Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ljósberi í myrkri ofbeldis

    Sankta Lucia

    Í dag, 13. desember, er messudagur heilagrar Lúsíu sem lifði á Sikiley undir lok þriðju aldar og lét að öllum líkindum lífið í ofsóknum Díokletíanusar árið 304. Í okkar heimshluta birtast Lúsíuminnin helst í sænskum þjóðháttum sem hafa að einhverju leyti skolast hingað á land en í kirkjuhefðinni er Lúsía verndardýrlingur blindra, veikra barna, bænda, vændiskvenna sem hafa snúið við blaðinu, glergerðarmanna, bílstjóra, hjúkrunarkvenna, klæðskera, vefara, ritara og fleiri.

    Eins og aðrir dýrlingar er Lúsía fyrirmynd trúaðra í lífi sínu og trú, með því að standa gegn ríkjandi viðmiðum umhverfisins og veraldlegum kröfum. Lúsía er í myndlistinni gjarnan táknuð með augun sín á diski sem hún heldur á, því helgisagnir greina frá því þegar hún svipti sig sjóninni og fegurð augna sinna með því að rífa þau úr sér, til að sýna einhverjum vonbiðlinum að henni væri full alvara með því að varðveita trúarlega innblásinn meydóm sinn.

    Samkvæmt gregóríönsku tímatali var 13. desember stysti dagur ársins og minni Lúsíu því samofið því magnaða náttúrulega mómenti þegar nóttin ríkir á norðurhveli jarðarinnar. Tenging hennar við ljósið er sterk og hefur talað til ljósþyrstra norðurlandabúa því annað tákn Lúsíu er olíulampinn sem hún heldur á, eins og hinar klóku meyjar sem biðu brúðgumans í dæmisögunni. Enda getum við litið á Lúsíu sem táknmynd sálarinnar – eða kirkjunnar – sem á aðventunni bíður komu Krists.

    Lúsía er líka táknmynd fyrir örlög margra kvenna sem eru undir ákvarðanir og vald annarra settar. Hún er þolandi heimilisofbeldis og mansals eins og kynsystur hennar um allan heim enn þann dag í dag. Ofbeldi gegn konum er stór og svartur blettur á menningu okkar og því er við hæfi að staldra við einmitt á svartasta tíma ársins og horfast í augu við þær konur sem hafa lifað og dáið við kerfisbundna beitingu ofbeldis í skjóli fjölskyldutengsla eða hefða.

    Koma ljóssins í heiminn sem aðventan vísar til hefur þeim mun meiri áhrif eftir því sem myrkrið er meira. Hjúpuð myrkri blindu og valdbeitingar heldur Lúsía uppi ljósi vonarinnar sem nær til hinna kúguðu og gleymdu – einnig þessa jólaföstu.

    Pistillinn birtist fyrst á Trú.is. Myndina með pistlinum tók Bengt Nyman í Vaxholms Kyrka í desember á síðasta ári.

  • 101Jólaskraut

    101 Christmas

    Það þarf ekki að fara á glamúrjólatónleika til að upplifa jólastemningu. Það er til dæmis hægt að rölta niður Laugaveginn og upp Skólavörðustíginn og dást að útsjónarsömum jólaskreytingum í gluggum.

    Það er svo margt fallegt, ef að er gáð, þegar rölt er um miðbæinn þessa dagana.

  • Búsáhaldaaðventan er hér

    Aðventan er elskulegur og dýrmætur tími. Hún er í eðli sínu undirbúningur og bið eftir jólahátíðinni þegar við fögnum fæðingu Jesúbarnsins blíða.

    A curious place for cutlery IIVið höfum öll upplifað þennan undirbúning fara úr böndunum og eigum það stundum til að yfirkeyra okkur á hlutum eins og verslun, neyslu á mat og drykk, framkvæmdum og skemmtanahaldi. Reikningurinn sem kemur á eftir getur gengið nærri efnahag og tilfinningum. Aðallega rænir asinn og erillinn því fegurðinni í því smáa og hljóða sem aðventan gefur fyrirheit um.

