Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Bræðrasagan Submarino

    Í gær var kvikmyndin Submarino sýnd í Bíó Paradís. Myndin hlaut á dögunum kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, en þau verða einmitt afhent í kvöld. Þetta var nóvembersýning Deus ex cinema í Bíó Paradís og hún var sérstök að því leyti að leikstjórinn, Tomas Vinterberg var á staðnum og hann tók þátt í umræðum að lokinni sýningu. Vinterberg er flottur fagmaður og það var virkilega gaman að hlusta á hann.

    Það kom í hlut Árna Svans að flytja stutta innlýsingu á undan sýningunni. Hún var nokkurn veginn svona:

    Submarino er verðlaunamynd. Dómnefndin sem veitti henni kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs á dögunum fangaði kjarna hennar í umsögn sinni. Þau skrifuðu:

    „Submarino er óvægin en jafnframt áhrifamikil saga tveggja bræðra sem tengjast vegna örlagaríkra atburða í æsku. Myndin fjallar um bræður sem axla ábyrgð fullorðinna og um hvernig barn fær félagslegar aðstæður í arf, en einnig um von um betri framtíð. Í myndinni er fjallað um þemu eins og áföll, sekt og sættir. Submarino er einfalt en jafnframt flókið listaverk, handritið er heilsteypt og leikstjórnin stílviss. Fínleg og þétt innri bygging sem gengur upp, nálægð í leiknum og snjöll notkun hljóðs og ljóss stuðla að því að skapa þessa áleitnu mynd af lífi fólks.“

    Þetta er bræðrasaga og stórsaga – sumir myndu segja samtíða goðsaga.
    Þetta er saga um erfiða, brotna, fortíð, um fíkn og hömluleysi.
    Þetta er saga um samfélagið okkar á Norðurlöndunum.
    Þetta er saga um uppgjör.
    Þetta er saga um vonleysi. Og þetta er saga um von.

    Submarino er vel gerð og hún er vel leikin. Það er ljóst að leikstjórinn, Tomas Vinterberg, hefur gott vald á viðfangsefninu og það verður spennandi að fá tækifæri til að ræða myndina við hann á eftir. Ég ætla ekki að segja meira um myndina sjálfa, en vil biðja ykkur að taka eftir þrennu við áhorfið, einu einkenni á kvikmyndinni, einu stefi og einu atriði í Submarino:

    1. Það fyrsta er lýsingin í myndinni. Fylgist með því hvernig samspilið er milli ljóss og skugga. Hvaða atriði eru dimm, full af myrkri, hvaða atriði eru full af ljósi.
    2. Annað er þetta: Við getum skoðað Submarino sem íhugun á tveimur þekktum stefjum – bæði eru Biblíuleg: Annars vegar syndir feðranna, sem koma niður á börnunum. Hér getum við spurt okkur: Miðlar Submarino von eða vonleysi? Hins vegar sögunni þekktu um bræðurna Kain og Abel, en sú saga spyr einmitt grundvallarspurningar sem má íhuga í samhengi Submarino: Á ég að gæta bróður míns?
    3. Það þriðja sem ég vil vekja athygli ykkar á er eitt atriði í upphafi myndarinnar. Þá fylgjumst við með einfaldri skírnarathöfn. Þar er nýfæddu barni gefið nafn. Hvaða merkingu hefur þessi athöfn í samhengi myndarinnar? Og hvaða merkingu hafa nöfn og nafnleysi í myndinni?

    Góða skemmtun.

    Ps. Lesið líka pistilinn Bræður munu bregðast sem var skrifaður þegar myndin var sýnd á RIFF í september.

  • Samtal við samtíðina

    IMG_6148

    Gunnar Kristjánsson prédikaði í útvarpsmessu frá Mosfellskirkju í morgun Hann talaði meðal annars um þá köllun kirkjunnar að eiga samtal við samtíðina:

    Kirkjan verður því að eiga samtal við samtíð sína, slíku samtali má aldrei linna, þar verður hún að gera allt sem í hennar valdi stendur. Hún verður að þekkja menningu þeirrar þjóðar sem hún þjónar, til þess að geta greint hjartslátt líðandi stundar, til þess að geta stuðlað að gagnkvæmum skilningi manna á meðal, til þess að læra, og til þess að miðla reynslu og þekkingu sem hún býr yfir í langri sögu sinni. Og til þess að geta iðkað umræðu um málastað Jesú í samfélagi líðandi stundar.

