Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Bæn um frið á erfiðum tímum

    Guð réttlætis, friðar og sátta.

    Á tímamótum nýrra átaka í Mið-Austurlöndum, komum við fram fyrir þig, með brostin hjörtu vegna þjáningar, dauða og ranglætis sem hafa dunið yfir íbúa Landsins helga. 

    Öll erum við ein fjölskylda en upplifum samt daglega hvað samskipti okkar eru brotin. 

    Miskunnsami Guð, við biðjum að þú umbreytir hjörtum og huga, setjir virðingu fyrir öðrum í stað fjandskapar, og að ótti víki fyrir náungakærleika.

    Við biðjum fyrir friði í Landinu helga og Mið-Austurlöndum og að stríð og ofbeldi taki enda. 

    Endurnýja von okkar, ó Guð.

    Við biðjum um lausn gísla í haldi, við biðjum um vernd yfir saklausum, um að mannréttindi séu virt, að hjálparliðar njóti verndar.

    Gef leiðtogum visku og hugrekki til að velja frið framyfir stríð.

    Megi réttlæti umvefja íbúa Palestínu. 

    Opna framtíðarleiðir fyrir börn Ísraels og Palestínu að lifa saman í öryggi og friði. 

    Miksunnsami Guð, gef okkur frið inn í stríðandi aðstæður, til svæða sem upplifa átök og stríð:

    Í Úkraínu, Súdan, Myanmar og svo mörgum öðrum löndum.

    Gef okkur umbreytandi frið sem fær að ríkja, gef að þjóðir og samfélög sættist og fái lifað saman lífi í fulli gnægð, eins og þú hefur fyrirbúið þeim öllum.

    Amen. 

    Þessi bæn kemur frá Lútherska heimssambandinu, Kristín þýddi hana á íslensku.

  • Ósíuð aðventa 3: Tiltekt

    Hver einasti dagur ber með sér skyldur og verkefni sem þarf að vinna til að uppfylla kröfur sem við sjálf og aðrir gera til okkar. Orkan fer í að viðhalda sér og viðhalda þessum kröfum og tíminn í að borða, drekka, kaupa, borga, tékka á facebook, svara tölvupóstum. Í þessu daglega áreiti er auðvelt að týnast og missa sjónar af því hvað okkur langar að vera og til hvers lífið er.

    Aðventan er tækifæri til að núllstilla og taka til (ekki bara í eldhússkápum og geymslum, til að búa til meira pláss fyrir það sem er keypt fyrir jólin heldur líka) í daglegum venjum og rútínum. Aðventan er tækifæri til að uppgötva NÚIÐ og hvernig það getur verið þessi litla sprunga sem hleyptir ljósinu í gegnum veggina sem við byggjum kringum okkur.

    Aðventan getur hvatt okkur til að taka tíma til að staldra við og íhuga hvað í lífinu okkar og umhverfi styrkir og nærir, og hvað tætir og þreytir. Getur verið að þéttpökkuð dagskrá í vinnu, félagslífi, líkamsrækt og tómstundum, sé það sem stjórni lífi okkar en ekki það sem okkur finnst skipta mestu máli þegar allt kemur til alls? Leynist innra með okkur þrá og ósk um að verða eitthvað annað og meira en það sem dagskráin okkar skilgreinir og forgangsraðar?

    Aðventan er líka tækifæri fyrir okkur sem eigum börn að tala um hvernig við forgangsröðum og notum tímann okkar. Getur verið að í dögunum okkar sem við eigum saman, leynist tækifæri til að leggja til hliðar síma, spjöld og tölvur, og njóta þess að vera bara saman?

    Myndin að ofan sýnir gamalt jólaskraut sem við sáum á jólamarkaði í Berlín.

  • Ósíuð aðventa 2: Plógjárn úr sverðum

    Fyrir framan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York er stór og mikil stytta af nöktum vöðvastæltum karlmanni. Hann mundar sleggju, lætur höggin dynja á sverði úr járni og er greinilega að móta það í eitthvað annað.

    Þetta er styttan Breytum sverðum í plóga eftir sovéska myndhöggvarann Yevgeny Viktorovich Vuchetich (1908-1974). Vísunin er beint í texta úr Biblíunni, í bók Jesaja spámanns (2.4) þar sem segir:

    Og hann mun dæma meðal lýðanna
    og skera úr málum margra þjóða.
    Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum
    og sniðla úr spjótum sínum.
    Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð
    og ekki skulu þær temja sér hernað framar.

