Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Tvö áramótaheiti

    Tvö áramótaheiti – eða kannski áskoranir – sem vert væri að efna og uppfylla á siðbótararinu 2017.

    Lára Björg Björnsdóttir:

    Við Íslend­ingar erum best í svo mörgu og eitt af því er að koma af stað og taka þátt í nýjum æðum. Hvernig væri að 2017 yrði árið þar sem nýjasti lífstíll­inn, nýjasta æðið, yrði hjálp­semi, mannúð og náunga­kær­leik­ur? Gerum þetta sem er okkur svo eðl­is­lægt og sjálf­sagt. Gerum þetta sam­an. Öll sem eitt.

    Sara Mauskopf:

    I’m going to skip self improvement this year. 2017 will be about how I can best use the time I have on this earth to help others.

    Gleðilegt nýtt ár!

  • Fólk ársins?

    Hver var viðskiptamaður ársins 2014? En maður ársins? Hver var kaka ársins í fyrra? En ísréttur ársins? Manstu það?

    Ég man það ekki. Það er líklega sanngjarnt að upplýsa það strax. En þegar ég las um alla menn ársins – sem reyndar eru iðulega kallaðir menn ársins en ekki fólk ársins þótt þetta geti líka verið konur – þegar ég las umdjarfasta viðskiptajöfurinn og snjöllustu markaðsmennina og íþróttafólkið sem afrekaði mest og allt hitt – þá rifjaðist upp fyrir mér að við veljum fólk á hverju ári sem hefur staðið upp úr. Fólk ársins.

    Kirkjusaga var eitt viðfangsefnið í guðfræðináminu þegar ég sat á skólabekk. Ég tók námskeið í hefðbundinni kirkjusögu sem fjallar um fólk sem gæti hafa verið fólk ársins á fyrri öldum. Þau sem sköruðu fram úr og höfðu áhrif og margir þekkja. Hin féllu í gleymskunnar dá. Ég tók líka eitt námskeið sem fjallaði um venjulegt fólk. Saga þeirra, fólksins sem er bara eins og ég og þú, getur nefnilega sagt okkur mjög mikið um daglegt líf og samfélagið eins og það er. Sem er eins og við vitum öll ekki aðeins eins og það kemur fyrir á hvíta tjaldinu eða í sjónvarpsþáttunum – Halló Ófærð – og er ekki bara stórsteikur, humar og hvítvín heldur soðin ýsa eða pylsa og Dóminós pizza og Egils appelsín eða Pepsí Max.

    Umbætur við áramót

    Við lítum til baka við áramót og fjölmiðlar beina kastljósinu að fólki ársins. Sjálf horfum við á okkar eigið líf. Skilaboðin sem við fáum oft – til dæmis frá lífsstílsfjölmiðlunum –  snúast um umbætur: Hvernig á að taka kroppinn í gegn, léttast, massast, skerpast. Hvernig á að taka hugann í gegn. Hvernig á að taka samböndin í gegn. Hvernig á að … Og oft er þetta sett fram á formi lista með hollráðum eða vítum til varnaðar. Á einum miðlinum mátti til dæmis lesa í dag:

    • 3 vís­bend­ing­ar sem gefa til kynna að sam­bandið muni end­ast
    • 5 atriði í for­gang á nýju ári
    • 6 bætiefni fyrir konur á breytingarskeiðinu

    Kannski erum við alveg eins í kirkjunni. Erum alltaf aftur og aftur að segja ykkur hvernig á að hætta að syndga og lifa betra lífi. Sem gæti allt eins heitið Móralismi 101 á guðfræðimáli.

    Ég er ekki viss um að þetta séu gagnleg skilaboð. Ég er ekki viss um að þau hefðu verið Jesú að skapi. Ég minnist þess ekki að hafa lesið eina einustu dæmisögu eða frásögn af honum sem fjallar um það að þyngjast eða léttast, gera húðina stinnari, sofa betur …

    En kannski lumaði hann á þremur eða fimm vísbendingum eða svo um það hvað á að setja í forgang og hvernig er hægt að láta sambandið endast. En þið vitið hvað ég á við.

    Gagnleg skilaboð?

    Hvað er þá gagnleg skilaboð á áramótum þegar við speglum okkur? Hvað kennir Jesús? Hann kennir til dæmis að ef áramótin eru spegill þá eiga þau að vera spegill til uppbyggingar en ekki niðurrifs. Ég held líka að hann biðji okkur að vera friðarfólk.

    Svo er annað, sem skín í gegnum lexíu og pistil gamlársdags. Í lexíunni segir:

    Náð Drottins er ekki þrotin,
    miskunn hans ekki á enda,
    hún er ný á hverjum morgni.

    Og í pistlinum segir:

    „Ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“

    Hér er talað um tengsl manneskjunnar og Guðs. Orðið náð er notað til að lýsa þessum tengslum. „Náð Drottins er ekki þrotin.“ Vitið þið hvað það þýðir að lýsa sambandi með þessum orðum?

    Það þýðir að samband Guðs við manneskjuna hvílir ekki á því hversu merkileg manneskjan er – hvílir ekki á því að karlinn eða konan sé maður eða kona ársins – hvílir ekki á því sem við gerum heldur á því hver við erum. Og hver erum við? Við erum þau sem Guð elskar.

    Tíst um nýársheiti

    Ég las tíst í dag, sem kallaðist á við efni þessarar prédikunar. Nadia Bolz-Weber, lútherskur prestur frá Denver í Bandaríkjunum sem heimsótti Ísland í haust skrifar:

    Það er ekkert áramótaheit sem ég get heitið og haldið sem gerir mig verðugri að vera elskuð.

    Ég er sammála.

    Þetta má líka orða svona:

    Við þurfum ekki að vera fólk ársins til að vera þess verðug að vera elskuð af Guði eða öðru fólki.

    Við þurfum ekki að vera með stinnustu húðina eða lægstu fituprósentuna til að vera elsku verð.

    Við þurfum bara að vera eins og við erum.
    Taka á móti ást.
    Og elska sjálf.

    Áramótin eru því kannski fyrst og fremst ástar- og elskuhátíð og áskorun þeirra er þar með að við stuðlum að því – í dag og alla dagana sem eru framundan að gera samfélagið okkar náðarríkara þannig að allir finni sig velkomna og elskaða.

    Flutt í Brautarholtskirkju á gamlársdegi, 31. desember 2015.

