Árni og Kristín

Taktu þér tíma

Morgunbæn á Rás 1, mánudaginn 19. janúar:

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég heilsa þér í upphafi vinnuvikunnar og vona að nóttin hafi verið þér góð.

Tíminn er merkilegt fyrirbæri. Hann líður áfram, stund fyrir stund, mínútu fyrir mínútu. Stundum alltof hægt og stundum of hratt.

Hvernig festum við hönd á honum? Höfum við nægan tíma? Vantar okkur tíma? Búum við tímaskort?
Getur verið að leiðin til að öðlast tíma sé fólgin í því að hægja á sér. Einbeita sér að einu í einu frekar en að reyna að komast yfir allt? Að leiðin til að öðlast tíma sé fólgin í að taka sér tíma – til þess sem þarf?

Mig langar að lesa fyrir þig nokkur vers í nítugasta Davíðssálmi. Sálminum sem þjóðsöngurinn okkar er ortur út frá. Þarna er fjallað um tímann og mikilvægi þess að læra á hann.

Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.
Þú hrífur þau burt sem í svefni,
þau er að morgni eru sem gróandi gras.
Að morgni blómgast það og grær,
að kvöldi fölnar það og visnar. […]
Ævidagar vorir eru sjötíu ár
og þegar best lætur áttatíu ár,
og dýrasta hnossið er mæða og hégómi,
því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.
Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.

Biðjum saman:

Guð, við þökkum þér fyrir daginn í dag, fyrir fólkið sem við fáum að mæta, augnablikin öll, fyrir tímann sem við eigum ein með sjálfum okkur og með öðrum. Viltu vera með okkur í dag, styrkja okkur og leiða þannig að hendurnar okkar verði þínar hendur og orðin okkar þín orð í þjónustu við annað fólk.

Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.

You may also enjoy…