    Þessi texti er alltaf lesinn á aðventunni og stendur fyrir hugsjónina um róttækan frið þar sem vopnum og stríðsrekstri er snúið til þess sem gagnast farsælum samfélögum, ræktun landsins og matarframleiðslu. Jesaja textinn undirbýr okkur fyrir jólin, hátíð ljóss og friðar, með því að setja í orð vonina um heim þar sem vopnin eru kvödd, og hugvit og orka þjóðanna fari í að sjá fólkinu sínu farborða í staðinn fyrir að berjast um lönd og auðlindir með hörmulegum afleiðingum.

    Það sem er áhugavert við sovésku styttuna er að þarna notar listamaður sem kemur úr yfirlýstu guðlausu umhverfi minni úr ritningu kristinna og gyðinga, til að tjá sammannlega þrá og ósk eftir því góða og göfuga. Styttan er því sterk minning um áhrif Biblíunnar í menningu og listum. Hér vísar hún kannski beint í aðgerðir sem miða að vopnaeyðingu og útrýmingu ógnarvopna 20. aldarinnar, kjarnorkuvopnanna.http://arniogkristin.is/wp-admin/post.php?post=5738&action=edit#category-add

    Megi stælti, berrassaði maðurinn með sleggjuna blása okkur í brjóst vilja og hugrekki til að vinna að friði og framþróun í heiminum okkar allra á þessari aðventu.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 1: Hvar er skrautið?

    Við þekkjum öll klisjuna um að í fjarlægðinni áttum við okkur betur á því hvernig lífið heima við birtist. Við upplifum það svolítið hérna í Genf þar sem við höfum búið frá því í sumar. Núna, þegar aðventan gengur í garð, erum við nefnilega alveg gáttuð yfir því hvað er lítið um það sem einkennir aðventuna heima á Íslandi – nefnilega ljós í hverjum glugga og skraut á skraut ofan.

    Kannski er þetta sem ætti ekki að koma neinum á óvart sem þekkir til sögu Genfar, hér var náttúrulega höfuðvígi kalvínismans (sem er kenndur við franska siðbótarfrömuðinn Kalvín sem hér starfaði um langa hríð og mótaði mjög stjórn og skipulag borgarinnar) þar sem menn voru nú ekki að missa sig í prjáli og hégóma. Þótt Genf sé með sekúleraðri borgum heims í dag, þá lifir menningar-kalvínisminn og borgin hefur almennt það orð á sér að vera hófstillt í skrauti og gleðskap.

    Þessi munur liggur kannski í því hvernig við finnum þörf á að bregðast við dimmasta tíma ársins á norðurslóðum annars vegar og hins vegar í mið- Evrópu – þar sem naumast er hægt að tala um skammdegi eða vetrarveður á þessum árstíma. Hér eru trén ennþá laufguð og blómin lifa góðu lífi á svölum og í reitum. Þau sem hafa kynnst aðventunni á Norðurlöndum vita að hún er meiriháttar mál og fólk almennt gerir sér far um að marka hana á einhvern hátt í rými hins persónulega og samfélagsins, alveg burtséð frá trúarlegum tengingum og rótum.

    Hvað sem því líður þá ætlum við ekki að láta okkar eftir liggja í litlu blokkaríbúðinni okkar. Við erum búin að hengja upp stóru ljósstjörnuna sem hefur farið upp öll okkar sameiginlegu jól og sendum með ljósi hennar bestu óskir um frið og sátt á þessari aðventu.

    #ósíuðaðventa

  • Ekki næs – Dyflinnarkerfið virðir ekki manneskjur

    eftir Kristínu Þórunni Tómasdóttur og Toshiki Toma.

    Hver myndi stíga um borð í bát með galla á botninum? Enginn. Eða léti annað fólk fara á sjóinn í honum? Hver myndi telja slíkt í lagi? Varla nokkur maður. Eða hvað?

    Því miður virðist þetta samt vera iðkað þegar kemur að málefnum hælisleitenda á Íslandi.

    Á föstudaginn sl. fengu tveir íranskir umsækjendur um alþjóðlega vernd, úrskurð um frávísun á grundvelli Dyflinnareglugerðar, en þeir eru búnir að vera hérlendis um eitt ár. Báðir sóttu fyrst um alþjóðlega vernd í Noregi. Annar eyddi þar átta árum, hinn sjö árum áður en þeir komu til Íslands. Í Noregi fengu þeir sömu niðurstöðu og átti að senda þá tilbaka til Írans.

    Norsk völdin senda flóttamenn til baka hvert sem er, og það er undrunarefni hvers vegna engin þjóð í Evrópu mótmælir þessu bersýnilega broti á alþjóðlegum flóttamannasamningum.

