Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Flugeldar fyrir hipstera

    Fireworks for all of you bearded #hipsters out there.

    Njótið áramótanna og farið varlega þegar þið skjótið upp rakettum og kveikið í kökunum. Við keyptum þessa köku sem er kennd við Þórólf Mostraskegg. Hann var svo nefndur af því að hann var skeggprúður og átti rætur að rekja til eyjarinnar Mostur í Noregi. Miðað við hversu vel skeggið var snyrt þá var Þórólfur kannski einhvers konar hipster. Í dag hefði hann líklega verslað fötin hjá piltunum í Kjörgarði og fengið skeggið snyrt þar líka 😉

    Hvað sem öðru líður þá er gott ár í vændum og við hlökkum til þess. Takk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Guð blessi ykkur á áramótum og á nýju ári.

  • Búsáhaldaaðventan er hér

    Aðventan er elskulegur og dýrmætur tími. Hún er í eðli sínu undirbúningur og bið eftir jólahátíðinni þegar við fögnum fæðingu Jesúbarnsins blíða.

    A curious place for cutlery IIVið höfum öll upplifað þennan undirbúning fara úr böndunum og eigum það stundum til að yfirkeyra okkur á hlutum eins og verslun, neyslu á mat og drykk, framkvæmdum og skemmtanahaldi. Reikningurinn sem kemur á eftir getur gengið nærri efnahag og tilfinningum. Aðallega rænir asinn og erillinn því fegurðinni í því smáa og hljóða sem aðventan gefur fyrirheit um.

    Þess vegna viljum við enduruppgötva aðventuna og boðskap hennar með því að einfalda og hægja á. Við köllum það búsáhaldaaðventu. Við tengjum forskeytið búsáhalda- við friðsamleg mótmæli – krúttpönk – sem leiða til breytinga.

    Búsáhaldaaðventan beinir sjónum okkar inn á við, til barnanna í kringum okkur, inn á heimilið, inn í eldhús, til þess sem vex og dafnar í nærumhverfinu okkar, til hins veika og smáa sem verður undir í kapphlaupinu um það sem er nýjast, dýrast, stærst og best.

    Búsáhaldaaðventan er alsgáð og heldur vöku sinni gagnvart þeim sem standa höllum fæti en hún gleðst líka yfir góðra vina fundi og samveru sem skapar og byggir upp.

    Þetta blogg verður vettvangur Búsáhaldaaðventunnar og miðlar áherslum hennar og hugðarefnum fram að jólum. Við ætlum líka að skrifa í búsáhaldatístið á hverjum degi.

    Lumar þú kannski á einhverju sem á erindi á Búsáhaldaaðventu? Sendu okkur línu.

  • Aðventukrans minninganna

    Ljósin á aðventukransinum lýsa okkur í biðinni eftir jólunum og minna á tímann sem líður og reynsluna sem mótar okkur. Stundum tökum við á móti jólunum í gleði og eftirvæntingu. Stundum væntum við þeirra í sorg og sársauka. Hvert kerti á kransinum getur skírskotað til minninganna sem við berum með okkur en vísar um leið til vonarinnar sem jólin eru fyrirheit um.

    Fyrsta kerti

    Fyrsta aðventukertið minnir á ástvinina sem eru ekki lengur með okkur. Við nemum staðar, nefnum nafnið þeirra, rifjum upp röddina þeirra, andlitið þeirra og allar minningarnar sem tengjast þeim og jólatímanum. Við tendrum ljós, felum þau Guði og þökkum fyrir það sem lífið þeirra gaf okkur.

    Annað kerti

    Annað aðventukertið lýsir upp sársaukann yfir erfiðum breytingum sem hafa orðið í lífinu okkar. Það geta verið sambandsslit, atvinnumissir, fjárhagslegt áfall, heilsubrestur, frelsissvipting vegna streitu og álags, og hvers kyns breytingar sem skilja okkur eftir í einsemd. Við nefnum það sem veldur sársaukanum, leggjum okkur í Guðs hendur og biðjum um frið í hjartað.

    Þriðja kerti

    Þriðja aðventukertið er tendrað fyrir þau sem hafa misst áttir í lífinu og finnst þau vera týnd. Við þurfum öll að hafa stefnu í lífinu, að vita hver við erum og á hvaða leið við erum. Þess vegna er gott að þiggja leiðsögn ljóssins sem kemur í heiminn og vill upplýsa hvert og eitt okkar. Við tendrum ljós og biðjum fyrir þeim sem hafa misst sjónar á ljósinu og biðjum Guð að leiða þau í öruggt skjól.

    Fjórða kerti

    Fjórða aðventukertinu fylgir vonin um allt það sem jólin færa okkur. Barnið í jötunni er fyrirheit um frið og gleði handa öllum Guðs börnum. Við biðjum að ljós jólanna upplýsi huga og hjarta og að ljós okkar fái lýst bræðrum okkar og systrum.

  • Þegar einhverfi strákurinn fór til tannlæknis

    Í DV í dag er sagt frá háum reikningi eftir tannlæknisheimsókn einhverfrar stúlku. Margir einhverfir einstaklingar höndla illa snertingu, við höfum reynt þetta með Tómasi Viktori. Niðurstaða einnar tannlæknisheimsóknarinnar var að fara með hann sérfræðings, láta svæfa litla kút til að hægt væri að laga tennurnar. Þá verða reikningarnir háir.

    Að sjálfsögðu á að mæta þessum hópi betur, sérstakar aðstæður kalla á sérstök úrræði. Einhverfum er mætt mjög vel á ýmsum sviðum samfélagsins, tannlæknaþjónustan á ekki að vera nein undantekning.

