Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ósíuð aðventa 2: Þæfingur

    Það er þæfingsfærð í höfuðborginni og víða um land. Snjónum hefur kyngt niður og þótt snjómokstri sé vel háttað verða til snjógarðar sem þrengja göturnar. Það er líka hált. Þetta hægir á allri umferðinni og stundum komumst við aðeins löturhægt – hvort sem ferðast er á bíl, strætó, hjóli eða fótgangandi.

    Við getum hvorki stjórnað umferðinni né færðinni, aðeins okkur sjálfum og eigin fararmóta. Við getum líka haft stjórn á því hvernig við mætum aðstæðunum. Hvernig við mætum biðinni þegar við erum því sem næst veðurteppt og komumst ekki úr stað.

    Aðventan og biðin heyra saman.
    Við bíðum á aðventunni.
    Mikið.

    Dygð aðventunnar er að bíða ekki í óþolinmæði heldur eftirvæntingu og von. Leyfa okkur að hvíla í aðstæðunum hverju sinni og upplifa gæðin sem felast í þeim. Það gildir líka um þæfinginn, aðstæðurnar sem eru óvæntar og koma illa við okkur.

    Gangi þér vel að bíða.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 1: Dagatalið

    Aðventan er magnaður tími. Hún lýkur upp mörgum stefjum sem kristin trúarhefð leggur okkur á hjarta í aðdraganda jólanna. Eitt af þessum stefjum aðventunnar er vonin sem í kristinni trúar er ætluð öllum en ekki fáum útvöldum. Boðskapur aðventu og jóla um frið á jörðu og velþóknun Guðs gengur út á þetta og beinist sérstaklega að þeim sem eru jaðarsett. Þau eru sérstakur farvegur vonarinnar sem ætluð er öllu mannkyninu.

    Okkur langar að lyfta aðventunni upp sem innleggi í samtalið um manneskjur, merkingu og mátt í aðdraganda jólanna. Á hverjum degi fram að jólum ætlum við að setja fingurinn á eitthvert stef eða viðburð sem dregur fram skilaboð kristinnar trúar inn í aðstæður og reynslu manneskjunnar hér og nú.

    Aðventubloggið okkar heitir #ósíuð aðventa vegna þess að í textum og boðskap Biblíunnar er svo mikið raunsæi og nánd. Okkur hættir stundum til að missa sjónar af því í kapphlaupi samtímans.

    Takk fyrir að eiga #ósíaða aðventu með okkur.

    Færslurnar

    [display-posts category=”osiud-adventa” posts_per_page=”24″ include_date=”true” date_format=”j. F, Y”]

    #ósíuðaðventa

  • Samtal um siðaskipti – önnur þáttaröð

    Önnur þáttaröðin um siðbótina sem við Ævar Kjartansson gerum hefur nú litið dagsins ljós á Rás 1. Þættirnir voru sendir út á sunnudagsmorgnum á Rás 1 frá 27. september til 8. nóvember. Þættirnir eru aðgengilegir í Sarpinum og verða það fram í desember.

    • 27. september: Dr. Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu. Við ræddum við hann um ólíkar leiðir til að tala um siðbótina og um eðli hennar.
    • 4. október: Dr. Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Við ræddum við hana um sálma á tíma siðbótarinnar og eftir hana.
    • 11. október: Dr. dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur. Við ræddum meðal annars um Lúther og samviskuna og afdrif hugmynda hans á 20. öldinni
    • 18. október: Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði. Við ræddum við hana um það hvað fornleifafræðin kennir okkur um siðbótartímann og um hlutverk klaustranna á miðöldum og eftir siðbótina.
    • 25. október: Dr. Sigurður Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur í Hallgrímskirkju. Við ræddum við hann um arfleifð og áhrif Biblíunnar á Íslandi.
    • 1. nóvember: Dr. Guðrún Kvaran, prófessor emeritus. Við ræddum við hana um tungumálið og Biblíuþýðingarnar.
    • 8. nóvember: Sr. Bjarni Karlsson, prestur og ráðgjafi. Við ræddum við hann um sístæða siðbót í lútherskum kirkjum og nýbreytni í kristnihaldi á 21. öldinni.