    Mennirnir tveir eru báðir kristnir og ef þeir verða sendir til Noregs og þaðan til Írans, er líf þeirra sannarlega í hættu. Annar þeirra greindi frá viðbrögðum norskra yfirvalda við þessum aðstæðum. Ráðið sem hann fékk var: ,,Ef þú talar ekki um trú þína, þá verður þú í fínu lagi“.

    Eins og margir hafa bent á, virðir Dyflinnarkerfið ekki mannslíf og er í raun ónýtt. Ástæðan er það ójafnvægi sem skapast vegna pólitískrar stefnu hvers ríkis sem á aðild að kerfinu og mismunandi fjölda flóttafólks í hverju landi.

    Það skýtur skökku við að einmitt núna þegar íslenskt þjóðfélag ræðir af einlægni um málefni flóttafólks í Evrópu og meirihluti þjóðarinnar ásamt löggjafanum tjáir vilja sinn að taka á móti auknum fjölda flóttafólks, skuli íslensk yfirvöld hafna umsækjendum um alþjóðlega vernd án þess að hirða um að skoða aðstæður þeirra.

    Hér er ekkert samræmi. Hér veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir. Við getum ekki kastað fólki burt um leið og við segjum vilja taka á móti fleirum. Allir fæðast með rétt til virðingar og sérhvert mannslíf er óendanlega dýrmætt.

    Við biðjum í einlægni yfirvöld í málefnum útlendinga að horfa á málin út frá þessum raunveruleika. Dyflinnarkerfið er gallaður bátur sem ekki er hægt að senda fólk með á haf út. Slíkt felur ekki í sér virðingu fyrir mannslífum og slíkt er alls ekki næs.

    Sem prestar og kristið fólk skorum við því á íslensk stjórnvöld á að hætta að beita Dyflinnarreglugerðinni, og efla þannig mannvirðingu og sanngirni í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd.

    Birtist fyrst á Vísi.is 19. september.

  • Vatnsflöskur og lófatak

    Það eru sannarlega andstæður sem mæta okkur í íhugunarefni dagsins eins og þau birtast í biblíutextunum. Textinn í Davíðsálmunum lyftir okkur í hæstu hæðir og staðsetur okkur í himneskri fegurð og fullkomnu ástandi.

    Lofa þú Drottin, sála mín,
    og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;
    lofa þú Drottin, sála mín,
    og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

    Allt önnur mynd mætir okkur í guðspjallinu, þar göngum við með Jesú inn í borgina og leiðin liggur fram hjá stað þar sem ótal manneskjur í neyð bíða eftir tækifæri til að verða heilar.

    Það er eitthvað ofboðslega yfirþyrmandi og niðurdrepandi við þessar aðstæður, þar sem fólkinu hefur verið hrúgað saman í hjálparleysi sínu. Sumir hafa verið þarna svo árum saman, eins og maðurinn sem Jesú talar við – hann hafði verið þarna í 38 ár. Kannski var hann búinn að gefa upp alla von, á meðan fólk í kringum hann hafði jafnvel hlotið bata og komist úr þessum aðstæðum, hafði hann engan til að hjálpa sér og var þess vegna fastur á sama stað.

    Þessi gamla saga í guðspjallinu á sér því miður hliðstæður í samtímanum. Í hugann koma myndir af fólki í flóttamannabúðum sem hefur verið hrúgað saman og býður þar hjálparlaust, jafnvel árum saman. Þótt flóttamannavandinn í heiminum hafi náð athygli okkar sem búum í Evrópu síðustu daga og vikur, þá er saga þeirra sem hrekjast frá heimilum sínum vegna stríðsátaka, hernáms, náttúruhamfara og efnahags, síður en svo ný.

    Fólkið sem er núna að streyma frá Sýrlandi yfir til Evrópu og hefur svo rækilega náð að vekja athygli okkar á óbærilegum aðstæðum, er nefnilega ekki dæmigerðir flóttamenn eða stærsti hópurinn sem hefur lagt á flótta. Fólki er iðulega komið fyrir í flóttamannabúðum sem eru reistar nálægt löndunum sem það kemur frá og býður þar, þangað til aðstæður skapast fyrir það til að snúa aftur eða önnur lausn er fundin. Það felur venjulega í sér að í gegnum Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna er samið við yfirvöld annarra ríkja um að svo og svo margir flóttamenn fái að flytja til viðkomandi lands. Eins og gefur að skilja tekur þetta ferli langan tíma og það gengur hræðilega hægt að finna lausnir sem henta öllum og geta gefið fólki tækifæri á mannsæmandi og öruggu lífi.

