Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblíublogg 21: Elskhugi minn

    Samband kristinnar trúar og kynlífssviðsins er margrætt og flókið. Bent hefur verið á að á sínum tíma hafi áhrifamiklir kristnir guðfræðingar hreinlega farið í stríð við kynhvötina og séð hana sem óvin og keppinaut trúarinnar.

    Það breytir ekki mannlegri reynslu og vitnisburðinum um hana, sem við finnum í Biblíunni. Ein áhugaverðasta bók ritningarinnar er Ljóðaljóðin sem innihalda ástarjátningar tveggja elskenda og mjög litríkar og fallegar lýsingar á unaði ástarinnar.

    Þessi vers úr fjórða kaflanum eru gott dæmi um það:

    Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur,
    og augu þín dúfur
    undir andlitsblæjunni.
    Hár þitt er sem geitahjörð
    sem rennur niður Gíleaðfjall,
    tennur þínar ær í hóp,
    nýrúnar og baðaðar,
    allar tvílembdar
    og engin lamblaus.
    Varir þínar eru sem skarlatsborði
    og munnur þinn yndislegur,
    gagnaugun eins og sneitt granatepli
    undir andlitsblæjunni.
    Háls þinn er eins og turn Davíðs
    sem vopnum er raðað á,
    þar hanga þúsund skildir,
    öll hertygi garpanna.
    Brjóst þín eru eins og tveir hindarkálfar,
    dádýrstvíburar
    að leik meðal lilja.
    Þegar kular í dögun
    og skuggarnir flýja
    mun ég halda til myrruhólsins
    og reykelsishæðarinnar.
    Öll ertu fögur, ástin mín,
    lýtalaus með öllu.

    Hér eru engir 50 gráir skuggar á ferð, heldur eintóm litadýrð, ást og unaður.

  • Biblíublogg 20: Fastan og ferðaþjónustan

    Er sú fasta sem mér líkar
    sá dagur er menn þjaka sig,
    láta höfuðið hanga eins og sef
    og leggjast í sekk og ösku?
    Kallar þú slíkt föstu
    og dag sem Drottni geðjast?
    Nei, sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn
    og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
    og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
    Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
    og sár þín gróa skjótt,
    réttlæti þitt fer fyrir þér
    en dýrð Drottins fylgir eftir. (Jes 58.5-8)

    Margir hafa þá mynd af föstunni að hún sé tíminn þegar við neitum okkur um eitthvað, til dæmis kjöt, að við fórnum einhverjum af lífsgæðunum til að geta betur einbeitt okkur að Guði. Í 58. kafla spádómsbókar Jesaja birtist önnur mynd. Hér er fastan ekki fórnartími heldur þjónustutími þegar hagsmunir þeirra sem hafa það ekki eins gott og við eru settir í forgrunn. Út frá því mætti segja að fastan í ár væri til dæmis góður tími til að klára lagfæringar á ferðaþjónustu fatlaðra.

  • Risaeðla í kirkjunni

    Það er gaman í kirkjunni. Í gær rakst ég á litla risaeðlu sem skreið um kirkjugólfið.

    The church is not a dinosaur, but sometimes you can find a dinosaur crawling in the church.

    A photo posted by arnisvanur (@arnisvanur) on

  • Lækin og lífið

    Lífið er læk var yfirskrift morgunverðarfundar Advania í síðustu viku. Þar fluttu þrír fyrirlesarar vekjandi erindi um notkun unglinga á samfélagsmiðlum, hvernig á að nálgast þetta viðfangsefni, hvar ber að varast og hvað er til eftirbreytni. Erindi voru tekin upp og hægt er að horfa á þau á vef Advania.

    Flott framtak.

  • Mótmæli í þremur liðum

    Bjarni Karlsson, prestur:

    Jón Gnarr er í mínum huga hellings mikill frelsari sem í argasta gríni og fúlustu alvöru hefur opnað augu margra fyrir því að það er í lagi að vera alls konar og að við græðum öll á fjölbreytileikanum. Þess vegna langar mig að mótmæla aðalatriðinu í grein hans „Guð er ekki til“ sem birtist hér á þessum vettvangi sl. laugardag.

    Mótmælendaprestur mótmælir fullyrðingum um trú og vísindi, heilbrigði og tjáningarfrelsi í stuttum pistli.

  • Biblíublogg 19: Teiknimyndin

    Það er hægt að miðla Biblíusögunum með margvíslegum hætti. Til dæmis í teiknaðri skýringarmynd eins og þessari sem fjallar um 12. kafla fyrra bréfs Páls til Korintumanna. Þar segir meðal annars:

    Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum við öll skírð til að vera einn líkami, hvort sem við erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og öll fengum við einn anda að drekka.