    Ps. Þættirnir í fyrra hétu Samtal um siðbót, önnur þáttaröðin heitir Samtal um siðaskipti. Glöggir lesendur átta sig mögulega á því hver verður yfirskrift þriðju þáttaraðar, ef af henni verður.

  • #PrayForParis #PrayForBeirut

    Lífsins Guð. París og Beirut eru í huga okkar og hjarta.

    Við biðjum fyrir þeim sem týndu lífi sínu í gær og fyrradag. Fyrir þeim sem hafa misst ástvini. Fyrir þeim sem lifa í gíslingu og fyrir þeim sem finnst lífið aldrei verða samt. Við biðjum fyrir þeim sem bíða milli vonar og ótta við hlið þeirra sem þau elska og berjast fyrir lífi sínu.

    Við biðjum fyrir þeim sem hjálpa, fyrir heilbrigðisstarfsfólki og löggæslu, fyrir þeim sem gegna ábyrgðarstöðum í almannaþágu og taka ákvarðanir í okkar þágu.

    Fyrst og síðast biðjum fyrir heiminum okkar, sem þú elskar, en er svo brotinn og varnarlaus. Sendu ljós þitt og kærleika inn í aðstæður myrkurs og ótta. Komdu til okkar þegar við finnum bara reiði og vanmátt, hjálpaðu okkur að finna traust og kærleika í systrum okkar og bræðrum.

    Rjúf vítahring ofbeldis og fordóma, gef okkur kraft til að berjast fyrir hinu góða í þágu allra.

    Amen.

  • A prayer for refugees

    Almighty God, you so loved the world that you became one of us. Help us hear your calling to also love the world and serve our neighbour. Help us make room for those who come to our countries from afar and make them feel welcome. Make us willing to share the resources we are so blessed with.

    Loving God, you made us in your image. Help us see your image in every man, woman and child we meet. Let us remember that the sea of refugees in the world consists of individuals with their own names, own history, special experiences and dreams. Each and every one is created in your image, endlessly worthy and holy. Each and every one is precious to you and holds endless worth in your eyes.

    God of life, we thank you for your son, who became one of the many who are forced to leave their homes in search for security and shelter. We pray for all children who suffer and are afraid, because their homes are not safe. We pray for all children who are on the run, who are living in camps or in unsafe places. We pray for those children who did not make the journey to safety alive.

    Gracious Lord, we thank you for those who seek protection and new life in our homecountry. Let us see their gifts and talents so they can be included in a loving and serving community. Give authorities eyes of love and courage, so they might respect every human being, no matter where they come from. Give peace and righteousness in our world.

    We pray through your son and our brother, Jesus Christ. Amen.

    Written for the Ecumenical Prayer Cycle of the WCC.

  • Dagur minninga og þakklætis

    Sorgin er hluti af lífinu. Hún er fylgikona ástarinnar því allir sem hafa elskað eiga það á hættu að missa og syrgja. Sorgin getur verið sársaukafull og erfið en við eigum þó aldrei að bæla hana niður eða afneita henni, ekki frekar en við viljum skiljast við minningarnar um þau sem við höfum elskað eða bæla ástina okkar niður.

    Það er misjafnt hvernig syrgjendur vinna úr missi eftir andlát ástvinar. Sumir heimsækja gröf hins látna reglulega, aðrir sjaldan eða aldrei. Sumum líður best með að hlutir hins látna séu óhreyfðir í langan tíma, aðrir vilja taka til og fjarlægja þá sem fyrst. Margir tjá sig á Facebook. Sumir tala um hinn látna eða skrifa béf til viðkomandi. Öðrum finnst minningarnar dofna fljótt. Suma dreymir lifandi drauma oft, jafnvel á hverri nóttu, um þann sem þau hafa misst. Þetta eru allt eðlileg viðbrögð.