    Í umræðunni á Íslandi hefur fólk vitaskuld staldrað við möguleika og tækifæri flóttafólks til að aðlagast og verða virkir þátttakendur í samfélaginu, með réttindi og skyldur eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Það er auðvitað engin ástæða til annars en að ganga út frá því að slíkt muni ganga vel í allra flestum tilvikum, eins og áhrifamiklar sögur þeirra sem hafa áður komið hingað sem flóttamenn, frá Balkanskaga eða Víetnam, og eru núna frábærir nágrannar, vinir og samstarfsmenn, sýna.

    Það er líka mikilvægt að hafa í huga þau atriði sem þurfa að vera til staðar til að þau sem hingað koma sem flóttamenn hafi raunverulega möguleika til að aðlagast svo þeim líði sem best og allir vinni! Hérna vil ég að við skoðum aftur söguna um Jesú og fólkið í súlnagöngunum, því hún segir heilmikið um hluti eins og hjálp og sjálfshjálp og hjálp til sjálfshjálpar.

    Jafnvel í yfirþyrmandi og niðurdrepandi aðstæðum er von og vonin er fólgin í því að grípa inn í aðstæður, stöðva það sem rífur niður og setja nýja hluti í gang. Jafnvel þegar við höldum að við eigum það ekki í okkur að standa upp og ganga úr aðstæðum sem kreppa okkur og brjóta niður, er það hægt, ef okkur er mætt með kærleika sem er styðjandi en ekki meðvirkur.

    Það er reyndar dásamlegt hvað Jesús er alveg laus við að vera meðvirkur þegar hann talar við sjúka manninn í súlnagöngunum – þennan sem hafði verið sjúkur í 38 ár og var búinn að gefa upp alla von, af því að það var alltaf einhver annar sem komst fram fyrir hann í röðinni. Jesús spyr hann spurningu þar sem svarið ætti í raun að vera augljóst – en hefur kannski ekki verið það. Viltu verða heill? spyr Jesús, þennan mann sem hefur legið í 38 ár bjargar- og hjálparlaus. Maðurinn svarar eiginlega til að afsaka sig eða skella skýringunni á aðra:

    „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“

    Svarið sem Jesús gefur honum er hreint og beint og það breytir öllu í lífi mannsins:

    Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.

    Það sem við fáum að hugsa um út frá þessari sögu, er hverjar eru þær aðstæður sem við höfum kannski hangið í, í fullri trú á að aðstæðurnar séu einhverjum öðrum að kenna eða að við höfum í raun ekki tækifæri til að laga það sem er að. Það sem við fáum að hugsa um í þessari sögu er, hvað er það sem við þurfum að hugsa, segja og gera, til að geta risið upp og orðið gerendur í eigin lífi og gert hluti sem verða okkur sjálfum til góðs og öðrum til blessunar. Getur verið að Jesús sé að tala við okkur þegar hann spyr: Viltu verða heill – eða viltu verða heil? Stattu þá upp og haltu áfram.

    Andstæðurnar í textum dagsins birtast líka í sögum flóttafólksins sem nú streymir í gegnum Evrópu. Í djúp-vonlausum aðstæðum glittir samt í eitthvað nýtt, þegar fólk stendur upp og gengur til móts við nýja möguleika og nýtt líf. Og stundum gerist hið ótrúlega – sem er auðvitað skilgreiningin á því hvað kraftaverk er – að fólk tekur höndum saman í kærleika, örlæti og gestrisni og reisir við þau sem hafa verið barin niður og sundurkramin. Súlnagöng dagsins er kannski að finna á brautarstöðvum Evrópu, þar sem kraftaverkin gerast.

    Myndir frá aðalbrautarstöðinni í München í Bæjaralandi síðasta sólarhringinn þar sem íbúar taka á móti Sýrlensku flóttafólki sem kemur með lest frá Ungverjalandi eftir ótrúlegar hrakningar, með lófataki, söng, gjöfum, vatni og mat, taka okkur eins og textar dagsins í þessa löngu ferð frá himni til jarðar, frá því sem virðist óyfirstíganlegt og erfitt til nýrrar vonar og velgjörða Drottins, sem birtist í opnum faðmi og hlýjum hjörtum sem segja velkomin.

