Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblíublogg 19: Teiknimyndin

    Það er hægt að miðla Biblíusögunum með margvíslegum hætti. Til dæmis í teiknaðri skýringarmynd eins og þessari sem fjallar um 12. kafla fyrra bréfs Páls til Korintumanna. Þar segir meðal annars:

    Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum við öll skírð til að vera einn líkami, hvort sem við erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og öll fengum við einn anda að drekka.

    Vísun frá Mary Hess.

  • Biblíublogg 18: Margþætt merking öskunnar

    Í dag er öskudagur, sem markar upphaf föstunnar, sem í kristinni hefð er tími samlíðunar og iðrunar. Askan hefur verið notuð af kristnu fólki frá upphafi, til að tjá hluti sem er erfitt að koma í orð og kerfi en móta samt alla tilveru okkar. Í fyrsta lagi táknar hún forgengileikann. Askan minnir á eitthvað sem var, en er ekki lengur. Í annan stað er hún tákn um hreinsun, þar sem hún var notuð sem hreinsiefni í stað sápu. Í þriðja lagi er hún tákn um ákveðna hringrás sem kristin trú boðar, að við erum fædd af jörðu, við verðum að jörðu og við rísum upp af jörðu.

    Myndmál öskunnar á sér rætur í orðum ritningarversins í 1. Mósebók, 3. kafla, 19. versi sem er svona í íslenskri þýðingu:

    Því að mold ert þú
    og til moldar skaltu aftur hverfa.

    Í greftrunarhelgihaldi ensku kirkjunnar, í The Book of Common Prayer árið 1662 taka þessi orð á sig þessa mynd:

    earth to earth, ashes to ashes, dust to dust.

    Tilvistarlega tengingin er að þegar við förum í kirkju á öskudaginn og fáum öskukross á ennið, göngumst við þessum veruleika. Askan á enninu ber hlutum vitni sem við eigum kannski erfitt með að orða eða sætta okkur við, en trúum að við erum ekki ein um að bera.

    Öskukrossinn á enninu segir sögu manneskjunnar í heiminum, sem elskar, missir, saknar og deyr. Öskukrossinn tjáir líka trúna um í gegnum þjáningu og dauða Jesú, sem við íhugum á föstunni, tengjumst við hinum endanlega veruleika á sérstakan hátt.

    Askan á enninu nær utan um sársaukann sem við berum innra með okkur, sorgina yfir því sem við höfum misst og angistina yfir því að lífið sem við elskum verður fyrr en seinna tekið frá okkur.

    Askan á enninu er hjálp til að fá þetta til að ganga upp og feta sig eftir lífsveginum í trú á tilgang og merkingu í því sem við erum hér og nú.

    Mannleg tilvist er vist-leg því við erum hluti af hringrás vistkerfisins. Kannski er það eftir allt saman frekar heavy að horfast í augu við að alveg eins og við erum komin af jörðu, verðum við aftur að jörðu. En það er eins gott að hafa það í huga, það minnir öskudagurinn okkur á.

  • Biblíublogg 16: Lúther og Biblían

    Biblían var í brennidepli í lífi Lúthers og siðbótarinnar allrar. Sem prófessor í Wittenberg kenndi Marteinn Lúther ritskýringu Biblíunnar, hann ritaði fjölda skýringarrita við rit Biblíunnar, hann þýddi Biblíuna á þýsku og sem prestur prédikaði hann úr Biblíunni allt sitt líf.

    Í augum Marteins Lúthers var mikilvægast af öllu að fólk gæti lesið og skilið Biblíuna. Aðeins þannig gæti orð Guðs verið kjölfestan í lífi þess. Fyrirheit Guðs um líf var lykill Lúthers að frelsi manneskjunnar. Á grundvelli trúarinnar á þetta fyrirheit Guðs erum við kölluð til ábyrgðar í heiminum. Þannig er Biblían, trúin, náðin og Kristur sjálfur grundvöllurinn fyrir líf hinnar kristnu manneskju í heiminum.

    Biblíuþýðing Lúthers kom út á árunum 1522-1534, en Lúther hófst handa við hana árið 1521 þegar hann dvaldist í útlegð í kastalanum í Wartburg. Á meðan á dvöl hans stóð þar þýddi hann allt Nýja testamentið úr grísku. Hann sneri aftur til Wittenberg í mars 1522 og þá var sú þýðing endurskoðuð af honum og félögum hans, einkum Filippusi Melanchthon og Georgi Spalatín. Nýja testamentið kom svo út í september 1522.

    Þýðing á ritum Gamla testamentisins fylgdi í kjölfarið og kom út í nokkrum hlutum. Biblían öll kom út árið 1534. Þýðingarstarfinu var þó ekki lokið því Lúther og samstarfsmenn héldu áfram að endurskoða og endurbæta þýðinguna. Þýðingin var gerð úr frummálunum hebresku og grísku og hún var á góðu og skiljanlegu máli. Hið síðarnefnda átti eftir að tryggja áhrif hennar um langa tíð.

