Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Fólk ársins?

    Hver var viðskiptamaður ársins 2014? En maður ársins? Hver var kaka ársins í fyrra? En ísréttur ársins? Manstu það?

    Ég man það ekki. Það er líklega sanngjarnt að upplýsa það strax. En þegar ég las um alla menn ársins – sem reyndar eru iðulega kallaðir menn ársins en ekki fólk ársins þótt þetta geti líka verið konur – þegar ég las umdjarfasta viðskiptajöfurinn og snjöllustu markaðsmennina og íþróttafólkið sem afrekaði mest og allt hitt – þá rifjaðist upp fyrir mér að við veljum fólk á hverju ári sem hefur staðið upp úr. Fólk ársins.

    Kirkjusaga var eitt viðfangsefnið í guðfræðináminu þegar ég sat á skólabekk. Ég tók námskeið í hefðbundinni kirkjusögu sem fjallar um fólk sem gæti hafa verið fólk ársins á fyrri öldum. Þau sem sköruðu fram úr og höfðu áhrif og margir þekkja. Hin féllu í gleymskunnar dá. Ég tók líka eitt námskeið sem fjallaði um venjulegt fólk. Saga þeirra, fólksins sem er bara eins og ég og þú, getur nefnilega sagt okkur mjög mikið um daglegt líf og samfélagið eins og það er. Sem er eins og við vitum öll ekki aðeins eins og það kemur fyrir á hvíta tjaldinu eða í sjónvarpsþáttunum – Halló Ófærð – og er ekki bara stórsteikur, humar og hvítvín heldur soðin ýsa eða pylsa og Dóminós pizza og Egils appelsín eða Pepsí Max.

    Umbætur við áramót

    Við lítum til baka við áramót og fjölmiðlar beina kastljósinu að fólki ársins. Sjálf horfum við á okkar eigið líf. Skilaboðin sem við fáum oft – til dæmis frá lífsstílsfjölmiðlunum –  snúast um umbætur: Hvernig á að taka kroppinn í gegn, léttast, massast, skerpast. Hvernig á að taka hugann í gegn. Hvernig á að taka samböndin í gegn. Hvernig á að … Og oft er þetta sett fram á formi lista með hollráðum eða vítum til varnaðar. Á einum miðlinum mátti til dæmis lesa í dag:

    • 3 vís­bend­ing­ar sem gefa til kynna að sam­bandið muni end­ast
    • 5 atriði í for­gang á nýju ári
    • 6 bætiefni fyrir konur á breytingarskeiðinu

    Kannski erum við alveg eins í kirkjunni. Erum alltaf aftur og aftur að segja ykkur hvernig á að hætta að syndga og lifa betra lífi. Sem gæti allt eins heitið Móralismi 101 á guðfræðimáli.

    Ég er ekki viss um að þetta séu gagnleg skilaboð. Ég er ekki viss um að þau hefðu verið Jesú að skapi. Ég minnist þess ekki að hafa lesið eina einustu dæmisögu eða frásögn af honum sem fjallar um það að þyngjast eða léttast, gera húðina stinnari, sofa betur …

    En kannski lumaði hann á þremur eða fimm vísbendingum eða svo um það hvað á að setja í forgang og hvernig er hægt að láta sambandið endast. En þið vitið hvað ég á við.

    Gagnleg skilaboð?

    Hvað er þá gagnleg skilaboð á áramótum þegar við speglum okkur? Hvað kennir Jesús? Hann kennir til dæmis að ef áramótin eru spegill þá eiga þau að vera spegill til uppbyggingar en ekki niðurrifs. Ég held líka að hann biðji okkur að vera friðarfólk.

    Svo er annað, sem skín í gegnum lexíu og pistil gamlársdags. Í lexíunni segir:

    Náð Drottins er ekki þrotin,
    miskunn hans ekki á enda,
    hún er ný á hverjum morgni.

