Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • 101Jólaskraut

    101 Christmas

    Það þarf ekki að fara á glamúrjólatónleika til að upplifa jólastemningu. Það er til dæmis hægt að rölta niður Laugaveginn og upp Skólavörðustíginn og dást að útsjónarsömum jólaskreytingum í gluggum.

    Það er svo margt fallegt, ef að er gáð, þegar rölt er um miðbæinn þessa dagana.

  • Aðventumorgunn

    Advent morning

    Á aðventunni erum við borgarbörnin oft vakandi þegar sólin rís. Þá getum við séð með eigin augum þegar hún málar himininn gylltan með penslunum sínum fallegu. Á búsáhaldaaðventu er gott að taka frá tíma til að njóta einmitt þessa.

  • #SethGodin, #Íþróttaálfurinn og #GeorgeBryant og tístið

    Ég var í Háskólabíói í morgun og hlustaði á þrjá markaðsmenn flytja fyrirlestra um fræðin sín. Fyrstur á svið var George Bryant, á eftir honum kom íþróttaálfurinn Magnús Scheving og loks steig markaðsgúrúinn Seth Godin á svið. Ég sat með spjaldið í kjöltunni og tísti án afláts. Þetta gefur kannski örlitla innsýn í magnaðan morgun. Ég lærði heilmikið og fór heim innblásinn.

    Takk Ímark.

  • Það vantaði sex atkvæði

    Í síðustu viku fór fram atkvæðagreiðsla á kirkjuþingi ensku kirkjunnar hvort prestsvígðar konur mættu taka biskupsvígslu eða ekki. Sex atkvæði vantaði upp á að málið væri samþykkt. Núverandi erkibiskup af Kantaraborg og sá sem tekur við honum eftir áramót hvöttu báðir til þess að þingið segði já við þessari spurningu og meirihlutinn gerði það.

    Nánar tiltekið sögðu 94% biskupa, 77% presta og 64% leikmanna já við biskupsvígðum konum. En það var kosið eftir deildum og í hverri deild þurftu 2/3 hlutar að segja já. Það vantaði 2% upp á leikmennina, alls sex atkvæði.

    Það er því ekki rétt sem Egill Helgason skrifaði í bloggfærslu á dögunum að „meirihluti þingmeðlima reyndist hafa íhaldssamari skoðanir [en erkibiskupinn af Kantaraborg].“ Það er meirihluti fyrir málinu á kirkjuþinginu og í kirkjunni líka. Hann dugði bara ekki til miðað við leikreglurnar. Nick Baines, biskup í Bradford, orðar þetta svona:

    The point is basically this: the Church of England has not rejected women bishops – the House of Laity of the General Synod has. The Church of England has massively and overwhelmingly approved not only the principle, but the process. The only question now is how to find the right wording to make law that makes this a reality.

    Það verður spennandi að fylgjast með framvindu málsins og vonandi styttist í að fyrsta konan verði vígð til biskupsþjónustu í ensku kirkjunni.

  • Ralf, rústirnar og kirkjan

    Ég messaði í Borgarholtsskóla í morgun. Þar er alltaf þemamessa og í dag var þemað tölvuleikir og bíó. Ég lagði út af kvikmyndinni um rústarann Ralf og talaði um hvort persónur – í tölvuleikjum og í lífinu – geta breyst og um mikilvægi vonarinnar. Þetta er góð mynd sem ég mæli með og hún átti vel við í Borgarholtsskóla þar sem fermingarbörnin eru stærstur hluti safnaðarins á sunnudögum.

  • Staða og fjármál þjóðkirkju og safnaða – bloggað í beinni

    Nú fer fram sérstök umræða á Alþingi um um stöðu þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára. Málshefjandi er Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og til andsvara verður innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson. Ég ætla að blogga þetta í beinni, frá upphafi til enda. (more…)

  • Þar sem krækiberjasafi og hunang mætast

    IMG_0586

    Í matreiðslubókinni Orð, krydd og krásir er uppskrift að eftirréttarkúlum sem eru gerðar úr möndlum og pistasíuhnetum og rúsínum sem eru hnýttar saman með hunangi og krækiberjasafa og kryddaðar með stjörnuanís. Við gerðum fyrsta skammtinn í gær og gæddum okkur á honum. Myndin hér að ofan sýnir bindiefnin tvö.

  • Skrifum undir

    „Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd.

    Við munum öll hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.“

    Í dag er góður dagur til að leggja nafn sitt við þjóðarsáttmála gegn einelti með undirskrift á vefnum. Svo skulum við öll leggja okkar af mörkum á baráttudegi gegn einelti 8. nóvember næstkomandi.

  • Nóvemberjólakakan hennar Nönnu

    Nanna Rögnvaldar er uppáhalds matarbloggari. Í dag bloggar hún um jólakökuna sem gott er að gera um þetta leyti og leyfa svo að sjatna fram að þessum eða næstu jólum.

  • En allir geta gert eitthvað

    Tómas Viktor gefur í söfnun sem #Hjálparstarf #kirkjunnar stendur fyrir þessa dagana.

    Þessa dagana ganga fermingarbörn í hús um allt land. Þau eru með söfnunarbauka frá Hjálparstarfi kirkjunnar til að safna fyrir vatnsverkefnum í Malaví í Afríku. Féð sem safnast verður meðal annars notað til að byggja brunna sem gjörbreyta lífi fólksins sem hefur aðgang að þeim.

    Við skulum taka vel á móti krökkunum og gefa í söfnunina, minnug slagorðsins: Enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað.