Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblíublogg 6: Konur eiga 1,1% orðanna í Biblíunni

    Á síðasta ári kom út bók eftir Lindsay H. Freeman um konur í Biblíunni og orðin sem eru höfð eftir þeim. Þar kemur fram 93 konur tala í Biblíunni. Af þeim eru 49 nefndar með nafni. Alls eiga þessar konur 14.056 orð (út frá enskri þýðingu) sem gerir u.þ.b. 1.1 % af orðum í Biblíunni.

    Þekktar og lítt þekktar konur

    Sumar konurnar eru vel þekktar eins og María móðir Jesú. Í bók Freeman kemur fram að hún eigi alls 191 orð í ritningunni. María Magdalena á 61 orð, en Sara, kona Abrahams segir 141 orð.

    Höfundurinn bendir á að margar af þeim konum sem koma fyrir í Biblíunni hafa gengið í gegnum áföll og ofbeldi. Hún spyr sig hvort þöggunin sem beið þeirra bætist ekki ofan á það.

    „Af einhverjum ástæðum hefur vitnisburður og reynsla kvenna verið sett skörinn lægra þegar kemur að trú, en það sem karlar hafa fram að færa“ segir Freeman. „Við erum loksins farin að leggja við hlustir þegar konur eru annars vegar.“

    Biblían skrifuð af körlum, fyrir karla?

    Biblíufræðingar taka undir þetta sjónarmið, því staðreyndirnar tala sínu máli. Miðað við þessar tölur er Biblían skrifuð af körlum og fyrir karla, þar sem rýmið er ekki mikið fyrir konur og reynslu þeirra. Lítil skref, eins og að lyfta upp þeim konum sem fá að tala í Biblíunni getur skipt sköpum í að gera trúarvitnisburðinn lifandi í lífi bæði karla og kvenna í dag.

    Gamla vs. Nýja….fleiri konur í Gamla?

    Eitt af því áhugaverða sem bók Freemans leiðir í ljós er að Gamla testamentið, sem er sannarlega grjótharður vitnisburður um rótgróið feðraveldi, inniheldur fleiri orð kvenna en Nýja testamentið. Auðvitað er fleiri blaðsíðum til að dreifa, en það er líka umhugsunarvert að í 1. Mósebók er hlutfallið 11 konur á móti 50 körlum. Það er mun hagstæðara en heildarhlutfallið.

  • Mamman og öldrunarlæknirinn

    Hildur Eir Bolladóttir, prestur við Akureyrarkirkju:

    Ég fylgdi tæplega áttræðri móður minni til öldrunarlæknis á dögunum. Ástæða heimsóknarinnar var sem sagt öldrun. Tíminn hefur ákveðna fordóma gagnvart fullorðnu fólki hann nennir ekki að vinna með því þegar það hefur lokið ákveðnum skyldum við samfélagið.

    Þetta er fordómaleysandi pistill.

  • Biblíublogg 5: Biblían frá upphafi til enda … í popplögum

    Það má fara ýmsar leiðir til að fjalla um Biblíuna. Ein er sú að horfa til dægurmenningarinnar. Á YouTube fundum við þessa tilraun til að fanga kjarnann í Biblíunni með því að tengja þemu og sögur við þekkt popplög.

    Hvaða tenging finnst þér best heppnuð í myndbandinu?

  • Biblían og Ásatrúarmenn

    Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði:

    Þetta hefur verið mikil eyðimerkurganga.

    Orðin lét Hilmar Örn falla í viðtali við Fréttablaðið. Tilefnið er löng bið þeirra Ásatrúarmanna eftir hofi. Orðatiltækið á rætur að rekja til Biblíunnar og vísar til Ísraelsmanna sem voru 40 ár í eyðimörkinni, sbr. orðin í Jósúa 5.6:

    Í fjörutíu ár gengu Ísraelsmenn um eyðimörkina

    Áhrif Biblíunnar eru víða.

  • Biblíublogg 4: Lifandi og túlkað trúarrit

    Í öðru Biblíublogginu skrifuðum við að aðferðarfræði kristins fólk við að lesa Biblíuna fælist í að nota hana sjálfa sem gleraugu eða linsu.

    Þetta er gert í hverri einustu guðsþjónustu. Þar eru lesnir þrír textar úr Biblíunni, einn úr Gamla testamentinu og tveir úr Nýja testamentinu. Að auki eru ótal vísanir í texta Biblíunnar í bænum safnaðarins og öðrum liðum messunnar.

    Annar textinn úr Nýja testamentinu er sóttur í guðspjöllin. Hann hefur sérstöðu því þar segir frá lífi og starfi Jesú. Iðulega geymir hann einnig einhver af orðum Jesú. Hinir lestrarnir tveir voru valdir með hliðsjón af guðspjallinu og efni þess.

    Hver einasti helgur dagur ársins á sitt sett af lestrum. Reyndar eru til fleiri en eitt sett. Núna notar þjóðkirkjan til dæmis tvær textaraðir.

    Aðferðarfræði guðsþjónustunnar felst í því að hlusta og meðtaka orð Biblíunnar úr fleiri en einni átt. Það er hlutverk prédikarans að túlka merkingu lestranna þriggja og tengja þá við líf og aðstæður þeirra sem hlusta.

  • Hrafninn hugsar

    Hrafninn

    Þessi íhuguli hrafn sat á trjágrein í dag. Kannski var hann að leita sér að æti, kannski að upphugsa snjallt krunk til að deila með félögunum.