    Þegar við syrgjum erum við að ná tökum á því sem hefur breyst í lífi okkar. Á sama tíma leitum við nýrra leiða til lifa áfram með því tómarúmi sem verður til við missinn. Til að lifa með sorg, söknuði, tómleika og ótta. Til að lifa án hennar eða hans sem hefur kvatt, til lifa án framtíðarinnar sem við töldum örugga. Þetta tekur tíma og rými í lífinu okkar, rétt eins og ástin og minningarnar.

    Í árinu eru nokkrir dagar sem eru teknir frá fyrir minningarnar og þakklætið. Einn þeirra er Allra heilagra messa sem við höldum upp á 1. nóvember. Í kirkjum landsins er boðið til fjölbreyttra bænastunda þar sem við minnumst látinna. Kirkjugarðarnir eru líka opnir. Þangað er hægt að fara, eiga sína stund, kveikja á kerti, minnast og þakka. Þú ert velkomin í garð og til kirkju, Guð blessi þig, blessi minningarnar þínar og ástina og helgi sorg þína.

    Ragnheiður Jónsdóttir og Árni Svanur Daníelsson.
    Sóknarprestar í Mosfellsprestakalli og Reynivallaprestakalli.

    Birtist fyrst í Mosfellingi, 22. október 2015.

  • Að greina og skilja ríki og kirkju

    Við hjónin skrifuðum stutt svar við Bakherbergispistli Kjarnans um aðskilnað ríkis og kirkju. Umræðan um þetta mál er í fullum gangi og það skiptir miklu að ekki sé gengið út frá röngum forsendum. Pistillinn okkar hefst á helsti sem er svohljóðandi:

    Stutt svar við Bakherbergispistli Kjarnans um aðskilnað ríkis og kirkju. Á Íslandi er ekki ríkistrú og trúfrelsi er óumdeilt grunngildi í samtímanum. Aðskilnaðurríkis og kirkju getur haft í för með sér að ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá sé tekið burt en það hefur ekki bein áhrif á fjárhagsleg samskipti þjóðkirkjunnar og hins opinbera. Öll trú- og lífsskoðunarfélög fá sóknargjöld sem ríkið innheimtir. Sérstök fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju byggja ekki á sambandi þeirra heldur samningi tveggja sjálfstæðra aðila. Ríkið sparar enga peninga með aðskilnaði.

    Lesa í Kjarnanum.

  • Biblía flóttafólksins

    Einu sinni þegar við vorum að undirbúa messu hér í kirkjunni, sátum við nokkur og vorum að spjalla um Biblíuna og hvað hún væri eiginlega. Það er ekkert einfalt að svara því, og margskonar lýsingar geta náð utan um fyrirbærið. Stutt og algengt svar er að Biblían sé orð Guðs. Það svar skapar svo miklu fleiri spurningar um hvernig það gangi upp að samansett rit eftir ótal höfunda, skrifuð í ótal bókmenntastílum, í margs konar tilgangi, á ótrúlega löngum tíma, sé á einhvern hátt heilagt eða sérstakt.

    Fjölbreytt rit

    Þegar ég segi að Biblían sé fjölbreytt rit skrifuð í ólíkum tilgangi, á löngum tíma, þá á ég við að í henni eru til dæmis hreinræktaðir lagatextar ætlaðir inn í sérstakt samfélag; það eru langar frásögur um ævi og störf konunga og stjórnvalda á tilteknum tíma, það eru ævintýralegar upprunasögur, sem eiga að skýra tilkomu þjóða eða ástands sem allir þekkja, það eru helgisögur, það eru þjóðsögur, það eru ljóð og ljóðabálkar, það eru spekirit, sendibréf, uppeldisráð, o.s.frv.

    Við vitum nokkurn veginn hverjir skrifuðu sum þessara rita og við vitum ýmislegt um það við hvaða aðstæðurþau urðu til. Við vitum að sumir fengu lánuð minni úr eigin menningu eða úr sögum annarra þjóða, sem síðan urðu þeirra eigin sögur. Við vitum líka margt um hvað var að gerast í lífi þjóðarinnar sem skapaði þessi rit og hvað hún gekk í gegnum á þessum langa tíma.