  • Frá Útlendingastofnun til Egyptalands

    Ég heimsótti Útlendingastofnun í fyrsta sinn í vikunni. Ég var þar með hópi fólks: sjálfboðaliða frá Rauða krossinum, tveimur prestum, múslimskum hjónum og svo voru fulltrúar frá þremur fjölmiðlum sem fylgdust með. Ég skal segja ykkur hvert tilefnið var rétt strax en fyrst langar mig að tala um jólaguðspjallið.

    Frá Betlehem

    Sagan af Jósef og Maríu sem hefur verið sögð um allan heim í næstum 2000 ár er saga af flóttafólki.

    Jólaguðspjallið er saga af hjónum sem þurftu að ferðast langan veg og fundu sig á stað þar sem þeim var uppálagt að láta skrásetja sig – kannski var eins konar Útlendingastofnun síns tíma. En í raun var staðurinn ókunnur og þau höfðu ekki húsaskjól og það voru engir ættingjar eða aðrir sem þau gátu reitt sig á.

    Jólaguðspjallið er sagan af því þegar þau voru á svona stað á tíma sem var snúinn fyrir því því þau áttu von á barni og barnið var að koma. Núna.

    Jólaguðspjallið er saga af einskonar fjölskylduboði sem varð til þegar gestir heimsóttu þau: Englar, hirðar, vitringar.

    Jólaguðspjallið er saga af flótta því þeim var ekki vært þarna. Yfirvöld sem fóru með hagsmuni þeirra og allra annarra og  áttu að gæta þegnanna – þessi yfirvöld voru og vildu barnið feigt.

    Það er jólaguðspjallið.

    Og svona sögur eru að gerast allt í kringum okkur. Þessa dagana … vikurnar … misserin.

    Frá Sýrlandi til Grikklands

    Fyrr í mánuðinum las ég um fjölskyldu sem reyndi að flýja frá Sýrlandi til Grikklands. Þau keyptu sér far með smyglurum og þeim var sagt að börnin og fullorðna fólkið þyrftu engin björgunarvesti af því þess að ferðalagið væri svo stutt.

    Gróðavon sem rak smyglarana áfram. Og þeir viðhöfðu ekki nauðsynlegar öryggiskröfur. Skipið varð vélarvana úti á sjó og sökk. Einn fjölskyldumeðlimur komst lífs af.  Pabbinn.

    Það er nefnilega ekki öruggt að vera flóttamaður í heiminum í dag.

    Kennitölur eða hjörtu

    Ég heimsótti Útlendingastofnun í vikunni. Í fyrsta sinn. Tilefnið var ekki skrásetning heldur hvatning. Afhending 4700 undirskrifta til stuðnings fjölskyldu frá Sýrlandi. Þau þurftu að flýja heimili sitt með tvær dætur sem voru þá á þriðja og fjórða ári. Þau komust til Grikklands.

    Heil á húfi.

    Þar bjuggu þau erfiðar aðstæður í rúmt ár. Svo komust þau til Íslands. Hér hafa þau verið í tæpt hálft ár og þeim líður vel. Þau eru að læra íslensku, dæturnar eru á leikskóla, það er vel búið að þeim. Einkunnin sem Íslendingar fengu sem tóku á móti þeim var ágætiseinkunn. Það sama heyrði ég í samtali við fulltrúa Rauða krossins á dögunum sem sagði að meðal almennings væri mikill velvilji í garð flóttafólks og hælisleitenda. Það er ágætiseinkunn þjóðar.

    En kerfið er ekki alltaf velviljað. Samkvæmt Dyflinarsamkomulaginu á þetta fólk bara að fara aftur til Grikklands. Þar komu þau inn í Evrópu og Grikkir eiga þá að sjá um þau. Á tölvumáli myndum við kalla þetta „computer says no“ því tölvan fylgir bara sinni forskrift. Hún sér ekki einstaklinga með nafn og sögu og hjörtu sem slá – hún sér bara fjórar kennitölur.

    Kannski þurfum við meira hjarta, meiri umhyggju og kærleika inn í reglurnar og lögin kringum mótttöku þeirra sem leita til okkar í neyð sinni. Það er verkefni stjórnmálamanna og það er best að þau gangi í það strax eftir hátíðirnar, gjarnan innblásin af jólasögunni.

    Til Egyptalands

    Á jólum rifjum við upp söguna af flóttafjölskyldunni sem flúði frá Betlehem til Egyptalands.

    Þau flúðu af því að þeim var ekki vært. Þau voru ekki með skilríki. Þau voru ekki sömu trúar og fólkið í landinu sem þau leituðu til. En það var tekið á móti þeim. Þau fundu sig örugg í nýja landinu. Þar til þau gátu snúið aftur.

    Þar gátu þau búið sér og barninu sínu þannig líf að þegar hann varð fullorðinn gat hann lifað það að vera kallaður af Guði til að prédika að við ættum að standa saman, hugsa um hvert annað. Og hann sagði um börnin:

    „Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.“ (Mark. 9.37)

    Munum eftir þessu og munum líka að prédikun Jesú er ekki prédikun þess sem hafði búið við forréttindi alla ævi. Hún er ekki prédikun þess sem hafði það alltaf gott og þurfti aldrei að hafa fyrir lífinu.

    Hún er prédikun flóttamannsins sem var rifinn upp nýfæddur og flutti í annað land þar sem hann bjó þar til hann gat svo snúið aftur til síns heima.

    Hún er prédikun þess sem bjó við ógn ofbeldis, ofríkis og vantrausts en stóð  með boðskapnum sínum og fólkinu.

    Og hver er boðskapurinn? Þú skiptir máli. Eins og þú ert. Og það skiptir máli að þú látir aðra finna það að þeir skipta líka máli.

    Það er jólaguðspjallið.

    Það er hugsunin á bak við þetta allt saman.

    Guð elskar.

    Heiminn.

    Og þig.

    Þess vegna sendi hann Jesú.

    Þess vegna biður hann þig að lifa með opinn faðminn og opið hjarta.

    Þetta erum við beðin að taka með okkur inn í jólin.

    Þetta erum við beðin um að bera áfram til annarra.

    Sérstaklega þeirra sem eru á flótta og hafa fengið þau skilaboð að þau og þeirra hagsmunir skipti ekki máli.

    Sérstaklega til þeirra sem hafa fengið þau skilaboð þau séu ekki í lagi.

    Guð gefi þér gleðileg jól.

    Flutt í Brautarholtskirkju og Saurbæjarkirkju á aðfangadegi, 24. desember 2015.

