Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblíublogg 11: Gengið um regnbogann

    Your rainbow panorama

    „Og Guð sagði: „Þetta er tákn sáttmálans fyrir allar ókomnar aldir sem ég stofna til milli mín og ykkar og allra lifandi skepna sem hjá ykkur eru. Boga minn hef ég sett í skýin. Hann skal vera tákn sáttmálans milli mín og jarðarinnar. Þegar ég færi ský yfir jörðina og boginn sést í skýjunum mun ég minnast sáttmálans milli mín og ykkar og allra lifandi skepna, alls holds, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði sem tortímir öllu lífi. Hverju sinni sem boginn stendur í skýjunum mun ég sjá hann og minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi vera, alls sem lifir á jörðinni.“ 1. Mós 9.12-16

    Regnbogagangur

    Ofan á ARoS listasafninu í Árósum í Danmörku er nýtt listaverk eftir Ólaf Elíasson sem heitir Your rainbow panorama. Verkið er 150 metra langur gangur sem er þriggja metra breiður og stendur á súlum sem eru 3.5 metra háar. Ytri og innri veggir þess eru úr gleri í öllum regnbogans litum. Það er tilkomumikið að horfa á listaverkið að utan í margskonar birtu og sjá fólk ganga um það. Enn magnaðra er þó að stíga inn í regnbogann og leyfa honum að móta sýnina á umhverfið og skynjunina á heiminum.

    Rýmið og skynjunin

    Listamaðurinn lýsir verki sínu svona: „Your rainbow panorama opnar á samtal við byggingarlistina og styrkir það sem við þekktum fyrir, sem er sýnin á borgina. Ég hef búið til rými sem strokar úr mörkin milli þess sem er fyrir innan þess sem er utan við – þar sem fólk verður óöruggt um það hvort þau hafa stigið inn í listaverkið eða eru enn í safninu. Það óöryggi skiptir mig máli því það hvetur fólk til að hugsa út fyrir mörk hins hefðbundna rýmis sem við hreyfum okkur í og það opnar á annars konar skynjun.“

    Tákn himinsins

    Þegar gengið er um regnbogann opnast hugurinn fyrir nýrri skynjun sem getur allt eins verið trúarleg og kallast á við hugmyndina um regnbogann sem tákn um sáttmálann milli Guðs og manns. Þannig getur gangan um regnboga Ólafs Elíassonar orðið að trúargöngu, kannski eins konar pílagrímsgöngu þar sem pílagrímurinn tekur sér stöðu ofan við borgina og horfir á landslag bygginganna, fólkið og umferðina, íhugar það flóðin og það erfiða í lífinu og það falleg samskipti og það góða í lífinu, í fullri meðvitund um að við hvílum traust á loforðinu um að sáttmálinn haldi og Guð muni vel fyrir sjá.

    Myndir af regnboganum.

  • Þetta er nú meira veðrið

    Þetta er nú meira veðrið

    Mynd 41 af 365. Þetta er nú meira veðrið.

  • Biblíublogg 10: #emojibiblía

    Emojibiblía


    Það eru ýmsar leiðir til að miðla Biblíusögum í samtímanum. Ein er sú að nota emoji-tákn. Hér að ofan má sjá tilraun til að segja fyrri sköpunarsöguna með þessum hætti. Hvaða sögu myndir þú vilja segja? Deildu henni á twitter og merktu með #emojibiblía.

  • Ekki grafa talentuna

    Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur:

    Við gröfum okkar talentu eða trúna líka í jörðu, ef við geymum orð Guðs innan veggja kirkjunnar og gleymum því þar. Við erum öll flytjendur fyrirgefningar orðs Krist og eigum að láta orð hans hugga og styrkja okkur og aðra.

    Köllun kirkjunnar í samfélaginu og almennur prestsdómur í guðfræðilegri hnotskurn. Með guðfræðilegu orðfæri.

    Á mannamáli:

    Kirkjan á að vera sýnileg í samfélaginu og virk í umræðunni um málefni dagsins. Við eigum öll að sinna öðrum og biðja fyrir þeim, ekki bara þau sem fá borgað fyrir það.

  • Umönnun er ekki tæknilegt úrlausnarefni

    Guðmundur Andri Thorsson:

    Engu er líkara en að forsvarsmenn Strætó hafi litið á þetta eingöngu sem tæknilegt úrlausnarefni fremur en þátt í umönnunarstörfum þar sem reynir á hæfni í mannlegum samskiptum við ólíkt fólk með ólíkar þarfir; fólk sem á það sameiginlegt að eiga vegna fötlunar erfitt með að fara ferða sinna en er að öðru leyti ýmislegt og alls konar.