    Viltu verða heill? spyr Jesús sjúka manninn. Alveg eins og maðurinn í sögunni, fáum við þessa spurningu og við getum svarað henni, já ég vil verða heil. Ég vil leggja mitt af mörkum til að ég sjálf og aðrir á þessari jörðu geti gengið uppréttir með þeirri virðingu og kærleika sem allir menn eiga rétt á. Ég vil taka á móti þér, sem kemur til mín í neyð, og segja velkomin, mæta þér í sameiginlegri mennsku sem upphefur menningu, trú, kyn, reynslu og stétt! Velkomin.

    Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

    Guðspjall

    Guðspjallið er í Jóhannesarguðspjalli 5. kafla 1-15

    Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
    Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“
    Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
    En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“
    Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“
    Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“
    En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.
    Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“
    Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.

    Myndin sem fylgir færslunni er í eigu Sean Gallup/Getty Images.

  • Bænir fyrir fólki á flótta

    Lífsins Guð.

    Engin orð ná utan um það sem gerist í flóttamannabylgju samtímans og við verðum vitni að. Við sjáum hvernig manneskjur sem eru systur, bræður, feður, mæður, nýfæddar, aldraðar, elskaðar eða einmana, flýja heimili sín, sem einu sinni voru örugg en eru það ekki lengur. Við sjáum hvernig þau leggja í lífshættulega ferð í leit að öruggri höfn.

    Við skiljum ekki aðstæður þeirra sem flýja til að bjarga lífi sínu en við sjáum örvæntingu, ótta og sorg í augum þeirra. Við sjáum líka hugrekki og styrk sem veitir von í vonlausum aðstæðum.

    Gef að við tökum höndum saman til að vekja meiri von og koma systkinum okkar til bjargar. Gef að við sjáum hvað við erum aflögufær sem þjóð og einstaklingar og að við getum hjálpað. Gef að þau sem nú eru á flótta finni öruggan stað þar sem þeim er mætt með kærleika og opnum faðmi. Tak á móti þeim sem láta lífið inn í þitt eilífa ljós, þar sem enginn ótti og enginn ófriður ríkir. Hugga þau sem syrgja og lækna brotin hjörtu.

    Fyrir Jesú Krist Drottinn okkar, sem sagði: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra og systra, það hafið þér ekki heldur gert mér. Amen.

    *

    Himneski faðir, frá þér er öll gæska, ást og örlæti.
    Við þökkum þér fyrir öll þau hjörtu sem standa opin þeim sem eru á flótta.
    Við biðjum þig að hjálpa okkur að opna líka fangið okkar til að bjóða þau velkomin og að bjóða fram hendur okkar til stuðnings og góðra verka.
    Gef von þeim sem eru vonlaus, græðslu inn í brotin líf
    og huggun í hræddar sálir.
    Fyrir Jesú Krist, Drottinn okkar, sem hóf líf sitt sem heimilislaust barn
    og flúði undan ofsóknum valdhafa. Amen.

    Bænir fyrir fólki á flótta og þeim sem taka á móti flóttafólki. Notist, breytist og bætist að vild. 

  • Að hýsa hælislausa

    Boðskapur Jesaja gamla spámanns er eins og talaður inn í aðstæður dagsins.

    Sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn…

    Þannig hljóðar hið heilaga orð og sæl eru þau sem heyra Guðs orð og varðveita það.

    Í skírninni hér áðan þegar litla stúlkan var vatni ausin og gefið fallega nafnið sitt, gerðist líka svolítið annað. Hún var tekin inn í fjölskyldu Guðs. Venjulega þegar við hugsum um fjölskyldu hugsum við um þau sem eru skyld, eða tengd, búa undir sama þaki. En við tilheyrum líka fjölskyldu allra þeirra sem lifa, því öll erum við börn Guðs.

    Síðustu daga höfum við verið óþyrmilega minnt á að sumir í þessari fjölskyldu búa við ömurlegar og lífshættulegar aðstæður. Það eru flóttamennirnir, karlarnir, konurnar og börnin sem streyma frá stríðshrjáðum löndum, skilja allt við sig og leggja allt í sölurnar til að komast á öruggari stað.

    Við höfum þessa síðustu daga fengið örlitla innsýn inn í aðstæður flóttafólksins sem streymir til Evrópu og hvernig lífi þeirra er ógnað við hættulegar aðstæður. Það er enginn ósnortinn af því að heyra um og sjá myndir af litlum börnum sem hafa drukknað á leiðinni yfir Miðjarðarhafið af því að þau voru á báti sem var allt of lítill og allt of óöruggur og með allt of mörgum.

