Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblía flóttafólksins

    Einu sinni þegar við vorum að undirbúa messu hér í kirkjunni, sátum við nokkur og vorum að spjalla um Biblíuna og hvað hún væri eiginlega. Það er ekkert einfalt að svara því, og margskonar lýsingar geta náð utan um fyrirbærið. Stutt og algengt svar er að Biblían sé orð Guðs. Það svar skapar svo miklu fleiri spurningar um hvernig það gangi upp að samansett rit eftir ótal höfunda, skrifuð í ótal bókmenntastílum, í margs konar tilgangi, á ótrúlega löngum tíma, sé á einhvern hátt heilagt eða sérstakt.

    Fjölbreytt rit

    Þegar ég segi að Biblían sé fjölbreytt rit skrifuð í ólíkum tilgangi, á löngum tíma, þá á ég við að í henni eru til dæmis hreinræktaðir lagatextar ætlaðir inn í sérstakt samfélag; það eru langar frásögur um ævi og störf konunga og stjórnvalda á tilteknum tíma, það eru ævintýralegar upprunasögur, sem eiga að skýra tilkomu þjóða eða ástands sem allir þekkja, það eru helgisögur, það eru þjóðsögur, það eru ljóð og ljóðabálkar, það eru spekirit, sendibréf, uppeldisráð, o.s.frv.

    Við vitum nokkurn veginn hverjir skrifuðu sum þessara rita og við vitum ýmislegt um það við hvaða aðstæðurþau urðu til. Við vitum að sumir fengu lánuð minni úr eigin menningu eða úr sögum annarra þjóða, sem síðan urðu þeirra eigin sögur. Við vitum líka margt um hvað var að gerast í lífi þjóðarinnar sem skapaði þessi rit og hvað hún gekk í gegnum á þessum langa tíma.

    Sú staðreynd að Biblían er trúarrit kristinna manna, þarf að skoðast í þessu ljósi um fjölbreyttan og margskonar uppruna þess sem stendur í Biblíunni. Við þurfum líka að meta hana út frá því sem við vitum um fólkið sem skrifaði það sem stendur í henni. Við vitum nefnilega heilmikið um það. Og hér kemur það áhugaverða: eftir því sem við vitum meira um fólkið á bak við sögurnar í Biblíunni, því meira virði verða þær.

    Ég held að þar sé mjög einföld sálfræði að baki: manni fer að þykja vænt um þau sem maður kynnist. Þegar þú færð að skyggnast á bak við aðstæður fólks, færist þú nær því, skynjar hvernig reynslan mótar og stýrir og það rennur upp fyrir þér að þið eigið kannski eitthvað sameiginlegt. Það sem er sammannlegt færir okkur nær öðru fólki, í gegnum tíma og gegnum rúm. Það kemur í ljós að fólk sem okkur fannst vera órafjarri okkar eigin reynslu og eigin lífi, stendur okkur nær en okkur grunar.

    Fólk á flótta

    Þetta er reyndar eitthvað sem við höfum uppgötvað með nýjum þunga og nýjum hætti á Íslandi upp á síðkastið, þegar við höfum komist í snertingu við líf og aðstæður fólks sem hefur þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðsátaka og ofsókna. Það eru engar nýjar aðstæður og flóttafólk hefur alltaf verið til, vegna þess að þess að það hefur aldrei verið skortur á átökum, stríði, hagsmunaárekstrum og landvinningum.

    En það er þegar við komumst í snertingu við það sem sameinar okkur fólki á flótta, sem við förum að horfast í augu við að þar eru á ferð manneskjur sem eru eins og þú og ég, hafa samskonar tilfinningar, hafa drauma og vonir, hafa elskað, saknað og misst, eins og ég og þú. Börn á flótta eru eins og okkar börn. Þau vilja leika, prófa, knúsa, læra og ná tökum á nýjum og spennandi hlutum. Þegar við föttum þetta, lítum við ekki sömu augum á fólkið sem núna streymir frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum svæðum, í leit að betra lífi.