    Hann hittir naglann á höfuðið, eins og svo oft áður. Nú er að sjá hvað bráðabirgðastjórnin sem var sett í málið gerir.

  • Biblíublogg 9: Kvenmyndir af Guði

    Í Biblíunni eru notaðar margar líkingar til að lýsa Guði. Sumar líkingarnar tengjast konum, til dæmis þessar:

    Guð er eins og ljón, pardus og birna:

    Ég mun reynast þeim sem ljón,
    ligg í leyni við veginn eins og pardus,
    ræðst á þá eins og birna
    svipt húnum sínum (Hós 13.7-8)

    Guð er eins og móðir sem elur barn við brjóst sitt:

    Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
    að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
    Og þó að þær gætu gleymt
    þá gleymi ég þér samt ekki. (Jes 49.15)

    Guð er eins og móðir sem huggar:

    Eins og móðir huggar barn sitt,
    eins mun ég hugga yður,
    í Jerúsalem verðið þér huggaðir. (Jes 66.13)

    Svo líkir Jesús sér við hænu:

    Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi? (Matt 23.37)

    Það er misjafnt eftir því hvar við erum stödd í lífinu hvaða líking talar til okkar.

    Hvaða líking talar til þín núna?

  • Biblíublogg 8: Ég stend með þér

    Í tuttugasta og fimmta kafla Matteusarguðspjalls eru talin upp verk sem eiga að móta viðhorf okkar til náungans. Þau útskýra hvað náungakærleikur merkir.

    Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín. (Matt 25.35-36)

    Þessi verk hafa í trúarhefðinni verið nefnd miskunnarverk og þau standa fyrir ábyrga afstöðu til náungans og mynda grundvöll samhjálpar og velferðar.

    Fyrir nokkrum árum var leitað til almennings að svari við spurningunni hver eru miskunnarverk samtímans. Niðurstaðan var þessi: Þú ert í hópnum, ég stend með þér, ég tala vel um þig, ég geng með þér dálítinn spöl, ég deili með þér, ég heimsæki þig, ég bið fyrir þér.

    Hvort tveggja, hin klassísku miskunnarverk og hin könnuðu miskunnarverk eru gagnleg þegar kemur að því að skilja hvað náungakærleikur og umhyggja merkir fyrir okkur sem tilheyrum hinni kristnu kirkju.

  • Gnarr og gott með góðu

    Jón Gnarr:

    Ég reyni að launa gott með góðu og illt reyni ég líka að launa með góðu til að efla hið góða. […]

    Það verður tilgangslaust að dæma aðra. Fólk hættir að fara í taugarnar á manni og maður á engan óvin í nokkurri manneskju því um leið og maður elskar sjálfan sig þá elskar maður aðra því allir aðrir eru hluti af manni sjálfum.

    Sammála. Það er tilgangslaust að búa sér til óvini. Samt er fólk alltaf að því.

  • Biblíublogg 7: Jesús berst við guðleysingjana

    Ein af forvitnilegustu Jesúmyndunum er Jesus Christ Vampire Hunter. Þetta er kanadísk B mynd sem fjallar um endurkomu Jesú til að kljást við vampírur. Sumir hafa kallað myndina blöndu af Jesú frá Montreal og Vampírubananum Buffy. Í myndinni er þetta atriði þar sem Jesús berst við guðleysingja.

    Þetta er auðvitað ekki Jesús sem friðflytjandi, en þetta er ein myndin sem birtist af Jesú í svonefndum Jesúmyndum. Stundum byggja þær með beinum hætti á texta Bibíunnar, stundum ekki.

  • Hagsmunamál, ekki hagsmunapot

    Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði:

    Á meðan mýtan segir að karlar eigi erfitt með að fá prestsembætti segir raunveruleikinn okkur hið gagnstæða. Ég held að það verði engin breyting hér á fyrr en fólkið í kirkjunni okkar kemst að þeirri niðurstöðu að það sé hagur kirkjunnar að hæfar konur og hæfir karlar gegni til jafns störfum og ábyrgðarstöðum innan kirkjunnar.

    Þetta er mergurinn málsins: jafnrétti er hagsmunamál, ekki hagsmunapot.