    Og í pistlinum segir:

    „Ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“

    Hér er talað um tengsl manneskjunnar og Guðs. Orðið náð er notað til að lýsa þessum tengslum. „Náð Drottins er ekki þrotin.“ Vitið þið hvað það þýðir að lýsa sambandi með þessum orðum?

    Það þýðir að samband Guðs við manneskjuna hvílir ekki á því hversu merkileg manneskjan er – hvílir ekki á því að karlinn eða konan sé maður eða kona ársins – hvílir ekki á því sem við gerum heldur á því hver við erum. Og hver erum við? Við erum þau sem Guð elskar.

    Tíst um nýársheiti

    Ég las tíst í dag, sem kallaðist á við efni þessarar prédikunar. Nadia Bolz-Weber, lútherskur prestur frá Denver í Bandaríkjunum sem heimsótti Ísland í haust skrifar:

    Það er ekkert áramótaheit sem ég get heitið og haldið sem gerir mig verðugri að vera elskuð.

    Ég er sammála.

    Þetta má líka orða svona:

    Við þurfum ekki að vera fólk ársins til að vera þess verðug að vera elskuð af Guði eða öðru fólki.

    Við þurfum ekki að vera með stinnustu húðina eða lægstu fituprósentuna til að vera elsku verð.

    Við þurfum bara að vera eins og við erum.
    Taka á móti ást.
    Og elska sjálf.

    Áramótin eru því kannski fyrst og fremst ástar- og elskuhátíð og áskorun þeirra er þar með að við stuðlum að því – í dag og alla dagana sem eru framundan að gera samfélagið okkar náðarríkara þannig að allir finni sig velkomna og elskaða.

    Flutt í Brautarholtskirkju á gamlársdegi, 31. desember 2015.

  • Forgangsraðað af ástúð

    Dagar

    Við höldum upp á marga daga á hverju ári og höfum gert um aldir: afmælisdagana okkar og hátíðir af ýmsum toga. Fram að tíma siðbótarinnar á 16. öld voru dýrlingadagar líka mikilvægir hér á landi. Dýrlingarnir viku með siðbótinni og kirkjuárið varð minna áberandi þegar tuttugasta öldin hafði gengið í garð.

    Þjóðin átti samt sína daga og hélt í hátíðir. Við sjáum merki um þetta þegar Almanaki Háskóla Íslands er flett. Þar er hægt að fletta upp dagsetningum á næstum árum – fjögur ár fram í tímann og nokkrir dagar eru alltaf tilgreindir:

    • Bóndadagur
    • Páskadagur
    • Sumardagurinn fyrsti
    • Uppstigningardagur
    • Hvítasunnudagur
    • Fyrsti vetrardagur

    Þrír af þessum dögum eru kirkjulegir: Páskadagur, uppstigningardagur, hvítasunnudagur. Hér höfum við meira að segja tvær af stóru hátíðunum þremur. Sú þriðja er ekki talin upp af því að hún er alltaf á sama tíma. Annars væri hún á þessum lista. Þarna vantar líka svo þjóðardaga: þjóðhátíðardaginn 17. júní og fullveldisdaginn 1. desember.

    Það eru reyndar fleiri dagar sem haldið er á lofti í samtímanum. Ekki í Almanaki Háskóla Íslands en í öðrum almanökum. Þeir eru heimsdagar – dagar sem Sameinuðu þjóðirnar eða aðrar stofnanir sem starfa á heimsvísu hafa útnefnt til að setja ákveðin mál á dagskrá. Þessir dagar eru eiginlega veraldlegar útgáfur af dýrlingadögum kaþólsku kirkjunnar.

    Hvers vegna? Vegna þess að hver dýrlingur átti sitt verksvið. Og á degi dýrlingsins var hægt að minnast þess sem dýrlingurinn stóð fyrir og leggja áherslu á það sem hann gerði.

    Hverjir eru þá þessir heimsdagar?