    Einn vinur minn á facebook sem býr í Austurríki skrifaði á síðuna sína:

    Austurríkismenn eru í sjokki yfir fréttunum um flóttamennina, 71 talsins þar af 4 börn, sem fundust látnir í yfirgefnum flutningabíl skammt utan við Vínarborg í fyrradag. Allt í einu færðist dauðinn í Miðjarðarhafinu yfir á miðevrópska hraðbraut….Einn austurrískur stjórnmálamaður birti í morgun myndir á facebooksíðunni sinni af líkum barna sem drukknuðu í gær á leið frá Líbíu – myndir sem eru víða á internetinu – og sagði nauðsynlegt að horfa á þær. Viðbrögðin létu ekki á sér standa í kommentakerfinu. Margir tóku undir en enn fleiri gagnrýndu hann fyrir að birta myndir af líkum; sögðu það smekklaust. Hann svaraði um hæl og sagði smekklaust að láta sem ekkert sé. Ég er sammála honum. Það minnsta sem við getum gert er að sýna að við vitum að allt þetta flóttafólk dó á leiðinni til betra lífs. Ef við horfum í hina áttina, þá fyrst er útilokað að við finnum lausnir. Ef við látum sem ekkert sé, hvað er þá líka orðið um manneskjuna/mennskuna í okkur sjálfum?

    Svo mörg voru þau orð. Og í dag erum við með orðum Biblíunnar minnt á að þau sem við deilum þessari jörð með, koma okkur við. Það er skylda okkar að koma til hjálpar þeim í fjölskyldunni okkar, öðrum börnum Guðs, þegar þau þarfnast okkar.

    Öll orð Jesú í guðspjallinu hvetja okkur til þess:

    Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.

    Og hann hvetur okkur til að ganga langt – það er ekki nóg að elska þau sem elska okkur! Við eigum að elska þau sem við þekkjum ekki – líka þau sem við lítum á sem óvini okkar.

    Kannski er aðalatriðið hér að við eigum ekki að skipta fólki upp í hópa eins og vini, óvini, fjölskyldu og ókunnuga, útlendinga og Íslendinga, þegar kemur að því að bera ábyrgð og tryggja velferð. Við erum öll á sama báti, við erum ein fjölskylda.

    Og í orðum Jesú í guðspjalli dagsins býr svo mikill sannleikur, því hann bendir okkur á að þessari skyldu að elska náungann eins og sjálf okkur, er hvorki létt né einfalt að fylgja eftir. Það er heilmikið mál! Það væri heilmikið mál að taka við 5000 flóttamönnum á Íslandi, eins og hefur komið fram í umræðunni. Auðvitað! En það þýðir ekki að við eigum ekki að gera það.

    Við skulum bera gæfu til þess að axla ábyrgð okkar sem þjóð meðal þjóða, fylgja eftir þeirri góðu sátt sem þverpólitísk þingnefnd leggur til um stefnu í útlendingamálum, og setja mannúð og réttaröryggi í forgrunn, handa öllum sem hingað koma.

    Við þurfum ekki að vera hrædd um að missa eitthvað sem við höfum eða eitthvað sem er mikilvægt, ef við opnum Örkina okkar fyrir þeim sem þurfa á skjóli og hjálp að halda. Þar er aftur gamli skeggjaði hipsterinn hann Jesaja, með puttann á púlsinum og beinir okkur á rétta braut:

    Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
    hættir hæðnisbendingum og rógi,
    réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
    og seður þann sem bágt á,
    þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
    og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
    Drottinn mun stöðugt leiða þig,
    seðja þig í skrælnuðu landi
    og styrkja bein þín.
    Þú munt líkjast vökvuðum garði,
    uppsprettu sem aldrei þrýtur.

    Dýrð sé Guði sem lítur á okkur öll sem sín börn, er bróðir okkar allra, og endurnýjar von og hugrekki í hjörtum okkar.

    Flutt í Laugarneskirkju, 30. ágúst 2015.

  • Jesús í Druslugöngunni

    Í dag er haldin í fimmta sinn Druslugangan í Reykjavík, sem er farin til að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning með því að vísa ábyrgðinni þangað sem hún á heima – til gerendanna. Prinsip Druslugöngunnar er einfalt: Að standa saman og skapa samkennd með þolendum ofbeldis. Í stað þess að leita eftir afsökunum fyrir ofbeldinu í fari þolendans, hvernig hún eða hann var klæddur eða hvert hún eða hann lagði leið sína á tilteknum tíma, er sjónum beint að raunverulegri ástæðu ofbeldisins, sem er að einhver einstaklingur beitir annan ofbeldi. Slíkt er alltaf á ábyrgð gerandans. Aldrei þolandans.