  • Eitthvað jákvætt og uppbyggilegt

    Ertu á Facebook?

    Hvað skrifar þú mest um?

    Hverju deilir þú með öðrum?

    Myndum? Texta? Hugmyndum? Myndböndum? Efni sem vekur áhuga þinn?

    Hvað einkennir þitt framlag til vefsamfélagsins á fésinu?

    Ef þú ert eins og flestir þá er það eitthvað jákvætt og uppbyggilegt. Það sem ritstjórinn Jónas Kristjánsson kallaði Ást og friður í bloggfærslu um daginn:

    Fólk býður góðan daginn, sýnir myndir af afabörnum, segir frá grillun með vinum og öðrum dásemdum tilverunnar.

    Og svo gaf samfélagsmiðlinum hann einkunn:

    Fésbókin er afar „jákvæður“ miðill, sem hvetur okkur til að vera góð.“

    Við þetta má bæta: hún hvetur okkur til að vera góð, jákvæð og uppbyggileg, í daglega lífinu. Hún er vettvangur til að deila því sem við upplifum hér og nú. Ekki einhverju hátt-upp-höfnu og fjarlægu. Heldur lífinu okkar. Bara eins og það er.

    Ég held að okkur geti stundum yfirsést þessi jákvæðni af því að oft er nöldrað yfir netinu:

    • Fólk notar það of mikið,
    • skrifar um eitthvað óáhugavert –
    • svo er það þessi hópur sem er „virkur í athugasemdum“ sem þykir víst ekki par fínn.

    En svona er þetta.

    Læk

    Þetta uppbyggilega eðli facebook og kannski samfélagsmiðlanna almennt er staðfest með því hvernig viðbrögð við getum sýnt.

    Við getum auðvitað skrifað viðbrögð eða sett mynd eða jafnvel myndband í viðbrögð – en það einfaldasta af öllu er að smella að þrýsta á læk-hnappinn.

    Læk.

    Það getur merkt:

    • Takk fyrir.
    • Sammála.
    • Þetta er áhugavert.
    • Ég stend með þér.
    • Þú ert ekki einn.
    • Þú skiptir máli.

    Og ekki bara það heldur: Daglega lífið þitt skiptir máli.

    Kannski ekki alla í veröldinni. En þann hóp sem tengist þér á Facebook.

    Og ást, húmor, depurð, reiði

    Í vikunni var reyndar kynnt tilraun á Facebook. Það á að bæta við hnöppum. Læk verður að viðbrögðum og viðbragðshnapparnir verða sjö talsins:

    1. Læk.
    2. Ást.
    3. Fyndið.
    4. Jibbí.
    5. Vá.
    6. Depurð.
    7. Reiði.

    Það sem við deilum með öðrum nær nefnilega yfir allan tilfinningaskalann og viðbrögðin gera það líka. Hver hefur til dæmis ekki hugsað sig tvisvar um áður en smellt er á læk við stöðuuppfærslu sem fjallar um eitthvað sorglegt eða erfitt.

    Við vitum samt að lækir merkir ekki: Mikið var gott að þú lentir í vanda. Það merkir til dæmis: Ég hugsa til þín. Ég veit af þér.

    En það sem er áhugavert við þessa tilraun Facebook er að nýju lækhnapparnir gefa þér verkfæri til að sýna samstöðu með skýrari hætti. Sýna samhygð. Og skilaboðin eru þau sömu og áður:

    Ég stend með þér.

    Englarnir og títuprjónshausinn

    Hér ætla ég að gera stuttan útúrdúr.

    Vitið þið hvað margir englar komast fyrir á títuprjónshausi?

    Ég veit það ekki. En þetta er semsagt ein af spurningunum sem var spurt á miðöldum þegar búin voru til flókin kerfi til að komast að mikilvægum sannleika um hið heilaga og eilífa og um Guð. Þá veltu menn semsagt fyrir sér hvort og þá hvað mikið pláss englar taka. Þeir hafa nefnilega ekki hefðbundinn líkama.

    Kannski fannst einhverjum þetta fyndið.

    Þetta minnir mig á brandarana um það hvað þú kemur mörgum manneskjum fyrir í litlum bíl.

    Marteinn Lúther siðbótarmaður brást við svona vangaveltum með því að segja að við ættum ekki eyða tímanum í svona spurningar. Þess í stað ættum við að setja fingurinn á það sem skipti máli. Á það sem hægt að gera hér og nú. Því Guð væri ekki hátt upp hafinn og fjarlægur heldur nálægur og að verki.

    Ég rifjaði þetta upp þegar ég las guðspjall dagsins þar sem Jesús er spurður: „Hvers vegna er þessi maður blindur?“ Og svo fær hann tvo valkosti til að svara.

    • Syndgaði hann?
    • Syndguðu foreldrar hans?

    En Jesús svarar:

    „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er.“

    Þegar ég les þetta sé ég fyrir mér að hann hafi dæst og sagt eitthvað á þessa leið:

    Krakkar, slakið aðeins á, þetta snýst ekki um að velta fyrir sér synd og sekt heldur um það sem við ætlum að gera í málinu. 

    Svo læknaði hann manninn. Því þannig vann Jesú.

    Og hver er boðskapurinn: Mikilvægast af öllu er verk Guðs. Og hvað er það? Það er að elska í verki. Með höndunum og orðunum og munninum og munnvatninu eins og við sjáum í guðspjalli dagsins.

    Nei, þetta snýst ekki um að skyrpa.

    Þetta snýst um að sýna umhyggju í verki með öllu sem við eigum. Hugmyndum, orðum, höndum og fingrum og því öllu.

    Þið skiljið.

    Jarðbundið

    Og þetta er eiginlega frekar jarðbundið en himneskt. Þess vegna finnst mér þetta líka kallast svo ágætlega á við samfélagsmiðlana og fésbókina vegna þess að hún er jarðbundin. Hún er hér og nú. Skilaboðin sem við lesum þar eru endurtekin:

    Þetta er það sem ég upplifi eða upplifði. Mig langar að deila því með þér.

    Og lækið sem er okkar viðbrögð segir:

    Takk. Ég sé þig.

    Og þegar vel tekst til er það tjáning á umhyggju og ást sem ber áfram skilaboðin:

    Þú ert hluti af hópi, þú skiptir máli og ég er þakklátur fyrir þig og þitt framlag.

    Þegar við höfum þetta sem útgangspunkt og samskiptamáta þá held ég að það hafi áhrif – mótandi áhrif – á önnur samskipti.

