Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Fram í kærleiks krafti

    Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur á Austurlandi:

    Að mínu mati er einfaldlega jafnóviðunandi nú á dögum að líkja trúnni og starfi kirkjunnar við hernaðarbrölt og að líkja því við önnur víðtæk og skipulögð mannréttindabrot.

    Sammála. Nýi textinn hans við lagið Áfram Kristsmenn krossmenn er góður og dæmi um það hvernig má bregðast á uppbyggilegan hátt við svona líkingum.

  • Treystu þessu

    Morgunbæn á Rás 1, sunnudaginn 25. janúar:

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður.

    Það er svo mikilvægt að tilheyra. Að finna sig sem hluta af hópi. Að finna að borin sé fyrir mér virðing. Að finna að mér verði sýnd umhyggja. Á þessum sunnudagsmorgni langar mig að lesa fyrir þig einn af lestrum dagsins í kirkjunni. Hann er að finna hjá Hósea spámanni og fjallar um það að tilheyra og finna sig öruggan. (more…)

  • Karlremban, feðraveldið og Gamla testamentið

    Bragi Páll Sigurðarson, verðandi faðir:

    Þannig maður spyr sig, hvernig get ég, fyrrverandi karlremba og skíthæll, núverandi örvæntingafullur verðandi faðir, reynt að undirbúa dóttur mína fyrir þennan heim? Heim launamismunar. […] Heim þar sem stelpum er sagt að vera hljóðar og þægar á meðan strákum er hrósað fyrir að vera hugrakkir og röggsamir. Þar sem stelpum er sagt að þær eigi að sýna ábyrgð á meðan strákar eru jú, og verða alltaf, strákar.

    Þórir Kr. Þórðarson heitinn, sem var prófessor í Gamlatestamentisfræðum við Háskóla Íslands, kenndi mér á fyrsta ári mínu í guðfræðinámi. Hann setti okkur stúdentunum fyrir að lesa megnið af Gamla testamentinu strax í upphafi annarinnar. Þegar einn af nemendunum dæsti yfir þessu sagði Þórir Kr. kíminn:

    Að lesa Gamla testamentið er eins og að éta fíl. Maður tekur einn bita í einu.

    Ég held að baráttan fyrir stelpurnar okkar sé eins. Við setjum upp feminísku gleraugun og byrjum svo bara, tökum eitt skref í einu og sjáum hverju það skilar okkur.

  • Lífið getur verið erfitt

    Morgunbæn á Rás 1, laugardaginn 24. janúar:

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður.

    Jesús er iðulega á göngu í guðspjöllunum. Hann er á leiðinni. Fer frá einum stað til annars. Hvað segir það okkur um líf hinna kristnu? Kannski að lífið sé ferðalag þar sem við erum stöðugt að reyna eitthvað. Jesús lifði heldur ekki auðveldu lífi. Um það vitna guðspjöllin. Til dæmis segir í Lúkasarguðspjalli: (more…)

  • Eyjur á Hringbrautina

    Guðmundur Kristján Jónsson í Fréttablaðinu:

    Til viðbótar við tillögur umhverfis- og skipulagsráðs legg ég til að almennum akreinum við Hringbraut verði fækkað og að almenningssamgöngur og hjólreiðar njóti forgangs í göturýminu. Á milli akreina væri tilvalið að gróðursetja tré og annan gróður og koma fyrir litlum almenningsrýmum á völdum stöðum. Þá fyrst geta talsmenn umferðaröryggis andað léttar – í orðsins fyllstu merkingu.

    Skýr framsetning og mikilvægt mál. Borgir þurfa að anda.

  • Það var þetta með kristnu gildin

    Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju:

    Ef hann vill standa vörð um kristin gildi þá er hann forvitinn um aðra siði og menningu af því að hann hefur væntanlega lesið Galatabréfið þar sem segir “Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.” Og í nútímasamhengi mætti jafnframt bæta við: Hér er hvorki trúmaður né trúleysingi því sá sem kemur fram við náungann af virðingu og kærleika , áhuga og forvitni er þegar búinn að leggja veg milli himins og jarðar.