    Vísun frá Mary Hess.

  • Trú er hluti af sjálfsmynd fólks

    Við vorum gestir Frosta og Mána í Harmageddon í morgun og spjölluðum við þá félaga um það hvernig trúin er hluti af sjálfsmynd fólks. Tilefnið var greinin okkar í Fréttablaðinu í gær.

  • Biblíublogg 18: Margþætt merking öskunnar

    Í dag er öskudagur, sem markar upphaf föstunnar, sem í kristinni hefð er tími samlíðunar og iðrunar. Askan hefur verið notuð af kristnu fólki frá upphafi, til að tjá hluti sem er erfitt að koma í orð og kerfi en móta samt alla tilveru okkar. Í fyrsta lagi táknar hún forgengileikann. Askan minnir á eitthvað sem var, en er ekki lengur. Í annan stað er hún tákn um hreinsun, þar sem hún var notuð sem hreinsiefni í stað sápu. Í þriðja lagi er hún tákn um ákveðna hringrás sem kristin trú boðar, að við erum fædd af jörðu, við verðum að jörðu og við rísum upp af jörðu.

    Myndmál öskunnar á sér rætur í orðum ritningarversins í 1. Mósebók, 3. kafla, 19. versi sem er svona í íslenskri þýðingu:

    Því að mold ert þú
    og til moldar skaltu aftur hverfa.

    Í greftrunarhelgihaldi ensku kirkjunnar, í The Book of Common Prayer árið 1662 taka þessi orð á sig þessa mynd:

    earth to earth, ashes to ashes, dust to dust.

    Tilvistarlega tengingin er að þegar við förum í kirkju á öskudaginn og fáum öskukross á ennið, göngumst við þessum veruleika. Askan á enninu ber hlutum vitni sem við eigum kannski erfitt með að orða eða sætta okkur við, en trúum að við erum ekki ein um að bera.

    Öskukrossinn á enninu segir sögu manneskjunnar í heiminum, sem elskar, missir, saknar og deyr. Öskukrossinn tjáir líka trúna um í gegnum þjáningu og dauða Jesú, sem við íhugum á föstunni, tengjumst við hinum endanlega veruleika á sérstakan hátt.

    Askan á enninu nær utan um sársaukann sem við berum innra með okkur, sorgina yfir því sem við höfum misst og angistina yfir því að lífið sem við elskum verður fyrr en seinna tekið frá okkur.

    Askan á enninu er hjálp til að fá þetta til að ganga upp og feta sig eftir lífsveginum í trú á tilgang og merkingu í því sem við erum hér og nú.

    Mannleg tilvist er vist-leg því við erum hluti af hringrás vistkerfisins. Kannski er það eftir allt saman frekar heavy að horfast í augu við að alveg eins og við erum komin af jörðu, verðum við aftur að jörðu. En það er eins gott að hafa það í huga, það minnir öskudagurinn okkur á.

  • Biblíublogg 17: Kona tapar peningum

    Í fimmtánda kafla Lúkasarguðspjalls eru fléttaðar saman þrjár dæmisögur Jesú. Ein um týndan sauð, ein um týndan son og sú þriðja um konu sem týnir peningum. Hún er svona:

    Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“ Lk 15.8-10

    Jesús notaði dæmisögur til að ná til áheyrenda sinna, miðla trúarboðskapnum og kveikja spurningar. Sögurnar eru þess eðlis að þær kalla á viðbrögð um leið og þær hvetja þann sem les eða hlustar til að hugsa um sig í samhengi sögunnar. Þannig er einn lykill að því að upplifa og meðtaka dæmisögurnar spurningar eins og: Hver er ég í þessari sögu? Hver er ég ekki?

    Prófaðu að lesa nokkrar dæmisögur með þetta í huga og sjáðu hvaða áhrif það hefur á upplifunina.

  • Mótun til mannúðar

    Gunnar Kristjánsson, sóknarprestur á Reynivöllum:

    Það skiptir máli að við mótumst til mannúðar í bernsku okkar og æsku,

    • að við mótumst til að vera þátttakendur í baráttu þeirra, sem eiga á brattann að sækja,
    • að við mótumst til að standa með þeim sem verða fyrir einelti í stað þess að leggja aðra í einelti,
    • að við mótumst til þess að láta okkur þykja vænt um fólk í stað þess að líta á aðra sem óvini okkar,
    • að við lærum að vera frjáls í stað þess að ánetjast því sem vont er og gæti fjötrað okkur þeim fjötrum sem við losnum kannski aldrei úr.

    Mótun til mannúðar, það er gott leiðarhnoð í uppeldinu.