  • Þriðja spurningin – vísanir á umræðu og efni

    Um komandi helgi verður þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrá lýðveldisins. Nánar tiltekið er um að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þriðja spurningin í atkvæðagreiðslunni fjallar um þjóðkirkjuna:

    3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

    Hér ætlum við hjónin að safna saman vísunum á efni um atkvæðagreiðsluna og umræðuna í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar og eftir hana. (more…)

  • Sorgarsæljón

    Queen of Montreuil var opnunarmynd RIFF í ár. Hún var frumsýnd í Hörpu í gær að viðstöddu fjölmenni. Upphaf kvikmyndahátíðinnar er hátíðarstund og við erum líka full eftirvæntingar eftir þeim góðu myndum sem eru í boði á hátíðinni hverju sinni.

    „Þá verður þú Drottningin af Montreuil“

    Drottningin af Montreuil er látlaus mynd sem fær áhorfandann til að hugsa meðan á sýningu stendur og eftir að henni lýkur. Nafnið er sótt í sögusvið myndarinnar, hverfið Montreuil þar sem aðalpersónan Agata býr. Hún er ekkja og kemur í upphafi myndar með eiginmanninn til Frakklands. Hann er í duftkeri og myndin fjallar öðrum þræði um hina syrgjandi ekkju. Nafnið vísar líka til spakmælis frá Jamíaka: Þegar eiginkona kemst yfir lát eiginmanns síns verður hún drottning. Þegar Agata hefur komist yfir eiginmanninn verður hún semsagt: „Drottningin af Montreuil.“

    Á flugvellinum hittir Agata tvo Íslendinga, Önnu og son hennar Úlf. Þau eru eins konar kreppuflóttamenn, strönduð í Frakklandi af því að efnahagshrun á Íslandi hefur leitt til gjaldþrots flugfélags. Þau bjóða sér heim til Agötu og fá að búa hjá henni um stund. Hún reynist þeim þannig bjargvættur og það endurgjalda þau með því að reynast bjargvættar hinnar syrgjandi ekkju.

    Sorgin, sæljónið og Hrunið

    Myndin er fyndin og á köflum dálítið út úr kú. Inn í söguna fléttast leit Önnu að brúðarkjólnum sínum, löngunin til að ná aftur sambandi við soninn Krumma sem er strandaður á Jamaika og svo sæljónið Fifi sem verður eins konar táknmynd sorgarinnar (eða kannski eiginmannsins látna) í lífi Agötu. Fifi ryðst inn á óþægilegum tíma, tekur heilmikið rými, ógnar, en er um leið blíður. Á lykilstundu hverfur hann úr lífi Agötu og þá eru líka tímamót í sorgarferlinu. Sæljónið Fifi ber burt sorgina og sára reynslu þegar hann syndir út á haf – kannski til Íslands.

    Drottningin af Montreuil er mynd um falleg samskipti sem einkennast af umhyggju fyrir þeim sem er ókunnugur og framandi. Þetta er ein fyrsta íslenska leikna kvikmyndin sem fjallar um Hrunið og hún ber góðan og mikilvægan umhyggjuboðskap inn í samfélagið okkar.

    Queen of Montreuil er sýnd þrisvar á RIFF, 29. september, 1. og 4. október. Ekki missa af henni.

  • Berlínarkaffihúsin

    Við áttum langa helgi í Berlín í ágúst. Ferðin var meðal annars nýtt til að heimsækja uppáhaldsveitingastaði og -kaffihús. Kaffihúsin voru að sjálfsögðu borin saman við Kaffismiðjuna og Pallett. Hér koma nokkrar myndir og örfá orð um uppáhaldskaffihúsin okkar í Berlín.

    Bonanza Coffee Heroes

    Bonanza Coffee Roasters er á Oderberger Strasse sem er rétt hjá Mauerpark. Þau rista sitt eigið kaffi og það er selt víða í Berlín sem eðalkaffi. Innandyra eru örfá sæti, en þau eru fleiri fyrir utan. Þarna er alltaf fullt af fólki og kaffið er gott. (more…)

  • Biblían og bókstafurinn

    Biblían og bókstafurinn heitir pistill sem við skrifuðum um stóra auglýsingarmálið. Hann birtist í Fréttablaðinu í dag.

  • Aldrei aftur

    Kalda stríðið og kjarnorkuváin heldur ekki vöku fyrir unglingunum okkar í dag. En það er full ástæða til að minnast fórnarlamba sprengjunnar í Hiroshima og Nagasaki 6. og 9. ágúst og snúa huga okkar og hjarta til þeirra sem þar þjáðust. Við erum þakklát fyrir framtak opinberra aðila og almennra borgara sem hafa látið sitt af mörkum til að velja lífið. Aldrei aftur Hiroshima. Aldrei aftur Nagasaki.

    Pistill í Fréttablaðinu, 9. ágúst 2010.

  • Síðasta messan – myndir

    Á Hólahátíð 2012 verður sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal, vígð til þjónustu sem vígslubiskup Hólastiftis. Um síðastliðna helgi þjónaði Solveig Lára söfnuðinum sínum í síðasta sinn, áður en hún verður biskup. Tilefnið var gleðilegt en tvær stúlkur úr sveitinni fermdust þennan fallega sunnudag á Möðruvöllum. Við fengum að vera með.

    Fermingarmessa á Möðruvöllum

    Solveig Lára setur á sig pípukragann.  (more…)