    Ég held að það greiði fyrir því að við vinnum verk hans sem skapaði heiminn og sendir okkur til annara með það verkefni að skilja eftir okkur falleg spor og láta láta gott af okkur leiða. Og breyta þanning heiminum.

    Þannig ná fésbókin og Jesús saman í því sem er jarðbundið og einfalt. Í því sem er hér og nú. Í því sem er til uppbyggingar og er til góðs.

    Fæ ég kannski læk á það?

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

     

  • Forgangsraðað af ástúð

    Dagar

    Við höldum upp á marga daga á hverju ári og höfum gert um aldir: afmælisdagana okkar og hátíðir af ýmsum toga. Fram að tíma siðbótarinnar á 16. öld voru dýrlingadagar líka mikilvægir hér á landi. Dýrlingarnir viku með siðbótinni og kirkjuárið varð minna áberandi þegar tuttugasta öldin hafði gengið í garð.

    Þjóðin átti samt sína daga og hélt í hátíðir. Við sjáum merki um þetta þegar Almanaki Háskóla Íslands er flett. Þar er hægt að fletta upp dagsetningum á næstum árum – fjögur ár fram í tímann og nokkrir dagar eru alltaf tilgreindir:

    • Bóndadagur
    • Páskadagur
    • Sumardagurinn fyrsti
    • Uppstigningardagur
    • Hvítasunnudagur
    • Fyrsti vetrardagur

    Þrír af þessum dögum eru kirkjulegir: Páskadagur, uppstigningardagur, hvítasunnudagur. Hér höfum við meira að segja tvær af stóru hátíðunum þremur. Sú þriðja er ekki talin upp af því að hún er alltaf á sama tíma. Annars væri hún á þessum lista. Þarna vantar líka svo þjóðardaga: þjóðhátíðardaginn 17. júní og fullveldisdaginn 1. desember.

    Það eru reyndar fleiri dagar sem haldið er á lofti í samtímanum. Ekki í Almanaki Háskóla Íslands en í öðrum almanökum. Þeir eru heimsdagar – dagar sem Sameinuðu þjóðirnar eða aðrar stofnanir sem starfa á heimsvísu hafa útnefnt til að setja ákveðin mál á dagskrá. Þessir dagar eru eiginlega veraldlegar útgáfur af dýrlingadögum kaþólsku kirkjunnar.

    Hvers vegna? Vegna þess að hver dýrlingur átti sitt verksvið. Og á degi dýrlingsins var hægt að minnast þess sem dýrlingurinn stóð fyrir og leggja áherslu á það sem hann gerði.

    Hverjir eru þá þessir heimsdagar?

    • 4. febrúar er Alþjóða krabbameinsdagurinn
    • 8. mars er Kvennadagurinn
    • 20. mars er Hamingjudagurinn
    • 2. apríl er Einhverfudagurinn
    • 22. apríl er umhverfisdagur, helgaður Móður jörð
    • 1. júní er dagur Foreldra
    • 20. júní er dagur flóttafólks
    • 12. ágúst er Dagur ungmenna
    • 8. september er Dagur læsis
    • 5. október – á morgun – er dagur kennara
    • 1. desember er AIDS dagurinn

    Dagarnir eru miklu fleiri en þessir – það er að minnsta kosti einn einn svona dagur á viku.

    Heimsmarkmiðin

    Vikan sem leið var líka helguð ákveðnu efni. Sameinuðu þjóðirnar buðu skólakrökkum um allan heim upp á fræðslu um sjálfbæra þróun. World’s largest lesson var yfirskriftin. Stærsta kennslustund í heimi. Og kannski var fjallað um mikilvægasta efnið líka!

    Tilefnið eru nýsamþykkt Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í þeim felst áætlun um sjálfbæra þróun sem miðar að því að útrýma fátækt í heiminum, stuðla að efnahagslegri velmegun, félagslegri þróun og vernd umhverfisins um allan heim. Alls eru heimsmarkmiðin sautján markmið í fimm meginflokkum og þau fjallað um fólkið fólk, plánetuna, velmegun, réttlæti og félagsskap ríkjanna á jörðinni.

    Hvers konar markmið eru þetta?

    • Útrýma fátækt
    • Vinna gegn loftslagsbreytingum
    • Draga úr ójöfnuði
    • Stuðla að friði
    • Sinna um hvert annað með þróunaraðstoð

    Þetta má orða með öðrum hætti: Við þurfum að minnka mengun, auka jafnræðið í heiminum og ekki bara fækka þeim sem búa við skort og hungur heldur útrýma slíku.

    Jesús horfði með ástúð

    Jesús sagði við unga manninn sem kom spyrjandi til hans:

    „Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“

    Já, já, ég kann þetta og passa upp á það eins og mér var kennt hefur ungi maðurinn kannski sagt. Og hvað þýðir það? Ætli það þýði ekki að gæta þess að koma ekki illa fram við aðra, níðast ekki á þeim.

    En það er bara ekki nóg segir Jesús sem horfir fallega á unga manninn – „með ástúð“ segir í guðspjallinu og bætir svo við:

    „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“

    Hvað á hann eiginlega við?
    Mig langar að segja tvennt um það.

    • Það fyrra er þetta: Jesús segir að við vinnum okkur ekki inn fyrir himnaríkisvistinni með því að gera góðverk. Markmiðið er semsagt ekki að verða besta manneskja í heiminum svo Guði líki betur við þig og segi af þeim sökum: Þú ert minn því þú ert svo góður.
    • Hið síðara er: Jesús gefur boðorðunum ákveðna fyllingu þegar hann segir að það sé nauðsynlegt að ganga lengra þegar honum er fylgt. Marteinn Lúther lagði þetta svona út í Fræðunum minni: Þú átt ekki aðeins að halda þig frá því að stela frá náunganum, þú átt að hjálpa honum að gæta eigna sinna. Og svo framvegis. Boðorðið snýst ekki aðeins um að hafa taumhald á sér heldur að gera gott fyrir náungann.

    Markmiðið er semsagt að verða besta útgáfan af þér af því að Guði líkar vel við þig og segir: Þú ert minn, þú ert mín, gerðu því gott.

    Þetta má orða með öðrum hætti: Treystu Guði, elskaðu náungann.

    Það er kjarninn.

    Okkar markmið

    Ég held að Heimsmarkmiðin snúist líka um þessa umhyggju fyrir öðrum – um náungakærleikann. Hvert land sem á aðild að Sameinuðu þjóðunum á að skuldbinda sig til að vinna að þessum markmiðum. Gera áætlun og bretta upp ermar og hefst handa. Hvort árangur næst kemur svo í ljós – eftir fimmtán ár.