    Sú staðreynd að Biblían er trúarrit kristinna manna, þarf að skoðast í þessu ljósi um fjölbreyttan og margskonar uppruna þess sem stendur í Biblíunni. Við þurfum líka að meta hana út frá því sem við vitum um fólkið sem skrifaði það sem stendur í henni. Við vitum nefnilega heilmikið um það. Og hér kemur það áhugaverða: eftir því sem við vitum meira um fólkið á bak við sögurnar í Biblíunni, því meira virði verða þær.

    Ég held að þar sé mjög einföld sálfræði að baki: manni fer að þykja vænt um þau sem maður kynnist. Þegar þú færð að skyggnast á bak við aðstæður fólks, færist þú nær því, skynjar hvernig reynslan mótar og stýrir og það rennur upp fyrir þér að þið eigið kannski eitthvað sameiginlegt. Það sem er sammannlegt færir okkur nær öðru fólki, í gegnum tíma og gegnum rúm. Það kemur í ljós að fólk sem okkur fannst vera órafjarri okkar eigin reynslu og eigin lífi, stendur okkur nær en okkur grunar.

    Fólk á flótta

    Þetta er reyndar eitthvað sem við höfum uppgötvað með nýjum þunga og nýjum hætti á Íslandi upp á síðkastið, þegar við höfum komist í snertingu við líf og aðstæður fólks sem hefur þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðsátaka og ofsókna. Það eru engar nýjar aðstæður og flóttafólk hefur alltaf verið til, vegna þess að þess að það hefur aldrei verið skortur á átökum, stríði, hagsmunaárekstrum og landvinningum.

    En það er þegar við komumst í snertingu við það sem sameinar okkur fólki á flótta, sem við förum að horfast í augu við að þar eru á ferð manneskjur sem eru eins og þú og ég, hafa samskonar tilfinningar, hafa drauma og vonir, hafa elskað, saknað og misst, eins og ég og þú. Börn á flótta eru eins og okkar börn. Þau vilja leika, prófa, knúsa, læra og ná tökum á nýjum og spennandi hlutum. Þegar við föttum þetta, lítum við ekki sömu augum á fólkið sem núna streymir frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum svæðum, í leit að betra lífi.

    Hælisleitendur frá Íran

    Flóttafólk er mál dagsins í Evrópu og líka á Íslandi. Í dag eru með okkur hér í kirkjunni tveir menn sem við höfum fengið að kynnast og þykir mjög vænt um. Þeir eru á flótta frá heimalandi sínu Íran og hafa sótt um hæli hér á landi. Enn sem komið er hafa þeir ekki fengið raunverulega áheyrn hér. En þeir hafa fengið úrskurð um að þeir megi ekki vera hér og verði fluttir tilbaka þaðan sem þeir komu. Af því að þeir eru vinir okkar, snertir þetta okkur djúpt hér í Laugarneskirkju og aðstæður vina okkar hafa opnað augu okkar fyrir veruleika flóttafólks allt í kringum okkur.

    Reza verður með okkur í kaffinu á eftir og ég vona að þið notið tækifærið til að spjalla við þá, gefa þeim high-five eða eitthvað. Eftir viku verður það kannski of seint því búið verður að flytja þá úr landi.

    Rit flóttafólksins

    Tökum aftur upp þráðinn um Biblíuna, þetta margbrotna, fjölbreytilega og flókna rit sem við kristnir menn köllum trúarritið okkar. Það er eitt sem kemur í ljós þegar við förum að skoða hana: mörg rit hennar hafa mótast af aðstæðum fólks á flótta. Ótrúlega mikið sem hefur borist til okkar í gegnum aldirnar í orðum og hugmyndum Biblíunnar á rætur sínar að rekja til veruleika flóttafólksins.

    Finnst ykkur það ekki magnað?

    Þetta sést í beinum sögum af einstaklingum, hópum og þjóðum sem hrekjast til og frá, úr landinu sínu, inni í það aftur og innan þess. Sagan sem við heyrðum í dag um samskipti Rutar og Bóasar, er af þessum meiði. Við munum líka eftir sögunni um þegar Jósef tók Jesúbarnið og Maríu móður þess og flúði til Egyptalands, til að verða ekki fyrir ofsóknum Heródesar konungs.

