Sorgin er hluti af lífinu. Hún er fylgikona ástarinnar því allir sem hafa elskað eiga það á hættu að missa og syrgja. Sorgin getur verið sársaukafull og erfið en við eigum þó aldrei að bæla hana niður eða afneita henni, ekki frekar en við viljum skiljast við minningarnar um þau sem við höfum elskað eða bæla ástina okkar niður.
Það er misjafnt hvernig syrgjendur vinna úr missi eftir andlát ástvinar. Sumir heimsækja gröf hins látna reglulega, aðrir sjaldan eða aldrei. Sumum líður best með að hlutir hins látna séu óhreyfðir í langan tíma, aðrir vilja taka til og fjarlægja þá sem fyrst. Margir tjá sig á Facebook. Sumir tala um hinn látna eða skrifa béf til viðkomandi. Öðrum finnst minningarnar dofna fljótt. Suma dreymir lifandi drauma oft, jafnvel á hverri nóttu, um þann sem þau hafa misst. Þetta eru allt eðlileg viðbrögð.
Þegar við syrgjum erum við að ná tökum á því sem hefur breyst í lífi okkar. Á sama tíma leitum við nýrra leiða til lifa áfram með því tómarúmi sem verður til við missinn. Til að lifa með sorg, söknuði, tómleika og ótta. Til að lifa án hennar eða hans sem hefur kvatt, til lifa án framtíðarinnar sem við töldum örugga. Þetta tekur tíma og rými í lífinu okkar, rétt eins og ástin og minningarnar.
Í árinu eru nokkrir dagar sem eru teknir frá fyrir minningarnar og þakklætið. Einn þeirra er Allra heilagra messa sem við höldum upp á 1. nóvember. Í kirkjum landsins er boðið til fjölbreyttra bænastunda þar sem við minnumst látinna. Kirkjugarðarnir eru líka opnir. Þangað er hægt að fara, eiga sína stund, kveikja á kerti, minnast og þakka. Þú ert velkomin í garð og til kirkju, Guð blessi þig, blessi minningarnar þínar og ástina og helgi sorg þína.
Ragnheiður Jónsdóttir og Árni Svanur Daníelsson.
Sóknarprestar í Mosfellsprestakalli og Reynivallaprestakalli.
Birtist fyrst í Mosfellingi, 22. október 2015.