Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Fyndnasta, skemmtilegasta, besta, fallegasta og ágengasta Jesúmyndin

    Kvikmyndavefurinn Svarthöfði bauð mér að taka saman lista yfir fimm uppáhalds Jesúmyndir í tilefni páskanna. Listinn birtist í dag og þarna er hægt að lesa um fyndnustu, skemmtilegustu, bestu, fallegustu og ágengustu Jesúmyndina.

  • Mörkin hennar Míu

    princess

    Síðustu daga höfum við enn á ný verið áþreifanlega minnt á ömurlegan veruleika barnaníðs og kynferðislegs ofbeldis sem þrífst m.a. fyrir sljóleika og sinnuleysi umhverfisins. Umfjöllun síðustu daga hefur varpað ljósi á hve samfélagið upplifðir sig ráðalaust og vanmáttugt þegar kynferðisofbeldi gegn börnum á sér stað, og bregst því ekki við sem skyldi. Ráðaleysið og skömmin býr til feluhjúp sem illvirkjar athafna sig á bak við.

    Vitneskjan um barnaníð og útbreiðslu þess er orðin almennari og öruggari á ýmsan hátt. Sem betur fer hefur andrúmsloftið orðið þolendum ofbeldis skilningsríkara og allsgáðara, aukinn skilningur og eðlilegar varnir leiða vonandi til þess að hægt sé að fyrirbyggja barnaníð í sem flestum tilfellum.

    Hluti af úrvinnslu samfélagsins og almennri vitundarvakningu um kynferðisbrotamál fer fram í listsköpun, svo sem bókmenntum og kvikmyndum. Óhætt er að segja að norræna senan hefur verið töluvert upptekin af þessum málaflokki síðustu ár. Ófáir skandinavískir krimmahöfundar hafa gert honum skil og margar gæðakvikmyndir, ekki síst frá Danmörku hafa varpað nístandi ljósi á veruleika barna sem níðst er á. Kvikmyndir eins og Veislan, Listin að gráta í kór, og Princess koma í hugann.

    Við horfðum á dönsku kvikmyndinni Princess í gærkvöldi. Hún er frá árinu 2006 og er óvenjuleg að því leyti að hún er að stærstum hluta teiknuð. En þessi teiknimynd er ekki fyrir börn. Hún fjallar um Miu, sem er fimm ára og hefur þurft að þola markaleysi og ofbeldi af hálfu fullorðinna alla sína stuttu ævi. Móðir hennar er klámstjarnan The Princess, sem hefur malað gull fyrir gaurana sem hafa skapað heilan bransa í kringum líkama hennar.

    Í upphafi myndarinnar fylgjumst við með bróður Prinsessunnar, sem er prestur, snúa heim frá framandi löndum, til að taka Míu að sér eftir að móðir hennar deyr. Bróðirinn, sem heitir August, ákveður síðan að hreinsa nafn systur sinnar með því að eyða öllu efni sem framleitt var með The Princess. Það gerist með tilheyrandi átökum og blóðsúthellingum.

    Myndin er ljót og sorgleg. Hún er líka beitt áminning um hvað markaleysi og ofbeldi gerir börnum. Á ýktan hátt lætur myndin okkur íhuga hvað við myndum sjálf gera – eða hvort við myndum yfirleitt gera eitthvað?

    Princess dregur athygli okkar að undirheimalífi klámsins og þeirri staðreynd að á bak við fígúrur eins og the Princess eru manneskjur eins og mamman Christine og dóttirin Mia. Misnotkun og valdbeiting eru ekki aðeins fylgifiskar klámiðnaðarins heldur grundvöllur hans.

    Hvorutveggja ætti að uppræta – þótt við mælum ekki með aðferðum prestsins Augusts.

    Mörkin hennar Míu eru mörk allra barna. Þau ber að virða.

  • Ralf, rústirnar og kirkjan

    Ég messaði í Borgarholtsskóla í morgun. Þar er alltaf þemamessa og í dag var þemað tölvuleikir og bíó. Ég lagði út af kvikmyndinni um rústarann Ralf og talaði um hvort persónur – í tölvuleikjum og í lífinu – geta breyst og um mikilvægi vonarinnar. Þetta er góð mynd sem ég mæli með og hún átti vel við í Borgarholtsskóla þar sem fermingarbörnin eru stærstur hluti safnaðarins á sunnudögum.

  • Simpsons fjölskyldan á hvíta tjaldinu – með umræðuspurningum

    Simpsons fjölskyldan hefur verið tíður gestur á mörgum heimilum frá því þættirnir hófu göngu sína árið 1989. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og það mátti því alveg búast við því að fjölskyldan rataði loksins á hvíta tjaldið. Kvikmyndin um Simpsons fjölskylduna var frumsýnd árið 2007 og hún fékk nokkuð góðar viðtökur. Hér er stutt kynning á myndinni og helstu trúar- og siðferðisstefjunum í henni ásamt þremur spurningum sem má nota til að koma af stað samtali um myndina.

    (more…)

  • Við erum öll Lady Gaga

    Við erum öll Lady Gaga. Stöndum mitt á milli Júdasar og Jesú ef svo má að orði komast. Við skulum velja Jesús og við skulum velja umhyggjuna og þjónustuna. Við skulum líkjast Drottningunni af Montreuil.

    Prédikun um trúarstef og tónlistarmyndbönd og RIFF í Borgarholtsskóla.

  • Ástin blómstrar á Ítalíu

    Loksins tókst mér að gera gamanmynd án þess að dramað tæki yfir, sagði Susanne Bier í gær. Hún kynnti nýjustu kvikmynd sína um Hárlausa hárskerann stuttlega áður en sýningin hófst og nefndi meðal annars að fyrri tilraunir hefðu orðið full dramatískar á köflum. Eða jafnvel al-dramatískar.