    • 4. febrúar er Alþjóða krabbameinsdagurinn
    • 8. mars er Kvennadagurinn
    • 20. mars er Hamingjudagurinn
    • 2. apríl er Einhverfudagurinn
    • 22. apríl er umhverfisdagur, helgaður Móður jörð
    • 1. júní er dagur Foreldra
    • 20. júní er dagur flóttafólks
    • 12. ágúst er Dagur ungmenna
    • 8. september er Dagur læsis
    • 5. október – á morgun – er dagur kennara
    • 1. desember er AIDS dagurinn

    Dagarnir eru miklu fleiri en þessir – það er að minnsta kosti einn einn svona dagur á viku.

    Heimsmarkmiðin

    Vikan sem leið var líka helguð ákveðnu efni. Sameinuðu þjóðirnar buðu skólakrökkum um allan heim upp á fræðslu um sjálfbæra þróun. World’s largest lesson var yfirskriftin. Stærsta kennslustund í heimi. Og kannski var fjallað um mikilvægasta efnið líka!

    Tilefnið eru nýsamþykkt Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í þeim felst áætlun um sjálfbæra þróun sem miðar að því að útrýma fátækt í heiminum, stuðla að efnahagslegri velmegun, félagslegri þróun og vernd umhverfisins um allan heim. Alls eru heimsmarkmiðin sautján markmið í fimm meginflokkum og þau fjallað um fólkið fólk, plánetuna, velmegun, réttlæti og félagsskap ríkjanna á jörðinni.

    Hvers konar markmið eru þetta?

    • Útrýma fátækt
    • Vinna gegn loftslagsbreytingum
    • Draga úr ójöfnuði
    • Stuðla að friði
    • Sinna um hvert annað með þróunaraðstoð

    Þetta má orða með öðrum hætti: Við þurfum að minnka mengun, auka jafnræðið í heiminum og ekki bara fækka þeim sem búa við skort og hungur heldur útrýma slíku.

    Jesús horfði með ástúð

    Jesús sagði við unga manninn sem kom spyrjandi til hans:

    „Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“

    Já, já, ég kann þetta og passa upp á það eins og mér var kennt hefur ungi maðurinn kannski sagt. Og hvað þýðir það? Ætli það þýði ekki að gæta þess að koma ekki illa fram við aðra, níðast ekki á þeim.

    En það er bara ekki nóg segir Jesús sem horfir fallega á unga manninn – „með ástúð“ segir í guðspjallinu og bætir svo við:

    „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“

    Hvað á hann eiginlega við?
    Mig langar að segja tvennt um það.

    • Það fyrra er þetta: Jesús segir að við vinnum okkur ekki inn fyrir himnaríkisvistinni með því að gera góðverk. Markmiðið er semsagt ekki að verða besta manneskja í heiminum svo Guði líki betur við þig og segi af þeim sökum: Þú ert minn því þú ert svo góður.
    • Hið síðara er: Jesús gefur boðorðunum ákveðna fyllingu þegar hann segir að það sé nauðsynlegt að ganga lengra þegar honum er fylgt. Marteinn Lúther lagði þetta svona út í Fræðunum minni: Þú átt ekki aðeins að halda þig frá því að stela frá náunganum, þú átt að hjálpa honum að gæta eigna sinna. Og svo framvegis. Boðorðið snýst ekki aðeins um að hafa taumhald á sér heldur að gera gott fyrir náungann.

    Markmiðið er semsagt að verða besta útgáfan af þér af því að Guði líkar vel við þig og segir: Þú ert minn, þú ert mín, gerðu því gott.

    Þetta má orða með öðrum hætti: Treystu Guði, elskaðu náungann.

    Það er kjarninn.

    Okkar markmið

    Ég held að Heimsmarkmiðin snúist líka um þessa umhyggju fyrir öðrum – um náungakærleikann. Hvert land sem á aðild að Sameinuðu þjóðunum á að skuldbinda sig til að vinna að þessum markmiðum. Gera áætlun og bretta upp ermar og hefst handa. Hvort árangur næst kemur svo í ljós – eftir fimmtán ár.