    Þess vegna viljum við enduruppgötva aðventuna og boðskap hennar með því að einfalda og hægja á. Við köllum það búsáhaldaaðventu. Við tengjum forskeytið búsáhalda- við friðsamleg mótmæli – krúttpönk – sem leiða til breytinga.

    Búsáhaldaaðventan beinir sjónum okkar inn á við, til barnanna í kringum okkur, inn á heimilið, inn í eldhús, til þess sem vex og dafnar í nærumhverfinu okkar, til hins veika og smáa sem verður undir í kapphlaupinu um það sem er nýjast, dýrast, stærst og best.

    Búsáhaldaaðventan er alsgáð og heldur vöku sinni gagnvart þeim sem standa höllum fæti en hún gleðst líka yfir góðra vina fundi og samveru sem skapar og byggir upp.

    Þetta blogg verður vettvangur Búsáhaldaaðventunnar og miðlar áherslum hennar og hugðarefnum fram að jólum. Við ætlum líka að skrifa í búsáhaldatístið á hverjum degi.

    Lumar þú kannski á einhverju sem á erindi á Búsáhaldaaðventu? Sendu okkur línu.

  • Aðventukrans minninganna

    Ljósin á aðventukransinum lýsa okkur í biðinni eftir jólunum og minna á tímann sem líður og reynsluna sem mótar okkur. Stundum tökum við á móti jólunum í gleði og eftirvæntingu. Stundum væntum við þeirra í sorg og sársauka. Hvert kerti á kransinum getur skírskotað til minninganna sem við berum með okkur en vísar um leið til vonarinnar sem jólin eru fyrirheit um.

    Fyrsta kerti

    Fyrsta aðventukertið minnir á ástvinina sem eru ekki lengur með okkur. Við nemum staðar, nefnum nafnið þeirra, rifjum upp röddina þeirra, andlitið þeirra og allar minningarnar sem tengjast þeim og jólatímanum. Við tendrum ljós, felum þau Guði og þökkum fyrir það sem lífið þeirra gaf okkur.

    Annað kerti

    Annað aðventukertið lýsir upp sársaukann yfir erfiðum breytingum sem hafa orðið í lífinu okkar. Það geta verið sambandsslit, atvinnumissir, fjárhagslegt áfall, heilsubrestur, frelsissvipting vegna streitu og álags, og hvers kyns breytingar sem skilja okkur eftir í einsemd. Við nefnum það sem veldur sársaukanum, leggjum okkur í Guðs hendur og biðjum um frið í hjartað.

    Þriðja kerti

    Þriðja aðventukertið er tendrað fyrir þau sem hafa misst áttir í lífinu og finnst þau vera týnd. Við þurfum öll að hafa stefnu í lífinu, að vita hver við erum og á hvaða leið við erum. Þess vegna er gott að þiggja leiðsögn ljóssins sem kemur í heiminn og vill upplýsa hvert og eitt okkar. Við tendrum ljós og biðjum fyrir þeim sem hafa misst sjónar á ljósinu og biðjum Guð að leiða þau í öruggt skjól.

    Fjórða kerti

    Fjórða aðventukertinu fylgir vonin um allt það sem jólin færa okkur. Barnið í jötunni er fyrirheit um frið og gleði handa öllum Guðs börnum. Við biðjum að ljós jólanna upplýsi huga og hjarta og að ljós okkar fái lýst bræðrum okkar og systrum.

  • Tvenn jólin

    Við skrifuðum jólahugleiðingu í Valsblaðið í ár. Þar fjöllum við um jólin sem tíma ljóssins og um jólin eins og þau birtast í menningunni.

    Tími ljóss og skugga

    Jólin snúast um ljósið sem færir heiminum birtu og yl í svartasta skammdeginu. Við sjáum í guðspjöllunum hvernig Betlehemsstjarnan lýsti upp nóttina og vísaði vitringunum veginn til Jesúbarnsins í jötunni.