    Hann vísaði líka til Jóns Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík:

    Málið snýst um trúarmenningu þar sem hver kynslóð hefur fundið sinn eigin tón. Mér kemur í hug pistill sem ég las um daginn í pistlakverinu Þankagangur eftir borgarstjórann í Reykjavík þar sem hann segir að þakklæti komi upp í hugann þegar hann hugsi til bernskunnar, til fólks sem kenndi honum að trúa. Hann nefnir þar ömmu sína or kristinfræðikennara í barnaskóla. Þau kenndu honum að biðja og veittu honum undirstöðuþekkingu í kristnum fræðum. Hann sagði að hvort tveggja hefði komið sér að góðum notum í lífinu og hann hefði ekki viljað fara á mis við þá fræðslu. Hér er svipmynd af hinni lúthersku trúarmenningu sem berst frá kynslóð til kynslóðar. Hún vekur þakklæti í huga okkar, í lífi mannsins sannast gildi hennar.

    Við erum sammála honum þegar kemur að þessu. Kirkja verður að eiga gott samtal við samtíðina og það er full ástæða til að vera þakklát þeim sem leiddu okkur áfram í bernsku og miðluðu þekkingu í kristnum fræðum.

  • Kennum tillitssemi og samkennd

    IMG_6984

    Við eigum þrjú börn á grunnskólaaldri. Það er svolítið gaman að fylgjast með því hvernig upplýsingagjöfin frá skólunum hefur eflst undanfarin ár. Vikulega fáum við tölvubréf frá skólastjórum og kennurum með upplýsingum um starfið, hollráðum til að hugleiða. Í gær barst bréf sem endaði svona:

    Í öllu þessu umróti sem á sér stað í þjóðfélaginu þá orsakar það á meiri óróa hjá börnunum og við finnum aðeins fyrir því. Skólinn reynir að halda vel utan um börnin, vernda þau og styðja af fullum hug og við erum stolt yfir því hversu vel gengur. Skólastarfið snýst um nám og kennslu en einnig að kenna þeim góð gildi og halda uppi uppbyggilegum aga. Skólinn er hins vegar ekkert eyland. Mikilvægt er að þið foreldrar styðjið við bakið á okkur í því starfi sem á sér stað og við séum samhljóma í verki. Kennum þeim tillitsemi og samkennd. Það er sameiginlegt hlutverk okkar, heimila og skóla að aðstoða börnin við að skilja þann hugsunarhátt og það viðhorf að hver og ein mannvera er einstök, á sér innra líf og er áhugaverð.

    Við erum þakklát fyrir gott samstarf heimilis og skóla og fyrir gott samtal og samstarf í hverfinu okkar og segjum nú bara Amen við þessu.

  • Dill á Diskóeyju

    Fjölskyldan okkar flutti á Diskóeyju í síðustu viku. Síðan þá höfum við dillað okkur í diskótakti við lög eins og Dýrin á Diskó, Dvergadans, Það geta ekki allir verið gordjöss og að sjálfsögðu Diskóeinvígið. Diskóeyjan er ný barnaplatan frá Braga Valdimari Skúlasyni og Memfismafíunni. Þetta er sama gengið og sendi frá sér  Gillligill fyrir tveimur árum. Nú hafa Óttarr Proppé og Guðmundur Kristinn Jónsson slegist í hópinn.

    Þetta er vel heppnuð barnaplata. Lögin eru auðlærð og grípandi og þau þola endurtekna hlustun. Þau eru líka gleðivekjandi sem skiptir auðvitað heilmiklu máli. Óttarr er flottur sem Prófessorinn og Páll Óskar gordjöss í hltuverki Ljóta kallsins. Sigríður Thorlacíus syngur Rut listavel og Unnsteinn Manúel er flottur sem Daníel.

    Ekki kemur á óvart að listagripur á borð við Diskóeyjuna feli í sér lauflétta samfélagsgagnrýni. Ofurstilltu börnin Daníel og Rut eru vel skilyrt og árangursmiðuð – og hafa markið sett á lögfræði og viðskiptafræði þegar þau verða stór. Það sem verður til að hrista upp í þeim er að góð stjúpa úr nágrenninu ákveður að gefa þeim tækifæri til að auka lífsreynslu sína og víkka sjóndeildarhringinn. Og það með engum smá árangri!

    Það er góður boðskapur á Diskóeyjunni: Við skulum virða það að við erum ólík, samtalið blífur, lifum saman í sátt og samlyndi. Gleðjumst í menningu fjölbreytileikans, dvergar, varúlfar, fönkfinkur, prófessorar og börn! Meira að segja Ljóti kallinn áttaði sig á þessu í lokin ;)

    Við segjum því takk við Braga Valdimar og Memfismafíuna og Óttarr og Guðmund  Kristinn og mælum með Diskóeyjunni fyrir börn á öllum aldri.

    Ps. Ekki spillti það gleði foreldranna að á plötunni fundu þeir nokkrar skemmtilegar trúarlegar vísanir :)

    Pps. Myndin með færslunni er fengin af Facebooksíðu Memfismafíunnar. Hún sýnir starfsfólk og nemendur Fágunarskóla Prófessorsins á Diskóeyju.

