„Og Guð sagði: „Þetta er tákn sáttmálans fyrir allar ókomnar aldir sem ég stofna til milli mín og ykkar og allra lifandi skepna sem hjá ykkur eru. Boga minn hef ég sett í skýin. Hann skal vera tákn sáttmálans milli mín og jarðarinnar. Þegar ég færi ský yfir jörðina og boginn sést í skýjunum mun ég minnast sáttmálans milli mín og ykkar og allra lifandi skepna, alls holds, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði sem tortímir öllu lífi. Hverju sinni sem boginn stendur í skýjunum mun ég sjá hann og minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi vera, alls sem lifir á jörðinni.“ 1. Mós 9.12-16
Regnbogagangur
Ofan á ARoS listasafninu í Árósum í Danmörku er nýtt listaverk eftir Ólaf Elíasson sem heitir Your rainbow panorama. Verkið er 150 metra langur gangur sem er þriggja metra breiður og stendur á súlum sem eru 3.5 metra háar. Ytri og innri veggir þess eru úr gleri í öllum regnbogans litum. Það er tilkomumikið að horfa á listaverkið að utan í margskonar birtu og sjá fólk ganga um það. Enn magnaðra er þó að stíga inn í regnbogann og leyfa honum að móta sýnina á umhverfið og skynjunina á heiminum.
Rýmið og skynjunin
Listamaðurinn lýsir verki sínu svona: „Your rainbow panorama opnar á samtal við byggingarlistina og styrkir það sem við þekktum fyrir, sem er sýnin á borgina. Ég hef búið til rými sem strokar úr mörkin milli þess sem er fyrir innan þess sem er utan við – þar sem fólk verður óöruggt um það hvort þau hafa stigið inn í listaverkið eða eru enn í safninu. Það óöryggi skiptir mig máli því það hvetur fólk til að hugsa út fyrir mörk hins hefðbundna rýmis sem við hreyfum okkur í og það opnar á annars konar skynjun.“
Tákn himinsins
Þegar gengið er um regnbogann opnast hugurinn fyrir nýrri skynjun sem getur allt eins verið trúarleg og kallast á við hugmyndina um regnbogann sem tákn um sáttmálann milli Guðs og manns. Þannig getur gangan um regnboga Ólafs Elíassonar orðið að trúargöngu, kannski eins konar pílagrímsgöngu þar sem pílagrímurinn tekur sér stöðu ofan við borgina og horfir á landslag bygginganna, fólkið og umferðina, íhugar það flóðin og það erfiða í lífinu og það falleg samskipti og það góða í lífinu, í fullri meðvitund um að við hvílum traust á loforðinu um að sáttmálinn haldi og Guð muni vel fyrir sjá.