    Í sænsku verðlaunakvikmyndinni Verkamannabústaðirnir – Svinalängorna, eftir Pernillu August, erum við minnt á hvernig ljósið og skuggarnir geta fylgst að.

    Myndin hefst á aðventu, á Lúsíudeginum, þegar dæturnar tvær koma ljósum prýddar í svefnherbergi foreldranna sem þykjast vera sofandi. Lúsíuhátíðin minnir á að aðventan og jólin eru tími ljóssins.

    Ljósið skín líka á það ljóta í heiminum ogg varpar skugga. Við erum minnt á það í Svinalängorna. Aðalsöguhetjan Leena rifjar upp bernskujólin sín. Það er ekki falleg mynd. Ekkert jólabað og engir jólapakkar því pabbi eyddi öllum peningunum í vín.

    Jólatréð sem féll hálfskreytt um koll þegar foreldrarnir slógust í stað þess að skreyta það. Villt partý, drykkja og hávaði. Yfirgangur og ofbeldi. Pabbi sem öskrar á mömmu og slær hana svo. Á meðan fela börnin sig. Þannig eru bernskujólin hennar Leenu og þeim vill hún helst gleyma.

    Tími sannleika og nærveru

    Ástin í raun – Love Actually er ein vinsælasta jólamynd síðari ára. Sambönd fólks eru viðfangsefni myndarinnar og bakgrunnur hennar eru jólin.

    Eftir því sem sögunum vindur fram kemur grunnafstaða persónanna til jólanna í ljós – og það er augljóst að jólin sjálf hafa áhrif á gang mála.

    Jólin í Love Actually snúast um tvennt: að segja það sem manni býr í brjósti – segja sannleikann – og að vera hjá þeim sem maður elskar. Þetta tvennt knýr myndina áfram, vegna þess að það eru jól. Þegar við förum að segja það sem okkur í brjósti býr, horfumst í augu við tilfinningar, brotna erfið og gömul samskiptamynstur upp og nýir hlutir fá rými í lífinu.

    Að viðurkenna hvernig manni líður og segja frá því getur valdið manni sjálfum og öðrum erfiðleikum, eins og sumar persónurnar reyna. En jólin eru tími sannleikans og það er þess virði að mæta hindrunum til að uppfylla köllun jólastundarinnar.

    Tími öryggis og hlýju

    Í jólaguðspjallinu mætum við þrá okkar fyrir öryggi, skjól og hlýju. Í fjárhúsinu sem Jesúbarnið kom í heiminn brýst ljósið fram úr myrkviðum næturinnar.Jatan er tákn um næringu og umhyggju sem við þurfum til að lifa af og síðast en ekki síst er nýfædda barnið tákn um líf og upphaf, hreinleika og ást.

    Þessar frummyndir af ljósinu og jötunni hitta okkur í hjartastað og taka form í minningum okkar og reynslu. Það hvernig við höldum jólin tjáir þetta að einhverju leyti. Þörfin fyrir öryggi og næringu kemur fram í áherslunni á þægindi og góðgerðir sem einkennir hátíðahaldið. Köllunin til að sýna kærleika og veita umhyggju sýnir sig í því að við viljum gefa gjafir og gera öðrum gott.

    Verum ljósfólk

    Kristin trú er trú lífsins alls, trú heildarinnar. Hún nær bæði til dimmunnar í lífinu og til birtunnar. Áskorunin okkar er að dvelja aldrei í myrkrinu eða við það, heldur stíga þaðan yfir í ljósið. Kveikja ljós þar sem myrkur er. Á þann minna jólin okkur. Þau minna okkur á að horfast í augu við myrkrið og kveikja ljós. Þau minna á ljósþörfina í okkar lífi og annarra. Þau kalla okkur til að vera ljósfólk, sem kveikir ljós í eigin lífi og annarra.

    Guð gefi þér gleðileg jól.

  • Jóna Hrönn er vonarberi

    Næstu 24 daga ætlum við að deila jóladagatalsgluggunum úr Að vænta vonar. Jóna Hrönn Bolladóttir er sóknarprestur í Vídalínskirkju. Hún er vonarberi dagsins.