Morgunbæn á Rás 1, sunnudaginn 25. janúar:
Góðan dag kæri hlustandi.
Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður.
Það er svo mikilvægt að tilheyra. Að finna sig sem hluta af hópi. Að finna að borin sé fyrir mér virðing. Að finna að mér verði sýnd umhyggja. Á þessum sunnudagsmorgni langar mig að lesa fyrir þig einn af lestrum dagsins í kirkjunni. Hann er að finna hjá Hósea spámanni og fjallar um það að tilheyra og finna sig öruggan.
„Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn
við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar
og eyði boga, sverði og stríði úr landinu
og læt þá búa óhulta.
Ég festi þig mér um alla framtíð,
ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi,
ég festi þig mér í tryggð,
og þú munt þekkja Drottin.
Á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn,
ég mun bænheyra himininn
og hann mun bænheyra jörðina
og jörðin mun bænheyra kornið,
vínið og olíuna,
og þau munu bænheyra Jesreel
og mín vegna mun ég sá henni í landið.
Ég mun sýna Miskunnarvana miskunn
og segja við Ekki-lýð-minn: „Þú ert lýður minn,“
og hann mun segja: „Þú ert Guð minn.“Finnst þér þetta ekki gott loforð? Það er gott að geta treyst þessu. Þú skalt gera það í dag.
Biðjum.
Guð, takk fyrir orð spámannsins um sáttmálann og tengslin við þig, takk fyrir orðin um það hversu mikils virði manneskjan er í þínum augum. Leyfðu okkur að taka þessi orð með okkur út í daginn og út í vikuna. Takk fyrir að reynslan okkar og glíman okkar er mikilvæg í þínum augum. Hjálpaðu okkur að muna að hún er alltaf þess virði að heyrast og sjást, og að líf og velferð hinna veiku og smáu er alltaf þess virði að berjast fyrir.
Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:
Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.