Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Trú, typpi og píkur

    Er trúin eins og typpi? Jón Gnarr skrifar um hliðstæðuna milli trúar og typpis í Fréttablaðspistli um helgina. Hann segir hvort tveggja ágætt til persónulegra nota „…en ekki tala mikið um það við ókunnuga eða troða því upp á fólk“. Líkingin er áhugaverð, en ekki endilega af þeirri ástæðu sem Jón telur. Til að hafa gagn af henni þarf að útvíkka hana svo hún nái yfir bæði typpi og píkur. Annars njóta hvorki trúin né typpin sannmælis.

    Rétt eins og allir karlar eru með typpi og allar konur með píku er trú og lífsskoðun órjúfanlegur hluti af hverri manneskju. Ekki í þeirri merkingu að hún trúi á Guð sem er handan þessa heims heldur hefur hún lífsskoðun sem tengir hana við meðvitundina um stöðu sína í tilverunni. Öll samfélög hvíla raunar á gildum sem tengjast slíkum lífsskoðunum.

    Kynfræðin kenna að kyn hefur raunveruleg áhrif á menninguna sem við sköpum og að tjáning kynverundar er heilbrigðismál og mikilvæg hverri manneskju. Það sama gildir um trú og lífsskoðanir. Af því að að trú og lífsskoðun er samofin einstaklingnum og sjálfsmynd hans er ekki gott að hann þurfi að bæla hana. Slík bæling tjáningarfrelsis er hliðstæð þeirri bælingu kynverundar sem við sjáum í löndum þar sem konum er gert að hylja líkama sinn – ekki aðeins píkur og brjóst – heldur líkamann allan. Það er hvorki heilbrigt né vænlegt að hunsa trú og lífsskoðanir og gera ekki ráð fyrir þeim í hinu opinbera rými, t.d. með því að taka hið trúarlega markvisst út fyrir rammann í skóla- og frístundastarfi.

    Þegar allt kemur til alls snýst þetta því ekki um það hvort „Guð sé til“ heldur hvort við viðurkennum trú og lífsskoðun sem heilbrigðan og eðlilegan þátt í lífi einstaklings og samfélags.

    Fréttablaðið, 17. febrúar 2014.

  • Skynsemisandóf eða trúarleg nauðsyn?

    Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju:

    Að hafna einfeldningslegum hugmyndum um Guð er ekki andóf gegn trú heldur skynsamleg og trúarleg nauðsyn. En að halda að Guð sé ekki til vegna þess að maður finnur ekki Guð er ámóta óskynsamleg og niðurstaða geimfarans sem sá ekki Guð í geimferð og dró þá ályktun að Guð væri ekki til.

    Nákvæmlega.

  • Vísindin, skynsemin og Guð

    Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Neskirkju:

    Vísindin eru ekki í andstöðu við Guð, hann er þar að finna. Skynsemin er ekki í andstöðu við Guð, hún er okkur af Guði gefin. Þó skynsemi og vísindi séu gagnleg verkfæri til að lýsa og greina eru þau ekki upphaf og endir mannlegrar tilveru. Djúpt í sálu hvers manns býr þráin eftir tilgangi, elsku og samfélagi og öll erum við leitandi á þeirri vegferð.

    Vel orðað.

  • Biblíublogg 16: Lúther og Biblían

    Biblían var í brennidepli í lífi Lúthers og siðbótarinnar allrar. Sem prófessor í Wittenberg kenndi Marteinn Lúther ritskýringu Biblíunnar, hann ritaði fjölda skýringarrita við rit Biblíunnar, hann þýddi Biblíuna á þýsku og sem prestur prédikaði hann úr Biblíunni allt sitt líf.

    Í augum Marteins Lúthers var mikilvægast af öllu að fólk gæti lesið og skilið Biblíuna. Aðeins þannig gæti orð Guðs verið kjölfestan í lífi þess. Fyrirheit Guðs um líf var lykill Lúthers að frelsi manneskjunnar. Á grundvelli trúarinnar á þetta fyrirheit Guðs erum við kölluð til ábyrgðar í heiminum. Þannig er Biblían, trúin, náðin og Kristur sjálfur grundvöllurinn fyrir líf hinnar kristnu manneskju í heiminum.