    Hælisleitendur frá Íran

    Flóttafólk er mál dagsins í Evrópu og líka á Íslandi. Í dag eru með okkur hér í kirkjunni tveir menn sem við höfum fengið að kynnast og þykir mjög vænt um. Þeir eru á flótta frá heimalandi sínu Íran og hafa sótt um hæli hér á landi. Enn sem komið er hafa þeir ekki fengið raunverulega áheyrn hér. En þeir hafa fengið úrskurð um að þeir megi ekki vera hér og verði fluttir tilbaka þaðan sem þeir komu. Af því að þeir eru vinir okkar, snertir þetta okkur djúpt hér í Laugarneskirkju og aðstæður vina okkar hafa opnað augu okkar fyrir veruleika flóttafólks allt í kringum okkur.

    Reza verður með okkur í kaffinu á eftir og ég vona að þið notið tækifærið til að spjalla við þá, gefa þeim high-five eða eitthvað. Eftir viku verður það kannski of seint því búið verður að flytja þá úr landi.

    Rit flóttafólksins

    Tökum aftur upp þráðinn um Biblíuna, þetta margbrotna, fjölbreytilega og flókna rit sem við kristnir menn köllum trúarritið okkar. Það er eitt sem kemur í ljós þegar við förum að skoða hana: mörg rit hennar hafa mótast af aðstæðum fólks á flótta. Ótrúlega mikið sem hefur borist til okkar í gegnum aldirnar í orðum og hugmyndum Biblíunnar á rætur sínar að rekja til veruleika flóttafólksins.

    Finnst ykkur það ekki magnað?

    Þetta sést í beinum sögum af einstaklingum, hópum og þjóðum sem hrekjast til og frá, úr landinu sínu, inni í það aftur og innan þess. Sagan sem við heyrðum í dag um samskipti Rutar og Bóasar, er af þessum meiði. Við munum líka eftir sögunni um þegar Jósef tók Jesúbarnið og Maríu móður þess og flúði til Egyptalands, til að verða ekki fyrir ofsóknum Heródesar konungs.

    Sagan af Jósef er annað dæmi um hvernig fólk á flótta og flutningum mætir okkur í Biblíunni. Hann var seldur í annað land – þar sem hann náði svo að koma undir sig fótunum og komst reyndar til mikilla metorða þar sem hann starfaði fyrir sjálfan Faraó, réði drauma og sinnti ráðgjafastörfum. Jósef er frábært dæmi um útlendinginn sem “aðlagast” og fær að njóta þess.

    Dæmi um hið gagnstæða, um útlendinginn sem aðlagast alls ekki og hefur engan áhuga á því, er sagan af Daníeli sem endaði í ljónagryfjunni. Hans saga er á þann veg að þjóð hans er hertekin og flutt gegn vilja sínum í annað land, þar sem annar konungur ríkir og þar sem önnur trúarbrögð eru stunduð. Þar sem Daníel ætlar ekki að láta beygja sig undir siði móttökulandsins, lætur hann hart mæta hörðu og endar, eins og við vitum, í ljónagryfjunni, þar sem konungurinn ætlar að kenna honum almennilega lexíu.

    Úr jarðvegi flóttafólks

    Það eru ekki bara sögur um einstaklinga á flótta sem gera Biblíuna að sannkölluðu flóttamannariti heldur óx mikið af grunnhugmyndum í Biblíunni úr jarðvegi þjóðflutninga og flóttafólks. Það er t.d. þegar Ísraelsþjóðin er í útlegð við Babýlonsfljót, en Babýlónía hin forna var þar sem Írak er í dag, að hún komst í kynni við sköpunarhelgisögurnar sem síðan fundu leið sína inn í ritin sem við köllum Mósebækur. Þar komust þau í snertingu við helgisögur eins og Nóaflóðið, sem síðan varð ein þekktasta saga Gamla testamentisins, sem tjáir auðvitað í grunninn, óskina eftir því að ranglæti verði upprætt og friður og sátt ríki.

    Ef flóttafólk eru jaðarhópur samfélagsins á okkar tímum, þá getum við líka sagt að Biblían sé rit um jaðarhópa hvers tíma. Taktu eftir því hvað oft hópar eins og útlendingar, fatlaðir, sjúkir, skækjur, óhreinir, eru nefnd til sögunnar, ekki síst til að varpa ljósi á hvers eðlis samfélagið er. Taktu eftir því hvað Jesús tekur oft dæmi af fólki á kantinum til að útskýra samband Guðs við heiminn. Taktu eftir því að sjálfur Guðs sonur er barn á flótta undan ofsóknum yfirvalda og þarf að leita skjóls í öðru landi.