    Umfjöllunarefnið í Hárlausa hárskeranum er samt alvarlegt. Ida, sú sem titillinn vísar til, er að ljúka krabbameinsmeðferð. Hún hefur tekist vel. Líklega. Í upphafi situr hún hjá lækninum sínum og hann spyr hvort hún vilji ekki íhuga að endurgera brjóstið sem þurfti að taka. „Nei, nei,“ svarar hún, því eiginmaðurinn Leif styður hana og elskar eins og hún er. Hann er ekkert fyrir útlitið. Svo fer hún heim og kemst þá að því að kauði er búinn að halda við ungpíu af skrifstofunni allan tímann sem hún var í meðferðinni.

    Heimurinn hrynur og ævintýrið getur hafist.

    Hárlausi hárskerinn er mynd um flókin fjölskyldutengsl, um Ítalíu sem er staður ástarinnar að mati danskra leikstjóra, um sorgina sem tekur yfir lífið, um óttann við sjúkdóminn sem hefur einu sinni tekið lífið yfir og gæti gert það aftur. Þetta er líka mynd um vonina sem er sterkasti drifkrafturinn og um mikilvægi þess að setja sér og öðrum mörk því vonarríkt líf og skynsamleg mörk eru lykillinn að hamingjunni, á Ítalíu, í Danmörku og kannski á Íslandi líka.

    Ég mæli með Hárlausa hárskeranum sem er mannbætandi mynd. Hún er sýnd í Háskólabíói að kvöldi 1. október og fer svo vonandi í almennar sýningar.

  • Sorgarsæljón

    Queen of Montreuil var opnunarmynd RIFF í ár. Hún var frumsýnd í Hörpu í gær að viðstöddu fjölmenni. Upphaf kvikmyndahátíðinnar er hátíðarstund og við erum líka full eftirvæntingar eftir þeim góðu myndum sem eru í boði á hátíðinni hverju sinni.

    „Þá verður þú Drottningin af Montreuil“

    Drottningin af Montreuil er látlaus mynd sem fær áhorfandann til að hugsa meðan á sýningu stendur og eftir að henni lýkur. Nafnið er sótt í sögusvið myndarinnar, hverfið Montreuil þar sem aðalpersónan Agata býr. Hún er ekkja og kemur í upphafi myndar með eiginmanninn til Frakklands. Hann er í duftkeri og myndin fjallar öðrum þræði um hina syrgjandi ekkju. Nafnið vísar líka til spakmælis frá Jamíaka: Þegar eiginkona kemst yfir lát eiginmanns síns verður hún drottning. Þegar Agata hefur komist yfir eiginmanninn verður hún semsagt: „Drottningin af Montreuil.“

    Á flugvellinum hittir Agata tvo Íslendinga, Önnu og son hennar Úlf. Þau eru eins konar kreppuflóttamenn, strönduð í Frakklandi af því að efnahagshrun á Íslandi hefur leitt til gjaldþrots flugfélags. Þau bjóða sér heim til Agötu og fá að búa hjá henni um stund. Hún reynist þeim þannig bjargvættur og það endurgjalda þau með því að reynast bjargvættar hinnar syrgjandi ekkju.

    Sorgin, sæljónið og Hrunið

    Myndin er fyndin og á köflum dálítið út úr kú. Inn í söguna fléttast leit Önnu að brúðarkjólnum sínum, löngunin til að ná aftur sambandi við soninn Krumma sem er strandaður á Jamaika og svo sæljónið Fifi sem verður eins konar táknmynd sorgarinnar (eða kannski eiginmannsins látna) í lífi Agötu. Fifi ryðst inn á óþægilegum tíma, tekur heilmikið rými, ógnar, en er um leið blíður. Á lykilstundu hverfur hann úr lífi Agötu og þá eru líka tímamót í sorgarferlinu. Sæljónið Fifi ber burt sorgina og sára reynslu þegar hann syndir út á haf – kannski til Íslands.

    Drottningin af Montreuil er mynd um falleg samskipti sem einkennast af umhyggju fyrir þeim sem er ókunnugur og framandi. Þetta er ein fyrsta íslenska leikna kvikmyndin sem fjallar um Hrunið og hún ber góðan og mikilvægan umhyggjuboðskap inn í samfélagið okkar.

    Queen of Montreuil er sýnd þrisvar á RIFF, 29. september, 1. og 4. október. Ekki missa af henni.

  • Lítil, ljóshærð, saklaus, látin

    Lítil, ljóshærð, saklaus og látin heitir grein sem Maria Tatar skrifaði um Hungurleikana í The New Yorker. Þar fjallar hún um litlu ljóshærðu stúlkuna sem er tengd við sakleysið og hvernig Suzanne Collins útvíkkar þetta minni í Hungurleikunum þannig að það spanni stúlkur af öðrum kynþáttum, nánar tiltekið hina ungu Rue sem Katniss binst sterkum böndum.

  • Hungurleikar á hvíta tjaldinu og í kirkjunni

    Hungurleikarnir hafa verið frumsýndir hér á landi. Þetta er afar áhugaverð saga með mörgum trúarstefjakrækjum. Hún er tilvalin til áhorfs og samtals í kirkjuhóp. Hér eru vísanir á nokkra pistla og eina rafbók sem má hafa gagn af því samhengi:

  • Alison Bechdel og Óskar frændi

    Óskarsverðlaunahátíðin var haldin í gær og nú liggur fyrir hverjir fengu styttuna eftirsóttu. Á Feminist Frequency er Bechdel prófið lagt fyrir myndirnar sem voru tilnefndar sem besta kvikmynd ársins. Af þeim standast aðeins tvær prófið. Útkoman er ekkert sérstaklega góð.