    En kannski getum við líka tekið þetta til okkar. Skoðað hvað við getum gert í eigin ranni. Sett okkur heimamarkmið hér á okkar svæði – á Kjalarnesinu og í Kjósinni. Því þetta er ekki bara málefni ráðherranna og Alþingis. Þetta er málefnið okkar. Þetta snýst um lífið okkar og samfélagið okkar.

    Eitt sem við gætum til dæmis gert væri að taka upp umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar og fylgja Ljósaskrefinu sem er handbók handa söfnuðum eins og okkur sem vilja skilja eftir sig falleg spor og sýna umhverfinu virðingu.

    Dagur forgangsröðunarinnar

    Kæri söfnuður.
    Ég hóf þessa prédikun á að ræða um dagatal og heimsdaga. Dagurinn í dag heitir í kirkjunni Átjándi sunnudagur eftir Þrenningarhátíð – en það segir okkur lítið um inntak hans. Ef við vildum draga það saman þá mætti kalla hann Dag forgangsröðunarinnar því um það fjalla lestrarnir og einkum guðspjallið: Hvað á ég að gera spurði ungi maðurinn? Sinntu fólki og ekki bara sjálfum þér svaraði Jesú. Og þannig svarar hann okkur líka þegar við spyrjum hvað við eigum að gera.

    Um hvað snýst það?

    Forgangsröðun.
    Fyrir náungann – sem eru þau öll sem þurfa á okkur að halda.
    Fyrir samfélagið okkar.
    Það er að vera kristin manneskja.
    Því Guð vill trúna þína og náunginn þarf hendurnar þínar og hjartað.

  • Bara eins og þú ert

    Ég ætla að tala um þrennt við ykkur í dag: Jesús, frík og okkur.

    Frík

    Við byrjum á fríkinu.

    Þessa dagana er ég að lesa bók sem heitir „Hugsaðu eins og frík“. Hún er eftir hagfræðing og blaðamann sem hafa skrifað saman um það sem þeir kalla Freakonomics – Fríkuð hagfræði. Höfundarnir  hafa vakið athygli fyrir frumlega nálgun við ýmis verkefni og vandamál samfélagsins. Þetta er þriðja bókin sem þeir skrifa saman og hún fjallar um frík-aðferðina sem þeir hafa beitt í hinum bókunum tveimur. Markmiðið er að kenna lesandanum að hugsa á fríkaðan hátt.

    Þeir leggja línurnar fyrir þetta í öðrum kaflanum sem hefur yfirskriftina: „Orðin sem erfiðast er að segja á ensku.“

    Hver skyldu þau vera?

    Kannski eitthvað um ástina:

    • Ég elska þig.
    • Ég sakna þín.
    • Þú skiptir mig máli.

    Nei, það er ekki svo. Ástarjátningar flækjast ekki fyrir fólki. Erfiðu orðin – eða eiginlega erfiða setningin – er:

    „Ég veit það ekki.“

    Meginboðskapur kaflans er þessi: Þorðu að hafa rangt fyrir þér. Þorðu að viðurkenna það þegar þú veist eitthvað ekki.

    Mér finnst þetta áhugavert bæði fyrir samfélagið og kirkjuna.

    1. Þetta kallast á við þá hugsun í kristinni trú að við getum vaxið og þroskast en séum ekki fullkomin. Og að við höfum þörf fyrir annað fólk.
    2. Þetta kallast á við það hvernig við getum með samfélagið okkar. Við höfum ekki öll svörin á reiðum höndum sjálf. En við höfum góðan vilja, viljum gera vel, getum unnið saman og nýtt visku fjöldans.

    Skírnin

    Ég skírði barn í gær, fallega stúlku sem á framtíðina fyrir sér. Þegar börn eru borin til skírnar – eins og við vorum flest á unga aldri – er óhjákvæmilegt að hugsa um hvað kristið uppeldi felur í sér. Skírnin er jú eins konar yfirlýsing um það að við ætlum að ala barnið þannig upp.

    Og út á hvað gengur það? Ein leið til að nálgast það er sú að tala um mikilvægi þess að kenna börnunum bænir og lesa Biblíusögur og fara í kirkju. Og það er góðra gjalda vert. En kannski má líka horfa á þetta með öðrum hætti og segja að kristið uppeldi felist í því að foreldrar skírnarbarnsins komi tvennu til skila: annars vegar að barnið sé elskað, hins vegar að það eigi von.

    Ef okkur tekst að koma þessu áleiðis á þeim átján árum sem við höfum þannig að börnin okkar finni það á skinninu og í huganum og í hjartanu að þau eru elskuð og viti það alltaf að þau geta ekki lokast inni í erfiðum aðstæðum þá eiga þau bæði ást og von þá hefur uppeldið tekist vel.

    Svo þurfum við sem fullorðin erum líka að læra af börnunum. Á það minnti Jesús okkur þegar hann sagði að við þyrftum sjálf að verða eins og börn til að nálgast guðsríkið. Og hvað eiga börnin sem við fullorðna fólkið höfum stundum misst?

    Þau eiga til dæmis þetta traust sem Jesús kallar eftir hjá systrunum um við Mörtu og Maríu: trúir þú mér? Treystir þú mér? Og þau eiga líka traustið sem við lesum um í sálminum úr Gamla testamentinu þegar skáldið ákallar Guð í angistinni miðri.

    Stefnuyfirlýsing

    Gott og vel – rifjum upp:

    • Það er mikilvægt að geta sagt: Ég veit það ekki.
    • Kirkja og samfélag eru staðir þar sem við þroskumst saman.
    • Kristið uppeldi gengur meðal annars út á að miðla ást og von.

    Þetta má orða með öðrum hætti – á formi eins konar stefnuyfirlýsingar handa kirkju, til dæmis kirkjunnar okkar:

    Kirkjan er staður fyrir manneskjur.
    Þar sem þær koma eins og þær eru.
    Þurfa ekki að setja upp andlit eða setja sig í stellingar.
    Fá að vera eins og þær eru.
    Og eru metnar þannig.
    Skilaboðin sem hver og einn fær eru:

    Þú
    ert
    í lagi.

    Þú ert flott  – flottur – eins og þú ert – svo ég noti orðalag dótturinnar á fermingaraldri.

