Árni og Kristín

Hvernig lítur helgin þín út?

Morgunbæn á Rás 1, laugardaginn 17. janúar.

Góðan dag, kæri hlustandi.

Ég vona að þú hafir sofið vel í nótt.

Þá er helgin runnin upp. Fyrir mörgum eru helgarnar hvíldartími, tækifæri til að skipta um gír og endurnærast.

Hvernig lítur helgin þín út? Er allt skipulagt í ystu æsar? Ertu að vinna um helgina? Er hún óskipulögð? Mætir hún þörfum þínum og væntingum? Vantar eitthvað?

Mig langar til að deila með þér uppskrift að góðri helgi. Þú getur prófað hana um þessa helgi eða kannski síðar.

Hún gengur út á að gera þrennt:
Við aftengjumst, með því að hvíla okkur og slappa af. Við reynum að eiga rólegan tíma.
Við skiptum um gír með því að gera eitthvað allt annað en í vinnuvikunni.
Við tengjum upp á nýtt með því að hlusta á okkur sjálf, hlusta á líkamann og það sem leitar á hugann.
Þannig hlöðum við rafhlöðurnar til að geta tekist á við annir daganna sem framundan eru.

Mig langar í að lesa fyrir þig það sem stendur í þriðja kafla Prédikarans í Biblíunni. Þar er fjallað um tímann, eilífðina og ánægjuna.

„Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.“

Við skulum biðja saman:

Þegar ys og erill er allt um kring
gerðu hjartað mitt kyrrt og rótt

Þegar hávaði og læti eru allt um kring,
gerðu hjartað mitt kyrrt og rótt.

Þegar rifrildi og nöldur eru heima,
gerðu hjartað mitt kyrrt og rótt.

Og úr þessari kyrrð og ró hjartans
gefðu mér kjark að bera
himneska kyrrð inn á heimilið mitt.

Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.

You may also enjoy…