    Sagan af Jósef er annað dæmi um hvernig fólk á flótta og flutningum mætir okkur í Biblíunni. Hann var seldur í annað land – þar sem hann náði svo að koma undir sig fótunum og komst reyndar til mikilla metorða þar sem hann starfaði fyrir sjálfan Faraó, réði drauma og sinnti ráðgjafastörfum. Jósef er frábært dæmi um útlendinginn sem “aðlagast” og fær að njóta þess.

    Dæmi um hið gagnstæða, um útlendinginn sem aðlagast alls ekki og hefur engan áhuga á því, er sagan af Daníeli sem endaði í ljónagryfjunni. Hans saga er á þann veg að þjóð hans er hertekin og flutt gegn vilja sínum í annað land, þar sem annar konungur ríkir og þar sem önnur trúarbrögð eru stunduð. Þar sem Daníel ætlar ekki að láta beygja sig undir siði móttökulandsins, lætur hann hart mæta hörðu og endar, eins og við vitum, í ljónagryfjunni, þar sem konungurinn ætlar að kenna honum almennilega lexíu.

    Úr jarðvegi flóttafólks

    Það eru ekki bara sögur um einstaklinga á flótta sem gera Biblíuna að sannkölluðu flóttamannariti heldur óx mikið af grunnhugmyndum í Biblíunni úr jarðvegi þjóðflutninga og flóttafólks. Það er t.d. þegar Ísraelsþjóðin er í útlegð við Babýlonsfljót, en Babýlónía hin forna var þar sem Írak er í dag, að hún komst í kynni við sköpunarhelgisögurnar sem síðan fundu leið sína inn í ritin sem við köllum Mósebækur. Þar komust þau í snertingu við helgisögur eins og Nóaflóðið, sem síðan varð ein þekktasta saga Gamla testamentisins, sem tjáir auðvitað í grunninn, óskina eftir því að ranglæti verði upprætt og friður og sátt ríki.

    Ef flóttafólk eru jaðarhópur samfélagsins á okkar tímum, þá getum við líka sagt að Biblían sé rit um jaðarhópa hvers tíma. Taktu eftir því hvað oft hópar eins og útlendingar, fatlaðir, sjúkir, skækjur, óhreinir, eru nefnd til sögunnar, ekki síst til að varpa ljósi á hvers eðlis samfélagið er. Taktu eftir því hvað Jesús tekur oft dæmi af fólki á kantinum til að útskýra samband Guðs við heiminn. Taktu eftir því að sjálfur Guðs sonur er barn á flótta undan ofsóknum yfirvalda og þarf að leita skjóls í öðru landi.

    Taktu eftir þessum sögum, lærðu að þekkja og elska meðbróður þinn og systur sem er í erfiðum aðstæðum, opnaðu hjarta þitt og líf fyrir því sem Guð vill segja þér, í gegnum orðið sitt og fólkið sem hann sendir til að verða á vegi þínum.

    Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svao sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

  • Bæn á Alþjóða geðheilbrigðisdegi

    Á Alþjóða geðheilbrigðisdegi biðjum við.

    Drottinn Jesús Kristur sem ert risinn upp frá dauðum en berð enn með þér merki þjáningarinnar. Vertu með þeim sem ganga um dauða skuggans dal. Gefðu að við megum styðja þau og styrkja í hverri áskorun, í áþján misskilnings og særandi merkimiða.

    Þegar við erum óttaslegin, áhyggjufull og særð biðjum við þig að vera nærri. Þegar við missum tökum á veruleikanum biðjum við þig að halda fast í okkur. Þegar við gleymum hver við erum biðjum við þig að minna okkur á hver við erum. Þegar við erum í myrkrinu biðjum við þig að heyra harmljóð okkar.

