Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Friður sé með þér

    Morgunbæn á Rás 1, þriðjudaginn 20. janúar:

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið þér endurnærandi og góður.

    Einn fallegasti hluti messunnar í kirkjunni er það sem við köllum friðarkveðju. Þá snýr presturinn sér að söfnuðinum og segir eða syngur: Friður Drottins sé með yður Söfnuðurinn svarar síðan kveðjunni. Það er misjafnt hvað fylgir á eftir. Stundum heldur messan áfram. Þá stendur friðarkveðjan eins og sér sem örlítil áminning um að við eigum að vera friðarfólk. (more…)

  • Skipulögð glæpastarfsemi, ekki trúarbrögð

    Ritstjórn Kjarnans:

    Mennirnir sem skutu blaðamenn Charlie Hebdo voru ekki sendiboðar trúarbragða eða hugmyndafræði, heldur stigu þeir með afgerandi hætti yfir línu réttarríkisins og gerðust sekir um hrikalegan siðlausan verknað samkvæmt okkar gildum og lögum. Þeir voru fjöldamorðingjar, studdir áfram af fólki sem heldur úti skipulagðri glæpastarfsemi. Ekki síst af þessum sökum, þá ættu þingmenn að tala varlega og færa umræðuna hér á landi, sem á rætur að rekja til hrikalegra glæpa úr í heimi, ekki beint inn á borð trúarbragðanna. Þar á hún ekki heima.

    Sammála. Þetta ættum við öll að hafa hugfast, ekki bara þingmennirnir sem ritstjórnin beinir orðum sínum til.

  • Taktu þér tíma

    Morgunbæn á Rás 1, mánudaginn 19. janúar:

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég heilsa þér í upphafi vinnuvikunnar og vona að nóttin hafi verið þér góð.

    Tíminn er merkilegt fyrirbæri. Hann líður áfram, stund fyrir stund, mínútu fyrir mínútu. Stundum alltof hægt og stundum of hratt. (more…)

  • Hér er kall, um köllun frá konum til kalla

    Árni:

    Ung kona leggst til svefns eftir annasaman dag. Hún býr ein í íbúð í stórborginni. Henni finnst það gott. Hún er rétt að festa blund þetta kvöld þegar hún heyrir þrusk. Það er eins og eitthvað hafi verið að detta. Eitthvað þungt. Hún spennist upp. Hvað er í gangi? Skyndilega kviknar eldur og rödd heyrist úr eldinum miðjum.

    Dogma eftir Kevin Smith, Star Trek, Sakkeus og Marteinn Lúther komu við sögu í sunnudagsprédikuninni í Bústaðakirkju.

  • Hvíldardagur

    Morgunbæn á Rás 1, sunnudaginn 18. janúar.

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég vona að nóttin hafi verið þér góð.

    Í dag er sunnudagur. Hvíldardagur.

    Stundum er svo mikill ys og þys í kringum okkur. Og það getur verið krefjandi að lifa í heimi sem er fullur af snjalltækjum og samskiptamiðlum. Þá er gott að taka frá tíma til að aftengjast.

    Við getum slökkt á öllum tækjunum sem senda okkur skilaboð í sífellu: á farsíma og tölvu, sjónvarpi og útvarpi. Við getum aftengt sítenginguna við netið sem er afsakaplega gagnlegt af því að hún tengir okkur við þau sem skipta okkur máli, en má líka alveg við því að detta út endrum og sinnum. Til dæmis á hvíldardeginum. Í dag. (more…)

  • Opið eða bara afhelgað?

    Nick Baines, biskup í Leeds:

    [T]he French secularism being lauded in the popular response to the massacre in Paris is not noble and is not what is understood by ‘secularism’ elsewhere. It is one thing to deprivilege religion in the public square; it is something else entirely to be anti-religion to the point of wanting to wipe it out. The myth of neutrality is just that: the public square is either open to all – including religion – or it privileges those who believe that it is open to all except religions. Neutral it is not.

    Það er grundvallarspurning hvort samfélagið okkar, hvort almannarýmið, er opið fyrir alls konar hugmyndir, þar með talið þær trúarlegu, eða hvort það er opið fyrir allt-nema-trú.

    Ps. Lesið líka pistilinn eftir Giles Fraser sem Baines vísar til. Hann gefur innsýn í sögulegt samhelgi afhelgunar fransks samfélags.

  • Grimmdin, sorgin og ástandið

    Ólafur Páll Jónsson:

    Ef við viljum virkilega koma í veg fyrir fleiri voðaverk eins og þau sem framin voru í París á miðvikudag, svo ekki sé minnst á slátrunina í Nígeríu, þá verðum við að vinda ofan af stríðsmenningu samtímans og bregðast við fátækt og úrræðaleysi, bæði utan Vesturlanda og innan þeirra. Við verðum að gera okkur ljóst að lýðræði verður ekki komið á með stríði. Stríð elur ekki af sér lýðræði, það elur af sér meira stríð, meiri kúgun.

    Stríð elur af sér stríð, það er mergurinn málsins. Gott innlegg frá skýrum heimspekingi.

  • Hvernig lítur helgin þín út?

    Morgunbæn á Rás 1, laugardaginn 17. janúar.

    Góðan dag, kæri hlustandi.

    Ég vona að þú hafir sofið vel í nótt.

    Þá er helgin runnin upp. Fyrir mörgum eru helgarnar hvíldartími, tækifæri til að skipta um gír og endurnærast.

    Hvernig lítur helgin þín út? Er allt skipulagt í ystu æsar? Ertu að vinna um helgina? Er hún óskipulögð? Mætir hún þörfum þínum og væntingum? Vantar eitthvað?

    Mig langar til að deila með þér uppskrift að góðri helgi. Þú getur prófað hana um þessa helgi eða kannski síðar. (more…)

  • Litanía og dygðir, Britney Spears, Bono, Davíðssálmar og kirkjuskipan

    Nýjasta tölublað Ritraðar Guðfræðistofnunar er komið út. Þetta er annað tölublaðið sem kemur nú út eftir að tímaritinu var breytt í vefrit. Að þessu sinni eru fimm greinar og einn ritdómur í ritröðinni:

    • Einar Sigurbjörnsson: Litanía
    • Guðmundur Sæmundsson: Glæðing dygða í hverri þraut. Um tengsl íþrótta og kristinnar trúar
    • Guðni Elísson: „Britney fokkíng Spears.“ Kærur Vantrúar og innihaldsgreining í hugvísindum
    • Gunnar J. Gunnarsson: Bono og Davíð. Áhrif Davíðssálma á texta hljómsveitarinnar U2
    • Hjalti Hugason: Kirkjuskipan fyrir 21. öld. Önnur grein: Frjáls og aðskilin kirkja?
    • Sólveig Anna Bóasdóttir: Ritdómur um Ask the Beasts. Darwin and the God of Love eftir Elizabeth A. Johnson

    Líklega verður að gera könnun meðal lesenda til að fá viðhorf þeirra til breytingarinnar á formi ritsins, en mér finnst þetta vera framfaraskref og það hefur þegar leitt til þess að ég les meira af Ritraðargreinum en áður.