    En kannski getum við líka tekið þetta til okkar. Skoðað hvað við getum gert í eigin ranni. Sett okkur heimamarkmið hér á okkar svæði – á Kjalarnesinu og í Kjósinni. Því þetta er ekki bara málefni ráðherranna og Alþingis. Þetta er málefnið okkar. Þetta snýst um lífið okkar og samfélagið okkar.

    Eitt sem við gætum til dæmis gert væri að taka upp umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar og fylgja Ljósaskrefinu sem er handbók handa söfnuðum eins og okkur sem vilja skilja eftir sig falleg spor og sýna umhverfinu virðingu.

    Dagur forgangsröðunarinnar

    Kæri söfnuður.
    Ég hóf þessa prédikun á að ræða um dagatal og heimsdaga. Dagurinn í dag heitir í kirkjunni Átjándi sunnudagur eftir Þrenningarhátíð – en það segir okkur lítið um inntak hans. Ef við vildum draga það saman þá mætti kalla hann Dag forgangsröðunarinnar því um það fjalla lestrarnir og einkum guðspjallið: Hvað á ég að gera spurði ungi maðurinn? Sinntu fólki og ekki bara sjálfum þér svaraði Jesú. Og þannig svarar hann okkur líka þegar við spyrjum hvað við eigum að gera.

    Um hvað snýst það?

    Forgangsröðun.
    Fyrir náungann – sem eru þau öll sem þurfa á okkur að halda.
    Fyrir samfélagið okkar.
    Það er að vera kristin manneskja.
    Því Guð vill trúna þína og náunginn þarf hendurnar þínar og hjartað.

  • Bara eins og þú ert

    Ég ætla að tala um þrennt við ykkur í dag: Jesús, frík og okkur.

    Frík

    Við byrjum á fríkinu.

    Þessa dagana er ég að lesa bók sem heitir „Hugsaðu eins og frík“. Hún er eftir hagfræðing og blaðamann sem hafa skrifað saman um það sem þeir kalla Freakonomics – Fríkuð hagfræði. Höfundarnir  hafa vakið athygli fyrir frumlega nálgun við ýmis verkefni og vandamál samfélagsins. Þetta er þriðja bókin sem þeir skrifa saman og hún fjallar um frík-aðferðina sem þeir hafa beitt í hinum bókunum tveimur. Markmiðið er að kenna lesandanum að hugsa á fríkaðan hátt.

    Þeir leggja línurnar fyrir þetta í öðrum kaflanum sem hefur yfirskriftina: „Orðin sem erfiðast er að segja á ensku.“

    Hver skyldu þau vera?

    Kannski eitthvað um ástina:

    • Ég elska þig.
    • Ég sakna þín.
    • Þú skiptir mig máli.

    Nei, það er ekki svo. Ástarjátningar flækjast ekki fyrir fólki. Erfiðu orðin – eða eiginlega erfiða setningin – er:

    „Ég veit það ekki.“

    Meginboðskapur kaflans er þessi: Þorðu að hafa rangt fyrir þér. Þorðu að viðurkenna það þegar þú veist eitthvað ekki.

    Mér finnst þetta áhugavert bæði fyrir samfélagið og kirkjuna.

    1. Þetta kallast á við þá hugsun í kristinni trú að við getum vaxið og þroskast en séum ekki fullkomin. Og að við höfum þörf fyrir annað fólk.
    2. Þetta kallast á við það hvernig við getum með samfélagið okkar. Við höfum ekki öll svörin á reiðum höndum sjálf. En við höfum góðan vilja, viljum gera vel, getum unnið saman og nýtt visku fjöldans.

    Skírnin

    Ég skírði barn í gær, fallega stúlku sem á framtíðina fyrir sér. Þegar börn eru borin til skírnar – eins og við vorum flest á unga aldri – er óhjákvæmilegt að hugsa um hvað kristið uppeldi felur í sér. Skírnin er jú eins konar yfirlýsing um það að við ætlum að ala barnið þannig upp.

