systrunum um við Mörtu og Maríu: trúir þú mér? Treystir þú mér? Og þau eiga líka traustið sem við lesum um í sálminum úr Gamla testamentinu þegar skáldið ákallar Guð í angistinni miðri.

Stefnuyfirlýsing

Gott og vel – rifjum upp:

  • Það er mikilvægt að geta sagt: Ég veit það ekki.
  • Kirkja og samfélag eru staðir þar sem við þroskumst saman.
  • Kristið uppeldi gengur meðal annars út á að miðla ást og von.

Þetta má orða með öðrum hætti – á formi eins konar stefnuyfirlýsingar handa kirkju, til dæmis kirkjunnar okkar:

Kirkjan er staður fyrir manneskjur.
Þar sem þær koma eins og þær eru.
Þurfa ekki að setja upp andlit eða setja sig í stellingar.
Fá að vera eins og þær eru.
Og eru metnar þannig.
Skilaboðin sem hver og einn fær eru:

Þú
ert
í lagi.

Þú ert flott  – flottur – eins og þú ert – svo ég noti orðalag dótturinnar á fermingaraldri.

Það þýðir ekki að þú sért fullkomin eða að ég sé fullkominn. Það þýðir að þú og ég – við – erum elskuð eins og við erum og svo hvött til að gera vel og kölluð til að vera hendur, hjörtu og hugar Guðs til góðra verka í heiminum. Það er boðskapur Jesú.

Þetta er svosem ekkert flóknara.

Það sem einkennir samfélag sem lifir eftir þessu er að við kunnum að meta fólk. Viljum þroskast saman. Viljum hafa góð áhrif á umhverfið okkar. Viljum svara köllun Jesú um að vera salt jarðar og ljós heimsins.

Á máli bókarinnar sem ég nefndi áðan kallast þetta kannski fríkað. Á okkar máli heitir það að vera kirkja.

Virkjunarstarfið

Ég held að þessi aðferð virki bæði þegar við hugsum um það hvernig við lifum saman sem kirkja og samfélag. Til dæmis hér á Kjalarnesinu.

Við viljum byggja samfélagið upp. Til að það takist þurfum við að virkja marga, vinna saman, hlusta. Prófa okkur áfram. Þegar eitthvað virkar þá gerum við það áfram en þegar eitthvað virkar ekki þá reynum við eitthvað annað. Markmiðið er skýrt: Gott samfélag þar sem fólk er metið og fær að þroskast með öðrum.

Ég held að það sé ágætis nálgun.

Ég hlakka til að iðka hana í kirkjunni okkar og samfélaginu öllu.

Með ykkur.

You may also enjoy…