  • Biblíublogg 3: Bent nálgast Biblíuna

    Í morgun hófst útvarpsþátturinn Virkir morgnar á laginu Bent nálgast með XXX Rottweiler hundar. Texti lagsins er dæmi um það hvernig flétta má Biblíustef inn í dægurlög.

    Þarna er m.a. vísað í sköpunarsöguna (1Mós 1.1–2.4) , engisprettuplágu (2Mós 10.1–20) og nafn Guðs kemur fyrir (2Mós 3). Í viðlaginu er þetta sett í samhengi þess heimurinn hafi verið skapaður á sjö dögum sem í meðförum rapparans verður upptaktur að heimsendi á sjö dögum:

    Skapaði heiminn á sjö dögum og eyði honum á jafn mörgum
    Náttúruhamfarir á fyrsta degi og engisprettur á öðrum
    Þriðja, fjórða, fimmta og sjötta mun ég bæta við ykkur kvölunum
    Kem svo sjálfur á sjöunda degi til að ráða ykkur af dögunum

    Guðsmyndin er eitt af viðfangsefnum langsins. Hér birtist hinn reiði Guð sem. Hann hefur í raun holdgerst í rapparanum eins og titill lagsins ber með sér.

    Guðsmyndin er eitt af stóru viðfangsefnunum í Biblíunni. Þar kynnumst við ólíkum myndum af Guð, Guði sem skapar heiminn (1Mós 1–2), Guði sem refsar (1Mós 6–7), Guði sem sýnir umhyggju (Hós 11.3–4, Lúk 13.34). Verkefnið okkar sem rýnum í Biblíuna er púsla þessum ólíka vitnisburði um Guð saman. Þegar við gerum það getur bæði verið gagnlegt og skemmtilegt að hafa hliðsjón af vinnu textaskáldanna sem yrkja í samtímanum.

  • Önnur hlið á því þegar Stephen Fry hittir Guð

    Giles Fraser:

    This is why the Jesus story is, for me, the most theologically revolutionary story that there can be. Because it imagines God and power separated. God as a baby. God poor. God helpless on a cross. God with a mocking and ironic crown of thorns. In these scenes it is Caesar who has the power. And so the question posed is: which one will you follow when push comes to shove? You can follow what is right and get strung up for it. Or you can cosy up to power and do as you are told. By saying that he will stare ultimate power in the face and, without fear, call it by its real name, Fry has indicated he is on the side of the angels (even though he does not believe in them). Indeed, Fry is following in a long tradition of religious polemic, from Job to Blake and beyond.

    Lykilspurningin er nefnilega sú hvaða mynd þú hefur af Guði. Hvort kemur á undan? Valdið eða kærleikurinn? Er Guð vald eða er Guð kærleikur?

  • Ekki skrumskæla, afbaka eða rangtúlka

    Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju:

    Að mínu mati sýnum við þó skoðunum annarra virðingu fyrst og fremst með því að gera fólki ekki upp skoðanir eða skrumskæla, afbaka og rangtúlka það sem því finnst.

    Nákvæmlega.

  • Kyndilsmessa og múrmeldýr

    Kyndilmessa

    Annar febrúar er kyndilmessa sem er í almanakinu okkar tengdur veðri og veðurspá. Frá Evrópu barst til Bandaríkjanna siður sem tengist íkornategundinni groundhog – er það ekki múrmeldýr? – sem gengur úr á að fylgjast með hegðun dýrsins þennan dag og spá um tíðarfarið út frá því.

    Ef dýrið, sem heldur sig í holum neðanjarðar, skýtur upp kollinum og sér skuggann sinn, vegna þess að sólin skín á það, er það til merkis um að veturinn verði langur og vari 6 vikur enn. Ef enginn skuggi sést, má vænta vorkomu upp úr þessu.

    Eins og gildir um allan almennilegan sannleik, er þessi bundinn í vísu sem er m.a. til í þessu formi á enskri tungu:

    If Candle-mas Day is bright and clear,
    There’ll be two winters in the year.
    If Candle mas be fair and bright,
    Winter has another flight.
    If Candlemas brings clouds and rain,
    Winter will not come again.

    Þótt múrmeldýrið lifi ekki á Íslandi er þessi ratar þessi pæling líka í vísu, sem er til í þessari útgáfu:

    Ef í heiði sólin sést
    á sjálfa kyndilmessu
    snjóa vænta máttu mest,
    maður, upp frá þessu.

    Kyndilmessan, sem vísað er til markar í kristinni hefð tímann sem hefði átt að líða þar til María móðir Jesú gat sýnt sig í musterinu, þar sem fjörutíu dagar voru liðnir frá því hún átti sveinbarnið sitt. Dagurinn markar í kirkjuárinu skilin á milli jólatímans og föstunnar, kristið fólk beinir sjónum sínum frá undrinu í Betlehem og yfir til átakanna í Jerúsalem sem enda í krossfestingunni á föstudaginn langa.

    Í dag ætlum við að sjálfsögðu að horfa á kvikmyndina Groundhog Day með Bill Murray og íhuga boðskap hennar um endurtekninguna (hæ Sören Kierkegaard!). Svo má hugsa um það að ef Jesús hefði verið stúlkubarn, hefði kyndilmessan ekki verið fyrr en 14. mars. Er það ekki eitthvað?