    Biblíuþýðing Lúthers kom út á árunum 1522-1534, en Lúther hófst handa við hana árið 1521 þegar hann dvaldist í útlegð í kastalanum í Wartburg. Á meðan á dvöl hans stóð þar þýddi hann allt Nýja testamentið úr grísku. Hann sneri aftur til Wittenberg í mars 1522 og þá var sú þýðing endurskoðuð af honum og félögum hans, einkum Filippusi Melanchthon og Georgi Spalatín. Nýja testamentið kom svo út í september 1522.

    Þýðing á ritum Gamla testamentisins fylgdi í kjölfarið og kom út í nokkrum hlutum. Biblían öll kom út árið 1534. Þýðingarstarfinu var þó ekki lokið því Lúther og samstarfsmenn héldu áfram að endurskoða og endurbæta þýðinguna. Þýðingin var gerð úr frummálunum hebresku og grísku og hún var á góðu og skiljanlegu máli. Hið síðarnefnda átti eftir að tryggja áhrif hennar um langa tíð.

    Biblía Lúthers fékk mikla útbreiðslu. Prentaðar voru tíu útgáfur af allri Biblíunni og 80 útgáfur af hlutum hennar í Wittenberg á meðal Lúther lifði. Í ljósi þessa má segja að Biblíuþýðingin sé mikilvægasta verkið sem Lúther vann og sendi frá sér á sínum annars viðburðaríka ferli.

    Meira efni um Lúther og Biblíuna.

  • Biblíublogg 15: Hlustað frekar en lesið

    Það er áhugavert að hafa í huga þegar við veltum fyrir okkur Biblíunni og áhrifum hennar í kristinni kirkju að lengst af hafði fólk ekki sjálft aðgang að henni, hvorki í hlutum eða heild. Það var því ekki um að ræða að fólk læsi sjálft úr henni eða hefði rit hennar við hendina til að fletta í.

    Biblían var þar að auki lengst af bara til á latínu, sem var hið opinbera mál rómversk-kaþólsku kirkjunnar, og enginn almenningur talaði. Bækur voru fyrir tíma prentiðnaðarins líka fádæma dýrar og fágætar. Það er því ýmislegt sem bendir til þess að margar kirkjur hafi heldur ekki átt sína eigin Biblíu – og að prestarnir hafi notað og stuðst við einstaka texta úr henni í öðrum ritum, eins og messubókum og guðspjallabókum, sem voru minni í sniðum og aðgengilegri en sjálf Biblían.

    Fyrsta íslenska Biblían sem kom út á Hólum árið 1584 var heldur engin smásmíði. Fyrir utan hvað bókin hefur verið dýr og á fárra færi að eignast hana, var heldur enginn leikur að burðast með hana, hreint líkamlega séð.

    Hvernig lærði þá fólks sögur og orð úr Biblíunni, fyrir tímana sem við þekkjum best, þegar Biblían er til í aðgengilegu og ódýru formi sem allir hafa aðgang að, hvort sem er í prentuðu formi eða í gegnum snjalltæki? Með því að hlusta á orð hennar lesin í bænastundum og messuhaldi í kirkjunum. Eða með því að hlusta á hugvekjur og bænir byggða á textum hennar, sem rötuðu í hómilíubækur og skáldskap.

    Biblían hefur því lengst af verið tekin í gegnum eyrun frekar en augum.

  • Biblíublogg 14: Guð í rauðri skikkju

    Eitt af því sem siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther lagði áherslu á var að Biblían væri þýdd á móðurmálið. Hann sinnti þessu þýðingarstarfi sjálfur, þýddi Nýja testamentið á meðan hann var í útlegð í kastalanum í Wartburg. Það kom út árið 1522. Svo hélt hann áfram þýðingarstarfinu í samvinnu við aðra eftir að hann sneri aftur til Wittenberg. Biblían öll kom svo út árið 1534.

