Árni og Kristín

Hlustar þú?

Morgunbæn á Rás 1, föstudaginn 23. janúar:

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður.

Hvernig gengur þér að hlusta? Á þig sjálfan? Á annað fólk? Á tilfinningar og aðstæður? Finnst þér skarkalinn í samfélaginu ærandi? Hraðinn of mikill? Upplýsingarnar þrúgandi? Er of mikið um að vera? Finnst þér aðrir hlusta á þig þegar þú talar? Finnst þér aðrir skilja þig? Hlustar þú þegar aðrir tala við þig? Skilur þú?

Við lifum á tíma hraðans og hröðunarinnar. Þá skiptir máli að staldra við og hlustað. Marteinn Lúther sagði eitt sinn að það væri ástæða fyrir því að manneskjan hefði einn munn en tvö eyru. Hún væri sú að við ættum að hlusta tvöfalt meira en við tölum.

Mig langar að lesa fyrir þig stuttan texta úr Jakobsbréfi:

Vitið þetta, elskuð systkin. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs. Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið sjálf ykkur. […]
Sá sem þykist vera guðrækinn en hefur ekki taumhald á tungu sinni blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt. Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði föður er að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingum þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.

Biðjum:

Drottinn Jesús. Þú kallar okkur til að bregðast við þegar samferðafólk okkar þarf á hjálp að halda. Gefðu okkur kærleika og hugrekki til að sinna þörfum meðsystkina okkar, hvar sem við mætum þeim. Láttu okkur ekki horfa á það sem greinir okkur að, heldur það sem sameinar okkur. Hjálpaðu okkur að vera náungi þeim sem þarf á okkur að halda og leyfa miskunn þinni að móta hug okkar, hjarta og hendur.

Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.

You may also enjoy…