    Gangan í ár leggur í stað frá Hallgrímskirkju, sem er ekki bara mest áberandi bygging í Reykjavík heldur ein frægasta kirkja í heimi. Mér finnst það einstaklega viðeigandi og eflandi að Druslugangan verði til með því að fólk safnist saman í skjóli við byggingu sem er ekki bara helsta kennileiti borgarinnar, heldur er reist í minningu og helguð okkar manni frá Nasaret, Jesú Kristi Jósepssyni.

    Það sem einkennir líf og starf Jesú er hvað hann gekk beint inn í aðstæður sem sköpuðust vegna fordóma og dómhörku í garð samferðafólks, ekki síst í tilfelli kvenna og reynslu þeirra. Jesús átti samneyti við druslur og mætti þeim á jafningjagrundvelli. Í guðspjöllunum lesum við um samtöl og samskipti sem Jesús átti við konur sem samfélagið hafði fordæmt á grundvelli reynslu af kynferðisofbeldi og kynhegðunar. Í samfylgd Jesú setjumst við niður með samversku konunni sem samfélagið leit niður á fyrir að hafa átt fullt af mönnum og við horfumst í augu við konuna sem átti að verða grýtt fyrir það að drýgja hór. Eins og Jesús stöndum við með konum sem samfélagið kallar druslur og skilum skömminni til þeirra sem beita aðra ofbeldi.

    Það er maklegt og réttvíst að ganga Druslugönguna og vita að Jesús er með í för þegar við upprætum fordóma, dómhörku og ranglæti. Frá Hallgrímskirkju sækjum við styrk og innblástur til að ganga með náungakærleik og gegn ofbeldi og sinnuleysi. Gleðilega Druslugöngu!

    Jesús í Druslugöngunni, birtist fyrst á Vísi.is.

  • Gróðursett í landinu

    Að vera Íslendingur

    Það á sér stað – og hefur lengi átt sér stað – mjög frjó og skemmtileg umræða um hvað það er að vera Íslendingur, í hverju íslensk menning felist og hver séu hin íslensku gildi. Á 17. júní kemur þessi umræða sérstaklega í hugann. Þá kalla á okkur spurningar um tengsl sögunnar við okkur sem lifum í dag, um áhrif þess sem gengnar kynslóðir áorkuðu og upplifðu á okkur, um hugmyndir sem hrifu og hreyfðu við fólki sem lifði í landinu okkar á öðrum tímum, við aðrar aðstæður.

    17. júní er lýðveldisdagurinn, valinn af því að hann er fæðingardagur Jóns Sigurðssonar, sem var talsmaður sjálfstæðis og sjálfræðis sinnar litlu og smáu þjóðar. Hann talaði máli Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar og hans er ekki síst minnst fyrir að hafa spyrnt við fótum og mótmælt þegar átti að koma því þannig fyrir að meiriháttar ákvarðanir um Ísland gætu átt sér stað án aðkomu Íslendingra sjálfra.

    Nafn Jóns Sigurðssonar og arfleifð hans er því nokkuð tengd mótmælum. Mótmæli spretta ekki upp úr tómarúmi, þau eru ekki það sama og að vera með leiðindi og vesen. Mótmæli spretta upp úr jarðvegi sem ræktar hluti sem fólki finnst vera þess virði að berjast fyrir, sem gefur fólki sjálfsmynd sem fylgir því og mótar gildi og verðmætamat.

    Mótmælt á Austurvelli

    Akkúrat núna er verið að mótmæla á Austurvelli. Sumum finnst það ekki vera réttur tími eða réttur staður, vegna þess að það geri lítið úr því sem við höldum á lofti á 17. júní. Ég er ekki viss um að það sé svo. Kannski blæs 17. júní, fæðingardagur þjóðarhetjunnar Jóns Sigurðssonar, sem mótmælti svo sannarlega og blés anda kjarks og vonar í brjóst fólks. Kannski vekur 17. júní trú á að sannfæring okkrar sjálfra, skilningur og dómgreind, sé þess virði að halda á lofti. Þá eru mótmæli leið til að koma til skila og tjá eigin trú á hvað það er sem gerir samfélagið okkar betra og hvar pottur sé brotinn.

    Ég trúi því að þau sem mótmæla geri það af því að réttlætiskennd þeirra bjóði þeim að láta í sér heyra. Að þau taki undir með Jóni Sigurðssyni sem vildi að heildarhagsmunir þjóðar væru heiðraðir í ákvörðunum og valdboðum. Við hljótum að spyrja hvernig þessir heildarhagsmunir líta út í dag – þegar kemur að nýtingu náttúrunnar, ráðstöfun sameiginlegra auðlinda og forgangsröðun samfélagsins.

