Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Þar sem gleði og depurð búa saman

    Þessa dagana er teiknimyndin Inside Out sýnd í kvikmyndahúsum hér á landi. Hún fjallar um það sem gerist innra með okkur mannfólkinu – tilfinningalífið. Í brennidepli er samspil tveggja tilfinninga: gleði og depurðar.

    Boðskapur myndarinnar er að til að lífið sé í jafnvægi þurfi þessar tvær tilfinningar að vera í jafnvægi. Þar sem gleðin ein ræður verður manneskjan meðvirk, þegar depurðin hefur yfirhöndina verðum hún þunglynd. Þar sem gleði og depurð haldast í hendur verður til jafnvægi sem getur leitt til hamingju.

    Þetta er lexía um lífið og jafnframt góður boðskapur inn í heimilislífið. Heimilið og fjölskyldan sem þar býr eiga nefnilega að vera staðurinn þar sem við getum upplifað allan tilfinningaskalann og verið örugg. Um leið á heimilið að vera staður þar sem við þurfum ekki að bera sársaukann og depurðina í lífinu ein og staður þar sem við getum deilt og upplifað hina dýpstu gleði með öðrum.

  • Rýnt í Hrúta

    Kvikmyndin Hrútar eftir Grím Háskonarson var frumsýnd í Cannes fyrr í mánuðinum og á Íslandi í vikunni. Ég skrifaði stutta umfjöllun um myndina sem birtist á vef Deus ex cinema. Þar eru hliðstæður við Biblíutexta dregnar fram, en þær eru nokkrar í myndinni. Þetta er alveg frábær kvikmynd sem full ástæða er til að sjá í bíó.

  • Örvænting, upprisa og uppvakningar

    Haraldur Hreinsson fjallar um sjónvarpsþættina The Walking Dead í nýrri grein á vef Deus ex cinema:

    Við skynjum að í þessum nýja, ógurlega heimi er enn eitthvað til sem heitir réttlæti og góðvild og við sjáum áhrifamikil dæmi um eitthvað sem við gætum kallað miskunn, fórnfýsi og fyrirgefningu. Þó fólkið sem við fylgjumst með glími við erfiðleika sín á milli þá sjáum við að innan hópsins ríkir kærleikur, vinátta og samstaða.

     

  • Nói vekur spurningar

    Nói er mættur í bíó. Það er verðlaunaleikstjórinn Darren Aronofsky sem færir okkur kvikmyndina Nóa í samstarfi við hasarhetjuna Russel Crowe og fleira gott fólk að ógleymdu ævintýralandinu Íslandi. Nú er sagan sem við höfum heyrt um það bil eittþúsundsinnum í sunnudagaskólanum orðin að stórmynd á hvíta tjaldinu. Þetta er Biblíumynd. Hún er umdeild eins margar slíkar. Við höfum nefnilega skoðanir á biblíusögunum því þær skipta okkur máli.

    (more…)

  • Kubbað á hvíta tjaldinu

    Nema þér verðið eins og börnin sagði Jesús eitt sinn og hvatti til þess að við tækjum börnin okkur til fyrirmyndar. Í hverri skírnarathöfn lesum við svo um afstöðu hans til barnanna: Hann átaldi lærisveina sína fyrir að hleypa börnunum ekki að sér, tók þau sér í faðm og blessaði þau. Jesús vissi nefnilega hvað býr í börnunum: óendanlegir möguleikar, vonin í sinni tærustu mynd.

    *

    Ég fór í bíó með yngstu dótturinni í dag. Við sáum barnamyndina um Legókallana. Þetta er að sumu leyti dæmigerð saga um baráttu góðs og ills. Hópur góðra legókalla þarf að kljást við illan harðstjóra sem gín yfir öllu. Hann vill steypa alla í sama mót – vill að þeir fylgi leiðbeiningum og ber niður allt sjálfstæði og frumkvæði. Hann er kassa-legó-meistarinn. Hið endanlega markmið hans er svo að líma allan heiminn saman – svo enginn skemmi það sem hann hefur skapað. (more…)

  • The Set Menu

    Við sáum þessa stuttmynd á dögunum í Electric Cinema í London. Hún var sýnd á undan aðalmyndinni Elysium sem var alveg mögnuð. Þessi er líka nokkuð glúrin.

  • Hvað er til ráða þegar barnið horfir of mikið á sjónvarp?

    Handritshöfundurinn Mark Valenti bloggaði um sjónvarpsáhorf barna fyrr í þessari viku. Í bloggfærslunni sinni kynnti hann aðferð sem má beita til að draga úr sjónvarpsglápi barna. Útgangspunkturinn er sá að foreldri segir barni sínu að það megi horfa eins mikið á sjónvarp og það vill. Sá böggull fylgir þó skammrifi að fyrir hvern þátt eða bíómynd þarf að leysa nokkur verkefni:

    1. Nefna persónurnar sem komu fyrir í sögunni.
    2. Segja frá því um hvað sagan fjallar.
    3. Nefna eftirminnileg lög sem voru í þætti eða mynd og jafnvel syngja hluta af þeim.
    4. Segja frá því hvernig sagan endaði.
    5. Segja frá því hvort það væri eitthvað sem barnið hefði gert öðruvísi ef það væri ein af aðalpersónunum?