    Biblía Lúthers fékk mikla útbreiðslu. Prentaðar voru tíu útgáfur af allri Biblíunni og 80 útgáfur af hlutum hennar í Wittenberg á meðal Lúther lifði. Í ljósi þessa má segja að Biblíuþýðingin sé mikilvægasta verkið sem Lúther vann og sendi frá sér á sínum annars viðburðaríka ferli.

    Meira efni um Lúther og Biblíuna.

  • Biblíublogg 14: Guð í rauðri skikkju

    Eitt af því sem siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther lagði áherslu á var að Biblían væri þýdd á móðurmálið. Hann sinnti þessu þýðingarstarfi sjálfur, þýddi Nýja testamentið á meðan hann var í útlegð í kastalanum í Wartburg. Það kom út árið 1522. Svo hélt hann áfram þýðingarstarfinu í samvinnu við aðra eftir að hann sneri aftur til Wittenberg. Biblían öll kom svo út árið 1534.

    Myndin hér að ofan sýnir eina síðu úr Biblíu Lúthers, þetta er upphaf fyrsta kafla fyrstu Mósebókar þar sem við lesum fyrri sköpunarsöguna. Hér má sjá fallegar litmyndir sem eru bæði til prýði og skýringar. Heilsíðan til vinstri sýnir Guð í rauðri skikkju sem er að móta heiminn. Myndin kallast á við sjö daga skemað sem er lýst í sögunni. Hún auðveldar skilning og lestur og vitnar líka um heimsmynd 16. aldarinnar.

  • Biblíublogg 9: Kvenmyndir af Guði

    Í Biblíunni eru notaðar margar líkingar til að lýsa Guði. Sumar líkingarnar tengjast konum, til dæmis þessar:

    Guð er eins og ljón, pardus og birna:

    Ég mun reynast þeim sem ljón,
    ligg í leyni við veginn eins og pardus,
    ræðst á þá eins og birna
    svipt húnum sínum (Hós 13.7-8)

    Guð er eins og móðir sem elur barn við brjóst sitt:

    Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
    að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
    Og þó að þær gætu gleymt
    þá gleymi ég þér samt ekki. (Jes 49.15)

    Guð er eins og móðir sem huggar:

    Eins og móðir huggar barn sitt,
    eins mun ég hugga yður,
    í Jerúsalem verðið þér huggaðir. (Jes 66.13)

    Svo líkir Jesús sér við hænu:

    Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi? (Matt 23.37)

    Það er misjafnt eftir því hvar við erum stödd í lífinu hvaða líking talar til okkar.

    Hvaða líking talar til þín núna?

  • Biblíublogg 6: Konur eiga 1,1% orðanna í Biblíunni

    Á síðasta ári kom út bók eftir Lindsay H. Freeman um konur í Biblíunni og orðin sem eru höfð eftir þeim. Þar kemur fram 93 konur tala í Biblíunni. Af þeim eru 49 nefndar með nafni. Alls eiga þessar konur 14.056 orð (út frá enskri þýðingu) sem gerir u.þ.b. 1.1 % af orðum í Biblíunni.

    Þekktar og lítt þekktar konur

    Sumar konurnar eru vel þekktar eins og María móðir Jesú. Í bók Freeman kemur fram að hún eigi alls 191 orð í ritningunni. María Magdalena á 61 orð, en Sara, kona Abrahams segir 141 orð.

    Höfundurinn bendir á að margar af þeim konum sem koma fyrir í Biblíunni hafa gengið í gegnum áföll og ofbeldi. Hún spyr sig hvort þöggunin sem beið þeirra bætist ekki ofan á það.

    „Af einhverjum ástæðum hefur vitnisburður og reynsla kvenna verið sett skörinn lægra þegar kemur að trú, en það sem karlar hafa fram að færa“ segir Freeman. „Við erum loksins farin að leggja við hlustir þegar konur eru annars vegar.“

    Biblían skrifuð af körlum, fyrir karla?

    Biblíufræðingar taka undir þetta sjónarmið, því staðreyndirnar tala sínu máli. Miðað við þessar tölur er Biblían skrifuð af körlum og fyrir karla, þar sem rýmið er ekki mikið fyrir konur og reynslu þeirra. Lítil skref, eins og að lyfta upp þeim konum sem fá að tala í Biblíunni getur skipt sköpum í að gera trúarvitnisburðinn lifandi í lífi bæði karla og kvenna í dag.

    Gamla vs. Nýja….fleiri konur í Gamla?

    Eitt af því áhugaverða sem bók Freemans leiðir í ljós er að Gamla testamentið, sem er sannarlega grjótharður vitnisburður um rótgróið feðraveldi, inniheldur fleiri orð kvenna en Nýja testamentið. Auðvitað er fleiri blaðsíðum til að dreifa, en það er líka umhugsunarvert að í 1. Mósebók er hlutfallið 11 konur á móti 50 körlum. Það er mun hagstæðara en heildarhlutfallið.