    Það þýðir ekki að þú sért fullkomin eða að ég sé fullkominn. Það þýðir að þú og ég – við – erum elskuð eins og við erum og svo hvött til að gera vel og kölluð til að vera hendur, hjörtu og hugar Guðs til góðra verka í heiminum. Það er boðskapur Jesú.

    Þetta er svosem ekkert flóknara.

    Það sem einkennir samfélag sem lifir eftir þessu er að við kunnum að meta fólk. Viljum þroskast saman. Viljum hafa góð áhrif á umhverfið okkar. Viljum svara köllun Jesú um að vera salt jarðar og ljós heimsins.

    Á máli bókarinnar sem ég nefndi áðan kallast þetta kannski fríkað. Á okkar máli heitir það að vera kirkja.

    Virkjunarstarfið

    Ég held að þessi aðferð virki bæði þegar við hugsum um það hvernig við lifum saman sem kirkja og samfélag. Til dæmis hér á Kjalarnesinu.

    Við viljum byggja samfélagið upp. Til að það takist þurfum við að virkja marga, vinna saman, hlusta. Prófa okkur áfram. Þegar eitthvað virkar þá gerum við það áfram en þegar eitthvað virkar ekki þá reynum við eitthvað annað. Markmiðið er skýrt: Gott samfélag þar sem fólk er metið og fær að þroskast með öðrum.

    Ég held að það sé ágætis nálgun.

    Ég hlakka til að iðka hana í kirkjunni okkar og samfélaginu öllu.

    Með ykkur.

  • Síðskeggjaður hipster vill fasta á ranglæti

    Þetta er merkilegur dagur.
    Einn af dögunum þegar við ættum eiginlega ekki að prédika.
    Bara láta textana tala.
    Mig langar samt að segja þrjú orð:

    • Þú.
    • Þjóðin.
    • Þau.

    Svo skal ég útskýra.

    Unga fólkið í kirkjunni á slagorð: Við erum hendur Guðs til góðra verka.
    Og fingur.
    Og munnar.
    Og fætur.

    Hvað þýðir þetta?

    Hvað sagði Jesaja?

    Sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn
    og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
    og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.

    Svo kemur framhaldið:

    Nema auðvitað að hann sé útlendingur.
    Eða flóttamaður.
    Eða hælisleitandi.
    Eða úr annarri borg.
    Eða öðru hverfi.

    Þá skaltu bara sýna honum dyrnar.
    Skella í lás.

    Var það ekki annars?

    Nei.

    Jesaja skrifaði:

    Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
    hættir hæðnisbendingum og rógi,
    réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
    og seður þann sem bágt á,
    þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
    og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.

    Og hann var alveg með þetta, síðskeggjaði hipstera-spámaðurinn í Mið-Austurlöndum.

    Fólkið í strætó

    Ég átti stutt samtal á netinu við einn kunningja í vikunni. Hann tekur strætó á morgnana og hefur gaman af að fylgjast með fólki og þennan morguninn sá hann nokkuð sem kom á óvart.
    Fólkið í strætó var ekki með andlitin ofaní snjallsímunum sínum eins og þau eru alla jafna.

    Hvers vegna?
    Hvað hafði gerst?

    Ikea-bæklingurinn var kominn.

    Fólkið í strætó tók bæklinginn með sér og blaðaði í honum. Skoðaði myndir, stærðir, verð. Kannski til að fá hugmyndir eða innblástur, kannski til að láta sig dreyma.
    Um hvað?
    Betra líf með nýjum sófa?
    Nýtt skipulag í eldhúsinu?
    Mýkra rúm og litríkari rúmföt?
    Ég veit það ekki.

    En ég held að Ikea-bæklingurinn standi kannski fyrir það sama og matreiðslubækurnar og blöð eins og Hús og híbýli: Hugmyndina um eitthvað gott, betra líf sem við getum átt hlutdeild og kannski öðlast. Myndir og texti miðla því og kannski festir hugur og löngun sig við einhvern hlut sem gæti orðið okkar og þá verður allt.
    Miklu.
    Betra.

    Og það er bara allt í lagi að langa.
    Það er gott að láta sig dreyma.
    Og svo söfnum við og látum draumana jafnvel rætast.

    Draumarnir þeirra

    Fólkið í flóttamannabúðunum í Calais lætur sig líka dreyma.
    Fólkið í Sýrlandi lætur sig dreyma.
    Fólkið sem fer á litlum flekum yfir Miðjarðarhafið lætur sig dreyma.
    Um að lifa af.
    Um betra líf.
    Um eitthvað annað.
    Þau eiga sér von og það er hún sem rekur þau áfram.
    Það er jú enginn sem gerir það að gamni sínu að flýja land til að búa í flóttamannabúðum.

    En hvað kemur það okkur við?

    Ja, við erum hendur Guðs, til góðra verka.

    Hvött og eiginlega kölluð til að gefa hinum hungruðu af brauði okkar, hýsa bágstadda, hælislausa menn og ef við sjáum klæðlausan mann, að við klæðum hann – eins og spámaðurinn skrifaði.

    Það sama sagði Jesús þegar hann hvatti lærisveina sína.

    En Útlendingastofnun?

    Hvað er presturinn nú að spá?
    Vill hann bara opna landið?
    Veit hann betur en Útlendingastofnun?

    Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég sé sérfræðingur í málefnum flóttafólks.
    En ég veit til hvers við erum send.
    Hvaða viðhorf Jesús hafði og hvaða viðhorfi hann kallaði eftir hjá fylgjendum sínum.
    Til þeirra sem eru öðruvísi.
    Til þeirra sem búa við skort.
    Til þeirra sem þurfa.

    Þetta má orða með öðrum hætti.
    Farið ekki í manngreinarálit.
    Sinnið fólki jafnt.
    Gefið öllum tækifæri.
    Ekki bara Íslendingum á Íslandi heldur öllu fólki sem þið getið haft áhrif á til góðs.

    Það er ákall dags kærleiksþjónstunnar – og líka hinna 364-5 daganna á árinu.

    Mig langaði að deila því með ykkur.