  • Trú, boð og bönn

    Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur nú til umfjöllunar samskipti leik- og grunnskóla borgarinnar við kirkju og trúfélög. Meirihluti ráðsins vill samkvæmt fréttum að samskiptin taki mið af þeirri stefnu að gera skólaumhverfið hlutlaust þegar kemur að trúmálum.

    Til að ná því fram leggur meirihluti Mannréttindaráðs til breytingar á þeim venjum sem komist hafa á í samskiptum trúfélaga og skóla. Taka á fyrir að börn fái leyfi á skólatíma til að fara í fermingarferðalög, kynning á trúarlegu starfi verði bönnuð innan skóla, sömuleiðis öll umfjöllun um trúarleg málefni, einnig allt starf á vegum trúfélaga í húsnæði skóla og frístundastarfs. Loks á að taka fyrir að leitað sé til presta ef aðstoð þarf við áfallahjálp.

    Í þessari umræðu teljum við mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga. Hlutleysi í trúmálum þýðir ekki algjöra fjarveru veruleika og menningar trúariðkunar eða lok samstarfs kirkju og skóla. Mannréttindastefna sem byggir á trúfrelsi og virðingu fyrir ólíkum trúarskoðunum fólks krefst þess ekki að opinbert rými og samfélagslegt starf sé gersneytt af trúarlegum minnum.

    Við hvetjum flottu borgarfulltrúana okkar í Reykjavík til að hafa í heiðri trúfrelsi sem gengst við þeirri staðreynd að trú og trúariðkun er hluti af samfélaginu okkar. Við hvetjum þau til að tryggja áframhaldandi jafnrétti og umhyggju fyrir öllum skólabörnum, hvaðan sem þau koma og hvaða lífsskoðun þau og fjölskyldur þeirra aðhyllast.

    Við hvetjum borgarfulltrúana líka til að taka ekki frelsið til að haga málum frá skólunum sjálfum og fagfólkinu sem vinnur við mennta- og frístundastarf borgarinnar. Við treystum skólastjórnendum á hverjum stað til að skipuleggja samskipti og samstarf við kirkju, trúfélög og lífsskoðanafélög, við tónskóla, skáta og íþróttafélög. Stöndum vörð um frelsi í hverfi. Við þurfum trú og traust, ekki boð og bönn.

    Birtist fyrst í Fréttablaðinu og á Vísi.is 18. október 2010.

  • Enginn getur hjálpað öllum – allir geta hjálpað einhverjum

    Við heyrðum nýtt og flott slagorð á landsmótinu á Akureyri: Enginn getur hjálpað öllum, en allir geta hjálpað einhverjum. Ármann Gunnarsson, djákni, sagði okkur frá þessu og frá dvöl sinni á Indlandi þar sem hann var sjálfboðaliði hjá SAM – Social Action Movement.

  • Þau ætla að breyta heiminum (myndband)

    Við vorum á Glerártorgi í dag með skemmtilegum unglingum úr æskulýðsfélögum víða um land. Þau stóðu fyrir dagskrá á þessu markaðstorgi verslunarinnar og söfnuðu peningum til að frelsa þrælabörn á Indlandi úr ánauð. Það er einmitt meginefni og markmið landsmóts æskulýðsfélaga sem nú stendur yfir á Akureyri. Þetta eru metnaðarfullir krakkar sem gaman er að fylgjast með. Þau ætla sér ekkert minna en að breyta heiminum.

    Við styðjum þau og við höfum trú á þeim.

  • Viðunandi velferð?

    Við þurfum að skilgreina hvað er viðunandi velferð, segir Bjarni, í þriðja viðtalsbútnum. Við þurfum að vera tilbúnari að deila með hvert öðru af því sem við höfum og við þurfum að taka meiri ábyrgð hvert á öðru.

  • Fátæktargildrur

    Í öðrum hluta viðtalsins sem við blogguðum um í gær ræðir Bjarni um fátæktargildrur og um nokkra hópa sem eru illa staddir.

  • Fátækt er staðreynd (myndband)

    Á sunnudaginn kemur verður vakin sérstök athygli á fátækt á Íslandi í kirkjunum. Í tilefni af þessu hitti ég Bjarna Karlsson á Austurvelli í dag. Hann hefur tekið þátt í starfi hóps á vegum Reykjavíkurborgar sem er að skoða fátækt í borginni og til hvaða ráða megi grípa.

    Ég tók stutt viðtal við Bjarna sem er í þremur hlutum á YouTube. Í fyrsta hlutanum sem fylgir þessari bloggfærslu segir Bjarni meðal annars að um 2% borgarbúa búi við brennandi fátækt.

    Við eigum ekki að sætta okkur við það.