    Á 17. júní erum við minnt á söguna og við rifjum upp hugmyndir og líf þeirra sem gengu á undan okkur, þeirra sem eiga svo stóran hlut í því sem við köllum að vera Íslendingar. Við orðum þessa sögu og mátum hana við aðstæður okkar í dag. Við spyrjum, hverjar voru hugmyndir þeirra sem sköpuðu samfélagið okkar sem við búum við í dag, um hið góða líf, um jafnan rétt til gæða og gjafa hafs og jarðar, um lýðræði, um virðingu og helgi mannlegs lífs?

    Hrútar og það sem vekur von

    Margir hafa séð kvikmyndina Hrúta sem óhætt er að segja að fari sigurför um heiminn einmitt núna. Hrútar miðla til okkar ýmsu sem við þekkjum þegar við veltum fyrir okkur því hvað það er að vera Íslendingur. Það er sveitaumhverfið og bændasamfélagið sem við vorum flest eða öll hluti af fyrir örfáum kynslóðum. Það er samfélag sem byggir á jafnvægi og gagnkvæmni lands og manneskju, dýra og manna. Hún notar mynd- og hljóðmál sem kveikir og hreyfir okkur til eigin minninga, um hvernig tengsl við foreldra og nánasta samferðafólk mótar, meiðir og reisir upp. Hún tekur okkur í ferðalag sem spannar tilfinningaróf syndar og sáttar, ofbeldis og kærleika, fjarlægðar og hlýju.

    Er þetta þjóðlegt eða mannlegt? Eru ekki íslensku gildin og gæðin þau sömu og hreyfa við hjörtum mannanna hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu? Og eru það ekki sömu hlutirnir sem hrífa okkur, vekja von og trú, í dag og fyrir 204 árum þegar Jón Sigurðsson fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð?

    Land sem gefur líf

    Fyrirheitið í orði dagsins, úr spádómsbók Jeremía, fjallar meðal annars um tengsl fólksins við landið sitt. Þar mælir spámaðurinn fyrir munn Drottins og segir:

    Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð…Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.

    Hér er tengslum fólksins við landið sitt lýst með orðfæri gróðurs og jarðvegs. Við erum gróðursett í landinu okkar. Það þýðir að við nærumst af því, við lifum á því, við erum því háð. Rætur okkar liggja bókstaflega í landinu, af auðæfum þess þiggjum við lífsafkomu okkar, af sögu þess þiggjum við sjálfsmynd okkar. Við löskumst af áföllum þess og ágangur og rányrkja landsins kemur niður á okkur og lífsgæðum barna okkar.

    Myndin sem Jeremía dregur upp um fólkið sem er gróðursett í landinu minnir okkur líka á hvað afkoma okkar er nátengd jörðinni sjálfri og samferðafólki okkar. Samhengi alls sem lifir er staðreynd. Þegar jarðvegurinn mengast, sýkist það sem grær í honum. Sjúkt land getur ekki gefið af sér líf sem dafnar, rétt eins og riðan í kvikmyndinni Hrútum leggur sauðféð í Bárðardal – og þar með mannlífið – í rúst.

    „Ég gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti“ segir í orðinu. Hér erum við, leitandi og spyrjandi að því hvað sé landinu okkar til heilla og mannlífinu til blessunar. Sumu er ekki hægt að breyta – eins og t.d. veðrinu, sem hefur sinn gang og spyr ekki um útihátíðir eða sumarfrí. Þar þurfum við æðruleysi til að sætta okkur hið óbreytanlega. Sumu er hægt að breyta – þar þurfum við kjark til að takast á við viðhorf og hefðir sem mismuna og sundra.

    Svo er það nítjándinn

    Eftir aðeins tvo daga höldum við aðra hátíð vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi. Í aðdraganda hennar höfum við heyrt upprifjun á ýmsu sem varð á vegi þeirra sem börðust fyrir jöfnun rétti kynja og stétta. Því var breytt og kosningaréttur og tjáningarfrelsi er síðan órjúfanlegur þáttur af sýn okkar á mannréttindi allra á Íslandi.

    Á 17. júní rifjum við upp söguna og spyrjum, hverju þarf að breyta svo að landið sem Guð hefur gróðursett okkur í, hlúi að öllum kynjum og stéttum og gefi öllum af gæðum sínum. Látum það vera brýninguna til okkar sem hér erum komin saman, Guði til dýrðar og hvert öðru til blessunar. Amen.

    Kristín flutti þessa prédikun í messu í Rósagarðinum í Laugardalnum, 17. júní 2015.