    Góði Guð, þegar önnur eru særð, gerðu okkur að blessun þeirra, þótt við séum brotin sjálf. Þegar við heyrum ekki rödd umhyggju þinnar, finnum okkur ekki í faðmi kærleika þíns, biðjum við þig að styðja okkur í raunum okkar og gefa okkur framtíð þar sem við finnum vonina og erum örugg í þínum friði.

    Guð sem annast allt, styrktu okkur og fjölskyldur okkar svo við megum takast á við geðræn vandamál. Dýpkaðu skilning okkar. Kenndu okkur þolinmæði. Auktu getu okkar til að finna til samúðar og umburðarlyndis gagnvart öðrum. Hjálpaðu okkur að verða ekki fyrir aðkasti fordómafullra og fávísra og þeirra sem bera ekki hag annarra fyrir brjósti.

    Almáttugi Guð, leyfðu okkur að deila vegferðinni með öðrum, finna styrk í samfélagi með öðrum og að byggja saman samfélag stuðnings og líknar. Hlúðu að okkur og styrktu með kærleika þínum og skilningi, svo við getum breytt rétt og þjónað af umhyggju, linað þjáningar, annast aðra og rétt hjálparhönd.

    Amen.

  • Eitthvað jákvætt og uppbyggilegt

    Ertu á Facebook?

    Hvað skrifar þú mest um?

    Hverju deilir þú með öðrum?

    Myndum? Texta? Hugmyndum? Myndböndum? Efni sem vekur áhuga þinn?

    Hvað einkennir þitt framlag til vefsamfélagsins á fésinu?

    Ef þú ert eins og flestir þá er það eitthvað jákvætt og uppbyggilegt. Það sem ritstjórinn Jónas Kristjánsson kallaði Ást og friður í bloggfærslu um daginn:

    Fólk býður góðan daginn, sýnir myndir af afabörnum, segir frá grillun með vinum og öðrum dásemdum tilverunnar.

    Og svo gaf samfélagsmiðlinum hann einkunn:

    Fésbókin er afar „jákvæður“ miðill, sem hvetur okkur til að vera góð.“

    Við þetta má bæta: hún hvetur okkur til að vera góð, jákvæð og uppbyggileg, í daglega lífinu. Hún er vettvangur til að deila því sem við upplifum hér og nú. Ekki einhverju hátt-upp-höfnu og fjarlægu. Heldur lífinu okkar. Bara eins og það er.

    Ég held að okkur geti stundum yfirsést þessi jákvæðni af því að oft er nöldrað yfir netinu:

    • Fólk notar það of mikið,
    • skrifar um eitthvað óáhugavert –
    • svo er það þessi hópur sem er „virkur í athugasemdum“ sem þykir víst ekki par fínn.

    En svona er þetta.

    Læk

    Þetta uppbyggilega eðli facebook og kannski samfélagsmiðlanna almennt er staðfest með því hvernig viðbrögð við getum sýnt.

    Við getum auðvitað skrifað viðbrögð eða sett mynd eða jafnvel myndband í viðbrögð – en það einfaldasta af öllu er að smella að þrýsta á læk-hnappinn.

    Læk.

    Það getur merkt:

    • Takk fyrir.
    • Sammála.
    • Þetta er áhugavert.
    • Ég stend með þér.
    • Þú ert ekki einn.
    • Þú skiptir máli.

    Og ekki bara það heldur: Daglega lífið þitt skiptir máli.

    Kannski ekki alla í veröldinni. En þann hóp sem tengist þér á Facebook.

    Og ást, húmor, depurð, reiði

    Í vikunni var reyndar kynnt tilraun á Facebook. Það á að bæta við hnöppum. Læk verður að viðbrögðum og viðbragðshnapparnir verða sjö talsins:

    1. Læk.
    2. Ást.
    3. Fyndið.
    4. Jibbí.
    5. Vá.
    6. Depurð.
    7. Reiði.

    Það sem við deilum með öðrum nær nefnilega yfir allan tilfinningaskalann og viðbrögðin gera það líka. Hver hefur til dæmis ekki hugsað sig tvisvar um áður en smellt er á læk við stöðuuppfærslu sem fjallar um eitthvað sorglegt eða erfitt.