    Taktu eftir þessum sögum, lærðu að þekkja og elska meðbróður þinn og systur sem er í erfiðum aðstæðum, opnaðu hjarta þitt og líf fyrir því sem Guð vill segja þér, í gegnum orðið sitt og fólkið sem hann sendir til að verða á vegi þínum.

    Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svao sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

  • Bæn á Alþjóða geðheilbrigðisdegi

    Á Alþjóða geðheilbrigðisdegi biðjum við.

    Drottinn Jesús Kristur sem ert risinn upp frá dauðum en berð enn með þér merki þjáningarinnar. Vertu með þeim sem ganga um dauða skuggans dal. Gefðu að við megum styðja þau og styrkja í hverri áskorun, í áþján misskilnings og særandi merkimiða.

    Þegar við erum óttaslegin, áhyggjufull og særð biðjum við þig að vera nærri. Þegar við missum tökum á veruleikanum biðjum við þig að halda fast í okkur. Þegar við gleymum hver við erum biðjum við þig að minna okkur á hver við erum. Þegar við erum í myrkrinu biðjum við þig að heyra harmljóð okkar.

    Góði Guð, þegar önnur eru særð, gerðu okkur að blessun þeirra, þótt við séum brotin sjálf. Þegar við heyrum ekki rödd umhyggju þinnar, finnum okkur ekki í faðmi kærleika þíns, biðjum við þig að styðja okkur í raunum okkar og gefa okkur framtíð þar sem við finnum vonina og erum örugg í þínum friði.

    Guð sem annast allt, styrktu okkur og fjölskyldur okkar svo við megum takast á við geðræn vandamál. Dýpkaðu skilning okkar. Kenndu okkur þolinmæði. Auktu getu okkar til að finna til samúðar og umburðarlyndis gagnvart öðrum. Hjálpaðu okkur að verða ekki fyrir aðkasti fordómafullra og fávísra og þeirra sem bera ekki hag annarra fyrir brjósti.

    Almáttugi Guð, leyfðu okkur að deila vegferðinni með öðrum, finna styrk í samfélagi með öðrum og að byggja saman samfélag stuðnings og líknar. Hlúðu að okkur og styrktu með kærleika þínum og skilningi, svo við getum breytt rétt og þjónað af umhyggju, linað þjáningar, annast aðra og rétt hjálparhönd.

    Amen.

  • Líf og fjör á hverfishátíðinni

    Það var gaman að taka þátt í hverfishátíðinni Laugarnes á ljúfum nótum um helgina. Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á torgið við Laugarneskirkju þar sem fulltrúar félaganna í hverfinu buðu upp á fjölbreytta dagskrá. Skólahljómsveitin lék, skátarnir reistu klifurvegg og seldu kandífloss, foreldrafélögin buðu upp á pylsur, félagsmiðstöðin leiddi miðaldaskylmingar, kórar og hljómsveitir kirkjunnar léku og Rebbi refur kíkti í heimsókn. Í safnaðarheimilinu var basar og kaffisala. Svo voru hoppikastalar og risa-fússball og sitthvað fleira.

    Allir skemmtu sér vel og glöddust í góða veðrinu eins og myndirnar bera með sér. Við hlökkum til að undirbúa hátíðina að ári og þökkum fyrir gott samstarf. Það gott að vera í Laugarneshverfinu!

  • Í fjórtán myndum

    Richard Coles er prestur í ensku kirkjunni. Hann er virkur á twitter og deildi í gær fjórtán ljósmyndum sem kallar á við krossveginn – krossdvalirnar fjórtán. Þetta eru óhefðbundnar myndir sem vekja til umhugsunar. Textarnir sem fylgja hverri mynd eru líka frá honum.

    Fyrsta dvöl. Jesús er dæmdur til dauða.
    Fulltrúi ISIS lýsir yfir dauðadómi yfir einum af föngum samtakanna.