  • Smellbeitan, útlendingarnir og Jesús

    „Rúss­ar hand­tekn­ir eftir „verslunarferð“ í Fjörðinn“
    „Litháarnir handteknir enn á ný“

    Þetta eru tvær fyrirsagnir frétta frá 2006 og 2008 sem ég fann á vefnum mbl.is. Framsetning af þessu tagi í umfjöllun um glæpi hefur verið gagnrýnd vegna þess að hún þykir ala á andúð á útlendingum. Þá er spurt hvaða máli það skipti hvers lenskur hinn meinti brotamaður er? Og hvers vegna það sé þá ekki nefnt hverju sinni sem Íslendingur er handtekinn að hann sé einmitt Íslendingur? Þetta rifjaðist upp fyrir mér í vikunni vegna þess að ég las frétt á Pressunni sem ég mátti svosem vita að væri ekki íslensk en það var samt aldrei tekið fram. Fyrirsögnin var svona:

    „Lögreglan stöðvaði konu fyrir hraðaakstur: Hún kom með besta svarið“

    Fréttin hófst svo á orðunum: „Athugið – eftirfarandi atburðir gætu ekki hafa gerst“ sem ég veit hvað eiga að merkja. Kannski að svona nokkuð geti ekki gerst, kannski að fréttin sé mögulega uppspuni.

    „Fréttir“ af þessum toga eru þekktar í vefheimum. Fyrirsagnirnar eru kallaðar „clickbait“ – smellbeita – því þær eru settar saman til að skapa forvitni og kalla fram smelli. Svo eru birtar auglýsingar með fréttinni og þannig fást tekjur á vefinn. Sannleiksgildi efnisins skiptir litlu máli eða jafnvel engu. Þess vegna er láta fylgja ábendingu til lesandans efst í fréttinni um að „þetta gæti ekki hafa gerst.“ Ég velti því fyrir mér við lesturinn hvort ekki mætti hafa þá meginreglu að láta þess getið í fyrirsögnum svona frétta hvers lenskir einstaklingarnir sem þær fjalla um eru, til dæmis:

    „Útlensk lögreglan stöðvaði erlenda konu fyrir hraðaakstur í útlöndum: Hún kom með besta svarið – á ensku“

    Ég held nefnilega að ólíkt innlendum glæpafréttum þá megi gjarnan fylgja gaman- og flökkusögum frá útlöndum upplýsingar um upprunaland. Bæði til að auðvelda okkur að sía fréttirnar á vefnum og til að leyfa erlendum sögum að vera einmitt það en láta ekki eins og þær séu íslenskar.

    Smellbeita og lofsöngvar

    Í vikunni bárust fréttir frá Englandi. Fyrir nokkrum dögum var  tekinn upp sjónvarpsþáttur sem heitir Songs of Praise. Hann er sendur út á sunnudagseftirmiðdögum og þessi tiltekni þáttur verður sendur út seinna í dag. Songs of Praise er þáttur með trúarlegri tónlist og þar er líka fjallað um málefni samtímans í ljósi kristinnar sýnar á manneskjuna og trúna. Þáttur dagsins var tekinn upp í flóttamannabúðum í Calais. Þar búa þúsundir flóttamanna – hælisleitenda – frá löndum eins og Sýrlandi, Lýbíu og Erítreu.

    Eitt götublaðið beitti sér í málinu og setti smellbeitufyrirsögn yfir frétt:

    Hymnigrants
    EXCLUSIVE: BBC blasted for filming Songs of Praise at Calais camp

    Í fréttinni kom fram að ríkisútvarpið breska ætti ekki að beita sér á sviði sem væri svona pólitískt. Það væri óviðeigandi að taka upp sjónvarpsþátt um trúarleg efni meðal hælisleitenda og flóttafólks.

    Nick Baines sem er biskup í Leeds var einn af þeim sem svöruðu fyrir hönd kirkjunnar. Hann sagði tvær góðar ástæður fyrir taka þáttinn upp í flóttamannabúðunum. Sú fyrri er að kristin trú fjallar um Guð og manneskjuna í raunverulegum aðstæðum. Sú síðari er að kristið helgihald snýst líka um alvöru fólk, stundum á það sér einmitt stað þar sem aðstæður eru erfiðar.

    Þarna er fólk.
    Náungar okkar.
    Í alvöru og erfiðum aðstæðum.
    Sem hafa fundið og finna styrk í trúnni.
    Þess vegna hafa þau reist sér tjaldkirkju sem rís hærra en tjaldborgin.
    Og þegar hún brann reistu þau hana aftur.
    Ekki af auð sínum heldur af fátækt sinni.
    Og það eru forréttindi að fá að biðja með þeim.

    Jesús og útlendingarnir

    Jesús segir í 25. kafla Matteusarguðspjalls:

    „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. “

    Og:

    „Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“

    Og hvað er þetta allt sem hann talar um?

    Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

    Til þess erum við kölluð. Smellbeita Jesú – það sem grípur – er því ósköp einföld yfirlýsing: Vertu almennileg manneskja, ekki bara við þau sem standa þér næst heldur við þau sem gera það ekki. Til dæmis útlendinga. Flóttafólk. Hælisleitendur.

    Því þau eru Guðs.
    Eins og þú.

    Flutt í lesmessu í Háteigskirkju, 16. ágúst 2015.

  • Er það pólitískur rétttrúnaður að mæta fólki af virðingu?

    Í vikunni las ég um ungan mann sem skrifaði lítið forrit og tengdi það við vafrann í tölvunni sinni. Forritið gerir aðeins eitt: Þegar textinn „political correctness“ kemur fyrir á vefsíðu breytir það honum í „treating people with respect“. „Pólitískur rétttrúnaður“ verður „að mæta fólki með virðingu.“

    https://twitter.com/byronclarknz/status/628702214391902208

    Um pólitískan rétttrúnað sagði á Wikipediu laugardagsmorguninn 8. ágúst í texta sem er reyndar ekki allskostar hlutlaus:

    „Gjarnan er talað um pólitískan rétttrúnað í tengslum við tungutak um minnihlutahópa og átt við ofurvarfærni gagnvart niðrandi orðfæri, svo sem um kynþætti, konur, meðlimi trúarhópa, fatlaða, samkynhneigða og svo framvegis. Þó á hugtakið ekki aðeins við um tungutak heldur einnig gjörðir, pólitísk stefnumál, hugmyndafræði og hegðun, alla afvegaleidda viðleitni til að lágmarka móðganir og mismunun gagnvart hópum sem eiga undir högg að sækja.“

    Það er ótrúlegt hvað þessi litla breyting hefur mikil áhrif. Með því að taka hlaðið tungutak úr umferð og setja í staðinn lýsingu á því sem reynt er að ná fram: að mæta fólki af virðingu er nefnilega hægt að afhjúpa ofbeldið í samfélaginu og þannig berjast gegn því. Orð hafa nefnilega áhrif.