    Og út á hvað gengur það? Ein leið til að nálgast það er sú að tala um mikilvægi þess að kenna börnunum bænir og lesa Biblíusögur og fara í kirkju. Og það er góðra gjalda vert. En kannski má líka horfa á þetta með öðrum hætti og segja að kristið uppeldi felist í því að foreldrar skírnarbarnsins komi tvennu til skila: annars vegar að barnið sé elskað, hins vegar að það eigi von.

    Ef okkur tekst að koma þessu áleiðis á þeim átján árum sem við höfum þannig að börnin okkar finni það á skinninu og í huganum og í hjartanu að þau eru elskuð og viti það alltaf að þau geta ekki lokast inni í erfiðum aðstæðum þá eiga þau bæði ást og von þá hefur uppeldið tekist vel.

    Svo þurfum við sem fullorðin erum líka að læra af börnunum. Á það minnti Jesús okkur þegar hann sagði að við þyrftum sjálf að verða eins og börn til að nálgast guðsríkið. Og hvað eiga börnin sem við fullorðna fólkið höfum stundum misst?

    Þau eiga til dæmis þetta traust sem Jesús kallar eftir hjá systrunum um við Mörtu og Maríu: trúir þú mér? Treystir þú mér? Og þau eiga líka traustið sem við lesum um í sálminum úr Gamla testamentinu þegar skáldið ákallar Guð í angistinni miðri.

    Stefnuyfirlýsing

    Gott og vel – rifjum upp:

    • Það er mikilvægt að geta sagt: Ég veit það ekki.
    • Kirkja og samfélag eru staðir þar sem við þroskumst saman.
    • Kristið uppeldi gengur meðal annars út á að miðla ást og von.

    Þetta má orða með öðrum hætti – á formi eins konar stefnuyfirlýsingar handa kirkju, til dæmis kirkjunnar okkar:

    Kirkjan er staður fyrir manneskjur.
    Þar sem þær koma eins og þær eru.
    Þurfa ekki að setja upp andlit eða setja sig í stellingar.
    Fá að vera eins og þær eru.
    Og eru metnar þannig.
    Skilaboðin sem hver og einn fær eru:

    Þú
    ert
    í lagi.

    Þú ert flott  – flottur – eins og þú ert – svo ég noti orðalag dótturinnar á fermingaraldri.

    Það þýðir ekki að þú sért fullkomin eða að ég sé fullkominn. Það þýðir að þú og ég – við – erum elskuð eins og við erum og svo hvött til að gera vel og kölluð til að vera hendur, hjörtu og hugar Guðs til góðra verka í heiminum. Það er boðskapur Jesú.

    Þetta er svosem ekkert flóknara.

    Það sem einkennir samfélag sem lifir eftir þessu er að við kunnum að meta fólk. Viljum þroskast saman. Viljum hafa góð áhrif á umhverfið okkar. Viljum svara köllun Jesú um að vera salt jarðar og ljós heimsins.

    Á máli bókarinnar sem ég nefndi áðan kallast þetta kannski fríkað. Á okkar máli heitir það að vera kirkja.

    Virkjunarstarfið

    Ég held að þessi aðferð virki bæði þegar við hugsum um það hvernig við lifum saman sem kirkja og samfélag. Til dæmis hér á Kjalarnesinu.

    Við viljum byggja samfélagið upp. Til að það takist þurfum við að virkja marga, vinna saman, hlusta. Prófa okkur áfram. Þegar eitthvað virkar þá gerum við það áfram en þegar eitthvað virkar ekki þá reynum við eitthvað annað. Markmiðið er skýrt: Gott samfélag þar sem fólk er metið og fær að þroskast með öðrum.

    Ég held að það sé ágætis nálgun.

    Ég hlakka til að iðka hana í kirkjunni okkar og samfélaginu öllu.

    Með ykkur.