    Nákvæmlega.

  • Hlustar þú?

    Morgunbæn á Rás 1, föstudaginn 23. janúar:

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður.

    Hvernig gengur þér að hlusta? Á þig sjálfan? Á annað fólk? Á tilfinningar og aðstæður? Finnst þér skarkalinn í samfélaginu ærandi? Hraðinn of mikill? Upplýsingarnar þrúgandi? Er of mikið um að vera? Finnst þér aðrir hlusta á þig þegar þú talar? Finnst þér aðrir skilja þig? Hlustar þú þegar aðrir tala við þig? Skilur þú? (more…)

  • Zzzzzzzz

    Morgunbæn á Rás 1, fimmtudaginn 22. janúar:

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Svefninn er okkur mannfólkinu nauðsynlegur. Við þurfum að hvílast til að geta tekist á við annir dagsins. Stundum kemur hann fljótt og við svífum til móts við draumana jafnharðan og lagst er á koddann. Stundum kemur hann seint eða jafnvel ekki og nóttin verður löng og jafn annasöm og dagarnir. Kannski er ástæðan sú að áhyggjur þjaka. Kannski af því að verkefnin eru svo mörg. (more…)

  • Ég elska þig

    Morgunbæn á Rás 1, miðvikudaginn 21. janúar:

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður.

    Þegar rætt er um ástina eða kærleikann í Biblíunni þá er hún aldrei bara tilfinning. Henni fylgja alltaf aðgerðir og verk. Á sama hátt er ástin í hjónabandi eða sambandi með fleiru en orðum. Hún er tjáð með lífinu öllu. Orðum þurfa að semsagt að fylgja verk sem endurspegla raunveruleika ástarinnar. „Ég elska þig“ segjum við „og ég sýni það með lífi mínu öllu.“
    Ást okkar mannfólksins er einskonar eftirmynd af ást Guðs á heiminum. Þess vegna birtist hún í verkefnum sem beinast að velferð annars. Þau ná í raun til allra sem við tengjumst, ekki bara þeirra sem við erum bundin fjölskyldu- eða vináttuböndum. Okkur á að vera annt um velferð alls mannfólks. (more…)

  • Að velja rektor og biskup

    Torfi H. Tulinius, prófessor við Háskóla Íslands skrifar um rektorskjör í Fréttablaðið í dag:

    Háskólasamfélagið greiðir atkvæði um þau sem teljast embættisgeng. Atkvæði starfsmanna skólans sem hafa háskólapróf gilda 60%, atkvæði stúdenta 30% en atkvæði annarra starfsmanna 10%. Ef enginn fær hreinan meirihluta atkvæða í fyrstu umferð er haldin önnur þar sem kosið er milli tveggja efstu. Að þessu loknu gerir Háskólaráð tillögu til menntamálaráðherra sem skipar rektor til fimm ára.

    Þrátt fyrir ýmsar takmarkanir, bæði á embættisgengi og vægi atkvæða eftir stöðu, er þetta nokkuð lýðræðislegt fyrirkomulag. Ég veit ekki betur en að það sé einsdæmi í íslensku samfélagi að starfsmenn stofnunar eða fyrirtækis kjósi sér leiðtoga með þessum hætti.

    Þetta er ekki einsdæmi en það er óalgengt. Hliðstæðan er til dæmis kjör biskups Íslands og vígslubiskupa í þjóðkirkjunni. Þar eru það vígðir starfsmenn þjóðkirkjunnar og kjörnir fulltrúar sjálfboðaliða í kirkjunni sem velja.

    Atkvæðamagnið er hlutfallslegt í háskólanum en atkvæði gilda jafnt í kirkjunni. Af þeim sökum fara leikmenn með fleiri atkvæði í biskupskjöri en vígðir fulltrúar. Atkvæði háskólamenntaðra starfsmanna gilda hins vegar meira í rektorskjöri.

    Allir starfsmenn og nemendur hafa atkvæði í háskólanum, en það eru vígðir menn (hliðstæðir við starfsmenn með háskólapróf) og fulltrúar leikmanna sem fara með atkvæðin í kirkjunni.