    Við vitum samt að lækir merkir ekki: Mikið var gott að þú lentir í vanda. Það merkir til dæmis: Ég hugsa til þín. Ég veit af þér.

    En það sem er áhugavert við þessa tilraun Facebook er að nýju lækhnapparnir gefa þér verkfæri til að sýna samstöðu með skýrari hætti. Sýna samhygð. Og skilaboðin eru þau sömu og áður:

    Ég stend með þér.

    Englarnir og títuprjónshausinn

    Hér ætla ég að gera stuttan útúrdúr.

    Vitið þið hvað margir englar komast fyrir á títuprjónshausi?

    Ég veit það ekki. En þetta er semsagt ein af spurningunum sem var spurt á miðöldum þegar búin voru til flókin kerfi til að komast að mikilvægum sannleika um hið heilaga og eilífa og um Guð. Þá veltu menn semsagt fyrir sér hvort og þá hvað mikið pláss englar taka. Þeir hafa nefnilega ekki hefðbundinn líkama.

    Kannski fannst einhverjum þetta fyndið.

    Þetta minnir mig á brandarana um það hvað þú kemur mörgum manneskjum fyrir í litlum bíl.

    Marteinn Lúther siðbótarmaður brást við svona vangaveltum með því að segja að við ættum ekki eyða tímanum í svona spurningar. Þess í stað ættum við að setja fingurinn á það sem skipti máli. Á það sem hægt að gera hér og nú. Því Guð væri ekki hátt upp hafinn og fjarlægur heldur nálægur og að verki.

    Ég rifjaði þetta upp þegar ég las guðspjall dagsins þar sem Jesús er spurður: „Hvers vegna er þessi maður blindur?“ Og svo fær hann tvo valkosti til að svara.

    • Syndgaði hann?
    • Syndguðu foreldrar hans?

    En Jesús svarar:

    „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er.“

    Þegar ég les þetta sé ég fyrir mér að hann hafi dæst og sagt eitthvað á þessa leið:

    Krakkar, slakið aðeins á, þetta snýst ekki um að velta fyrir sér synd og sekt heldur um það sem við ætlum að gera í málinu. 

    Svo læknaði hann manninn. Því þannig vann Jesú.

    Og hver er boðskapurinn: Mikilvægast af öllu er verk Guðs. Og hvað er það? Það er að elska í verki. Með höndunum og orðunum og munninum og munnvatninu eins og við sjáum í guðspjalli dagsins.

    Nei, þetta snýst ekki um að skyrpa.

    Þetta snýst um að sýna umhyggju í verki með öllu sem við eigum. Hugmyndum, orðum, höndum og fingrum og því öllu.

    Þið skiljið.

    Jarðbundið

    Og þetta er eiginlega frekar jarðbundið en himneskt. Þess vegna finnst mér þetta líka kallast svo ágætlega á við samfélagsmiðlana og fésbókina vegna þess að hún er jarðbundin. Hún er hér og nú. Skilaboðin sem við lesum þar eru endurtekin:

    Þetta er það sem ég upplifi eða upplifði. Mig langar að deila því með þér.

    Og lækið sem er okkar viðbrögð segir:

    Takk. Ég sé þig.

    Og þegar vel tekst til er það tjáning á umhyggju og ást sem ber áfram skilaboðin:

    Þú ert hluti af hópi, þú skiptir máli og ég er þakklátur fyrir þig og þitt framlag.

    Þegar við höfum þetta sem útgangspunkt og samskiptamáta þá held ég að það hafi áhrif – mótandi áhrif – á önnur samskipti.

    Ég held að það greiði fyrir því að við vinnum verk hans sem skapaði heiminn og sendir okkur til annara með það verkefni að skilja eftir okkur falleg spor og láta láta gott af okkur leiða. Og breyta þanning heiminum.

    Þannig ná fésbókin og Jesús saman í því sem er jarðbundið og einfalt. Í því sem er hér og nú. Í því sem er til uppbyggingar og er til góðs.

    Fæ ég kannski læk á það?

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.