    Eva Hauksdóttir, sem er skarpur pistlahöfundur, skrifar á einum stað:

    „Málflutning skal gagnrýna með rökum. Merkimiðar eru ekki rök; þeir sem telja andmælendur sína á valdi pólitískrar rétthugsunar ættu þessvegna að útskýra hvað nákvæmlega er gagnrýnivert við skoðanir þeirra.“

    Hér hittir hún naglann á höfuðið. Merkimiðar geta vissulega verið gagnlegir til að flokka og skilja, en þegar þeir eru notaðir til að meiða – eins og stundum og jafnvel oft er raunin með merkimiðann „pólitískan rétttrúnað“ þá eru þeir skaðlegir. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að við megum ekki ræða um skoðanir og afstöðu. Það þýðir hins vegar að við eigum að eiga í samtali án þess að hafa þann ásetning að meiða aðra.

    Virðing fyrir manneskjunni er nefnilega ekki til umræðu, um hana verður ekki samið. Hún er grundvallaratriði og forsenda.

    Jesús er reiður

    Jesús er reiður í guðspjalli dagsins. Hann ávítar. Hann er ekki alltaf glaður – frekar en við.

    „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.“

    Þetta er öðrum þræði lýsing á vonbrigðum þess sem hefur ekki náð markmiði sínu. Jesús kom og prédikaði og fólkið hlustaði, hann gerði kraftaverk og fólkið horfði. En þau breyttu ekki hátterni sínu. Kannski af því að þau skildu ekki. Kannski af því að breytingar taka tíma og hann var ekki nógu lengi á staðnum. Við vitum það ekki.

    En hverju vildi hann breyta?

    Mörgu.

    Eitt af því var hvernig við lítum á og nálgumst annað fólk.

    Hvernig?

    • Hann umgekkst þau sem samfélagið úthýsti,
    • hann vildi að samfélagsreglurnar væru í þágu manneskjunnar – svo hann læknaði á hvíldardegi,
    • hann bar virðingu fyrir hverri manneskju sem hluta af sköpun Guðs.
      hann elskaði. Alla.
    • hann bað fyrir öðrum – líka þeim sem ofsóttu hann.

    Hann. Bar. Virðingu.

    Virðingin

    Það eru ekki allar breytingar jafn einfaldar og sú að setja upp forrit sem skiptir út merkimiða fyrir innihald. Breytir pólitískum rétttrúnaði í virðingu fyrir manneskjunni. Það er í sjálfu sér einfalt og tekur skamma stund – en getur auðvitað haft áhrif. Því orð hafa áhrif.

    Hitt tekur lengri tíma: að hætta að setja fólk niður og mæta þeim af virðingu. Og það gildir nota bene ekki bara um vini okkar eða nágranna heldur líka þau sem við skiljum sem öðruvísi eða sjáum jafnvel sem andstæðinga.

    Það er hin kristna afstaða.
    Að því vinnum við.
    Ekki síst um helgar eins og þessa þegar við stöndum með þeim sem hafa verið ofsótt um aldir.

    Og þegar það tekst segjum við ekki „vei og skamm“ heldur „vei og jibbí jei“.
    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

  • Barnatrú og mannþjónusta

    Í Fræðunum minni fjallar Marteinn Lúther um grundvallaratriði kristinnar trúar og leggur meðal annars út af Faðirvorinu, postullegu trúarjátningunni og boðorðunum tíu. Þetta hefur stundum verið kallað kjarninn í íslenskri barnatrú. Lúther byrjar Fræðin á umfjöllun um Boðorðin. Þar vekur athygli að í meðförum hans verður boðorðið þú skalt ekki að jákvæðri þú skalt-yrðingu:

    • Þú skalt hjálpa náunga þínum að varðveita eigur sínar.
    • Þú skalt hjálpa náunga þínum að hlúa að hjónabandi sínu.
    • Þú skalt hjálpa náunga þínum að lifa vel.

    Verslunarmannahelgin er að þessu sinni á milli tveggja mannréttindahelga hér á Íslandi: fyrir viku síðan var haldin Drusluganga í Reykjavík. Athyglin beindist að mannhelgi, mörkunum milli fólks og virðingu fyrir konum. Eftir viku verða mannréttindi hinsegin fólks í brennidepli í Gleðigöngu á Hinsegin dögum.

    Mannréttindi og -skyldur

    Mannréttindi er orð sem heyrist víða og mannréttindabarátta er fyrirferðarmikil í samfélaginu okkar. En við ræðum sjaldnar um hina hliðina á því: Skyldurnar sem fylgja réttindum.

    Hvað gerist ef við nálgumst mannréttindi eins og Lúther nálgaðist boðorðin? Þá horfum við ekki lengur á lágmarks réttindi annarra heldur hámarks skyldur okkar. Tökum dæmi:

    • Fólk á ekki bara rétt til að tjá sig (tjáningarfrelsið). Það er skylda okkar að tryggja að þau geti það.
    • Börn eiga ekki bara rétt á góðu atlæti, uppeldi, öryggi (réttindi barna). Það er skylda okkar að tryggja að svo sé.

    Mannréttindin standa vörð um ákveðinn grundvöll. Þau slá ramma kringum manneskjuna. Skyldurnar lúta aftur á móti að því hvernig við hugsum til og aðhöfumst í þágu annarra, náungans, lífsins og sköpunar Guðs.

    Kannski er það þetta sem Páll á við þegar hann talar um að berjast góðu baráttunni í pistli dagsins. Og nota bene ekki aðeins að við berjumst fyrir mannréttindum – sem er gott og blessað út af fyrir sig – heldur að við göngum lengra.

    Barnatrúin og mannþjónustan

    Kjarni kristinnar trúar – líka barnatrúarinnar – er að nálgast náungann og þjóna honum í kærleika. Þegar það er gert þá hætta skyldurnar kannski að vera skyldur og verða að innblásinn löngun til að sinna þeim sem þarf að sinna, af einlægum vilja til vinna verkin.

    Sem kristnar manneskjur erum við kölluð til láta okkur ekki aðeins varða grundvallar- eða lágmarks- mannréttindi heldur til að grípa hvert tækifæri til að sinna um og hlúa að lífinu þannig að sérhver einstaklingur megi og geti lifað lífi sínu í fullri gnægð.

    Við getum kallað það mannþjónustu sem birtist í manngæsku. Það er að vera kristin manneskja.

    Það er okkar barna- og fullorðinstrú.

    Flutt í guðsþjónustu í Hóladómkirkju, sunnudaginn 2. ágúst 2015.