    Önnur dvöl. Jesús ber krossinn.
    Eitt af fórnarlömbum menningarbyltingar Maós 1966.

    Þriðja dvöl. Jesús fellur í fyrsta sinn.
    Fórnarlamb ofbeldis gegn samkynhneigðum sem var beitt í gleðigöngu í Rússlandi á síðasta ári.

    Fjórða dvöl.Jesús mætir móður sinni.
    Junko Ishido biðst vægðar fyrir hönd sonar síns Kenji Goto sem var myrtur af ISIS í janúar.

    Fimmta dvöl. Símon frá Kyrene neyddur til að bera krossinn.
    Kristið fólk frá Írak flýr Mósúl á síðasta ári.

    Sjötta dvöl. Verónika þerrar andlit Jesú.
    Hjúkrunarkonan Will Pooley smitaðist af Ebóla þegar hún var að störfum Í Sierra Leone. Hún náði sér og sneri aftur til starfa sinna við hjúkrun í landinu.

    Sjöunda dvöl. Jesús fellur öðru sinni.
    Lögreglumaður er fórnarlamb í átökum milli mótmælenda sem styðja Rússland og Tatara á Krímskaga.

    Áttunda dvöl. Jesús talar til kvennanna.
    Nokkrar af stúlkunum 219 sem Boko Haram tók í apríl 2014. Þeirra er enn saknað.

    Níunda dvöl. Jesús fellur þriðja sinni.
    Karlmaður sem var handtekinn í uppþoti í Ferguson eftir að lögreglan skaut og drap táningispiltinn Michael Brown á síðasta ári.

    Tíunda dvöl. Jesús afklæddur.
    Karlmaður er húðstrýktur í Saudi-Arabíu á síðasta ári.

    Ellefta dvöl. Jesús negldur á krossinn.
    Bekkur sem dauðadæmdur fangi er lagður á og festur við í San Quentin fangelsinu áður en hann er tekinn af lífi.

    Tólfta dvöl. Jesús deyr.
    Yfirgefið altari í rómversk kaþóskri kirkju í Cardross í Skotlandi.

    Þrettánda dvöl. Jesús tekinn ofan af krossinum.
    Fórnarlamb ebólu í Sierra Leone er fært til grafar.

    Fjórtánda dvöl. Jesús greftraður.
    Konur sem eru ættingjar fórnarlamba í Peshawar skólanum í Pakistan.

  • Trúarjátning dagsins

    Játning kvennanna:

    Ég trúi á Jesú sem líkti Guði við konu sem hafði tapað peningi og hreinsaði húsið allt í leit að honum.

    Ég trúi á Jesú sem sá í meðgöngu og fæðingu líkingu fyrir breytingu, nýja fæðingu frá sársauka til gleði.

    Góðan og gleðilegan alþjóðlegan baráttudag kvenna.

  • Magnaðir unglingar mæla með trúfrelsi

    Það var ótrúlega gaman að ganga með Breytendum á Adrenalíni til að mæla með trúfrelsi á Íslandi. Við gengum frá Frú Laugu í Laugarneskirkju. Þar kynnti einn Breytandinn starfið stuttlega og svo tóku fulltrúar trúar- og lífsskoðanafélaga til máls. Inn á milli ávarpanna var flutt tónlist. Elín Sif og Ragnhildur fluttu lagið Í kvöld sem við heyrðum síðast á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar. Hljómsveitirnar Helíum og Neon stigu á stokk og fluttu flotta tónlist, meðal annars lagið Take me to church sem hefur notið mikilla vinsælda.

    Í ávörpum fengum við að kynnast ólíkum sjónarhornum á trúfrelsið, m.a. að trúfrelsi snerist um frelsið til að vera látinn í friði, frelsi frá fordómum og um gestrisni og örlæti. Upp úr stendur þó hvað unglingarnir sem starfa í Laugarneskirkju eru magnaðir að skipuleggja svona glæsilegan viðburð.

    Okkur taldist til að meðmælendurnir í gær hafi verið um 100 talsins. Það veit á gott.

    Ps. Viltu skoða fleiri myndir frá göngunni?