    Myndin hér að ofan sýnir eina síðu úr Biblíu Lúthers, þetta er upphaf fyrsta kafla fyrstu Mósebókar þar sem við lesum fyrri sköpunarsöguna. Hér má sjá fallegar litmyndir sem eru bæði til prýði og skýringar. Heilsíðan til vinstri sýnir Guð í rauðri skikkju sem er að móta heiminn. Myndin kallast á við sjö daga skemað sem er lýst í sögunni. Hún auðveldar skilning og lestur og vitnar líka um heimsmynd 16. aldarinnar.

  • Það sem skiptir máli er að bjarga fólki í neyð

    Toshiki Toma, prestur innflytjenda:

    Ég veit að endurskoðun Dyflinnarsamstarfs Íslands við ESB er komin á borð alþingismanna. Af því tilefni, vil ég skora á þá sem geta breytt kerfinu, að einblína á að styrkja flóttamannastefnu landsins og beina sjónum að því sem skiptir máli, þ.e. að bjarga fólki í neyð og virða alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sínar, en ekki að fylgja Dyflinnarreglugerðum í blindni.

    Toshiki er starfsmaður á plani. Hann veit hvað hann er að tala um.

  • Biblíublogg 13: Jörðin er full af ofbeldi

    Ein af sögunum sem iðulega eru kenndar og endursagðar í barnastarfi kirkjunnar er sagan um Nóa og örkina. Kannski er þetta þekktasta saga Gamla testamentisins í dag.

    Á Nóasögunni eru ótal hliðar sem höfða til okkar á ólíkan hátt á ólíkum tímum. Meðal þeirra vinkla sem lyft hefur verið upp er vistfræðilega sjónarhornið sem útskýrir flóðið með því að benda á sjálfseyðingu manneskjunnar og ofbeldi gagnvart lífríkinu í heild og sín á milli.

    Eitt af því sem er óendanlega heillandi við að rannsaka ritningarnar er að spá í einstök orð og merkingarsvið þeirra. Í aðdragandi sögunnar um Nóaflóðið og örkina, er að finna setningar um ástandið sem verður til þess að jörðin eyðist í flóðinu. Í íslensku Biblíunni hljómar þessi setning úr 1. Mós 6.13 svona:

    „Ég hef ákveðið endalok allra manna á jörðinni því að jörðin er full orðin af ranglæti þeirra vegna.“

    Í flestum enskum þýðingum er hins vegar talað um violence eða ofbeldi í þessu samhengi. Dæmi er í New Revised Standard Version svona:

    „I have determined to make an end of all flesh, for the earth is filled with violence because of them“.

    Og í gömlu góðu King James Version er setningin svona:

    „The end of all flesh is come before me; for the earth is filled with violence through them“.

    Það er gaman og gagnlegt að velta fyrir sér hughrifum sem orðið ofbeldi annars vegar og orðið ranglæti hins vegar vekur. Ofbeldi er einhvern veginn sterkara og kemur ansi mikið heim og saman við það sem við fréttum um ástandið í heiminum í dag.

    Er ekki jörðin einmitt full orðin af ofbeldi mannanna vegna?

  • Föstudagsdans

    Guðrún Ögmundsdóttir, formaður landsnefndar UN Women á Íslandi:

    Ein af hverjum þremur konum verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Í ár ætlum við að dansa af krafti fyrir allar þær konur og stúlkur sem upplifað hafa ofbeldi og sýna í verki að okkur stendur ekki á sama […]

    Byltingin hefst klukkan 12, föstudaginn 13. febrúar, í Hörpu í Reykjavík, í Hofi á Akureyri, í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, íþróttahúsinu í Neskaupstað, Hljómahöllinni í Reykjanesbæ og í Menntaskólanum á Ísafirði. Mætum, dönsum og krefjumst þess að mannréttindi kvenna og stúlkna séu virt.

    Í fyrra dönsuðu þrjú þúsund gegn ofbeldi, vöktu athygli á vandanum og sýndu samstöðu. Í ár skulum við vera fjögur þúsund hið minnsta.

  • Biblíublogg 12: Af máli má manninn þekkja

    Síraksbók

    Síraksbók er ein af apokrýfu bókunum í Biblíunni. Þetta er spekirit sem geymir siðaboð. Hún kallast á við Orðskviðina í Gamla testamentinu. Í 27. kafla hennar er þessi áhugaverði texti um það hvernig orðin okkar afhjúpa það hver við erum.