  • Biblíublogg 4: Lifandi og túlkað trúarrit

    Í öðru Biblíublogginu skrifuðum við að aðferðarfræði kristins fólk við að lesa Biblíuna fælist í að nota hana sjálfa sem gleraugu eða linsu.

    Þetta er gert í hverri einustu guðsþjónustu. Þar eru lesnir þrír textar úr Biblíunni, einn úr Gamla testamentinu og tveir úr Nýja testamentinu. Að auki eru ótal vísanir í texta Biblíunnar í bænum safnaðarins og öðrum liðum messunnar.

    Annar textinn úr Nýja testamentinu er sóttur í guðspjöllin. Hann hefur sérstöðu því þar segir frá lífi og starfi Jesú. Iðulega geymir hann einnig einhver af orðum Jesú. Hinir lestrarnir tveir voru valdir með hliðsjón af guðspjallinu og efni þess.

    Hver einasti helgur dagur ársins á sitt sett af lestrum. Reyndar eru til fleiri en eitt sett. Núna notar þjóðkirkjan til dæmis tvær textaraðir.

    Aðferðarfræði guðsþjónustunnar felst í því að hlusta og meðtaka orð Biblíunnar úr fleiri en einni átt. Það er hlutverk prédikarans að túlka merkingu lestranna þriggja og tengja þá við líf og aðstæður þeirra sem hlusta.

  • Biblíublogg í febrúar

    Drottinn sé með yður
    Biblían er víða. Á kaffihúsi í Berlín standa orðin „Drottinn sé með yður“ ásamt vísun til Sálms 6.2
    þar sem segir: „Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni, tyfta mig ekki í heift þinni.“

    Í ár á Hið íslenska Biblíufélag 200 ára afmæli og er því með eldri félögum á landinu. Í tilefni þess langar okkur að setja Biblíuna á dagskrá í bloggheimum.

    Við ætlum að nota allan næsta mánuð til þess. Ástæðan er sú að í febrúar er Biblíudagurinn og þá setja kirkjur og söfnuðir fókus á Biblíuna og Orðið og fagna því með ýmsum hætti. Næstu tuttugu og átta daga bloggum við því daglega um Biblíuna frá ýmsum sjónarhornum. Öll tengjast þau nálgun og notkun Biblíunnar í lífi hinna kristnu og samfélagi þeirra.

    Við lofum vísunum í klassíska guðfræði, dægurmenningu, íslenska kirkjusögu og þýðingarspurningar, svo eitthvað sé nefnt.

    Fylgstu með biblíublogginu sem verður vonandi til skemmtunar og fróðleiks.

    #biblíublogg

  • Bókstafstrúmælingar

    Ég átti stutt spjall við blaðamann á mbl.is í dag:

    Þjóðkirkj­an túlk­ar Bibl­í­una og játn­ing­arn­ar ekki bók­staf­lega held­ur skoðar þessa texta alltaf í sögu­legu sam­hengi. Ein­hvers kon­ar próf sem bygg­ist á bók­stafstrú á Bibl­í­una eða játn­ing­ar kirkj­unn­ar get­ur þannig aldrei end­ur­speglað þjóðkirkj­una. Það seg­ir hins veg­ar heil­mikið um hvernig Van­trú­ar­menn lesa Bibl­í­una og sjá þjóðkirkj­una. Ég held þess vegna að þetta sé fyrst og fremst próf í Van­trú­ar­kristni en ekki þjóðkirkjukristni.“

  • Lestur á 33 snúningum

    Sigurður Pálsson:

    Eitt lærði ég tiltölulega fljótt: að lesa ljóðtexta hægt. Það er ekki einhvers konar vingjarnleg ráðlegging sem engu máli skiptir, það skiptir öllu máli.

    Gömlu plötuspilararnir voru með mismunandi stillingar, ein fyrir 33-snúninga plötur, önnur fyrir 45-snúninga (og ein fyrir gömlu 78-snúninga plöturnar).

    Prófið að setja 33-snúninga plötu á hraðann 45. Það heyrist vissulega eitthvað en það er ekki tónlist. Sama gerist ef þið lesið ljóðtexta á 45. Þið sjáið einhver orð á stangli en ekki merkingu, tilfinningu.

    Einfaldur prósi, venjulegar glæpasögur, framvindudrifnar línusögur skulu lesnar á 45, það hefur ekkert upp á sig að lesa þær á 33.

    Ég hygg að mikið af misskilningi fólks gagnvart ljóðtextum sé í raun innstillingaratriði, mótttökutækin eru vitlaust stillt. Leshraðinn er vitlaus. (Táningabók, s. 92-93)

    Ætli þeð megi ekki heimfæra þessa líkingu skáldsins á Biblíuna. Suma texta hennar má lesa á 45-snúningum, aðra þarf að lesa á 33-snúningum. Það mætti kannski líka hugsa þetta í samhengi við internetið þar sem texti er stundum skimaður en ekki lesinn. Mætti jafna slíku við 78-snúninga lestrarhraða?