  • Biblíublogg 28: Biblían í tölum

    Bækurnar í Biblíunni eru 66 talsins, þar af eru 39 í gamla testamentinu og 27 í því nýja. Við það bætast apokrýfu bækurnar. Stysta bókin í Biblíunni er 2. Jóhannesarbréf, sú lengsta er Saltarinn.

    Kaflarnir í Biblíunni eru 1189, versin eru 31173, þar af eru 929 kaflar og 23214 vers í gamla testamentinu og 260 kaflar og 7959 vers í því nýja. Orðin eru næstum 800 þúsund, þar af eru þrír fjórðu í gamla testamentinu og fjórðungur í því nýja (nákvæmur orðafjöldi fer að sjálfsögðu eftir þýðingum).

    Stysta versið Biblíunnar er að finna í Jóh. 11.35:

    Þá grét Jesús.

    Það lengsta er í Ester 8.9:

    Á tuttugasta og þriðja degi þriðja mánaðar, mánaðarins sívan, voru ritarar konungs kallaðir saman. Rituðu þeir hvað eina, sem Mordekaí mælti fyrir, til Gyðinga, til skattlandsstjóranna, landshöfðingjanna og höfðingja héraðanna hundrað tuttugu og sjö, allt frá Indlandi til Eþíópíu, til hvers héraðs með letri þess héraðs, til hverrar þjóðar á tungu hennar og jafnframt til Gyðinga með þeirra letri og á þeirra tungu.

    Í Biblíunni miðri er Sálmur 117:

    Lofið Drottin, allar þjóðir,
    vegsamið hann, allir lýðir,
    því að miskunn hans er voldug yfir oss
    og trúfesti Drottins varir að eilífu.
    Hallelúja.

    Hann er líka stysti kafli Biblíunnar. Sá lengsti er Sálmur 119 sem stendur þar hjá.

    Þessar tölur höfum við af síðunni GotQuestions og við viljum deila þeim með ykkur ykkur í tuttugasta og áttunda Biblíublogginu. Hér með lýkur þessari tilraun til að fjalla um Biblíuna í 28 bloggfærslum. Guð geymi ykkur í dag og alla daga.

  • Biblíublogg 23: Næturgalinn

    Tuttugasti og þriðji Davíðssálmur er einn þekktasti sálmur Saltarans. Gunnlaugur A. Jónsson kallar hann næturgalann meðal sálmanna í nýrri bók sinni um Áhrifasögu Saltarans. Í tuttugasta og þriðja Biblíublogginu langar okkur að deila honum með ykkur.

    Drottinn er minn hirðir,
    mig mun ekkert bresta.
    Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
    leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
    Hann hressir sál mína,
    leiðir mig um rétta vegu
    fyrir sakir nafns síns.
    Þótt ég fari um dimman dal
    óttast ég ekkert illt
    því að þú ert hjá mér,
    sproti þinn og stafur hugga mig.
    Þú býrð mér borð
    frammi fyrir fjendum mínum,
    þú smyrð höfuð mitt með olíu,
    bikar minn er barmafullur.
    Gæfa og náð fylgja mér
    alla ævidaga mína
    og í húsi Drottins
    bý ég langa ævi.

  • Biblíublogg 22: Mannakorn

    Á mörgum heimilum eru til box með svokölluðum mannakornum. Í þeim eru pappaspjöld með stuttum ritningarversum sem hægt er að draga. Stundum leynast þar skilaboð sem hafa merkingu fyrir okkur hér og nú. Það er hægt að draga sér mannakorn á vef Hins íslenska Biblíufélags. Þar drógum við þetta mannakorn í dag:

    Biðjið, leitið Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. (Matt. 7.7-8)

    Orðið mannakorn vísar til 2. Mósebókar þar sem segir:

    Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. 15Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar. […] Ísraelsmenn nefndu þetta manna. Það var hvítt eins og kóríanderfræ og eins og hunangskaka á bragðið. (2Mós. 16)

    Þannig eru mannakornin líka hugsuð, sem andleg næring í dagsins önn.

  • Trú er hluti af sjálfsmynd fólks

    Við vorum gestir Frosta og Mána í Harmageddon í morgun og spjölluðum við þá félaga um það hvernig trúin er hluti af sjálfsmynd fólks. Tilefnið var greinin okkar í Fréttablaðinu í gær.