    Þessu má svara skriflega er barnið er nógu gamalt, annars í samtali foreldris og barns. Smátt og smátt venjast börnin á að horfa ekki gagnrýnislaust heldur rýna í það sem þau horfa á og íhuga sjónvarpsefnið. Úr þessu getur líka orðið ágætis samvera foreldris og barns.

    Þegar börnin þurfa að gera þetta eftir hvern einasta þátt fá þau um leið ástæðu til að velja áhugaverða þætti sem þau nenna að hugsa um, eins og Valenti skrifar: „Þau munu ekki lengur nenna að horfa á þætti sem grípa þau ekki því þau vilja ekki þurfa að svara spurningum um slíka þætti.“

    Þá er líka stigið skref í átt að því markmiði að kenna krökkunum að sjónvarpið er ekki miðill sem við eigum að meðtaka gagnrýnislaust heldur miðill sem er mest spennandi þegar við nálgumst hann á virkan hátt og og rýnum í það sem við horfum á.

    Þetta er snjöll nálgun sem við hlökkum til að prófa með krökkunum okkar.

  • Einelti og andhetja

    Lucy og Gru hittast í Aulinn Ég 2
    Lucy og Gru hittast í Aulinn Ég 2

    Ég sá Aulinn ég 2 með börnunum í gær. Við kíktum í Sambíóin í Egilshöll og skemmtum okkur alveg konunglega. Til undirbúnings höfum við öll horft nokkrum sinnum á fyrstu myndina um Gru og félaga. Í þeirri mynd ættleiðir hann þrjár stúlkur, Margo, Edit og Agötu.

    Gru er, eins og flestir þekkja, algjört varmenni í fyrstu myndinni og þegar hann tekur stelpurnar að sér er ekki af umhyggju fyrir þeim heldur til að hjálpa sér að fremja glæp. En eins og í fleiri myndum þá hafa börnin áhrif á aðalsöguhetjuna.

    Í upphafi annarrar myndarinnar er Gru ekki lengur aðalþrjóturinn heldur ábyrgur fjölskyldufaðir sem hefur snúið sér af glæpabraut og vill nú búa til og selja sultur. Myndin bregður skýrara ljósi á það hvers vegna Gru varð biturt og neikvætt varmenni: hann mátti þola einelti í barnaskóla. Við vitum líka að móðir hans beitti hann ofbeldi.

    Ofbeldi á líkama og sál elur af sér ofbeldi. Úr því verður vítahringur sem börnin rjúfa.

    Aulinn ég 2 er skemmtileg og góð kvikmynd sem vekur spurningar um samband og tengsl og möguleika okkar til að breytast til góðs. Ég mæli með henni.

  • Kvikmyndirnar og lífið í Háskóla unga fólksins

    Þemadagur um kvikmyndirnar og lífið

    Í dag kenndum við á þemadegi um kvikmyndirnar og lífið í Háskóla unga fólksins. Þetta er í annað sinn sem við kennum þetta námskeið saman, en Árni hefur verið viðriðinn HUF frá stofnun skólans. Það er alltaf gaman að hitta kláru krakkana í háskólanum. Þau eru skörp og snjöll og full af áhuga. Við ræddum um það hvernig við horfum á kvikmyndir og hvernig þær hafa áhrif á okkur, töluðum um tilvistarstef í bíómyndum, ræddum um það hvernig Biblían birtist í bíómyndum og horfðum á nokkur tónlistarmyndbönd saman. Við nutum dagsins og þökkum kærlega fyrir okkur!

    (more…)

  • Gleðidagur 45: Stjörnstríð eða -friður?

    Úr Star Trek: Into Darkness
    Spock, John Harrison og Kirk í kvikmyndinni Star Trek: Into Darkness

    Í vetur horfðum við á sjónvarpsþættina Big Bang Theory með stelpunum okkar. Það reyndist hin besta skemmtun og veitti skemmtilega innsýn vísindi og nördaskap. Eitt af því sem reglulega er fjallað um í þessum þáttum eru sjónvarpsþættirnir og kvikmyndirnar um Star Trek.

    Nýjasta Star Trek kvikmyndin var frumsýnd á dögunum og hún sver sig í ættina þegar kemur að því að fjalla um áhugaverð siðferðisleg álitamál. Hún er líka býsna vel gerð. Tvö temu standa upp úr eftir áhorfið: spennan milli stríðs og friðar og spurningin um það hvort réttlætanlegt er að víkja til hliðar reglum og fyrirmælum til að bjarga lífum.

    Án þess að fara nokkuð út í efni myndarinnar er hægt að ljóstra því upp að í Star Trek útgáfunni af heiminum er tekin nokkuð skýr afstaða með friði og með fólki, gegn stríði og ranglátum reglum. Það er góð afstaða. Star Trek er semsagt ekki veröld stjörnustríðs heldur stjörnufriðar.

    Á fertugasta og fimmta gleðidegi viljum við þakka fyrir boðbera friðar, hverjir sem þeir eru og hvaðan sem þeir koma.